Þjóðviljinn - 17.12.1987, Blaðsíða 9

Þjóðviljinn - 17.12.1987, Blaðsíða 9
BÆKUR Hvar fæ ég höfði hallað? Isaac Bashevis Singer Isaac Bashevis Singer Þrællinn Hjörtur Pálsson þýddi. Setberg 1987. Söguleg skáldsaga er þetta og um leið trúarleg ástarsaga. Sviðið er Pólland á sautjándu öld, veður öll válynd, kósakkar í uppreisn gegn valdi pólska aðalsins og hve- nær sem farið er yfir slétturnar með báli og brandi er byrjað á því að ráðast á gyðinga, brenna hús þeirra, nauðga konunum og henda börn á kesjum. Jakob hef- ur sloppið undan einni slíkri hrinu til fjalla og verið seldur í ánauð til bónda eins. Dóttir bónda, Wanda, ung ekkja, fellir ástarhug til hans og hann til henn- ar en streitist lengi á móti, því hann vill ekki brjóta gegn trú feð- ranna og þótt hún vilji trúa á hans guð eins og Rut forðum, þá er dauðarefsing við því að snúa ka- þólskri manneskju til villutrúar þeirra „sem drápu Krist“. Þau geta samt ekki hvort án annars verið og reyna nýtt líf í afskekktu gyðingaplássi og þykist Wanda (sem nú nefnist Sara) vera mál- laus til að ekki komist upp að hún kann illa jiddísku, mál gyðinga - en einn dag verður hún að mæla orð frá vörum og þá getur margur háski vofað yfir. Eins og í mörgum öðrum sög- um sínum reiðir Isaac Bashevis Singer hér fram sterka blöndu hrikalegra atburða og trúarlegrar umræðu um hinstu rök. Hann getur verið grimmur höfundur og er það hér. Því fer fjarri að hann fegri sautjándu öldina og engum er hlíft. Hvorki spilltum og fárán- legum aðli Póllands, morðhund- um Khmelnitskis atamans (sem hér er kallaður Smjelnitski ein- hverra hluta vegna) eða lúsugum og drykkfelldum og fáfróðum bændum. Né heldur gyðingunum sjálfum: trúin og ástundun lög- málsins hafa að sönnu gert þann mann úr Jakob sem Wanda elsk- ar og treystir - en sjálfur sér Jak- ob vel hvernig lagakrókar og formfesta í útvortis hlýðni við lögmálið er meðal trúbræðra hans látin koma í staðinn fyrir það sem mestu varðar: réttlæti og alúð í mannlegum samskiptum. Og meðan Wanda leitar skjóls í trú Jakobs getur hann sjálfur - eftir það grimmdaræði sem yfir fólk hans gekk - ekki elskað þann Drottinn sem jafnt stýrir stjarna her og gefur afl morðingjum ung- barna. Jakob finnur að lokum sín dýr- keyptu svör í þeirri góðvild og sjálfsafneitun sem eru utan við mennsk rök og uppsker að lokum legstað sem fyrir kraftaverk reynist og gröf Wöndu. Einhver ávæningur er hér kannski af sög- unni um Tristan og ísold. Isaac Bashevis Singer má vel kalla einhæfan höfund í þeim skilningi að mörg eru þau þemu sem ganga milli bóka hans. En hann nýtur góðs af þekkingu sinni á furðulegum og merki- legum söguefnum (um þennan sama tíma samdi hann fyrstu skáldsögu sína, Satan í Goray), og þeirri frásagnargáfu sem ber lesandann með sér án þess að hann strandi á skerjum túarlegrar umræðu, heimspekilegra vanga- veltna og blátt áfram fróðleiks. Persónur hans eru dregnar upp með stekum litum, en það þarf ekki að þýða að hann einfaldi úr hófi fram það mannlíf sem lýst er. Hann er meira en nógu næmur höfundur til að vita vel af þeim undarlegu þverstæðum sem fylgja einnig þeim augnablikum sem ætla mætti að gagntaki menn einræðri tilfinningu. Til dæmis er Jakob svo innanbrjósts þegar hann hefur tekið það stóra skref að hafa Wöndu á brott og dæma þau bæði þar með til útlegðar í mannheimum: „Himinn, jörð og fjöll héldu niðri í sér andanum. Jakob var líka hljóður þó að hann væri enn undrandi og skelfingu lostinn yfir því sem hann hafði gert. Það var eins og hugur hans væri stirðnað- ur og frosinn. Honum var orðið sama hvern endi þetta ævintýri fengi. Örlög hans voru ráðin. Frelsið var honum aukaatriði, hann var bæði hann sjálfur og einhver annar. Innra með honum var einhver sem fylgdist sallaró- legur með því sem hann gerði eins og hann væri ókunnugur maður.“ Hjörtur Pálsson hefur þýtt bókina úr ensku og hefur þýðing- in einhvernveginn eðlilegri og sjálfsagðari keim en ýmsar fyrri þýðingar hans á Singer, þar sem maður freistaðist meir en í þess- ari sögulegu skáldsögu hér til að hlera eftir jiddískum blæ á bak við tungu Egiis og Snorra. í dag, fimmtudaginn 17. desember frá ld. 15 til 17: Bókabúð LMÁLS &MENNINGAR. LAUGAVEG118, SÍMI 24240 árítar nýútkomna bók sína, DAGAR HJÁ MÚNKUM, í bókabúð Máls og menningar, Laugavegí 18. Sendum einnig árítuð eintök ípóstkröfu.

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.