Lesbók Morgunblaðsins - 17.10.1965, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 17.10.1965, Blaðsíða 6
KOMIÐ VIÐ Framhald af bls. 4 buskann, þegar þess þurfti, en bóndinn átti sjö dætur. — Og þér hefur litizt betur á eina en aðra? — Já, ég var mest skotinn í þeirri, sem var gift. Það er alltaf eitthvert ólánið. — En svo ferðasögunni sé haldið áfram? — Þegar ég var kominn svona langt, til Danmerkur, vissi ég um marga, sem ætluðu suður, en sjálfur hugðist ég fara til Englands. Ég hitti þá Jón Dúason og sagði hann mér að eiga ekkert við það. Það væri svo dýrt að lifa þar, svo að mér datt í hug að eyða peningunum í að fara til Rómar og sjá mig þar um. — Hvað sögðu nú menn hér heima um slíka ráðabreytni? — Þeir urðu hálfhissa, að ég skyldi leggja út í þetta. Á þeim árum mátti aldrei eyða eyri í nokkurn skapaðan hlut. En ég hef aldrei séð eftir því að fara. Það var hið eina skynsamlega, sem ég hef gert um ævina. — Og ertu að hugsa um að fara aft- ur? — Nú hefur maður ekkert gaman af því, þegar maður er orðinn gamall. Mig langar ekki einu sinni til Reykjavíkur. Ég vil helzt vera heima. TVÆR RAUÐAR HRYSSUR — Áttirðu ekki alltaf góða hesta, Valdimar? — Ég átti hvern hestinn öðrum betri. Eg keypti rauða hryssu einu sinni vest- an úr Skagafirði fyrir 60 kr. og hún var fylfull og hafði aðra rauða hryssu innan í sér, sem varð afbragðs hross, báðar kallaðar Rauðkur. Dóttirin átti tvo fola og voru methestar. Annar var klár- gengur, en tölti mikið og stökk og var óskaplega fljótur og duglegur. Ég ferð- aðist mikið á þeim árum og fór t.d. alltaf sjálfur með eggin til Akureyrar á þrem hestum, sem ég teymdi á eftir mér, og hafði auk þess einn til reiðar. — Hvað manstu eftir mörgum eggj- um mest? — Þau voru 16 þúsund um aldamót, en fóru ofan í 10 þúsund einum 10 árum seinna og hélzt talan þannig í æði mörg ár, en nú eru þau komin niður í 1500. Fuglinn er allur drepinn í netunum. Það segi ég a.m.k., þótt þeir megi ekki heyra Iþað, sem leggja netin. — En hvað manstu eftir flestum sil- ungum? — Ég fékk einu sinni 600 í tveim fyrirdráttum og það er bara stutt síðan. En nú þýðir ekkert að draga fyrir leng- ur, því að silungurinn er hér um bil allur drepinn í netunum. — Viltu kannski banna netaveiðina? — Já. A.m.k. takmarka hana sem allra mest. ALLTAF VITAÐ UM TfÐINA — Þú ert berdreyminn, Valdimar? — Ég vil helzt lítið segja um það, en ég hef alltaf vitað um tíðina. Og það, sem mig dreymir fyrir vondum vetrum, er alveg öruggt og getur ekki brugðizt. Mér finnst ég þá kominn inn á Akur- eyri og ætla að vera í skólanum. En vet- urinn 1909-10, þegar ég var í Gagnfræða- skólanum, var mjög harður. Þá var 33 vikna innistaða innan í Fljótsheiðinni og lika hart hér í sveitinni. Ég hef álitið, að mig dreymi svona vegna þess, að það kemur alltaf svipaður vetur aftur, þegar mig dreymir þetta. — Dreymdi þig nokkuð í haust? ■— Nei, en ég ætlaði í einhvern skóla um jólin. ÞAÐ VAR ÞORSTEINN — Þig hefur nú dreymt fleira merkt- legt? — Já, þá stóð svo á, að ég svaf uppi á Norðurloftinu, en hafði aldrei sofið þar áður. En það var sagt, að ef maður hefði 6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS aldrei sofið þar, væri að marka það, sem mann dreymdi. Ég sofnaði um kvöldið, en hafði helv.... beinbólgu í bakinu, svo að ég fór ó fætur um nótt- ina og gekk um gólf því að þá dró held- ur úr verkjunum. Ég náði þó að festa blund aftur undir morguninn og svaf í tvo tíma, unz ég vaknaði aftur. Ég var í einhvern veginn undarlegu ástandi, þótt ég væri vakandi, náði ég ekki full- kominni hugsun, eins og maður gerir vanalega, þegar maður vaknar. Þá stend ur skyndilega maður í dyrunum á her- berginu og hefur strax upp eitt erindi og les það framúrskarandi vel, svo að ég man enn hljóminn í rödinni og kveð- andina vel. Og manninn hefði ég þekkt undir eins, ef ég hefði séð hann, en hann var þá dáinn fyrir einu ári. Stökuna kunni ég áður, en hún var svona: „Ég trúi því, sannleiki, að sigurinn þinn að síðustu vegina jafni; og þér vinn ég, konungur, það sem ég vinn, og því stíg ég hiklaust og vonglaður inn í frelsandi framtíðar nafni.“ Ég heyri sagt, að þessi vísa sé skrif- Valdimar Halldórsson uð á legsteininn hans. En þetta var Þor- steinn og enginn annar. — Hvað var hann að meina? — Hann var bara að svara því, sem ég var að hugsa um kvöldið. Svo sneri hann sér við, kvaddi ekki einu sinni og fór. — Hefurðu lifað samkvæmt erindinu? — Það getur vel verið. Ég hef a.m.k. aldrei logið neitt. Ég hef lifað nokkurn veginn svoleiðis síðan. Og Valdimar hlær enn við. ENGIN GUÐSPEKIFRÆÐI ÞF.TTA Síðan barst talið um heima og geima og Valdimar kenndi mér vísu eftir sig, orta að gefnu tilefni: „Bezt er að varast vínsins tál, verstu heimsins byrði. Illt er að hella eitri í sál, ef hún er nokkurs virði“. — En hver segir, að hún sé nokkurs virði, spyr hann svo kankvís. — Trúirðu því þá, að sálin sé til? — Já, því að annars værum við ekki tii. Skrokkurinn er ekki neitt og er einsk is virði, því að hann fer niður í jörð- ina. Og við erum ekki hér á jörðunni í fyrsta skipti núna. Ég man eftir því, . að ég hef verið til áður. Það er nú lík- ast til. — Hvar vastu? —Einhvers staðar suður í löndum. Ég sá margt líkt á ítalíu, svo að mér þykir ekki ólíklegt, að ég hafi verið þar áður. Það er engin guðspekifræði þetta. Það þarf ekki til. En það er von að ind- versku jókarnir viti meir en við í andleg um fræðum þar sem þeir hugsa aldrei um neitt nema andann. En við hugsum aldrei um neitt nema efnið. Það hefur þó litla þýðingu, þegar maður er kominn yfir um. Þá gerir maður ekkert með það, ekki einu sinni verðlausa krónu. TÍMINN ER EKKI NEITT — Hvenær varstu hér á jörðunni sið- ast? — Það er ógurlega langt síðan. Um 2000 ár. Tíminn skiptir engu. Hann er ekki neitt. Blekking bara. Eins og Matthías sagði: „Ógurleg er andans leið upp á Sigurhæðir". Auðvitað hættir maður þó einhvern tíma að vera hér, þegar maður er orð- inn nógu þroskaður, — eins þroskaður og Jesús Kristur. Að vísu geta þeir, sem svo eru orðnir þroskaðir, komið hér, en ég held þeir kæri sig ekki um það. Þeir eru búnir að sigra eigingirnina. — Er hún versti lösturinn? — Já, en lygin er þó næstum verri. — Kannski náskyldar? — Já, ég er nú hræddur um það. HUGSUNARHÁTTURINN VAR VERRI — Þú ert þroskaðri núna en á fyrra tilverustigi? — Já, svólítið. Pínulítið. Örlítið hef- ui maður þroskazt áfram, því að leiðin er andskotans ári leiðinlega löng. Ég held þó, að mér leiðist ekki að koma aftur. Og ég kem nokkuð fljótt. Það verða líklega ekki meir en 300 ár þang- að til. — En heldurðu að við lifum á öðrum hnetti næst? — Það þykir mér ólíklegt. Ég get þó ekkert um það sagt. Það er mest ímynd- un, en það er eitt, sem ég bít mig í. En hitt get ég sagt þér, að það er ómögulegt að mennirnir gætu verið komnir svona langt á fyrstu ferð sinni til jarðarinnar. Hún fer svo hægt þró- unin. — Þó menn séu eigingjarnir, lygn- ir og allt svoleiðis. — Finnurðu mun á fólki nú og þegar þú varst ungur? — Já töluverðan. Það hefur þokazt þetta áfram, að manneskjan hefur batn- að mikið, aðeins á þessum fáu árum. Ég efast um, að mannkyninu hafi nokkurn tíma þokað eins, þótt djöfulskapurinn sé nógur. Það veit ég vel. En hugsunar- hátturinn var miklu verri í minni æsku. ÞÝÐIR EKKERT AÐ FARA ANNARS LEIÐ — Hvað hefur þú lært mest í lífinu? — Það er ómögulegt að svara því. Það hefur komið hægt og hægt. Maður hefur verið samtíða mörgum, sem maður hef- ur dálítið lært af, en líklega þó aldrei eins mikið af neinu og þessari einu vísu hans Þorsteins. — Kanntu nokkur heilræði að gefa ungu kynslóðinni? — Það er ómögulegt að gefa heil- ræði. Menn verða að þreifa fyrir sér sjálfir. Svo er margt sinnið sem skinnið og enginn finnur sannleikann, nema hann geti þreifað á honum sjálfur. Ein- hver tilviljun ..agi því þannig, að hann geti fundið, hvað satt er og rétt í ver- öldinni. Það þýðir ekkert að fara annars leið. Maður verður að finna hana sjálf- ur fyrir sig. Þegar hér var komið, þakkaði ég Valdi mar spjallið, enda orðið áliðið dags. Það hafði teygzt meir úr því, en upphaflega var ætlað, enda óvenjumargt, sem bar á góma. Valdimar fylgdi mér til dyra og sagði, um leið og hann kvaddi mig á hlaðinu: „Þetta var nú allt saman gott. Þegar maður er orðinn hálfgamalær, er manni alveg sama, hvaða vitleysa rennur upp úr manni.“ HagaEagöar Óþrif Síðan farið var áð láta út kýrnar er varla hægt að komast þverfótar á götunum án þess að reka sig á mykjuhrúgu. Veganefndin þyrfti að sjá, að þetta er óþrifalegt og til van- 'sæmdar fyrir bæinn og launa t.d. kúarektornum sérstaklega fyrir að hreinsa göturnar daglega e’ða a.m.k.1 annan hvern dag. i Austri 1917; Þokan þéttfasta Einu sinni, þegar ég fór gangandi til kaupstaðar og kom upp á heiðar- brúnina, þá varð fyrir mér svo þétt- fastur þokuveggur, að ég gat ekki klofið hann. Ég varð samt ekki ráða- iaus, tók sjálfskei’ðing minn og risti þá gráu, felldi úr henni stórar flygs- ur og tróð undir mig. Á þennan hátt braut ég mer braut yfir fjallið. Stakk ég svo hnífnum í þokuna, þar sem ég kom út og hugsaði: „Þarna skal ég fara sömu götuna til baka“. Svo gekk allt vel. Ég aflauk erindum og icom þarna aftur, tók hnífinn, sem stóð þar sem ég skildi við hann, t og hélt heim. i (Þáttur Sögu-Gvendar). SVIPMYND Framh. af bls. 2 lega ört á síðustu árum, einkum meðal háskólastúdenta. Sama er að segja um fyrrverandi hrifningu þeirra á „lausnar- orðum“ og allsherjarskýringum, sem geti leyst allan mannlegan vanda. Lykil- orð og „lykilstefnur“ eru ekki lengur í tízku. Meðal þeirra ungu manna, sem lagt hafa fyrir róða trú á fornfáleg hugmyndakerfi og vilja hreinsa umræð- ur af öllu hugmyndafræðilegu þrugli, er oft vitnað til rita og fyrirlestra Arons. Samt er það hann, sem nú varar við því, að þessi húgsunarháttur gangi of langt. Hann megi ekki leiða til þess, að menn hafni öllum „hugmyndum“ og fái ótrú á þeim. „Það er að þakka dauða þeirra hug- myndakerfa, sem höfðu „óumflýjanlega framtíð“ og „óhjákvæmilega söguþró- un“ að fyrirslætti til þess að réttlæta hvers konar óskir og gerðir stuðnings- manna sinna, að heimspekileg rannsókn á þýðingu menningar vorrar getur gengið í endurnýjungu lífdaganna", hefur Aron nýlega ritað. Innan skamms er von á bók eftir hann, „Iðnaðarþjóðfélagið, — hugmyndakerfi og heimspeki", þar sem hann ræðir þessi mál. Þá hafa komið út rit um þessi málefni undir leiðsögn hans hjá Evrópsku þj óðfélagsfræðastofnuninni. ÍVaymond Aron er mikilvirkur maður, sem virðist alltaf hafa tíma til alls. Þótt það sé algengt í Frakklandi, að sami maður hafi tíma til háskóla- kennslu og blaðamennsku, er hann samt einstæður meðal Frakka, þegar tillit er tekið til afkasta hans og gæða þess, sem hann sendir frá sér í rituðu máli. Hann hefur alltaf tíma til þess að hlusta á aðra menn, sem til hans leita, veita þeim aðstoð og gefa þeim ráð. Þetta tækist honum þó varla, ef hann nyti ekki hjálp- ar hinnar gáfuðu konu sinnar, sem lengi hefur staðið við hlið hans. Hún heitir Suzanne (fædd Gauchon) og eiga þau hjón tvær dætur barna. Aron er tryggur vinur vina sinna og á þá marga. Hann hefur yndi af skæru- hernaði á ritvellinum án þess að þurfa að troða illsakir við nokkurn mann per- sónulega. Án hans væri andrúmsloftið í frönsku menntalífi allt annað en það er. 33. tbl. 1965

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.