Lesbók Morgunblaðsins - 08.05.1955, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 08.05.1955, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 255 rétthárra manna og ber það því einkennilegan nútímablæ í allri forneskju sinni. Tiltölulega lítið ber á ættarkenndinni, en gildi vinátt- unnar er dregið því skýrar fram. Kristinna áhrifa gætir hvergi. Allt miðast við þetta líf. Heiðin frjáls- hyggja ríkir í öllu kvæðinu. Höf- undur þess hefur verið heiðinn „libre penseur." Hvaða eiginleikar koma lang- ferðamanni að beztu haldi í ókunn- um aðstæðum? Honum er framar öllu þörf vits og mannvits: 5. v. Vits er þörf, þeim er víða ratar; dælt er heima hvat; at augabragði verðr, sá er ekki kann ok með snotrum sitr. 10. v. Byrði betri berr-at maðr brautu at en sé mannvit mikit; auði betra þykkir þat í ókunnum stað; slíkt er válaðs vera. Heima eru manninum allar aðstæð- ur kunnar, þar þekkir hann allt og alla; þess vegna er allt auðvelt heima. Hins vegar eru þessar fá- breyttu aðstæður lítt fallnar til þess að örva manninn til athugun- ar og íhugunar og glæða vitþroska hans. Á vit og hyggindi mannsins reynir mest í ókunnum aðstæðum. Þá duga honum ekki lengur hálf- dulvituð venjukerfi eins og í heima- högunum, heldur verður hann að halda athyglinni sívakandi og hugsa sig um við hvert fótmál. Því meira mannvit sem hann hefur, því betur tekst honum að laga sig eftir óvæntum og ókunnum aðstæðum og ráða fram úr þeim. Þessi um- gerð ber vitni næmum sálfræðileg- um skilningi, og á höfundur Háva- mála hér samleið með nútíma sál- fræðingum. Ég minni hér á skýr- greiningar tveggja frægra sálfræð- inga á skynseminni, þeirra Ed. Claparédes og W. Sterns, en kjarna þeirra má orða á þá lund, að skyn- semisstarfið sé fólgið í sálrænni aðlögun að nýjum aðstæðum, eða að skynsemin sé hæfileiki til að ráða fram úr nýjum viðfangsefn- um með aðstoð fyrri reynslu. Þótt skýrgreining þessi sé að sjálfsögðu ekki fullnægjandi, er samt víst, að hún dregur fram einn meginþátt skynsemisstarfsins, einmitt þann sama þátt, sem skýrast kemur fram í Hávamálum. Hið mannlega er höf. Hávamála ávallt efst í huga. Þess vegna fjallar hann nær ein- göngu um ákveðna tegund nýrra aðstæðna, og raunar þá torveldustu að ráða fram úr. Samskipti manna, hinar félagslegu og menningarlegu aðstæður. Hávamál ráða gestinum framar öllu til varúðar: 1. v. Gáttir allar, áðr gangi fram, um skoðask skyli, um skyggnask skyli, því at óvist er at vita, hvar óvinir sitja á fleti fyrir. 7. v. Inn vari gestr, er til verðar kemr, þunnu hljóði þegir, eyrum hlýðir, en augum skoðar; svá nýsisk fróðra hverr fyrir. Gesturinn er eftirvæntingarfullur. Þótt óvinir sitji ekki fyrir honum á fleti, veit hann ekki, til hvers konar manna hann er kominn. Með varúð verður hann að þreifa fyrir sér, bíða þess að í ljós komi, hverja virðing húsráðandi vill leggja á hann. Húsráðandi á hins vegar að sýna gestinum nærgætni. Þreyttur, kaldur og hrakinn langferðamaður þarfnast elds, matar, þurra klæða, vatns til að þvo sér úr, og síðast en ekki sízt: alúðlegs viðmóts, sem getur af sér vingjarnlegt og fróð- legt samtal húsráðanda og gests. Varúðin, sem er náskyld hófsemi ------------------------------3 og háttvísi, kemur fram í ýmsum myndum: Maður skyldi ekki láta mikið yfir sér, hafa góða stjórn á geði sínu, orðum og æði. Sá, sem kann sig ekki og hefur ekki taum- hald á sér, verður ýmist til athlæg- is eða hann egnir aðra gegn sér. Vitur maður er orðvar, en óhygg- inn maður lausmáll og ógætinn í orðum, og hefur áður en hann sjálf- an grunar sagt ýmislegt það, sem særir aðra. Sakir alls þessa lendir hinn gætni, vitri maður sjaldan í óhöppum, en hinn óvitri er mesti hrakfallabálkur. Öruggasta athvarf mannsins er hans eigið mannvit, sem gerir hann að sjálfstæðum, óháðum persónuleik. Alls staðar eru hér höfð í huga mannleg sam- skipti, en ekki glíma mannsins við náttúruna. Eftir því sem ég fæ bezt séð, er manngildið samkvæmt Hávamál- um að verulegu leyti fólgið í því, sem höfundur þeirra kallar mann- vit. Ég mun nú reyna að rekja helztu merkingarþætti þessa hug- taks eins og það kemur fram í Hávamálum. Mannvit merkir í fyrsta lagi mannsvit, gagnstætt dýrsviti, þ. e. eðlisgerð og starfs- hætti þess vits, sem maðurinb hef- ur fengið í vöggugjöf og hverjum einstaklingi er áskapað í misjöfn- um mæli. Vitið er ásköpuð náttúru- gáfa eða afl, sem býr með mann- inum. En í hugtakinu mannvit felst meira. í því felst jafnframt rétt beiting vitsins við öll vandamál og viðfangsefni lífsins, rétt tök þess á að stjórna hvötum vorum og skapi í umgengni við aðra menn. Vitur maður er ekki illa skapi farinn. í þessu atriði ber Hávamálum að mestu saman við hina miklu forn- grísku heimspekinga og ótalmarga aðra. Ég minni hér á hin frægu orð Decartes: „Ce n’est pas assez d’avoir l’esprit bon, mais le princi- pal est de l’appliquer bien“: Það er ekki nóg að vera góðum gáfum

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.