Helgarpósturinn - 13.10.1994, Blaðsíða 18

Helgarpósturinn - 13.10.1994, Blaðsíða 18
18 MORGUNPÓSTURINN VIÐTAL FIMMTUDAGUR 13. OKTÓBER 1994 Gat ekki séð Hagkaup sem endastöð Síðdegisheimsókti hjá Jótii Ásbergssyni, framkvcemdastjóra Útfiuttiingsráðs og áhugarokksöngvara. TEIKNING OG TEXTI: INGÓLFUR MARGEIRSSON Jón Ásbergsson raular My Way þegar hann hellir upp á kaffið í eldhúsinu. Reyndar raular Jón aldrei. Hann syngur lágt en brýnir raustina á áhersluatkvæðum textans: I did it MYYYYY way! Jón hefur alltaf gert hlutina á sinn hátt. Fyrst sem kornungur framkvæmdastjóri fyrir lítilli sútunarstöð á Sauðárkróki, síðan sem framkvæmdastjóri Hagkaups og nú sem framkvæmdastjóri Útflutningsráðs: Ósnobbaður, glaðvær, jarðbundinn og hugsar sjaldnast um peninga þótt hann hafi stjórnað milljónafélögum. Hugur hans er miklu meira bundinn við fjölskylduna; eig- inkonuna Maríu og synina þrjá sem eru n, 15 og 18 ára. „Eg er mikill fjölskyldumaður en geri aldrei mat. Rista stundum brauðsneiðar of- an í liðið,“ segir Jón þegar hann kemur með kaffið tilbúið í bollum og skellir á borðið í sólstofunni í húsi þeirra hjóna í Granaskjóli. í þetta sinn býður hann ekki upp á ristað brauð heldur reiðir fram nið- urskorna brúntertu í smábitum: „Þetta er skúffukaka. Hún er alltaf til þegar tengda- mamma er búin að vera í heimsókn," segir Jón til útskýringar og bætir við að María hafi skroppið á ráðstefnu um siðfræði og barnahjúkrun. Meðan við gæðum okkur á skúffutertu tengdamömmu berst talið að Hagkaup sem Pálmi Jónsson, móðurbróðir Jóns gerði að stórveldi. Hvers vegna stóð Jón fyrir- varalaust upp úr stóli framkvæmdastjóra eins stærsta fyrirtækis á Islandi? „Ég hafði aldrei hugsað mér að byrja að vinna í Hagkaup,“ segir Jón. „Gat reyndar ekki hugsað mér að vinna á þessum fjöl- skyldustað, þar sem systir mín, mágur minn, frændur og frænkur störfuðu. 1 fjöl- skyldunni var eðlilega talað um Hagkaup alla daga og ég hafði eiginlega alveg fengið minn skammt af fyrirtækinu í fjölskyldu- veislum og öðrum mannamótum ættar- innar. Að námi loknu fór ég fljótlega norð- ur til Sauðárkróks og tók þar við sútunar- verksmiðju sem Pálmi móðurbróðir minn og fleiri áttu. Þar unnu í lokin um 50 manns og þar fékk ég mína eldskírn sem framkvæmdastjóri. Ég var í upphafi eins manns skrifstofa á Sútunarstöðinni Loð- skinn: Sleikti frímerki, fór í sendiferðir, sá urn bókhald og greiddi laun. Það var reyndar stundum erfitt og um mörg mán- aðamót var ég með magapínu hvort ég ætti fyrir launum. Það er mikil ábyrgð að vera með fólk í vinnu, sérstaklega þegar illa gengur hjá fyrirtækinu. Ég sló lán hjá bankastjórum út á andlitið á sjálfum mér og fór allan þennan venjubundna íslenska fyrirtækjahring: Niður, upp, niður og loks upp á ný.“ Jón fær sér kaffisopa til að lina þjáningu endurminninganna: „Maður var stundum þaninn á taugum. I’egar verst gekk treysti ég mér varla til að fylgjast með fótbolta- leikjum í sjónvarpinu til að bæta ekki ofan á spennuna. Annars líkaði okkur mjög vel fyrir norðan, bjuggum þar í tíu ár og eigum þar marga góða vini og kunningja. Ég er meira að segja enn með mín eigin banka- viðskipti í Búnaðarbankanum á Króknum og þekki þar held ég flesta starfsmennina.“ Jón segist hafa verið undrandi þegar Pálmi móðurbróðir hans hafði við hann samband norður og bauð honum fyrir- varalaust framkvæmdastjórastarfið hjá Hagkaup á miðju ári 1985: „Ég hugsaði málið í smátíma. Þótt ég hafi haft fyrirvara á að starfa svona náið daglega með stórum hluta fjölskyldunnar, þá var erfitt að hafna boði um að gerast framkvæmdastjóri hjá einu stærsta fyrirtæki á landinu. Þetta var auðvitað tilboð sem ekki var hægt að hafna." Jón brosir þegar hann minnist þessara umskipta í lífi sínu. „Það var ekki litið stórt á mann sem hafði rekið fyrirtæki úti á landi. Mörgum kunningjum, sem höfðu verið í viðskiptafræðinni með mér í Há- skólanum og voru komnir í ágæta stóla at- vinnulífsins í Reykjavík, þótti lítið leggjast fyrir kappann að hafa farið út á land að stjórna einhverjum krummaskuðsbisness. Eitt af því fyrsta sem ég breytti hjá Hagkaup var að láta fyrirtækið taka við greiðslukort- um frá viðskiptavinum en það hafði ekki tíðkast áður. Okkar aðalviðskiptabanki var Búnaðarbankinn og þegar við hófum við- ræður við bankann um greiðslukortavið- skipti, var þáverandi bankastjóri, Stefán Hilmarsson, mótfallinn þessum hugmynd- um og sagði umbúðalaust: „Við látum ekki þennan jólasvein að norðan neitt ráða þessu!“ Jólasveinninn að norðan fékk hins vegar sínu fram og velta fyrirtækisins tvöfaldaðist á skömmum tíma. Jón tók við fram- kvæmdastjórn fyrirtækisins á sama tíma og Pálmi og synir hans stóðu í ströngu við að byggja Kringluna: „Ég rak Hagkaup sent fyrirtæki meðan Sigurður Gísli og Pálmi stóðu í byggingaframkvæmdunum. Fyrir- tækið óx og dafnaði á þessum tíma, við opnuðum útibú hér og þar og veltan jókst á þessum árum. Það var lærdómsríkt að taka við stjórn Hagkaups. Það var sterk fyrir- tækjahefð í Hagkaup og hún byggðist í kringum Pálma. Starfsfólkið bar ótakmark- að traust til hans og sýndi honum og fyrir- tækinu tryggð og samstöðu. Hin innri sam- staða fýrirtækisins var mikilvæg í hinni vaxandi samkeppni sem við fengum eink- um frá Miklagarði og Fjarðarkaupum. Mönnum hættir oft til að gleyma að smá- sala er alltaf barningur. Við vorum að velta 10 milljörðum á ári en hagnaðarvonin var kannski eitt prósent. Samkeppni fyrirtækja eru líkt og keppnisíþróttir; það er mikil- vægt að eiga keppinaut. Við hann miðast allt. Andstæðingurinn er sterkur mótandi kraftur sem kallar fram allt það besta og sterkasta í sjálfum þér. Um tíma var' það mikilvægasta að keppa við Miklagarð en þegar hann tók að daprast sem andstæð- ingur og var orðinn veikburða, kom Bónus eins og himnasending og veitti okkur harða andstöðu.“ Og nú hleypur Jón fram til að hlusta á elsta soninn sem er að koma heim úr menntaskólaferð. egar Jón keniur aftur inn í sólstofuna höldum við áfram að tala um Hagkaup. „Það sat alltaf í mér að ílendast ekki í Hag- kaup. Ég gat ekki séð Hagkaup sem enda- stöð á starfsferlinum, enda átti ég engra beinna hagsmuna að gæta sem eignaraðili eða svoleiðis, þó ýmsir hafi ályktað svo. Eft- ir að Pálmi dó urðu ákveðin kaflaskipti í fyrirtækinu og mér fannst kominn tími til að hrökkva eða stökkva. Ég var jú búinn að vera framkvæmdastjóri í átta ár og hættur að yngjast. En í þessu var engin dramatík eða spenna. Ég hætti þarna í mesta bróð- erni við eigendur og samstarfsfólk." Á þessum tímamótum losnaði staða framkvæmdastjóra Útflutningsráðs. Ný stjórn tók við 1993 og tók að leita að fram- kvæmdastjóra. Nánustu vinir Jóns vissu að hann var að velta fyrir sér að færa sig um set og hin nýja stjórn sýndi Jóni áhuga. Til að gera langa sögu stutta: Jón sló til og gerðist framkvæmdastjóri Útflutningsráðs. Jón neitar að þetta hafi verið skref út í pól- itík: „Ég var að vísu varaþingmaður Sjálf- stæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra í lok áttunda áratugarins. En það stóð skammt. Hins vegar er það svo að þeir sem hafa tekið þennan vírus, losna aldrei við hann. En ég er ekki á leiðinni út í pólit- ík.“ Og aftur að Útflutningsráði. „Útflutningsráð er blanda af ráðgjafa-, fræðslu- og kynningarfyrirtæki,“ segir Jón og bætir við að þar vinni 16 manns, þar af þrír erlendis: „Það eru tvær skrifstofur er- lendis; ein í New York, ein í Berlín og verið að leggja drög að skrifstofu í Moskvu.“ Útflutningsráð er sjálfseignarstofnun en heyrir stjórnunarlega undir utanríkisráðu- neytið. Ráðið er fjármagnað með svoköll- uðu markaðsgjaldi, sem lagt er á alla virðis- aukaskylda starfsemi í landinu. Það gefur rúamr 80 milljónir í tekjur árlega. Jón harðneitar að Útflutningsráð sé gagnlaust ríkisapparat: „Við erurn fyrst og fremst að kenna íslenskum fyrirtækjum markaðs- setningu á erlendri grundu. Kenna þeim að búa til gjaldeyri. Ég get nefnt þér fjölda dæma urn íslensk fyrirtæki sem notið hafa okkar ráðgjafar og fræðslu og stóreflt stöðu sína á erlendum markaði. Við kennum mönnum að markaðssetja en ekki selja. Markaðssetning er langtímaverkefni sem krefst skipulagningar, úthalds og þraut- seigju en gefur á endanunt hámarksárang- ur. Munurinn á sölu og markaðssetningu er eins og brandarinn um ungnautið og gamla bolann sem virtu fyrir sér hóp af kúm. Ungnautið stakk upp á að þeir hlypu niður brekkuna og skelltu sér á eina belj- una. Gamli bolinn sagði hins vegar: „Við skulum labba og taka þær allar.“ Þetta er munurinn á sölu og markaðssetningu,“ segir Jón og stekkur ekki bros á vör. Talið heldur áfram að Útflutningsráði og Jón er spurður að því hvað sé svona spennandi við að vera framkvæmdastjóri þar á bæ. „Það er gaman að setja sig inn í ný verk- efni,“ segir Jón og slær út með höndinni. „Ég þurfti að setja mig inn í annan heim sem mér fannst mjög spennandi. Þarna vinnur ungt og metnaðargjarnt fólk sem er vel menntað. Unga fólkið í dag er opnara og meðvitaðra um nauðsyn árangurs i við- skiptum en mín kynslóð er. Það eina sem plagar mig er að geta ekki fylgst fullkom- íega með árangrinum. Eðli málsins sam- kvæmt er Utflutningsráð ráðgjafafyrirtæki og þar af leiðandi sjáum við ekki árangur okkar starfa til fulls. I Hagkaup töldum við upp úr kössunum á kvöldin. Hér er það ekki hægt. Þess vegna er ekki hollt fyrir Út- flutningsráð að yfirmaðurinn sé þar lengi. Ég get hugsað mér að framkvæmdastjóri Útflutningsráðs eigi að starfa í svona 5 til 6 ár. Eftir það fer hann að sofna á verðinum." En hvað með Jón sjálfan? Er hann að sofna á sínum verði? Er ekki allur lífsneisti farinn úr lífinu þegar maður hættir að reka eitt stærsta samkeppnisfyrirtæki landsins og sest í stól ráðgjafafyrirtækis á vegum rík- isins? Jón hlær. „Þegar ég kom að Útflutnings- ráði átti að leggja það niður. Ráðið var fjár- magnað þannig að það hlaut ákveðið hlut- fall af aðstöðugjaldsstofni. Þegar aðstöðu- gjaldið var lagt niður varð ráðið skyndilega tekjulaust. Mitt fyrsta verkefni var að finna nýjan tekjustofn. Það var reyndar hug- mynd Þórarins V. Þórarinssonar, fram- kvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, að ráðið fengi þetta markaðsgjald. En tölum um spennuna í starfinu. Það er spennandi að taka þátt í þeim breytingum sem nú standa yfir í íslensku atvinnulífi. Það er mín sannfæring að þjóðin verði að fá meiri virðisauka út úr atvinnulífinu. All- ar þróaðar þjóðir reyna að keppa á mörk- uðum þar sem hráefnið sem slíkt og launa- kostnaðurinn skipta sem minnstu máli en þekkingin, hönnunin, hugvitið eða mark- aðssetningin skipa vörunni einhvern sér- stakan sess. Sama á við urn þjónustugrein- arnar. Hvað þarf hér til? Jú, nægilegan stór- an og kröfuharðan heimamarkað, öfluga samkeppni rnilli fyrirtækjanna og menntað vinnuafl. Þessar forsendur höfum við í sjávarútveginum, orkugeiranum, heilsu- geiranum og ferðamannaiðnaðnum. Þessar starfsgreinar vil ég gera að kjörsviðum ís- lensks atvinnulífs. Tökum fiskinn sem dæmi. Það er ekki nóg að selja fiskinn sem hráefni; við verðum að fá meiri virðisauka út úr öllum greinum sjávarútvegsins og stoðgreinum hans, út úr vélum sem við hönnum, fiskvinnslunni, viðskiptum með fisk út um allan heim, vísindarannsóknum og svo framvegis. Við verðum að nálgast hinn endanlega neytenda miklu meir. Það er vond þróun að gera ísland að hráefnisút- flytjanda á fiski og halda launum niðri. Við verðum að selja þekkingu okkar, ekki bara handavinnu. Við þurfum að fullnýta fisk- inn, hafa alla þræði vinnslunnar og mark- aðssetningarinnar í okkar höndum og hækka launin á íslandi. Láglaunastefna kann aldrei góðri lukku að stýra. Og það er spennandi að Útflutningsráð hefur gert þessi mál að metnaðarfullu verkefni. Hef- urðu til dæmis velt því fyrir þér að Islend- ingar eiga ekkert vörumerki á almennum neytendamarkaði erlendis nema Ice- landair? En nú nenni ég ekki að vera gáfaður lengur. Komdu fram í stofu og syngdu með mér eitt rokklag.“ Og rneðan við göngum fram í stofuna þar sem hið lúna en velnýtta píanó hús- bóndaris stendur upp við vegg, segir Jón mér að hann hafi engin hefðbundin áhuga- mál forstjóra; kunni ekki að veiða lax, og golf sé framandi orð í hans eyrum. „Ég er hræddur um að ég sé fremur óhefðbund- inn framkvæmdastjóri. Hef líklega aldrei náð mér á strik í þessum efnum frá því ég missti af fermingargjöfunum í gamla daga. Ég bjó í Danmörku á fermingaraldrinum. Ég sveikst hins vegar undan að mæta til prestsins sem hélt í einfeldni sinni að þessi íslenska fjölskylda tilheyrði sértrúarsöfn- uði. Þegar allt komst upp var orðið of seint að undirbúa mig fýrir fermingu. Svo það varð aldrei úr að ég fermdist. En ég hef boðið sonum mínum öllum að fermast með þeim. Það hefur hins vegar fengið mjög dræmar undirtektir. Ég hef einnig boðið vinapari okkar, sem hafa lifað saman ógift í 25 ár, að ferma mig með þeim ef þau giftast. En þau hafa heldur ekki tekið því tilboði. Hvað segirðu um Good Luck Charm?“ Og Jón sest við píanóið og slær fýrstu hljómana að hinum gamla slagara Presleys áður en þanin tenórröddin fýllir stofuna. ■

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/286

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.