Þjóðviljinn - 28.09.1988, Blaðsíða 12

Þjóðviljinn - 28.09.1988, Blaðsíða 12
Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík Allsherjaratkvæöagreiösla innan safnaðarins um uppsögn séra Gunnars Björnssonar fer fram laugardag og sunnudag 1. og 2. október n.k. kl. 10 til 19 báða dagana. Kosið verður í Álftamýrarskóla (gengið inn frá Álftamýri). Safnaðarstjórn Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík Upplýsingaskrifstofa safnaðarstjórnar vegna allsherjaratkvæðagreiðslu dagana 1. og 2. októ- ber n.k. um uppsögn sr. Gunnars Björnssonar, er í „Betaníu", Laufásvegi 13, opin frá kl. 15 til 19 daglega, sími 27270. Kjörskrá liggur þar frammi. Munið að sannleikurinn er sagna bestur. Mætum öll og krossum við „JÁ“. Safnaðarstjórn Vistheimili Mánagötu 25 barna Starfskraftur óskast í 70% starf við ræstingu og afleysingar í eldhúsi. Upplýsingar gefur forstöðumaður í síma 12812. Laus staða Dósentsstaða í almennum málvísindum, hálft starf, við heimspekideild Háskóla íslands er laus til umsóknar. Laun samkvæmt launakerfi starfs- manna ríkisins. Umsóknir ásamt rækilegri skýrslu um vísindastörf umsækjenda, ritsmíðar og rannsóknir, svo og námsferil og störf, skulu hafa borist menntamálaráðuneytinu, Hverfisgötu 6, 150 Reykjavík, fyrir 25. október n.k. Menntamáiaráðuneytið, 23. september 1988 Laus staða Staðajektors í rússnesku við heimspekideild Há- skóla íslands er laus til umsóknar. Laun samkvæmt launakerfi starfsmanna ríkisins. Umsóknir, ásamt rækilegri skýrslu um vísinda- störf umsækjenda, ritsmíðar og rannsóknir, svo og námsferil og störf, skulu sendar menntamála- ráðuneytinu, Hverfisgötu 6, 150 Reykjavík, fyrir 25. október n.k. Menntamálaráðuneytið 22. september 1988 ________ERLENDAR FRÉTTIR________ Júgóslavía: Ríkiseining i hættu Serbar krefjast aukinna valda - illindi milliþeirra og Kosovo-Albana Niður með Albanina - Serbar á fjöldafundi krefjast að sjálfstjórn Kosovo verði skert. Undanfarið hefur hver fjölda- fundurinn öðrum meiri verið haldinn í ýmsum borgum Serbíu, stærsta og fjölmennasta lýðveldis sambandslýðveldisins Júgó- slavíu. Enn er ekki lát á þeim fundahöldum, sem eru þau mestu í Júgóslavíu síðan heimsstyrjöld- inni síðari lauk. Aðalkröfur fundarmanna eru þær, að lands- hlutarnir Kosovo, þar sem mikill meirihluti íbúa er albanskrar ætt- ar, og Vojvódína, þar sem er fjöl- mennur ungverskur þjóðernis- minnihluti, verði að mestu eða öllu sviptir sjálfstjórn þeirri, sem þeir nú njóta innan serbneska lýðveldisins. Júgóslavía skiptist sem kunn- ugt er í sex lýðveldi, Serbíu, Kró- atíu, Slóveníu, Bosníu,. Svart- fjallaland og Makedóníu, auk sjálfstjórnarsvæðanna Kosovo og Vojvódínu, sem að formi til heyra undir Serbíu. Það var Tito, stríðshetja og landsfaðir, sem kom þessari skipan á og staðfesti hana með stjórnarskrá sem tók gildi 1974. Sá gamli, sem var Kró- ati í föðurætt og slóvenskur í móðurkyn, vildi með stofnun sjálfstjórnarsvæðanna draga úr áhrifum Serba í ríkinu, með það fyrir augum að hindra að þeir kæmust upp með að neyta afls- munar til að þrúga öðrum þjóð- ernum landsins, eins og þeir höfðu gert á árunum milli heimsstyrjaldanna. Miðevrópsk menning og balkönsk Júgóslavía, sem stofnuð var sem ríki í lok heimsstyrjaldarinn- ar fyrri, er allsundurleit hvað snertir þjóðerni, trúarbrögð og menningu. Króatía og Slóvenía höfðu síðan á miðöldum verið undir ungverskum og austurrísk- um yfirráðum, íbúar þessara landa eru frá fornu fari kaþólskir og menning þeirra miðevrópsk, að minnsta kosti leggja þeir mikla áherslu á það sjálfir. Önnur lönd í ríkinu voru um aldaraðir undir Tyrkjanum og í menningarefnum heyra íbúar þeirra til öðru Balk- anfólki og standa á því sviði nær Rússum, Grikkjum og jafnvel Tyrkjum en Mið- og Vestur- Evrópu. Þar á ofan eru þeir sund- urleitir innbyrðis. Makedónar standa hvað tungumál og þjóð- erni snertir nær Búlgörum en Serbum og drjúgur hluti Bosníu- manna auk Kosovo-Albana eru múslímar, gagnstætt öðrum íbú- um suður- og austurhluta lands- ins, sem flestir heyra í trúarefn- um til Rétttrúnaðarkirkjum svo- kölluðum, líkt og Grikkir, Búlg- arar, Rúmenar og Rússar. Lengi vel var þjóðernisúlfúðin í landinu mest áberandi á milli tveggja fjölmennustu þjóðern- anna, Serba og Króata. Þeir sfðarnefndu töldu sig standa skör ofar Serbum (eða vel það) í menningarlegum efnum, en Serbum hætti til að líta á Júgósla- víu sem Stór-Serbíu, endurreist stórveldi Stefáns Dúsjans, sem voldugastur var Serbakonunga fyrir komu Tyrkjans. Þeir töldu sig líka hafa unnið til valdanna í hinu nýja ríki með stríðsþátttöku sinni gegn Miðveldunum í heimsstyrjöldinni fyrri, en í þeim hildarleik biðu Serbar líklega meira manntjón en nokkur önnur stríðsþjóð, miðað við fólksfjölda. Þetta álit Serba á sjálfum sér, að þeir öðrum fremur ættu rétt á for- ustu og völdum í Júgóslavíu, hef- ur að öllum lfkindum fengið byr undir vængi í heimsstyrjöldinni síðari, er meginþorrinn af skæruhermönnum Titos voru Serbar, Svartfellingar og Bosníu- menn af rétttrúnaðarkristni, sem yfirleitt eru taldir með Serbum. Albanir þriðja fjölmennasta þjóðernið Síðustu árin hefur minna gætt rígsins milli Serba og Króata, en þeim mun meira kveðið að úlfúð milli þeirra fyrrnefndu og Albana í Kosovo. Alls búa yfir tvær milj- ónir manna albanskrar ættar í Júgóslavíu og eru þeir þriðja fjöl- mennasta þjóðernið þar. Vegna hárrar fæðingatölu fjölgar þeim þar að auki örar en öðrum þjóð- ernum landsins. Þetta hefur haft í för með sér að undanfarna ára- tugi hefur hlutdeild Albana í íbúafjölda Kosovo stöðugt vaxið, en önnur ástæða kemur þar einn- ig til. Illindi milli þjóðernanna hafa leitt til þess að margir Serba jaeirra og Svartfellinga, sem einn- ig hafa búið þar frá fornu fari, hafa flúið Kosovo. Albanir eru þar nú 1.8 miljónir, Serbar og Svartfellingar aðeins um 200.000. Albanir í Kosovo hafa lengi verið óánægðir með sinn hag og 1981 kom þar til mikilla óeirða og mótmælaaðgerða af þeirra hálfu. Síðan hefur ekki verið lát á ólgu í samskiptum þjóðerna þar. Ser- bar bera Albönum á brýn ofsókn- ir á hendur kristnum mönnum í Kosovo, ekki síst áreitni við og nauðgunarárásir á konur. Um- deilt er hvað hæft sé í þessum ákærum, en benda má á að all- mikill munur er á daglegu lífi serbneskra og albanskra fjöl- skyldna, er búa hlið við hlið, og afstöðu þeirra til kvenna. í þeim efnum hafa Serbar óðum færst nær vestræna móralnum, konur af því þjóðerni klæðast með það fyrir augum að vekja athygli karla og í serbneskum söluturn- um eru seld tímarit með myndum af brjóstaberu kvenfólki. Svo- leiðis nokkuð sést ekki í albönsk- um söluturnum, kvenfólk af því þjóðerni lætur sem minnst á sér bera og er oftast heima. Lífskjörin lélegust syðst Kosovo-Albanir hafa auk ann- ars verið ákærðir fyrir að stefna að sameiningu svæðisins við Al- baníu, en ólíklegt er að margir þeirra vilji það. f Albaníu er stjórnarfar ólíkt strangara en í Júgóslavíu, þar ríkir stalínskur kreddukommúnismi og öll trúar- brögð eru bönnuð. Ekkert af þessu er líklegt til að höfða til Kosovo-Albana, síst það síð- asttalda, þar eð þeir virðast margir vera trúaðir múslímar. Undirrót ólgunnar meðal al- banska þjóðernisminnihlutans í Júgóslavíu er öllu fremur bágur efnahagur og lífskjör. Hvað þetta snertir er Júgóslavía sem sé ekki síður sundurleit en að öðru leyti. Lífskjörin eru best í Slóveníu og Króatíu, þar næst í Serbíu og verst syðst, í Makedóníu og Kos- ovo. Atvinnuleysið á síðarnefnda svæðinu er gífurlegt, samkvæmt einni heimild um 40%. Júgóslavía sem heild á raunar við mikil efnahagsvandræði að stríða, auk mikils atvinnuleysis er mikil verðbólga stórvandamál. Þetta vekur auðvitað ergelsi hjá fleirum en Kosovo-Albönum. Eins og oft vill verða á tímum efnahagslegs vandræðaástands hefur í Júgóslavíu undanfarið borið æ meira á kröfum um „sterka stjórn", og tengjast þær kröfur náið kröfum um að tekið sé í lurginn á Kosovo-Albönum. Kröfurnar um hvorttveggja tengjast náið draumum Serba um aukin völd í ríkinu. Síðan Tito safnaðist til feðra sinna hefur það form verið á æðstu stjórn lands- ins, að lýðveldin hafa skipst á um að útnefna mann í forsetaemb- ætti, til eins árs í senn. Hugsunin á bak við þetta er auðvitað sú að tryggja jafnrétti í raun á milli lýð- veldanna. En sumir telja að með þessu móti verði æðsta stjórnin alltaf veik og á fjöldafundunum í Serbíu er þess nú krafist að fyrir- komulag þetta verði afnumið. Meðal annarra beitir sér fyrir þessu Slobodan Milosevic, leið- togi kommúnistaflokksins í Ser- bíu, og er hann orðinn út á þetta þjóðhetja meðal Serba. Þetta hefur þegar valdið ágeiningi milli kommúnistaflokksins í Serbíu og stjórnvalda, sem óttast að á bak við stefnu Milosevic liggi draumar um að verða „sterkur maður“ og leiðtogi ríkisins til langframa. Þetta gæti valdið af- drifaríkum ágreiningi milli Serba annarsvegar og hinsvegar ann- arra þjóðerna landsins. dþ. 12 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Miðvikudagur 28. september 1988

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.