Þjóðviljinn - 19.01.1989, Blaðsíða 5

Þjóðviljinn - 19.01.1989, Blaðsíða 5
VIÐHORF Stjómarsamstarfið og byggðamálin Hjörleifur Guttormsson skrifar Hvert ár kallar fram sínar minningar í hugskoti einstaklingsins. Flestar eru þær tengdar nánasta umhverfi okkar, ættingjum, vinum og heima- byggð. Þetta breytist ekki þótt fjölmiðlun og tækni færi okkur nær hvert öðru, minnki heiminn eins og sagt er og ætti um leið að auðvelda sýn til allra átta. Viðfangsefni okkar eru yfir- leitt bundin við það samfélag þar sem við lifum og störfum og mót- ast af því. Lýðræðislegt samfélag ætti að bera svipmót einstakling- anna, vera eins konar summa og niðurstaða af verkum þeirra og vilja á hverjum tíma með þeim takmörkunum sem náttúran set- ur. Svo einfalt er málið þó ekki, samfélagsgerðin er orðin ærið flókin og einstaklingnum finnst sem hann ráði litlu um framvind- una. Þetta er ein af þeim hættum sem steðja að samtíð okkar og framtíð. Lítil þátttaka almenn- ings í samfélagslegri stefnumörk- un, innan hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka, veldur því að aðeins fáir taka ákvarðanir og þorri fólks skipar sér á áhorf- endabekki. Fjölmiðlunin hefur ýtt undir þessa þróun. Hún magnar upp fáa einstaklinga og flytur þá inn í stofu á hverju heimili. Heimsókn þeirra örvar ekki heimilisfólkið til dáða heldur veldur miklu fremur firringu og ýtir undir fé- lagslegan doða. „Þeir ráða þessu“, er algengt viðkvæði, og . „það er sami rassinn undir þeim öllum". Fólk telur sig fá nóg af stjórnmálunum í sjónvarpinu og ver tíma sínum í flest annað en starf innan stjórnmálaflokkanna. Þessi þróun er andhverfa lýð- ræðis og vísar á samfélag, þar sem tölvan, vélmennið eða Stóri bróðir ráða ríkjum og kjósa mönnum örlög. Ríkisstjórnaskipti í landsmálum bar hæst á árinu 1988 ríkisstjórnaskipti og þau átök sem voru undanfari þeirra og eftirmál. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sat aðeins í rúma 14 mánuði og verður hennar helst minnst fyrir sundurþykkju og að- gerðaleysi. Hún var stefnulega séð nánast framlenging á fjögurra ára stjórn Steingríms Hermanns- sonar, sem innleiddi hér magn- aða frjálshyggjupólitík og auðhyggju. Lengst af starfstíma þessara ríkisstjórna ríkti hér eins- takt góðæri, sem þorri lands- manna naut vissulega góðs af í einhverjum mæli. Hitt var verra að undirstöður atvinnulífsins fún- uðu í stað þess að styrkjast, mis- skipting óx hröðum skrefum og landsbyggðin tapaði bæði fólki og fjármagni í áður óþekktum mæli. Ríkisstjórn Alþýðuflokks, Al- þýðubandalags og Framsóknar- flokks, sem tók við 28. september sl. var mynduð á skömmum tíma og tók við afar slæmu búi. Það átti jafnt við um atvinnuvegina, ríkisbúskapinn og gífurlegan halla á viðskiptum við útlönd. Ekki var auðvelt fyrir Alþýðu- bandalagið að ganga til þessa stjórnarsamstarfs, og það því fremur sem samstarfsaðilarnir héldu fast við áframhaldandi skerðingu samningsréttar um kaup og kjör. Það mikilvægasta sem gerðist við stjórnarmyndun- ina voru fyrirheit og ákvarðanir um gjörbreytta stefnu í efnahags- og peningamálum. Höfuðverk- efni ríkisstjórnarinnar er sam- kvæmt stefnuyfirlýsingu „að treysta grundvöll atvinnulífsins, stöðu landsbyggðarinnar og undirstöðu velferðarríkis á ís- landi.“ Reynslan af ríkisstjórninni Ríkisstjórnin er um þessar mundir að ljúka sínum hveitbrauðsdögum. Þrátt fyrir að lagt væri upp í óvissu um meiri- hluta í annarri deild Alþingis, fékk stjórnin þann stuðning sem þurfti til að koma fram nauðsyn- legustu frumvörpum vegna tekj- uöflunar. Fjárlög ársins 1989 bera vott um þá þröngu stöðu sem við var tekið og samdrátt í þjóðarbúskapnum. Engu að síður hefur tekist að halda í horf- inu varðandi flesta þætti opin- berra framkvæmda og velferð- armál. Þá er vöm snúið í sókn á nokkrum sviðum með auknum fjárveitingum, m.a. íuppeldis- og menntamálum og á sviði land- græðslu og skógræktar. Á vegum ríkisstjórnarinnar er hafinn undirbúningur að lagabót- um og kerfisbreytingum á mörg- um sviðum í samræmi við sátt- mála flokkanna sem að stjórninni standa. Þar má nefna endur- skoðun á tekjustofnum sveitarfé- laga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Frumvörp um þessi efni hafa m.a. verið send út til allra sveitarstjórna til kynningar og er afar mikilvægt að vandlega verði farið yfir þau efni af hlutað- eigandi. Þessum málum tengjast breytingar á greiðslum úr Jöfn- unarsjóði sveitarfélaganna til að sjóðurinn gegni betur jöfnunar- hlutverki sínu. Mikil lækkun nafnvaxta hefur náðst fram með lækkandi verð- bólgu í kjölfar verðstöðvunar. Raunvextir hafa einnig lækkað dálítið, en þó minna en fyrirheit voru gefin um við stjórnarmynd- unina. Endurreisn fyrirtækja í út- flutningsgreinum, sem komin voru í þrot, er hafin en hefur gengið hægar en að var stefnt. Verulegrar andstöðu hefur gætt innan ríkjandi kerfis gegn hinum nýja Atvinnutryggingarsjóði og hefur stjórnarandstaðan átt þar hlut að máli. Sjóðsstjórnin hefur þó afgreitt umsóknir allmargra fyrirtækja að undanförnu og unn- ið er úr umsóknum annarra. Mikið verk er framundan við að greiða úr þeim ógöngum, sem stefna fyrri ríkisstjórna og að- gerðaleysi stjórnar Þorsteins Pálssonar hafði leitt yfir atvinnu- vegina. Við það bætist fyrirsjáan- legur samdráttur í sjávarafla og uppsafnaður vandi í landbúnaði. Brotalamir og árekstrar Með fáum undantekningum hefur samstarf flokkanna sem að ríkisstjórninni standa gengið þokkalega, a.m.k. á yfirborðinu. Ráðherrum hefur tekist sæmilega til þessa að halda friðinn innbyrð- is og varast stórar yfirlýsingar. Að því leyti er skárri blær yfir starfi núverandi ríkisstjómar en hinnar fyrri, þar sem forystu- menn flokkanna bárust fljótlega á banaspjót í fjölmiðlum. Skoð- anakannanir og ummæli fólks víða um land bera vott um að tal- sverðar vonir eru bundnar við störf stjórnarinnar, m.a. í þágu landsbyggðarinnar. Á tveimur sviðum hefur hins vegar orðið áberandi ágreiningur með stjórnarliðum: í afstöðu til utanríkismála og til erlendrar stóriðju. Formaður Alþýðuflokksins, sem jafnframt er utanríkisráð- herra, hefur m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna tekið af- stöðu til alþjóðamála, sem stríða gegn anda stjórnarsáttmálans og hafa kallað fram hörð mótmæli samstarfsaðila, m.a. frá undirrit- uðum. Ráðherrann hefur hins vegar hlotið lof fyrir frá Sjálf- stæðisflokknum. Annar ráðherra Alþýðuflokks- ins, sem fer með iðnaðarmál, lætur nú vinna að undirbúningi risaálbræðslu í Straumsvík í and- stöðu við stefnu Alþýðubanda- lagsins varðandi erlenda stóriðju og þrátt fyrir eindregin mótmæli þingflokks og ráðherra Alþýðu- bandalagsins í nóvembermánuði sl. í þessu máli er fólgin tíma- sprengja sem sundrað gæti stjórninni eftir fáa mánuði, ef út- lendingarnir leita hér eftir að- stöðu í framhaldi af svokallaðri hagkvæmniathugun. Það er á valdi Alþýðuflokksins, hvort kveikt verður í þessu tundri með því að reyna að knýja fram á- kvarðanir um stóriðjufram- kvæmdir í áður óþekktum mæli og þá með stuðningi Sjálfstæðis- flokksins, sem rær hér undir af fullum þunga. Fyrirheit um leiðréttingar í málefnasamningi ríkisstjórn- arinnar er heitið margháttuðum leiðréttingum fyrir landsbyggðar- fólk til að draga úr vaxandi mis- munun undanfarin ár. Enn sem komið er eru það lítið annað en orð á blaði og landsbyggðarfólkið og þeir sem að ríkisstjórninni standa hljóta að knýja á um efnd- ir fyrr en seinna. Heitið er m.a. ráðstöfunum til jöfnunar á flutn- ingskostnaði og kostnaði við síma, húshitun og skólagöngu. Samkvæmt fjárlögum ársins 1989 er dreifbýlisstyrkur vegna skóla- göngu tvöfaldaður og fyrir þing- inu liggur frumvarp um jöfnun á námskostnaði. Þá hefur sam- gönguráðherra falið Póst- og símamálstofnun að gera tillögur um jöfnun símkostnaðar. Þetta eru spor í rétta átt. í orkukostnaði ríkir enn grófleg mismunun. Fyrir heimil- israfmagn greiða viðskiptavinir Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða 36% hærri upphæð en fólk á höfuðborgar- svæði. Húshitunarkostnaður hjá sömu aðilum er fýrir sambæri- legar íbúðir allt að þrefalt hærri. Á þessum málum verða Alþingi og stjórnvöld að taka til að ná fram jöfnun í gjaldskrám orkuf- yrirtækja. Bættar samgöngur eru undir- stöðuatriði fyrir skynsamlega byggðaþróun og varða jafnt atvinnurekstur og daglegt líf fólksins. Á því sviði er heitið úrbótum, rýmkuðum reglum um snjómokstur og langtímaáætlun um uppbyggingu samgöngukerf- isins að meðtöldum jarðgöngum. Vegamálin verða í brennidepli seinnihluta vetrar í tengslum við endurskoðun vegaáætlunar. Sú ráðstöfun að taka hluta af bensín- gjaldi og þungaskatti til tekju- öflunar fyrir ríkissjóð á þessu ári er mörgum þyrnir í augum og tryggja þarf að slík skattheimta verði ekki endurtekin. Staða landsbyggðarinnar Ekki er deilt um það, að staða landsbyggðarinnar gagnvart höf- uðborgarsvæðinu hefur veikst til mikilla muna undanfarin ár. Fólksfjölgunin í landinu á þess- um áratug hefur mestöll orðið á höfuðborgarsvæðinu og Suður- nesjum. Síðustu 5 árin varð bein mannfækkun sem nam um 800 manns utan Suðvesturlands, þótt blóðtakan sé misjafnlega mikil eftir landshlutum. Á nýliðnu ári fjölgaði lands- mönnum meira en nokkru sinni áður, en óheillaþróunin hélt áfram að því er snýr að lands- byggðinni. Verst er útkoman á Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðurlandi vestra, þar sem íbú- um fækkar um og yfir 1% á sama tíma og fjölgun landsmanna nem- ur 1,8%. Austurland kemur sam- kvæmt bráðabirgðatölum Hag- stofunnar skár út úr mannfjölda- þróuninni en ofangreindir lands- hlutar með 0,5% fjölgun íbúa eða um 67 manns í kjördæminu í heild. Á Austurlandi eru það fyrst og fremst tveir staðir sem bæta við sig: Höfn í Hornafirði 94 manns eða sem svarar 6,3% fjöl- gun íbúa og Egilsstaðir 43 eða 3,2%. Á öðrum stöðum stendur íbúatalan í stað eða um beina fækkun er að ræða, einkum í sveitahreppum. Þá bætist það við þessa mynd, að konur eru nú taldar um 550 færri í kjördæminu en karlar eða um 8%. Einnig sú staðreynd er augljóst hrörnunar- merki, sem á m.a. rætur í ein- hæfri atvinnuþróun. Ég hef ítrekað gert að umræðu- efni þau vettlingatök, sem ein- kenna meðferð byggðamála hér- lendis. Seint og snemma klifa menn á nauðsyn þess að tryggja jafnvægi í þróun byggðar, halda landinu í byggð eða byggðakeðj- unni a.m.k. órofinni. Þetta má lesa með mismunandi áherslum í stefnuskrám og samþykktum allra stjórnmálaflokka, af vax- andi þunga þegar von er á kosn- ingum. Færa má gild rök fyrir því, að vinstri stjórnir hafi staðið sig betur en hægri ríkisstjórnir í að treysta stöðu landsbyggðarinnar, en um þá staðhæfingu verður ekki fjallað nánar að þessu sinni. Það sem máli skiptir fyrir fram- tíð byggðanna er að menn átti sig á að beita verður nýjum aðferð- um í byggðamálum og við mótun byggðastefnu, ef takast á að snúa straumnum við og jafna metin. Kreppuúrræði til þess að tryggja afkomu útflutningsgreina eru ekki byggðamál, heldur aðgerð til að snúa ofan af rangri stefnu í efnahagsmálum og tryggja hagsmuni þjóðarbúsins í heild. Jöfnun á undirstöðuþáttum í op- inberri þjónustu eru ekki byggða- mál heldur sjálfsögð mannrétt- indi, sem ættu að vera viður- kennd samkvæmt stjórnarskrá. Það sem til þarf að koma er svæðisbundið skipulag og að- gerðir úti í kjördæmum landsins til að renna þar stoðum undir lífvænlega þróun á sviði atvinnu- lífs, félagsmála og menningar- mála. Það þarf að skapa skilyrði til að leysa þessi verkefni nær vettvangi úti í landshlutunum í stað þess að ætla að sinna þeim á kontórum í Reykjavík. Til þess þarf félagslega og fjárhagslega aðstöðu í landshlutunum og um- fram allt verður að skapa þar starfsaðstöðu fyrir vel menntað fólk sem áhuga hafi á að vinna að þessum verkefnum. Til að gefa þessum orðum eitthvert inntak minni ég á til- lögur um skiptingu landsins í hér- uð undir lýðræðislegri heima- stjórn sem taki við drjúgum hluta af opinberri stjórnsýslu sem teng- ist héraðinu, sinni svæðisbundn- um verkefnum og ráðstafi til þeirra fjármagni. Ég bendi á hug- myndir um þróunarstofur í lands- hlutunum, sem annist ráðgjöf og rannsóknir í þágu atvinnulífs, skipulags og verkefna hins opin- bera. Og ég minni á nauðsyn þess að umsvifum og arði af utanríkis- versluninni verði deilt niður svæðisbundið, jafnt vegna út- flutnings og innflutnings á vörum til landsins. Það ætti að vera verkefni kjör- inna fulltrúa jafnt á Alþingi og heima fyrir að ryðja slíkri byggðastefnu braut og tryggja henni það atfylgi sem þarf. Hér hefur aðeins verið drepið á örfáa þætti sem lúta að stöðu landsmála og brýnum breyting- um í byggðamálum. Á fjölmörg- um öðrum sviðum er átaks þörf og minni ég þar á varðveislu þjóðmenningar okkar og sjálf- stæðis, jafnréttismál og jafnstöðu kynjanna og síðast en ekki síst umhverfisvernd. Að öllum þessum málum þarf ríkisstjórn sem rísa vill undir nafninu vinstri stjóm að vinna af atorku í sem nánustu samstarfi við almannasamtök og áhuga- hópa. Við skulum vona að ný- byrjað ár skili okkur áleiðis í rétta átt í þessum efnum og auki sam- stöðu með þjóðinni. Austfirðingum og lands- mönnum ölium óska ég farsældar á nýbyrjuðu ári og þakka sam- starf og stuðning á liðnum ámm. Höfundur er alþingismaður. Greinin hefur áður birst í Austur- landi. „Það sem til þarfað koma er svœðisbundið skipulag og aðgerðir úti í kjördœmum landsins til að renna þar stoðum undir lífvœnlega þróun á sviði atvinnulífs, félagsmála og menningarmála. “ Fimmtudagur 19. janúar 1989 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 5

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.