Þjóðviljinn - 07.01.1988, Blaðsíða 11

Þjóðviljinn - 07.01.1988, Blaðsíða 11
MINNING byrgðu sýn, hrundu og engu lík- ara en sæi of heim allan. Þannig veitti Ragnar það sem aldrei er hægt að þakka: hann gaf mér ný augu til að sjá undursamlega ver- öld sem ég vissi ekki áður að væri til. Og nú þarf að kveðja þennan vin sem var líkt og andlegur faðir. Þá leitar hugurinn til Siggu sem einnig gaf vináttu sína og visku. Og til barnanna þeirra Önnu Ás- laugar, Sigríðar og Hjálmars. Við Bera sendum þeim öllum og venslafólki þeirra hugheilar sam- úðarkveðjur. Njörður P. Njarðvík Það er ekki auðvelt að skrifa um þann sem maður hefur þekkt lengi og elskað mikið. Ragnar þekktu allir ungir fs- firðingar og margir nutu hand- Ieiðslu hans um einhvern tíma, langan eða skamman. Heimur hans var svo víðfeðm- ur og stór að það reyndist engum erfiðleikum bundið að setjast að í litlu, einangruðu bæjarfélagi og byggja þar upp stein fyrir stein, innblásinn af göfugri hugsjón. Tilgangurinn var að leita uppi músíkina í hverju barni og kenna því að rækta í sér manneðlið. Hver og einn var leiddur fram til þess að verða meistari, kynntur fyrir tónlistargyðjunni og kennt að lúta henni af alúð. Allt var þetta gert í einlægri trú á hið góða sem finna má í tónlist- inni. Hann fylgdi því sem hann trúði sjálfur að væri gott sjónarmið - heill og óskiptur. Nemendum sínum kenndi hann öguð vinnubrögð jafnframt því að hvetja og auðga; hjá flest- um tókst honum að kveikja löngun til að leita áfram fróð- leiks, reynslu og þroska. Við nemendur hans kveðjum nú þennan mikla fræðara og hlýja vin og þökkum honum fyrir að hafa fært mann nær því að vera manneskja. Fjölskyldunni allri sendum við innilegar samúðarkveðjur. Elísabet Gunnarsdóttir Margrét Gunnarsdóttir Á aðfangadag lést í Reykjavík Ragnar H. Ragnar, fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskóla ísa- fjarðar. Ragnar kom til ísafjarðar árið 1948 og gerðist þá skólastjóri hins nýstofnaða tónlistarskóla á ísa- firði og gegndi því starfi fram til ársins 1984 að hann lét af störfum sökum aldurs. Á fundi bæjarstjórnar ísafjarð- ar 25. maí 1978 var samþykkt að kjósa Ragnar heiðursborgara ísafjarðarkaupstaðar í viður- kenningarskyni fyrir ómetanleg og fórnfús störf að söngmennt og tónlistarmálum í kaupstaðnum um þrjátíu ára skeið. Forseta bæjarstjórnar var falið að af- henda Ragnari heiðursborgara- bréf við skólaslit Tónlistarskól- ans 26. maí 1978. Jafnhliða skólastjórastarfi gegndi Ragnar H. Ragnar ýms- um öðrum störfum m.a. starfi organista við ísafjarðarkirkju, kórstjóra o.fl. Ragnar gerði Tónlistarskóla ísafjarðar að einum af fremstu tónlistarskólum landsins og hefur hann útskrifað marga af okkar bestu tónlistarmönnum. Bæjarstjórn ísafjarðar og íbú- ar ísafjarðarkaupstaðar þakka Ragnari H. Ragnar fyrir ómetan- leg störf hans í þágu tónlistar-, menningar- og félagsmála í ísa- fjarðarkaupstað. í virðingar- og þakklætisskyni við hinn látna fer útför Ragnars H. Ragnar fram á vegum kaupstaðarins í kapellu ísafjarð- arsafnaðar í Menntaskólanum á ísafirði 7. janúar nk. kl. 14. Bæjarstjórn ísafjarðar og íbú- ar ísafjarðarkaupstaðar votta eiginkonu hins látna og ættingj- um hans sína innilegustu samúð. Bæjarstjórn ísafjarðar Ragna Jonsdóttir kennari fœdd 15. desember 1916 — dáin 30. desember 1987 Ragna Jónsdóttir, kennari frá Neskaupstað, lést 3o. des. sl. sjötíu og eins árs að aldri. Ragna fæddist í Hjaltastaðaþinghá á Héraði. Hún fluttist til Norð- fjarðar barnung með foreldrum sínum og þar átti hún heima allt þar til hún hélt til náms við Menntaskólann á Akureyri. Ragna var ein úr tiltölulega fjöl- mennum hópi nemenda sem fór frá Norðfirði til náms í MA á ár- unum upp úr 1930. Við vorum a.m.k. sjö saman um tíma og var það ekki smár hópur frá aðeins þúsund manna byggðarlagi á erf- iðum kreppuárum. Okkar ágæti og áhugasami barnaskólastjóri, Valdimar Snævarr, hvatti okkur og studdi eftir bestu getu og hafði mest áhrif á að við urðum þetta mörg við MA frá Norðfirði. Hóp- urinn þótti halda vel saman í skóla. Þar urðu til okkar í milli vináttubönd sem entust síðan allt okkar líf. Ragna var eina stúlkan í okkar hópi. Hún varð brátt sérstaklega vinsæl meðal nemenda og ekki síður hjá kennurum, enda var hún afbragðs nemandi og til fyrir- myndar í félagslífi skólans. Ragna var mikill Norðfirðing- ur. Hvorttveggja var að henni þótti vænt um staðinn og fólkið sem þar býr. Hún fylgdist vel með öllu sem var að gerast á Norðfirði eftir að hún fluttist suður. Og allir Norðfirðingar þekktu Rögnu í Bár og voru hreyknir af henni því allsstaðar fór af henni gott orð. Ragna var ein af forgöngu- mönnum um að stofna Norðfirð- ingafélagið hér syðra og vann mikið fyrir félagið sem sýnt hefur heimabyggðinni mikla ræktar- semi. Ragna giftist Ragnari Jóhann- essyni, gömlum skólabróður okkar frá Akureyri. Ragnar var glæsimenni þegar í skóla og eitt besta skáld skólans og síðar landskunnur sem útvarpsmaður og fyrir ljóð sín og söngva. Síðar varð Ragnar skólastjóri gagn- fræðaskólans á Akranesi um margra ára skeið. Með Rögnu og konu minni tókst snemma mikil og góð vinátta. Ragna kom því oft á heimili okkar og áttum við með henni margar ánægjulegar stundir. Það var líka ánægjulegt hér á árum áður að heimsækja þau Rögnu og Ragnar og minnast með þeim góðra stunda frá menntaskólalífinu á Akureyri og frá okkar heimaslóð Norðfirði. Ragna kenndi við ýmsa skóla - gagnfræðaskólana í Neskaupstað og á Akranesi og síðast við Árm- úlaskóla í Reykjavík. Hún var af- bragðs kennari og góður félagi nemenda sinna eins og ég hefi heyrt marga þeirra lýsa. Ragna var sem fyrr segir mikill Norðfirðingur - en hún var um leið heimsborgari, fylgdist vel með því sem var að gerast í heiminum, ferðaðist til margra landa og naut þess að eiga marga vini. Vinmörg var Ragna áreið- anlega - ég man að á Akranesi varð ég að leggja mig allan fram til að sanna heimamönnum þar að þeir ættu ekki í henni hvert bein, hún væri reyndar Norðfirð- ingur að ætt og uppruna. Við Norðfirðingarnir sem átt- um samleið í skóla upp úr 1930 höfum haldið hópinn býsna vel, þótt við höfum gegnt ólíkum störfum og vík hafi verið milli vina. Enginn átti meiri þátt í því en Ragna að halda þessum hópi saman. Hún fylgdist með okkur öllum og dreif okkur í að hittast ef langt hafði liðið á milli. Við Fjóla vottum börnum Rögnu, þeim Ragnari, Ingi- björgu og Guðrúnu og öðrum að- standendum einlæga samúð okk- ar um leið og við þökkum Rögnu fyrir margar og góðar ánægju- stundir sem við áttum saman. Lúðvík Jósepsson Ég sá hana fyrst á kennarastof- unni í Ármúlaskóla. Hún var í lægra meðallagi á vöxt, nokkuð þrekvaxin, brúneyg og hárið dökkbrúnt og liðað og sló á það rauðum blæ, festulegur munn- svipur og yfirbragðið skarplegt og ákveðið. Handtak hennar var hlýtt og afdráttarlaust, og hún bauð mig velkominn með þeirri ljúfmennsku sem henni var eðlis- læg. Við unnum saman við Ár- múlaskóla í níu ár; þótt hún léti reyndar af störfum fyrir nokkrum árum var hún eftir sem áður hluti af hópnum og tók þátt í öllum hefðbundnum samkomum kenn- ara og leit oft inn endranær. Nú er komið að leiðarlokum. Ragna Jónsdóttir fæddist á Svínafelli, Hjaltastaðaþinghá 15. desember 1916 og var því rúm- lega 71 árs þegar hún lézt 30. des- ember síðastliðinn. Foreldrar hennar vour Jón Sigfússon, bæ- jarstjóri á Norðfirði og sfðar skattstjóri og kona hans, Ingi- björg Éinarsdóttir. Hún ólst upp í Neskaupstað og settist í Mennta- skólann á Akureyri 1931, tók próf upp í annan bekk og lauk stúdentsprófi 1936, eina stúlkan í hópi 19 stúdenta það vor. Ragna var góður námsmaður og einkum átti hún auðvelt með að læra mál. „Ég var latínuhryssa,“ sagði hún í gamni. Það er orða sannast, að Ragna minntist menntaskólaára sinna með mikilli ánægju, enda batt hún órofa tryggð við Akur- eyrarskóla, átti drjúgan þátt að stofnun Nemendasambands skólans, NEMA, og var formað- ur þess um hríð. Áð loknu stúdentsprófi kenndi Ragna einn vetur við gagnfræða- skólann í Neskaupstað, en síðan lá Ieið hennar til Reykjavíkur þar sem hún stundaði heimilis- kennslu í nokkur ár. Hún hélt tryggð við átthagana, fór oft austur og tók þátt í starfi Norð- firðingafélagsins. Hún giftist 11. nóvember 1939 og átti Ragnar Jóhannesson sem lengst var skólastjóri á Akranesi, en lagði auk þess gjörva hönd á margt, stjórnaði útvarpsþáttum og þýddi bækur svo nokkuð sé nefnt. Þau Ragna eignuðust þrjú börn, Ragnar byggingaverka- mann, f. 1940, hann er ókvæntur; Ingibjörgu kennara, f. 1943, hún er ógift; og Guðrúnu háskóla- nema, f. 1947. Hún á Árna Björn Jónasson verkfræðing. Ragnar Jóhannesson lézt 1976 eftir lang- vinn veikindi. Ragna kenndi dönsku og ís- lenzku í grunnskóla og fram- haldsskóla, góðum nemendum og seinfærum, og fórst það vel úr hendi, vegna þess að bæði danska og íslenzka lágu henni á tungu. Allt hennar fas var með þeim hætti að hún hélt athygli nem- enda. Og hún kenndi þeim ekki einungis dönsku og íslenzku, heldur innrætti hún þeim virð- ingu fyrir fögru mannlífi, sagði þeim frá og kenndi þeim að hlusta. Og hvaða nemandi skyldi nokkurn tíma geta gleymt kenn- ara sem allt í einu birtist í kennslustund með kaffi og lumm- ur handa hverjum og eirium að ekki sé fleira talið? Ragna átti aldrei örðugt með að halda aga á nemendum sínum. Ef þeir voru uppivöðslusamir leyfði hún þeim að gantast fyrstu tímana, eða svo lengi sem hún þurfti til að átta sig á högum hvers og eins. Síðan tók hún á málum af festu og sann- girni. En sízt af öllu báru nem- endur hennar þrælsótta í brjósti. Öll framkoma hennar mótaðist af góðvild í garð þeirra og tillits- semi. Þeim leið vel í tímum hjá henni. Ragna vann ekki utan heimilis meðan börnin uxu úr grasi, en 1951 tók hún að sér kennslu við gagnfræðaskólann á Akranesi. Þau hjón fluttust til Reykjavíkur 1960, og þá réðst Ragna að Gagnfræðaskóla verknáms sem síðar varð Ármúlaskóli, í fyrstu grunnskóli, en með fjölbrauta- sniði frá 1979, þótt Fjölbrauta- skólinn við Ármúla væri ekki formlega stofnaður fyrr en nokkrum árum síðar. Ragna var í fullu starfi til 1985, er hún sagði stöðu sinni lausri, en kenndi þó eftir það nokkrar vikustundir. Ragna Jónsdóttir var geðrík, en hafði stjórn á skapsmunum sínum. Skapbrigði sín tjáði hún með svipmóti sínu, setti í brýnnar ef henni var heitt í hamsi, og bros hennar lék ekki aðeins um varir og vanga, heldur ljómaði einnig af augum. Handtak hennar var hlýtt og eindregið. Hún hélt fullri reisn þegar móti blés í lífinu, kvartaði aldrei, þótt margir hefðu kveinað. Einungis örfáir trúnaðarvinir deildu með henni sorg, sem sneiddi ekki hjá garði hennar fremur en annarra. Viðmót hennar mótaðist bæði af festu og frjálslegu fasi, og ein- stök glaðværð var fylginautur hennar. Hún var hispurslaus, leiddist karp og orðhengilsháttur og kyrrði slíkan öldugang með vel völdum orðum; hreinskilni var henni í blóð borin. Ragna hafði gaman af smá- hrekkjum og meinlausri stríðni, sem var til þess fallin að eyða drunga eða einungis að bregða frá daglegum venjum. Þá var líka alveg sérstakur svipur á henni og kankvís glampi í augum. Lífs- gleði hennar var einstök. Ragna var af þeirri kynslóð sem síðust ólst upp við íslenzka alþýðumenningu, eins og hún hafði tíðkazt um langt skeið, og hún var trú þeim arfi, hafði yndi af góðum bókmenntum og ekki síður söng, kunni enda ógrynni Iaga og texta og stjórnaði söng á gleðimótum. Hún býsnaðist ekki yfir samtíð sinni, eins og mörgum er tamt, þótt henni þætti ýmislegt fara miður. Ég veit að gún hafði af því áhyggjur hvað ungt fólk kann yfirleitt fá þeitta ljóða, sem alþýða manna hefur lengi sungið á samkomum. En hún fáraðist ekki yfir því, leitaði fremur leiða til að bæta úr þeirri vankunnáttu. Ég sá Rögnu síðast á samkomu í skólanum fyrir nokkrum vikum. Þá var henni brugðið en skapið var óbugað. Nokkru síðar lagðist hún á Borgarspítalann og var þar unzyfirlauk. Við söknum hennar af kennarastofunni í Ármúla- skóla, en það væri ólíkt henni að hafa mörg orð um það. Ég sendi börnum hennar og öðrum ástvinum samúðarkveðju. Sölvi Sveinsson Fimmtudagur 7. janúar 1988 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 11 KííSKj z4TT,r'i,,5,,s,,r ST. JÓSEFSSPÍTALI, LANDAKOTI St. Jósefsspítalinn, Landakoti auglýsir eftir hjúkrunarfræðingum. Boðið er upp á aðlögun- arprógram áður en farið er á sjálfstæðar vaktir. Reynt er að gera öllum kleift að sækja ráðstefnur og námskeið. Lausar stöður eru á gjörgæsludeild og á lyf- lækningadeild l-A sem er tvískipt deild, um fullt starf er að ræða. Einnig vantar okkur sjúkraliða á lyflækninga- deild l-A. Upplýsingar eru gefnar hjá hjúkrunarfram- kvæmdastjóra í síma 19600-202 og 19600-220. Reykjavik 4.1.1988 IÐNSKÓLINN í REYKJAVÍK Nýnemar: föstudaginn 8. janúar 1988 kl. 13.00 eiga nýnem- ar að mæta til viðtals. Mánudaginn 11. janúar 1988 kl. 8.00 verður stundaskrá afhent og hefst kennsla strax að því loknu. Skólastjóri

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.