Þjóðviljinn - 05.06.1988, Blaðsíða 9

Þjóðviljinn - 05.06.1988, Blaðsíða 9
RÖNG SAGA The Wrong Story Það var á þeim árum þegar sól- in settist fremur af öryggi en vana og hestarnir voru iatir af þreytu en ekki leiðindum. Wim Wend- ers var um það bil að verða get- inn, enda átti fólk í tilfinninga- basli þá sem fyrr, þannig að ein- hverntíma hlaut röðin að koma að honum. Að vísu er sú sena víðsfjarri þessari sögu þó tilefni hennar fari ekki leynt frá því. Stop. Herinn hafði enn ekki spurst norður yfir heiðar og dag- arnir liðu í einfeldni við ómálaða steinveggi er vörpuðu svölum skugga fram á hlöðin sem lyktuðu af olíu en voru að öðru leyti gler- hörð af langvinnum þurrícum. Á sjónum fyrir utan dottuðu jak- arnir hreyfingarlítið eins og staðir hvalir, en bráðnuðu þó nokkrar spannir í hádegissólinni og voru stundum tilefni misskilnings. „Hvar eru börnin?" hljómaði oft eins og „Hvar er björninn?“ Því kvenfólkið gekk á slægjuna, með svuntur og hárklúta, og ráku í hlátursHviðum á eftir sláttu- manninum. Það voru aðalbrand- ararnir þetta sumar. En á kvöldin lyktuðu þær af kjarri undan höndunum, þegar þær sátu fram á rúmbríkunum og gengu frá hár- inu fyrir svefninn. Þær voru ekki sætar, þetta var ekki þannig þá, þær voru bara léttar eða óléttar. Og þegar heitt var í veðri sáust þær stundum á hvítum nærbol- um, rauðar í kinnum við bláu augun. Já, fánalitunum var víðar flaggað en í vindinum á þessum árum. Og vindur var það nú varla, varla talandi um þetta sumar í þessum sívala firði sem ekki var fjörður heldur vík og hét og heitir reyndar Sjaldhafnarvík. Það skeði svoldið í Hlíð tiltölu- lega snemma um þetta sumar sem gaman er að segja frá. Og það er líklega í eina skiptið sem svona- lagað hefur skeð, þó víða væri leitað. Bergur var ráðsmaðurinn í Hlíð og var ekki kallaður Beggi, þetta var ekki þannig þá, gælu- nöfnin höfðu enn ekki borist að sunnan, ekki frekar en síminn, sem þó var skammt undan og pot- aði sér yfir Tröllatunguheiðina eins og einfætt risagervikönguló úr fjarlægum bíómyndum sem um það leyti voru framleiddar í Hollywood. En Bergur þessi var sem sagt að bjástra við gamalt beisli niðrí rökkvuðum kjallara- gangi í nýja steinhúsinu einn sól- ríkan sunnudagsmorgun þegar lítii og falleg hagamús skýst leiftursnöggt yfir stígvélin sem hann var í. Og þetta var ekki í fyrsta sinn sem þetta hafði gerst, því oftsinnis hafði Bergur komið auga á þessi litlu grey í áhalda- kompunni, já og víðar í kjallaran- um, og þetta var farið að fara svoldið í taugarnar á honum þó svo hann vissi mætavel að þessi meinlausu nagdýr væru ekki til neinnar óþurftar. En sem sagt í þetta sinn var nóg komið og í ein- lægu bríaríi spyrnti hann hægri fæti út í loftið um leið og músin skaust yfir stígvélstána. Og svo ótrúlega snöggur var hann, senni- lega æfður af því að setja hæl í kviðinn á lötum bykkjum, að litla hagamúsin skaust af tánni eins og bolti og lenti ofarlega á hurðinni fyrir enda gangsins. Hann Bergur hafði sparkað músinni eins og fótbolta og smassað hana beint í skeytin, við hurðarkarminn, þó svo að þannig hafi það ekki verið orðað þá, fótboltinn var enn fyrir sunnan og íþróttamál blaðanna ekki svo þróað sem nú. En hvað um það, músin small á hurðinni og lést um leið, skildi eftir sig brúnan vökvablett á grænu lakk- inu og féll síðan niður á gólfið. Þannig var húsum háttað þarna í nýia steinbænum að herbergi ráðskonunnar var einmitt fyrir enda gangsins í kjallaranum og vissi upp í hlíðina. Þetta voru því dyrnar inn til hennar Veigu og hún spratt upp frá bréfaskriftum heim í Skagafjörð með blautt hárið vafið í vandlegan hand- klæðistúrban þegar hún heyrði dynkinn í músarboltanum. Hún reif upp hurðina og hváði höst fram á dimman ganginn þar sem hún sá glottið á Bergi í hinum endanum við áhaldakompuna. „Hvað var nú þetta?“ spyr hún með norðlenskri fifties-áherslu á síðasta orðið. „Ooo, ætli það hafi ekki bara verið hún músin?“ svarar Bergur sposkur á svipinn sem fyrr. „Músin, músin, ég er orðin gauðleið á þessu eilífa músatali í þér Bergur og það veist þú manna best sjálfur.“ „Gættu nú bara að því að þú stígir ekki ofan á greyið, Veiga mín.“ Ráðskonan lítur snöggt niður fyrir sig og sér sér til skelfingar lítinn ljósbrúnan loðhnoðrann við tærnar á sér og hrópar um leið upp yfir sig „Uaah yyy“ og hverf- ur í skjól á bakvið hálfopnaða hurðina. „Svona, svona,“ segir Bergur um leið og hann labbar sér yfir til hennar og beygir sig yfir líkið. „Hún fer nú ekki langt, þessi,“ og hann tekur músina upp á halan- um og vingsar henni framan í Veigu sem flýr í ofboði með hærra öskri lengra inn í herberg- ið. „Ég bið þig Bergur," hrópar hún og var nú komin undir sæng í óuppbúnu rúminu. „Þetta á eftir að fara lengra, því skal ég lofa þér.“ „Já, er það ekki bara, hún Veiga litla er ekki að veigra sér við það, hún vill að það gangi svolítið lengra,“ sagði Bergur um leið og hann skellti aftur hurðinni með hinum snarpa hæli sínum þannig að örlítil kúasletta sat eftir á hurðinni undan stígvélinu. „Hún heldur kannski að þetta sé þá bara sköllótt mús eftir allt saman?“ En þetta var eitt af fyrstu skiptunum sem vitnað var órætt í þennan brandara á Norðurströndum, þó síðar ætti hann eftir að breiðast hratt út og inn eftir hverjum firði alla leið vestur fyrir Hornbjarg og gott betur. Bergur veifaði músinni lítið lengur áður en hann henti henni út um opinn gluggann í suðandi flugnagrasið þar sem kötturinn átti eftir að hirða hana. En hann skreið hinsvegar sjálfur uppí til Veigu, til fóta, undir sængina eins og köttur með sína sköllóttu þrátt fyrir mikinn lima- burð ráðskonunnar og munn- fögnuð. En það bráði fljótt af henni, því þetta var ekki hrein nauðgun, þetta var ekki þannig þá, hlutirnir höfðu enn ekki feng- ið sín fræðilegu heiti. Aldrei varð því úr neinni kæru í málinu, enda svosem skiljanlegt þar sem barn varð úr, þó ekki yrði þar neinn Wim Wenders, og við skírn þess samtímis gengið frá endingar- góðu hjónabandi og farsælu lífi Þ eggja einstaklinga. Klukkurnar í Sjaldhafnarvíkurkirkju hringdu þessum einangruðu sveitum lof og prís og úti fyrir bráðnuðu jak- arnir af hamingju þegar fólkið gekk úr kirkju og út á hlaðið, þar sem staðið var í nokkra vand- ræðalega stund í logninu áður en kallað var inn í kaffi. Sannaðist það hér með það sem síðar átti eftir að þróast í málshátt norður þar, því öllum varð sagan fljót- lega hugleikin, það að „Oft verð- ur mús að meiru". NYC10588 Hallgrímur <• Sunnudagur 5. júní 1988 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 9

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.