Dagblaðið Vísir - DV - 28.02.1996, Blaðsíða 18

Dagblaðið Vísir - DV - 28.02.1996, Blaðsíða 18
34 MIÐVIKUDAGUR 28. FEBRÚAR 1996 íþróttir Þórir Jónsson, formaöur knattspyrnudeildar FH, um fjármál íslenskra knattspyrnufélaga: „Höfum skotið okkur í fótinn” Þórir Jónsson segir að forystumenn félaganna hafi brugðist og leikmennirnir hafi nýtt sér ástandið til að fá hærri greiðslur. DV-mynd Brynjar Gauti Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með íslenskri knattspyrnu undan- farin ár að peningar skipta þar sífellt meira máli. Leikmenn hafa fengið stöðugt meira fyr- ir sinn snúð en á sama tíma hefur þeim félög- um sem eiga í fjárhagsvandræðum farið fjölg- andi og hvert félagið af öðru hefur þurft að grípa til róttækra sparnaðaraðgerða síðustu misserin. Eitt þeirra er FH sem fyrir tveimur árum var í öðru sæti í 1. deild en leikur í 2. deild í sumar. Þórir Jónsson hefur verið formaður knattspyrnudeildar félagsins um árabil og þekkir því tímana tvenna. DV ræddi við Þóri í gær og spurði hann fyrst hvenær þessi snjóbolti hefði rúllað af stað. „Fyrir árið 1990 var mjög lítið um beinar greiðslur til leikmanna hjá flestum félögum. Það voru kannski einhverjir bónusar, yfirleitt sáralitlir, og síðan fengu aðfluttir leikmenn fyrirgreiðslu varðandi húsaleigu og flutninga. Þetta var búið að ganga svo lengi sem ég man eftir. Um 1990 fór að verða eftir meiru að slægjast. Þá fór þátttaka í Evrópukeppni að hafa í för með sér mun meiri möguleika en áður þekktust og þar var hægt að fá sannkall- aðan lottóvinning. Á þessum tíma var líka mikill uppgangur í ýmsu í þjóðfélaginu. Menn voru fullir bjart- sýni og við áttum greiðan aðgang að fyrirtækj- um. Það var auðvelt að fá styrki og auglýsing- ar, þaö var ekki komin þessi tregða sem nú er á öllum sköpuðum hlutum. Núna hefur harðnað á dalnum, ekki síst eftir að atvinnu- leysið helltist yfir okkur. Viðhorf þeirra sem reka fyrirtækin í dag eru allt önnur en þau voru. Tekjur íþróttafélaga þaðan eru mun minni en áður og það munar gífurlega mikið um það.“ Hefðum fengið 23 milljónir með því að sigra Glenavon „Það fóru allir að keppa um þessi Evrópu- sæti og þennan lottóvinning. Við vorum fullir bjartsýni og ætluðum okkur stóra hluti eins og fleiri. Okkur tókst að ná tilsettum árangri og vorum í Evrópukeppni tvö ár í röð með mjög öflugt lið. En þótt við værum í bæði skiptin með sterkara lið en andstæðingarnir, að okkar mati, náðum við ekki að klára mál- in. Það er alltaf þetta litla ef og ef við hefðum náð að sigra Glenavon í fyrrahaust hefðum við líklega mætt Werder Bremen og það hefði gefið okkur 23 milljónir í sjónvarpstekjur. Við vorum komnir með samning upp á það. Þá hefðum við verið í gífurlega góðum málum og sá samdráttur sem var hafinn hjá okkur væri ekki lengur fyrir hendi. Á sama tíma vorum við að gera bónussamh- inga við leikmenn og borga þeim betur en áður tíðkaðist. Það hefur komið á daginn að það var of mikið.“ Höfum rasað um ráð fram í peningamálunum „Meinsemdin er sú að við höfum rasað um ráð fram í peningamálunum. Við höfum treyst á að þetta reddaðist allt og til kæmu ófyrirséð- ir styrktaraðilar svo að dæmið gengi upp en þeir eru ekki fyrir hendi lengur. Nú verðum við að vera gjörsamlega niöri á jörðinni með alla skapaða hluti og hugsa málin út frá öðr- um forsendum. Þessi kaupmennska hefur gengið út í öfgar og með henni höfum við, forráðamenn félag- anna, verið að skjóta okkur í fótinn. Þegar upp er staðið hefur hún alls ekki verið knatt- spymunni í landinu til framdráttar. Við þurfum í staðinn að fara að byggja fé- lögin upp á allt öðrum forsendum. Byggja þau upp á öflugu og heilsteyptu unglingastarfi svo að allur krafturinn fari ekki í það að halda uppi nokkrum meistaraílokksmönnum sem eru svo kannski fyrstir til að snúa baki við fé- laginu þegar illa gengur eins og dæmin hafa margoft sannað. Hverjir hafa þá setið uppi með vandræðin? Þeir sem stofnuðu til þeirra - við, forráðamennirnir. Ekki leikmennirn- ir,því þeir era löngu famir." Vorum komnir með 16 milljóna króna skuld á bakið - FH hefur þurft að glíma við miklar skuldir að undanförnu. Hvernig gengur sú barátta? „Síðasta hálft annað árið höfum við þurft að súpa seyðið af eyðslunni. Við vorum fullir bjartsýni en dæmið gekk ekki upp og mestall- ur kraftur hefur farið í það að sópa upp skuld- ir fyrri ára. Það hefur verið óskemmtilegt verk en við sem stofnuðum til þessara skulda vorum staðráðnir í að skila af okkur sæmi- legu búi. Það hefur gengið vonum framar; við vorum komnir með 16 milljóna skuld á bakið en í dag er skuldastaðan orðin viðráðanleg og ef við höldum áfram á þessari braut getur knattspyrnudeild FH verið í góðum málum innan nokkurra missera. En það þýðir að við þurfum að fara mjög gætilega í öllum peninga- málum." Létum undan auknum kröfum leikmanna - Hversu dýr hefur þessi útgerð á 1. deildar liðunum verið undanfarin ár? „Kostnaður við að reka meistaraflokk hjá meðal 1. deildar liði hefur verið á bilinu 12-25 milljónir króna. Á meðan hafa leiktekjur far- ið allt niður í 1,8-2 milljónir og auglýsinga- tekjur niður í 2-3 milljónir. Það sér hver mað- ur að svona dæmi gengur ekki upp en fyrir vikið standa mörg félög nú fila peningalega. Það erum við forystumennirnir sem höfum brugðist. Við höfum látið undan auknum kröf- um leikmanna og dansað með þeim. Leik- menn hafa gengið á lagið og nýtt sér ástandið og hugsunarháttur þeirra hefur breyst. Mottó- ið „Hvað get ég gert fyrir félagið?" en ekki „Hvað getur félagið gert fyrir mig?“ ætti að vera öllum leiðarljós og við verðum að koma því inn í íþróttirnar aftur. Margir leikmenn vita ekki einu sinni að þeir eru félagar í félag- inu, þeir líta bara á sig sem leikmenn sem fá einhverja aura fyrir að spila fótbolta. Sumir elta síðan þjálfara út og suður og flakka enda- laust á milli félaga. Svoleiðis getur þetta ekki haldið áfram. Við höfum líka látið undan kröfum þjálfara sem hafa heimtað þennan og hinn leikmann- inn og höfum ekki verið nógu beinskeyttir til að berja í borðið og segja þeim að við ætlum að byggja á þeim leikmönnum sem fyrir eru.“ Sumir hafa fengið milljón eða meira fyrir árið - Hvað hafa félögin verið að borga leik- mönnum? „Það er svo sem allur gangur á því. Sumir hafa bara fengið töskur og galla og einhverja smábónusa en aðrir hafa verið að fá greiðslur sem nema hundruðum þúsunda, jafnvel um og yfir eina milljón fyrir árið, og það eru til dæmi um enn hærri upphæðir. Það hefur verið gengið að kröfum þeirra í einhverju stressi yfir því að þetta yrði að gera og það síðan réttlætt með því að öllu væri borgið ef Evrópusæti næðist. - Er ekki erfitt að snúa við blaðinu og gira sig niður? „Það er auðveldara en margur heldur. En til þess þarf algeran sameiningarmátt félag- anna. Við forráðamennirnir höfum rætt þetta töluvert innbyrðis og það hefur orðið tölu- verður niðurskurður en kannski ekki nægur. Ég er þess fullviss að með meiri umræðu um þessa hluti getur þetta gengið upp. Það þarf að reka áróður fyrir því að félögin ali upp sína leikmenn, sýni þolinmæði ög hætti að reyna að kaupa árangur." Eftir það sem á undan er gengið síðustu árin; hvaða félög standa best að vígi? „í dag eru Skagamenn langfremstir. Þeir eru með öflugt lið, kröftuga forráðamenn og uppbyggingin hefur verið góð. Þeir hafa byggt upp á sínum leikmönnum sem er forsendan fyrir góðum árangri þegar til lengri tíma er litið. Peningalega standa þeir mjög vel að vígi og ef þeim hefði tekist að skora annað mark gegn Raith Rovers í haust, eins og þeir áttu að gera, hefðu þeir náð i 50-60 milljónir í viðbót, ofan á allt annað. Þá væru þeir búnir að stinga öll önnur félög endanlega af. Þeir eru eina félagið sem hefur náð að nýta sér Evr- ópukeppnina nógu vel. Öðrum félögum hefur ekki tekist upp sem skyldi og hafa jafnvel ver- ið að skila árinu með tapi þrátt fyrir þátttöku í Evrópukeppni." KR-ingar ættu að líta sér nær „Margir segja að KR-ingar verði næsta stórveldi en þeir ættu að líta sér nær. Þeir eiga fullt af ungum mönnum, hafa átt íslands- meistara í yngri flokkum árum saman, og ef þeir næðu saman alvöru KR-liði þá myndi verða miklu meiri stemning í Vesturbænum. Valsmenn eiga mikið af góðum og skemmti- legum ungum leikmönnum, sem allt eru Vals- arar, og ef þeir halda þeim gætu þeir komið upp á ný með mjög magnað lið, svipað og á áttunda áratugnum. Þetta er hægt en númer eitt er að við ölum upp okkar eigin leikmenn. Það þarf að snúa dæminu við. Félögin þurfa að sameinast í því að búa til félagsanda á nýj- an leik til þess að þau þjóni tilgangi sínum. Það er betra að vera einhverjum sætum neðar á töflunni og nota sína leikmenn heldur en að vera sífellt að leita yfir lækinn til að kaupa sér árangur. Eins og við FH-ingar gerðum - og margir aðrir.“ Sögðum í haust að við gætum lítið gert fyrir leikmenn „Hjá FH sögðum við í haust að við ættum enga peninga og gætum lítið gert en að við legðum traust okkar á að leikmennirnir skil- uðu liðinu i 1. deild á ný. Þeir fóru með liðið niður, ásamt okkur forystumönnunum. Það hafa margir farið en nú erum við með hóp leikmanna sem eru tilbúnir að berjast fyrir fé- lagið. Flestir þeirra eru FH-ingar og ef ungir félagsmenn fá ekki tækifærið núna þá veit ég ekki hvenær þeir ættu að fá það. Ég hef heyrt á mínum kollegum í hinum fé- lögunum að þeir séu tilbúnir að gira þetta nið- ur. En síðan verða breytingar á stjórnum, inn koma nýir menn, fullir af kappi, sem vilja ná árangri sem fyrst og kannski stytta sér leiðina eins og við höfum margir gert. En það er ekki leiðin, það þarf að gera leikmennina að ábyrg- um félagsmönnum sem taka þátt í uppbygg- ingu klúbbsins. Það er kominn tími til að félögin geri sér grein fyrir hvert stefnir. Aðalstjórnir félaga verða að leggja línuna, félagslega og íþrótta- lega, og það má ekki vera einkamál einhverr- ar deildar að stofna til skulda sem hún er eng- an veginn fær um að standa skfi á. Það vant- ar beinskeyttari íþróttapólitík. Það er kominn tími til að félög verði félög á ný og að leikmenn hafi ánægjuna yfir því að vera í félagi að leiðarljósi. Hér á Islandi getum við ekki rekið atvinnuknattspyrnu, við höfum bara ekki fólksfjöldann í það,“ sagði Þórir Jónsson. -VS

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.