Lesbók Morgunblaðsins - 09.10.1982, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 09.10.1982, Blaðsíða 7
líktust torfbæjunum gömlu, og voru græn tún kringum þá. Víða voru húsdýr á beit: hestar, kýr og kindur. En þetta var allt önn- ur sveit en sú, er Jonni hafði daglega fyrir augum, og miklu þéttbýlli. Litla stúlkan tók nú í hönd hans og leiddi hann upp að hús- inu. Þar var garður fyrir fram- an, með blómum og blómstrandi trjám, og varð Jonna starsýnt á alla þá dýrð, sem þar birtist honum. En húsið var ekki ósvip- að bústað foreldra hans í Reykjavík: tvær hæðir með flötu þaki. I dyrunum stóð ung kona, mjög fagurlega klædd, í litskrúðugum kjól og með gullna slæðu um hárið, sem var ljós- brúnt. Hún brosti til Jonna og bauð hann velkominn. „En gam- an að þú skulir sjá okkur og heyra," sagði hún. „Það er orðið nokkuð sjaldgæft upp á síðkast- ið, að mennskir menn hafi sam- band við okkur.“ Honum var nú boðið inn í stóra og fallega stofu, þar sem öllu var mjög smekklega fyrir komið. Börnin settust hjá hon- um í hvítan sófa, en konan fór fram og kom að vörmu spori aft- ur með rauðleitan drykk í fögru glasi. „Þetta skaðar þig ekki, vinur," sagði hún. „Það er bara berjasafi." Drykkurinn var ákaflega ljúffengur og Jonni þambaði helminginn úr glasinu þegar í stað. Konan settist á stól, skammt frá þeirn, og horfði á hann brosandi. „Eg veit að hún móðir þín sér okkur líka,“ mælti hún eftir stundarþögn. „En hún er nú helst til fullorðin til að heimsækja okkur á sama hátt og þú. Það er allt hægra fyrir börnin." Jonni hugsaði sig um, það voru margar spurningar að brjótast í honum, en hann þorði naumast að bera þær upp. Þó sagði hann loks: „Eruð þið alveg svona — ég meina — raunveru- leg, eins og við?“ Huldubörnin hlógu og konan brosti góðlátlega. „Það er von að þú spyrjir — og reyndar hafa krakkarnir mínir spurt mig að því sama, bæði um ykkur og annað fólk, sem við sjáum álengdar, en getum ekki haft mikið samband við, vegna þess að það er á annarri bylgjulengd í tilverunni." Hún laut snöggv- ast höfði íhugandi, en hélt svo áfram: „Þú veist hvernig það er með útvarpið hjá ykkur — og reyndar er þetta alveg eins hjá okkur líka — að þú getur náð í tal og hljómlist á mörgum bylgjulengdum, sem snerta ekki hver aðra, en eru þó allar raun- verulegar, ef þú aðeins hefur tæki til að nálgast þær. Ég sé að þú ert skír drengur og vafalaust hefur þú einhverntíma hugsað um það, hvernig þetta væri mögulegt. En það er víst ósköp einfalt, þó að ég geti ekki gumað af að skilja það til hlítar. Og svona er þetta með tilveruna, hið dásamlega ríki Guðs. Hún er full af lífverum, sem við sjáum hvorki né heyrum, sökum þess að þær eru á öðrum bylgju- lengdum en við. Fyrir okkur hérna eruð þið líka Huldufólk, því að flest okkar sjá ykkur alls ekki, og þegar best lætur eruð þið aðeins skuggar. Þannig er þessu einnig varið um mikinn fjölda af fólki og þjóðum, sem við vitum um, en höfum lítið eða ekkert samband við. Það eru líka manneskjur, þótt sumar þeirra hafi aðra siði og hugsi á annan hátt en við. Okkar dag- lega líf er ekki ósvipað því, sem gerist hjá ykkur, eins og sumum af ykkar kynþætti hefur verið kunnugt um aldir. Við eigum þó ekki í eins miklum erfiðleikum og þið; til dæmis er veðráttan miklu mildari í okkar heimi og margt með nokkuð öðrum hætti, engar styrjaldir eða illdeilur manna á meðal, meiri ástúð og velvilji. En við byggjum sama hnöttinn og sömu slóðir og þið, enda þótt við höfum orðið að flýja af hólmi, þar sem þéttbýli ykkar er mest. En það kemur til af því, að mikill gauragangur í ykkar veröld getur haft dálítil áhrif á okkar heim, og við erum friðsamt fólk." „Hafið þið skóla, svona eins og við?“ spurði Jonni. „Og kannski kirkjur og samkomuhús og allt svoleiðis?" „Mikil ósköp,“ ansaði konan brosandi. „Auðvitað höfum við skóla, bæði fyrir börn og full- orðna. Og kirkjur — ja, maður- inn minn er nú til dæmis prest- ur.“ Jonni roðnaði ósjálfrátt út af hugsun sinni, en lét hana samt í ljós: „Þið trúið þá á Guð?“ spurði hann eilítið hikandi. „Lesa börnin kannski bænir — Faðirvorið og svona?" Konan varð nú alvarleg á svipinn. „Vissulega trúum við á Guðdóminn," svaraði hún. „Og maðurinn minn, sem er mikill dulfræðingur, hefur sagt mér að allar skynsemi gæddar mann- eskjur, hvar sem er í tilverunni, trúi á hinn sama Guð, enda þótt við séum hvert öðru hulin. Hann nær til okkar allra, því að andi Hans er í öllu og allsstaðar nálægur, bæði á þessum hnetti og öllum öðrum." „Er þá fólk á öðrum hnött- um?“ spurði Jonni og lyftist nú í sætinu, því að hann hafði lesið talsvert af geimferðasögum og hafði mjög mikinn áhuga á þeim. „Já,“ ansaði konan. „Okkur er kennt að tilveran sé endalaus í allar áttir rúms og tíma, að sól- irnar séu óteljandi og að nálega hverri þeirra fylgi hnettir, byggðir lífverum á mismunandi þroskastigi og bylgjulengdum. Við fáum líka stöku sinnum heimsóknir frá öðrum tilveru- sviðum. Það eru menn, en svo vitrir og háþróaðir að við erum lík smábörnum í samanburði við þá. En það sem þeir hafa sagt okkur er ritað á bækur, sem okkar vitrustu menn lesa og út- skýra fyrir alþýðu manna.“ „Þær bækur væri gaman að sjá!“ sagði Jonni áfjáður. „Þú myndir nú, því miður ekki hafa neitt gagn af þeim,“ mælti konan. „Bæði eru þær mjög þungskildar og svo gætir þú alls ekki lesið þær. Við höf- um nefnilega okkar á meðal annað tungumál en þið.“ „Nú, er það?“ sagði Jonni. „En þið kunnið samt íslensku." Það brá fyrir glettni í svip konunnar. „Nei,“ svaraði hún. „Þótt þér virðist að við tölum við þig með orðum, þá er það ekki beinlínis þannig. Að vísu notum við okkar mál, en um leið sendum við þér hugsanir okkar, sem þú svo skynjar í orðum þinnar eigin tungu. Þið kallið þetta hugsanaflutning — og við lærum það í barnaskólunum; nánir vinir og elskendur ræðast hér oft við á þennan hátt. En nú skal ég lofa þér að heyra okkar mál. Jonni starði stóreygður á nýju leikfélagana sína, er þeir tóku að tala við mömmu sína á mjög hljómfögru, en alveg óskiljanlegu tungumáli. Loks litu þau öll til hans brosandi, og konan mælti: „Svona röbbum við nú saman hversdagslega. En þetta skiljið þið ekki, og því miður eru fáir ykkar á meðal sem við getum talað við með hugsanaflutningi. Allmargir geta séð okkur, að minnsta kosti í svip, en heyra alls ekki til okkar, vegna þess að við náum ekki sambandi við hugi þeirra. Þú og móðir þín eruð meðal þeirra fáu er geta bæði séð okkur og heyrt, og það finnst okkur öllum mjög skemmtilegt." Þótt Jonni litli væri greindur piltur, fór sumt af því, er konan sagði, fyrir ofan garð og neðan hjá honum. En er hann hafði setið þarna nokkuð langa stund, sagði hún, að nú yrði hann að fara aftur í líkama sinn, því að þetta væri honum ekki eðlilegt ástand og mætti aldrei gera of mikið af því. Hún brýndi einnig fyrir börnum sínum að vera varkár í samskiptum við Jonna: „Þið getið leikið ykkur saman, en munið það, að hann sér ekki yfirborð síns eigin heims, þegar hann er með ykkur, og getur því hæglega dottið og meitt sig, ef ekki er farið varlega." Hún brosti elskulega við drengnum og bætti við: „Þú skalt ekki hreyfa þig mikið, aldrei hlaupa, og þreifa fyrir þér með tánum, þegar þú gengur. — Nú, ein- staka sinnum skal ég svo lofa þér að heimsækja mig og þá get- urðu brugðið á leik með krökk- unum mínum; við erum nefni- lega miklu léttari á okkur en þið.“ Stuttu síðar vaknaði Jonni svo aftur í sínum mennska skrokk, á grasflötinni fyrir framan hús Huldufólksins. Börnin sátu þar enn hjá honum, vel sýnileg, og horfðu á hann brosleit. Hann var eilítið utan við sig fyrst og vissi ekki al- minnilega hvort að hann hefði dreymt þetta eða upplifað það raunverulega. En börnin, er virtust skilja hugsanir hans, fullvissuðu hann um að víst hefði hann verið inni í húsinu með þeim og mömmu þeirra. Síðan kvöddu þau hann með kærleikum og andartaki síðar voru þau horfin. Jonni sá nú að- eins kletta og hamrastalla, þar sem áður var blómskrýdd byggð Huldufólksins. Þegar hann kom heim, sagði hann móður sinni allt af létta. Hún horfði á hann með móður- legri ástúð, og er hann lauk máli sínu, mælti hún: „Þú ert ham- ingjubarn, að fá að koma inn í Álfheima. Það hef ég aldrei fengið og hef sennilega ekki ver- ið fær um það. En ég lék mér við börn Huldufólksins, þegar ég Framhald á bls. 16 René Willien Kötturinn Hlæ þú ekki þótt þú sjáir mig við brunninn að ausa upp vatni í stað eiginkonu minnar. Því að ég---- ekki er ég kvæntur maður. Einsamall hef ég lifað lífi mínu öllu algerlega frjáls eins og fugl í skógi. Og þess vegna er ég enn ekki orðinn gamall ekki verulega gamall með 80 ár mín að baki. Fyrst var það Katrín sem elskaði mig, en giftist svo þessum Chandalíon, þar næst Melanía sem stakk af til Frakklands daginn áður en brúðkaup hennar átti að standa — með Súlpitíon. Þá var það Jósefína sem sagði um mig við einn piltinn úr þorpinu okkar: „Það er eingöngu vegna peninganna hans sem ég vil giftast honum.“ Og þegar mér barst það til eyrna, sagði ég þetta við Jósefínu: „Skiptu um talsmáta og skiptu um mannsefni.“ Sérðu, skjólan mín er full af vatni, og ég geng heimleiðis til að elda mér pótenta — haframélsgraut — mjög svo gómsætan. Komdu með mér, aldrei hefur þú borðað haframélsgraut svo smekklega tilreiddan. Þú og ég og kötturinn minn sem býr hjá mér hann verður með okkur, ekki er hann eins kjöftugur og kvenmaður, ekki eins forvitinn, ekki eins matgráðugur og kvenmaður. Og á nóttinni vermir hann fótleggi mína með feldinum sínum, sem er fínlegri, mýkri, hlýrri en feldur nokkurrar eiginkonu - - - Jerzy Wielunski frá Póllandi þýddi á íslensku úr valdostönsku niáli. Gudmundur Daníelsson hreinskrifaði, í tilefni af kvennaárinu og ári aldraðra. 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.