Vísir - 08.11.1975, Blaðsíða 7

Vísir - 08.11.1975, Blaðsíða 7
VÍSIR. Laugardagur 8. nóvember 1975. 7 HAUSTSKIP mBék um hino „týndu W þióð" eftir Björn Th. Á þriðjudag kem- ur út hjá Máli og menningu bókin Haustskip eftir Björn Th. Björns- son. Þegar höf undur vann að gagnasöfn- un í bókina „Á ís- lendingaslóðum í Kaupmannahöfn'' rakst hann á þræla- skrár, skjöl og bréf, sem f jölluðu um ör- lög íslenskra manna, sem sendir höfðu verið utan til að afplána lífstíðar- dóma. Á þessa menn höfðu verið bornar sakargiftir af hand- löngurum danska konungsvaldsins á . Islandi, sakargiftir sem nú má telja lítilvægar. Þau gögn, sem höfundur notar hafa ekki verið notuð áð- ur í íslenskri sagn- ritun, og munu margar niðurstöður höfundar koma al- mennum lesanda á óvænt. Þau fylla tóm í örlagasögu þjóðarinnar. í bókinni er dregin fram saga tæplega 200 manna, sem sendir voru með haustskipum í danskan þrældóm. Slóðir þessara manna liggja um allt fsland, um Kaupmannahöfn og loks norður á Finn- mörk, þangað, sem allir eftirlifandi fangar voru fluttir nauðugir vorið 1763. Þetta er saga þjóðarinnar týndu. — Blaðið hefur fengið leyfi höfund- ar til að birta einn kafla úr bókinni. — Hann fer hér á eftir. — ÁG. Frá þeim degi sem þeir tálknfirðingamir Landbjartur Jónsson og Sigmundur komu saman í Stokkhúsið, hafa þeir verið likt og sam- spyrtir. Það sem annar sagði, það sagði hinn, það sem annar gerði, það gerði og hinn. Það var eins og þeir fyndu öryggi aðeins í einu: samfylgdinni. Þeim lagðist það og til, að fá sama fletið að liggja á, og saman voru þeir daglangt látnir ganga að því starfi að sandskúra gólfin í vaktskálunum, bera út úr kömrum, sópa plássið með löngum hrísvöndum, bera út ösku og matarúrgang úr eldhúsi. Því var það, að þótt þeir væru eins og aðrir ærulausir jámamenn dæmdir upp á vatn og brauð fyrsta árið, sá ekki á holdum þeirra: mörg matarholan leyndist í skarninu. Og þar hefur sjálfsagt feigðin leynzt með. Þegar hitna tók í veðri sumarið þeirra þriðja, 1753, fór fyrst Landbjartur að fá blóðuppgang og óstöðvandi afgang til kviðarins, og litlu síðar Sigmundur; einnig í þessu fylgdust þeir að. Þegar sýnt var að hverju leiddi um Landbjart, voru söguð af honum járnin og hann fluttur í lasarettið. Þegar menn voru komnir frá vinnu kvöldið þess 18. júní og búnir að fá baunagrautinn í skálina sína, kallaði plássmajórinn þá íslendingana, Þorleif Jónsson, Jón Björnsson, Björn Guðmundsson og Þorleif Þórðarson fyrir sig og sagði þeim, svo þeir skildu, að þeir ættu um kvöldið seint að bera lík. Saman gengu þeir inn í stokkinn til Sigmundar, þar sem hann lá grár og dreginn undir tuskunum, og sögðu honum tíðindin: að nú væri Bjartur búinn að snúa upp tánum. Starandi augnaráð hans breyttist ekki langa stund, svo herpti hann augun saman og sneri með erfiðis- munum höfðinu undan. Þótt næturbirtan í Danmörku undir Jónsmessuna sé ekkert lík því og heima, verður þar samt ekki aldimmt. Það var vel ratljóst, og dökk slóð þeirra greinileg í dögginni, þar sem hún bugðaðist milli hávax- inna hvanna og njólastóða utan við virkisgarðana, og hvíta baldurs- brána lýsti upp í húminu. Það er þar sem nú síðar heitir Östre Anlæg, og þar sem enn má sjá tenntar hæðir virkisveggjanna og síkin. Þeir stefndu í rétt norður yfir þessa grænu órækt, báru líkið milli sín í strigadúk, kaðalreipi hnýtt í hvert skautið og því brugðið um herð- arnar. Líkið var einnig sveipað í samskonar striga. Spölkorn á undan þeim gekk vörðurinp með flyntu sína og pístól, annar á eftir, en milli hans og þeirra hökti Sigmundur og reyndi að halda í við þá. Það er æðispölur að bera lík úr Stokkhúsinu og norður í þrælareit- inn við Garnisonskirkjugarð. Þegar drepsóttin mikla lagði nær þriðj- ung Kaupmannahafnarbúa að velli árið 1711, urðu gömlu garðarnir umhverfis kirkjurnar í bænum allt of jrröngir. Þá var það tekið til ráðs að vígja nýja og stóra garða utan borgarveggjanna. Hólmsins kirkja fékk sinn garð úti við Svartasjó, Frúarkirkja fyrir utan Norður- port, og Garnisonskirkjan eða Den Herre Zebaoths Kirke á engjunum fyrir norðan Austurport. Og þar sem Stokkhúsið var í sókn hennar, var tekin af spilda fyrir þrælareit. Þar var síðar, á jressari öld, stofnað- ur hundagrafreitur. Þegar komið var inn í reitinn, lögðu þeir líkið frá sér. Vörðurinn opnaði með lykli stóran járnsleginn kassa og benti þeim að taka sér rekur og pikk; markaði síðan fyrir gröfinni. Alla leiðina hafði ekki orð verið sagt, og heldur ekki nú, meðan þeir grófu. Farið var að elda um austurloftið þegar þeir loks voru búnir. Þá tóku þeir upp lík- ið milli sín í striganum, létu það síga til botns og drógu síðan undan því. Vörðurinn gekk að grgfarendanum og mælti nokkur snögg orð, að heyra á þýzku, sló krossmarki yfir og benti þeim að moka. Þá var það sem Sigmundur haltraði fram og stjakaði við þeim, tók ofan hettuna, og svo þeir allir, einn og einn, og byrjaði með mjórri titrandi röddu að syngja úr Kross-skólasálmum þetta: Kristin sála! hér kom og sjá, Krossinn þér leggur Guð uppá. Af elsku sinni, í ást og trú, Ekki reiði, sem meinar þú. Miskunn hans til þín meiri er, Mótgang þegar hann sendir þér. Þorleifur Jónsson reyndi að fylgja honum, en kunni trauðlega orð- in; hinir lutu höfði að gamulli venju. Þegar búið var, skein orðið á þá morgunsólin og glitraði lítið eitt á votum og gráum vanga tálkn- firðingsins. „Landbjartur" sagði hann, „Landbjartur minn“; signdi síðan gröfina og sjálfan sig. Þeir studdu hann milli sín heimeftir og vissu svo vel sem hann sjálfur, að hann yrði næsti burður þeirra norður um njólastóðin og heimuluna. Hann entist þó fram úr allri ætlun, og það var ekki fyrr en í fimmtu viku vetrar sem þeir fluttu hann og grófu. Þannig fylgd- ust jæssir vinir, Landbjartur og Sigmundur Jónssynir tálknfirðingar, jafnt að í þjáningum sínum og þrældómi sem á veginum þaðra.

x

Vísir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísir
https://timarit.is/publication/54

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.