Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.1957, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.1957, Blaðsíða 2
94 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS fengið einkaleyfi til verslunar á öllu landinu. Varð það fljótt mjög illræmt. Það flutti inn svikna vöru: svikið járn, mjöl kvikt af maurum og mjölið stundum flutt í óhreins- uðum síldar- og salttunnum, og brennivín blandað sjó, en rifið og fúið timbur. Á hinn bóginn sveik það svo íslendinga á vog, „því að reislan var bogin og lóðið var lakt“. Stundum sveikst það um að senda skip til landsins, eins og því bar. Þess vegna var það á 700 ára af- mæli Alþingis (1630), að mönnum þótti þinghaldið dauft, því að þar var ekkert öl, vegna þess að skip höfðu ekki komið. Sumarið 1631 kom út nýr versl- unartaxti og var hann harðari en hinn fyrri hafði verið. „Báðu ís- lendingar þar vægðar á, og sögðu harðindi hafa á legið um 7 ár, og fyrir því væri kvikfénaður, er landsmenn skyldu fæðast á, allvíða fallinn hrönnum af óárum, þar með leggist fiskur frá landinu og önn- ur aflabrögð fari svo minnkandi, að menn hafi af hungri dáið á þeim árum, helzt fyrir norðan og aust- an, og kváðu enn áhorfast til meira áfellis“. Holger Rosenkranz var þá höfuðsmaður, en hann var ekki hér á landi, því að skip það, er hann var á, hafði lezt við Noreg. En umboðsmaður hans tók ekki í mál að bera þessar kvartanir ís- lendinga fyrir konung. — Það er ekki ofsögum sagt í bænarskránni, að harðindi hafi legið á um sjö ár. Miklu fremur hefðu þeir getað talað um 30 ára harðindi, því að þau byrjuðu með öldinni. Fyrsti vetur hennar var almennt kallaður Lurkur og var aftaka harður. Næsti vetur var kallaður Píningsvetur og 1604 var kallað Eymdarár. Á þess- um þremur árum fellu 9000 manna úr hor og harðrétti. Svo kom hver harðindaveturinn af öðrum þar til 1614, en sá vetur var kallaður Svellavetur. Veturinn 1627 var kallaður Frostaharðindisvetur og veturinn 1630 var kallaður Jökul- vetur og svo kom Hvítivetur 1633 eins og áður er sagt. Ofan á hörmungar þessara ára bættust svo jarðskjálftar og eldgos. 1613 voru miklir jarðskjálftar syðra og fell þá bærinn Fjall á Skeiðum. 1624 voru aftur miklir jarðskjálftar og fellu þá tveir bæir í Flóa. 1630 voru miklir jarðskjálft- ar. Segir séra Magnús í Laufási að þá hafi margir bæir hrunið nærri Skálholti og hafi þar farizt nokkr- ir menn og fénaður, en hræðilegar gjár hafi þá myndazt þvert yfir vegi, svo þeir urðu ófærir. Árin 1632 og 1633 voru enn jarðskjálft- ar, og seinna árið hrundu bæir í Ölfusi; „svo voru hræringar þess- ar tíðar, að messufall varð á mörg- um kirkjum allan þann vetur.“. Árið 1625 gaus Katla og var það eitt af mestu gosum hennar. Þá fóru 14 jarðir í eyði að mestu í Skaftafellssýslu, en gífurlegt ösku- fall varð um allt Austurland, og barst askan meira að segja til Nor- egs. Árið 1636 gaus Hekla með miklum umbrotum og stóð gosið frá því í öndverðum maí og langt fram á vetur. Þrettán eldar voru í fjallinu og fylgdi öskufall og myrkur. Um veturinn fell fénaður. Eftirminnilegasta áfallið var þó herhlaup Serkja hingað 1627, eða Tyrkjaránið svonefnda. Það vakti slíka skelfingu meðal þjóðarinnar, að hún bjó að því fram undir sein- ustu aldamót. Hallæri gleymdust, en óttinn, sem þessi innrás vakti í brjósti þjóðarinnar, entist henni lengi og yfirgnæfði allt annað. En nú er frá því að segja, að þetta sama sumar, er Ólafur Pét- ursson umboðsmaður höfuðsmanns neitaði að bera fram bænarskrá íslendinga, þá sigldi Gísli Oddsson til þess að taka biskupsvígslu. — Hann tók að sér að koma bænar- skránni á framfæri við konung og lét hana „aldrei ganga sér frá hendi þótt þess væri margvíslega leitað af öðrum, þar til hann fekk færi á að bera hana fyrir konunginn Kristján fjórða." Sumarið eftir kom svo konungsbréf um að nýi taxtinn skyldi afnuminn og sá gamli gilda áfram. Jafnframt var íslendingum strengilega bannað að eiga skifti við nokkrar aðrar þjóð- ir, og enskum skipum bannað að liggja við ísland svo að menn glæptust ekki á að versla við þau. Á fyrstu 40 árum 17. aldar fell fólk úr hungri á hverju ári. Svo gekk bóla tvisvar og var mann- skæð í bæði skiftin, en þó sérstak- lega 1616. Voru og fleiri landfar- sóttir, sem lögðu menn í gröfina. En það var einkenni bólunnar eins og áður, að það var eins og hún veldi úr fólk á bezta aldri. Segir Hannes biskup því, að hún hafi orðið landinu hættulegri heldur en hallærin, því að í hallærum deyi fyrst veiklað fólk og gamalmenni, en bólan taki kjarnann úr þjóðinni. — Á þessum árum var og meira um sjóslys heldur en áður. Virð- ist það hafa verið segin saga, að mest kvað að sjóslysum á harð- indaárum, og er sennilegasta á- stæðan sú, að úr sjómönnunum hafi svo verið soginn mergur og þróttur, að þeir hafi ekki verið færir um að heya baráttuna á sjón- um, og ekki ætlað sér af. Enn var það fleira, sem þjáði þjóðina um þessar mundir, og er ill löggjöf þar áreiðanlega þyngst á metunum. Um þessar mundir hefst galdrabrennuöldin. Voru það lög í Danmörk, að brenna skyldi galdramenn, og var farið að dæma eftir þeim hér. Fyrsti maðurinn var brenndur norður í Eyafirði 1625, Jón Rögnvaldsson, bróðir Þorvalds skálds á Sauðanesi. Þá var þar sýslumaður Magnús Bjömsson á Munkaþverá, sonur Björns sýslumanns Benediktssonar *

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.