Þjóðviljinn - 11.10.1987, Blaðsíða 13

Þjóðviljinn - 11.10.1987, Blaðsíða 13
núnasti latínistinn sem ég þekki - því hann var svo lœrður.“ eigin klaustramenn og menntun þeirra: við vitum t.d. sáralítið um það hvaða íslendingar hafa menntast erlendis. Til eru heim- ildir um fáeina höfðingja, sem fóru utan til náms, en vel getur verið að miklu fleiri hafi farið sömu erinda. Eitt lítið dæmi sýnir að fjölmargir menn fóru utan, þótt þess sé ekki getið í íslenskum heimildum: í Reichenau er til „gestalisti“ frá miðri 12. öld, þar sem margir íslendingar eru skráðir og hafa þeir verið á leið til eða frá Róm. Af þessum ástæð- um vitum við lítið um það hvernig menningaráhrifin hafa borist. En það er hins vegar fullljóst, að menn hafa komið hingað með töluvert af erlendum handritum, hér var til mikið af latneskum rit- um og höfundar fornbók- menntanna voru latínulærðir menn. Engar heimildir eru til um það hvað lesið var í skólum, en hákristilegur maður einsog Jón Ögmundsson er að gripa skóla- pilta í að lesa Óvíd í frístundum sínum, og vitnað er í latnesk rit sem hér voru til. En gleggsti vitn- isburðurinn um latnesk áhrif hér og latínuþekkingu manna eru þýðingar latneskra bókmennta. Mest var þýtt af trúarlegum rit- um, en veraldlegar bókmenntir slæddust með. „Rómverja saga“ er t.d. þýðing á söguritum Sall- ústs að viðbættum útdrætti úr söguljóði Lúkans um rómversku borgarstyrjöldina. Er hún mjög nákvæm á köflum, þótt í henni séu villur, að vísu ekki stórvægi- legar: hefur þýðandinn átt í brösum með tækniorð á sviði fornrar hermennsku“. Þú hefur nú leitt mörg rök að því, að klassískfrœði séu nauðsyn- leg fyrir rannsóknum á bók- menntum okkar og gagnleg fyrir skilning á nútímanum. En telurþú að þessar fornu bókmenntir hafi varanlegt gildi í sjálfu sér? „Það hafa þær vissulega. Þær eru þó ekki afþreyingarbók- menntir, þannig að maður geti lesið þær sér til skemmtunar sem slíkar. En geti maður lesið þessi rit, eru þau mjög góðar bók- menntir. Þessu til sönnunar þarf ekki annað en benda á það hvaða áhrif þýðingar Sveinbjörns Egils- sonar á Hómerskvæðum höfðu á 19. aldar menn, þó svo þær væru í óbundnu máli, og virðist reyndar að menn hafi þá lesið þær sér til skemmtunar. Svo höfum við upp- lifað það í Reykjavík nýlega, að grískir harmleikir hafa verið sett- ir á svið með góðum árangri og fengið ágæta aðsókn. Þó grískir harmleikir séu orðnir 2400 ára hafa þeir einhvern almennan kjarna, þannig að þeir virðast geta höfðað til manna á hvaða tímabili sem er. Svipuðu máli gegnir um Virgil, þótt hann sé ekki eins mikið skáld. Menn þurfa reyndar oft á tíðum mikla baksviðsþekkingu til að geta haft gagn af Virgli, en fyrri hluti Ene- asarkviðu - einkum sagan um Dídó - er almennur, mannlegur harmleikur sem er mjög góður. Ég hef líka alltaf gaman af eleg- ísku skáldunum, þótt það sé kannske einkum ungra manna að lesa þau. Af þeim met ég Prop- ertius mest, sem ég las meir en aðra á skólaárum mínum og skrif- aði prófritgerð um: hjá honum er mikil orðsins list og meiri alvara en hjá Óvíd. Hins vegar er meiri léttleiki yfir Óvíd, og það er at- hyglisvert að hann er eina róm- verska skáldið sem hefur gefið ís- lendingum efni í rímur. Kannske er Catullus það þjóðskáld róm- verskt sem stendur nútíma- mönnum næst, en sjálf orðlistin kemst aldrei til skila nema á frummálinu. Nú má segja, að þótt þessar bókmenntir hafi gildi í sjálfu sér, komist enginn maður til að lesa allar bókmenntir. En málið horfir öðru vísi við, ef mað- ur lítur á það frá hinni hliðinni, sögulegu hliðinni: klassískar bók- menntir, latnesk tunga og bók- menntahefð, eru svo sterkur þáttur, sem gengur í gegnum alla okkar bókmennta- og menning- arsögu. Þetta lifir í útþynntri mynd á miðöldum en fæðist aftur á endurreisnartímanum: bók- menntir hans eru óhugsandi án þessarar hefðar. Þetta gefur henni alveg einstakt gildi. Svo er það mjög mikil þjálfun í almennri meþódískri málfræði að læra mál eins og latínu. Ég er alinn upp í allt annarri málfræði- hefð en nú gildir, því að kennarar mínir aðhylltust „junggrammat- ísku stefnuna", og því er ég kann- ski ekki réttlátur dómari. Mér finnst að yngri málfræðingum hætti til að gleyma, að mál hafi merkingu, og stafar það af ein- hverri minnimáttarkennd mál- fræðinganna. Þeim finnst, að þeir þurfi að réttlæta sig gagnvart raunvísindamönnum, og þá er auðveldast að fjalla um formsat- riði málsins. En ég er hræddur við þá stefnu að rannsaka málið sem e.k. náttúrulegt fyrirbæri án þess að taka tillit til innihaldsins. Það sem skiptir máli í sambandi við rannsóknir á tungumálum er að athuga hvernig menn koma merkingu til skila. Húmanísk fræði mega ekki drukkna í hreinum formalisma. Þess vegna tel ég að fyrir menn sem ætla að hafa skilning á tungumálum sem rannsóknarefni séu klassísk mál grundvallaratriði. “ Hvaða sess finnst þér þá að lat- ína eigi að skipa í skólakerfinu? „Það er alltaf pressað á með nýjar greinar og nýja þekkingu í menntaskólunum. Latínu- kennsla hefur hins vegar verið minnkuð og er orðin svo lítil að nemendur fá ekki nógu mikla þekkingu til að geta haldið mál- inu við af sjálfsdáðum. En þeir sem fara í háskóla til að stunda sögu, bókmenntir og slíkt snúa sér að eldri tímum standa illa að vígi ef þeir kunna ekkert í latínu. Sérstaklega er þeim sem ætla að fjalla um miðaldir gert erfitt fyrir ef þeim er ekki veitt kennsla í málinu. Sumir verða að leggja mikið á sig til þess. En þótt tveggja ára undirbúningsnám sé ekki mikið - áður voru menn bet- ur settir - er það betra en ekkert. Sá kostur er fyrir hendi að færa þessa kennslu inn í háskólann, en það hefur þá í för með sér að nám þeirra lengist sem því nemur. Einu sinni var komið á fót kenns- lu í miðaldalatínu í Háskólanum, og gaf hún góða raun, því að menn höfðu gagn af henni, en hún var samt lögð niður vegna mótmæla sögunema, sem ætluðu sér að snúa sér að síðari tímum.“ En svo að lokum: lest þú þessa höfunda mikið sjálfur? „Það kemur oft fyrir að ég gríp í latneska höfunda. Kannske geri ég það einna helst í sambandi við eitthvað sem ég er að rannsaka, en einnig án slfks tilefnis. Nú í sumar fór ég t.d. að rifja upp kynni mín af latnesku ljóðskáld- unum, einkum Hórasi og Catul- lusi. Þessa höfunda get ég vel les- ið mér til skemmtunar. Heimspeki Hórasar ristir ekki djúpt, en hún er ákaflega mannleg". Sunnudagur 11. október 1987 þjóÐVILJINN — SÍÐA 13

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.