Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.1984, Blaðsíða 5
hrikalegur jarðskálfti á þessu svæði og
megnið af háskólanum hrundi til grunna.
Þetta var á sunnudegi og mátti teljast
heppni að ekki var þarna fjöldi manns
saman kominn. Alls fórust um 60 þúsund
manns í þessum jarðskjálfta.
Fyrsta verkið var að leita í rústunum til
að vita hvort nokkuð væri heillegt að finna
úr safninu. Sömuleiðis fannst mér sjálf-
sagt að hefja störf undir beru lofti því það
var vel hægt veðursins vegna. En það kom
ekki til greina.
í rauninni er alls ekki hægt að lýsa
þeirri reynslu að upplifa slíkan jarð-
skjálfta. Við horfðum á hvernig gatan
gekk í bylgjum og rifnaði sundur svo
mynduðust djúpar gjár. Þetta stóð í um
það bil mínútu, maður átti fullt i fangi
með að standa í fæturna og var efst í huga
hvar væri undankomuleið. Svo varð allt
rafmagnslaust, vatnslaust og sambands-
laust. Eg kom t.d. engum skilaboðum heim
fyrr en seint og um síðir.
Ég varð auðvitað að venda mínu kvæði í
kross, því ekkert varð af þessari fyrirhug-
uðu vinnu. Ég dvaldist þó í Perú í hálft ár
eftir þetta, samdi framtíðarskýrslu fyrir
safnið og setti upp skólabókasafn við
barnaskóla sem nunnur ráku en mæður
barnanna og nunnurnar lögðu þar hönd á
plóginn.
Eg kom svo heim árið 1971 og fékk vinnu
á fræðsluskrifstofunni í Reykjavík við að
skipuleggja skólabókasöfn og vann við að
koma á fót skólabókasafna-miðstöðinni
sem nú er í Miðbæjarskólanum, þar sem er
þjónusta við öll skólabókasöfn í Reykjavík.
Bókasafnsfræðingar voru eiginlega óþekkt
fyrirbæri hér þá, ég var önnur af tveimur
með framhaldsnám í greininni. Ég vann
svo við þessi störf til 1975 þegar ég fékk
lektorsstöðuna við Háskólann.
En skólabókasöfn eru mér alltaf mjög
hugstæð og ég vinn mikið í sambandi við
þau. Árið 1974 var farið að undirbúa stofn-
un skólasafnadeildar innan IFLA — al-
þjóðlegu bókasafnasamtakanna og ég var
beðin að taka þátt í undirbúningnum.
Þessi alþjóðlega deild var svo stofnuð
1976 og ég hef verið þar í fastanefnd síðan
og ferðast mikið í tengslum við það.
FORMAÐUR f 15 MANNA
ALÞJÓÐLEGUM HÓPI
Skólabókasöfn eru sú tegund bókasafna
sem síðust hafa fengið viðurkenningu
meðal bókasafna en deilur hafa orðið viða
um heim um menntun skólasafnvarða.
Fyrsta námsstefnan á vegum IFLA um
menntun þeirra var haldin á Costa Rica
árið 1978. Þá kom spænskukunnátta mín
mér til góða. Þessi námsstefna þótti takast
vel og næsta skref var síðan að skilgreina
hvernig ætti að mennta skólasafnverði al-
mennt. Settur var vinnuhópur í það verk-
efni af hálfu IFLA. Við erum fimmtán í
honum hvaðanæva úr heiminum en ég er
formaður hópsins. Það tók sinn tíma að fá
alþjóðlegan stimpil á þennan vinnuhóp en
hann fékkst 1982.
Hlutverk hópsins er að semja alþjóðleg-
ar leiðbeiningar (guidelines) fyrir mennt-
un skólasafnvarða og fyrst fór mikill tími
í að safna upplýsingum frá ýmsum lönd-
um. Ég hafði miklar áhyggjur af hvernig
hægt væri að samræma þetta uppkast því
aðstæður eru gerólíkar í hinum ýmsu lönd-
um, og nægir að bera saman t.d. Bandarík-
in og Bólivíu.
Við hittumst síðast á fundi í Þýskalandi
í fyrrasumar og þá kom það merkilega í
ljós að við gátum sameinast í grundvallar-
atriðum í þremur liðum sem snerta hlut-
verk allra skólabókasafna en þau eru:
kennsluhlutverk, bókasafnsfræðilegt hlut-
verk og stjórnunarhlutverk. Þegar út frá
þessu er gengið skiptir í raun ekki máli á
hvaða stigi safnið er. í kennslunni þarf að
huga að þessum meginatriðum.
A þessu ári mun liggja fyrir uppkast að
þessum tillögum sem sent verður til um-
fjöllunar hjá ýmsum alþjóðlegum stofnun-
um og síðan verða þessar leiðbeiningar
væntanlega gefnar út á vegum UNESCO.
Jú, það kemur sér vel fyrir mig að kunna
spænsku á þessum alþjóðlega vettvangi
auk enskunnar. Þeim spænskumælandi
finnst vera liðsmaður í mér. Þarna eru til
umræðu ákaflega mismunandi vandamál.
T.d. eru í sumum löndum 90% íbúa ólæsir
en annars staðar er við þau vandamál að
glíma sem fylgja stórborgum og eru af allt
öðrum toga.“
Þú nefndir áðan þessi merku alþjóðlegu
kvennasamtök Delta Kappa Gamma sem
styrktu þig til framhaldsnáms. Viltu segja
svolítið nánar af þeim?
„Jú, þessum samtökum á ég mikið að
þakka því ég hef tvisvar fengið styrk frá
þeim, í seinna skiptið til að ljúka doktors-
ritgerð sem ég er núna með á lokastigi.
Nafnið hljómar sjálfsagt undarlega en
þetta er úr grísku, reyndar nöfn á grískum
bókstöfum og merkja eða þýða: kennsla,
lykill, kona og eru samtök kvenna í
fræðslustörfum.
Þessi samtök voru stofnuð í Bandaríkj-
unum árið 1929 og höfðu það m.a. að
markmiði að styrkja ungar konur til fram-
haldsnáms og félagskonur til doktorsnáms
og rannsókna. Nú eru meðlimir um 140
þúsund í 13 löndum: Bandaríkjunum,
Kanada, Þýskalandi, Bretlandi, Noregi,
Svíþjóð, Danmörku, Mexíkó, Finnlandi, ls-
landi, Hollandi, E1 Salvador og Gueta-
mala.
Upphafið að starfseminni hér var að ár-
ið 1975 kom hingað Maria Pierce, sem sæti
átti í útbreiðslunefnd samtakanna og hún
hafði m.a. samband við mig vegna þess að
ég hafði fengið styrkinn frá þeim 1967.
Það hittist svo á að við nokkrar íslensk-
ar konur áttum fyrsta fund með henni ein-
mitt sama daginn sem konur héldu fund-
inn fræga á Lækjartorgi 24. október og
hún varð óskaplega hrifin.
ÁTJÁN Stofnfélagar
í ALFA-DEILD
í framhaldi af heimsókn hennar var
stofnuð deild hér, Alfa-deild. Við vorum 18
konur stofnfélagar en aðalatriðið var að
tryggja að í hópnum væri fulltrúi úr öllum
stigum skólakerfisins, frá fóstrum og upp
úr.
Deildin var svo stofnuð 7. nóv. 1975 og
síðan eru deildirnar hérna orðnar 3, tvær
fyrir sunnan og ein fyrir norðan og þær
mynda síðan landssamband.
Markmið samtakanna er eins og segir í
reglugerðinni:
1. að stuðla að alþjóðasamstarfi kvenna
sem vinna að menningar- og mennta-
málum.
2. að heiðra konur sem standa eða hafa
staðið framarlega á einhverju sviði
menntamála eða eru að vinna markviss
störf í þágu þeirra.
3. að efla starfsáhuga og stöðu kvenna á
sviði menntamála.
4. að stuðla að æskilegri lagasetningu um
menntamál.
5. að veita konum sem skara fram úr í
menntamálum styrki til framhalds-
náms í háskóla og styrkja erlendar kon-
ur sem vinna að menntamálum.
6. að efla persónulegan og faglegan þroska
félagskvenna og hvetja þær til virkni.
7. að fræða félaga um það sem efst er á
baugi í efnahags-, félags-, stjórn- og
menntamálum og stuðla með því að
vaxandi skilningi og virkri þátttöku
þeirra í alþjóðamálum.
Éftir þessum höfuðmarkmiðum er starf-
að. Við í Alfa-deild höldum að jafnaði 6
fundi á ári en dr. Guðrún P. Helgadóttir
skólastjóri er formaður núna. Við ræðum
þessi mál frá ýmsum hliðum og kennsla og
menntamál eru þar að sjálfsögðu efst á
baugi. Á hverjum fundi fáum við fyrirles-
ara á einhverju sérsviði og náum nokkuð
góðu yfirliti yfir það sem er að gerast því
þetta er breiður hópur.
Fundirnir eru haldnir á laugardögum
klukkan 11 til 13.30. Við erum 22 í Alfa-
hópnum núna en það er eiginlega há-
markstala því miðað er við að fundirnir
séu haldnir heima hjá konunum til skiptis
og þá er skipt þannig verkum að sú sem
leggur til húsnæðið þarf ekki að sjá um
veitingar — það gera einhverjar aðrar
tvær.
Við fylgjumst með lagabreytingum á
kennslusviðinu — fjölluðum t.d. um fram-
haldsskólafrumvarpið, um þingsályktun-
artillöguna um heimilisfræðslu sem Sal-
ome Þorkelsdóttir lagði fram og tókum
þátt í umræðum um kennslu 6 ára barna
svo eitthvað sé nefnt. Við sendum okkar
álitsgerðir síðan í menntamálanefndir Al-
þingis eða í ráðuneytið eftir því sem við á.
Ráðstefnur á vegum alþjóðasamtakanna
eru haldnar einu sinni á ári, venjulega í
Bandaríkjunum og þangað koma fulltrúar
frá deildunum. Héðan hefur oft farið full-
trúi en ferðastyrkur miðast við svokallað
„mílugjald" og þetta er því dýrt ferðalag
fyrir okkur sem búum svo langt undan.
í tengslum við ráðstefnurnar eru haldin
allskonar námskeið sem tengjast mark-
miðum samtakanna og sömuleiðis eru
rædd hugmyndafræðileg efni, svo sem
gæði lífs og kostir menntunar, en samtök-
in gefa út virt tímarit „Delta Kappa
Gamma Bulletin" um þessi efni.
Nei, ég held að þessi samtök eigi sér ekki
hliðstæðu. Við fjöllum eingöngu um þetta
ákveðna svið — menntamálin — og sækj-
um styrk hver til annarrar. Það er mikil-
vægt fyrir okkur því oft er vindasamt um
konur í ábyrgðarstöðum."
DOKTORSRITGERÐ
UM Samnýtingu
V ÍSINDAHEIMILDA
Um hvað snýst doktorsritgerðin sem þú ert
að slá smiðshöggið á?
„Hún fjallar um anga af norrænni sam-
vinnu, þ.e. um samnýtingu vísindaheim-
ilda í bókasöfnum. Þessi norræna sam-
vinna á sviði rannsóknabókasafna hefur
verið reynd frá 1956. Hugmyndin var sú að
með náinni samvinnu bókasafna á Norður-
löndum gætu þau skipst á að kaupa bækur
og tímarit á ýmsum sviðum og lánað þau
sín á milli. En þetta gekk ekki vel því
ýmsir annmarkar komu í ljós. Það var erf-
itt og dýrt að ákveða innkaupin og hvernig
ætti að skipta þeim. Sömuleiðis reyndist
þetta dýrt í framkvæmd og erfitt að sam-
ræma vinnuna. Þarna kom líka til vanda-
mál varðandi „menningarpólitík" og sú
spurning hvort eitt land væri þess umkom-
ið að sækja allar heimildir á einhverju
sviði til annars lands.
„Þeir sem áður völdust
til starfa í bókasöfnum
voru ýmist grúskarar
eða sæmilega bókfróðir
menn. Og bókasöfn
voru nánast
afþreyingarstofnanir
fyrir sérvitringa. “
Ritgerðin mín gengur út á það að rekja
þennan norræna gang mála og gera grein
fyrir hvort samvinna af þessu tagi sé
framkvæmanleg á alþjóðlegum vettvangi.
Mín skoðun er sú að ekki sé hægt að
standa að slíkri samvinnu í stórum stíl —
þarna komi alltaf upp bæði stjórnmálaleg
og fjárhagsleg vandamál sem bókasafns-
fræðingar einir geta ekki leyst.
Þessi mál eru þó mikið í umræðu vegna
gífurlegrar aukningar á bókakosti því ekk-
ert land hefur lengur bolmagn til að kaupa
allt sem gefið er út. Málið hefur enga ein-
falda lausn. Svo er líka um gífurlegan mis-
mun að ræða á stöðunni í öllum upplýs-
inga- og bókasafnsmálum í hinum ýmsu
löndum. Ég þarf varla annað en nefna
þann mikla mun sem er í þessum málum í
Bandaríkjunum og svo í Áfríku. í Banda-
ríkjunum er lögð áhersla á að skrá og hafa
aðgengilegar allar heimsins upplýsingar
fyrir alla notendur en víða í Afríku t.d. er
engin stjórn á útgáfu og enginn skráir
hvað til er.“
En hvernig er staðan hér á landi?
„Hér hefur orðið mikil breyting á bæði
kennslu og viðhorfum til bókasafnsfræð-
innar og bókasafnsmála yfirleitt á síðustu
árum. Þeir sem áður völdust til starfa í
bókasöfnum voru ýmist grúskarar eða
sæmilega bókfróðir menn. Og bókasöfn
voru nánast afþreyingarstofnanir fyrir
sérvitringa.
Nú er þetta breytt. Bókasöfn eru að
verða samfélagsleg nauðsyn. Þangað eru
ekki bara sóttar bækur til afþreyingar
heldur líka til fræðslu og upplýsinga."
Hverju breytir tölvuöldin sem nú er að
ganga í garð?
„Nú í upphafi tölvualdar verður krafan
um upplýsingar út í samfélagið háværari
og það leiðir beint til þess að gera verði
meiri kröfur til bókasafnsfræðinga. Hér
hefur því komið til tals að menntun þeirra
verði svipuð og í Bandaríkjunum en þar
geta menn ekki farið í bókasafnsfræði fyrr
en eftir BA-próf í öðru fagi, t.d. bókmennt-
um eða raunvísindum, því talið er að meiri
sérþekkingar sé þörf en fæst með stúd-
entsprófi eingöngu. Menn verða ekki upp-
lýsingafræðingar nema með haldgóða sér-
þekkingu á einhverju sviði auk bókasafns-
fræðinnar. En þetta getur aftur skapað
vandamál hjá okkar vegna mannfæðarinn-
ar atvinnulega séð. Hér er ekki hægt að
sérhæfa svo mikið — varla eru störf t.d.
fyrir nema 2—3 í landbúnaðarsöfnum,
kannske 5—10 í læknisfræðisöfnum og svó
framvegis.
Bókasafnsfræðingar binda miklar vonir
við Þjóðarbókhlöðuna og ýmislegt mun
. breytast í safnamálum okkar við tilkomu
hennar.
Auðvitað er mikilvægt að fá fólk með
undirstöðumenntun í faginu og fyrsta
verkefni við að vinna í nýju safni felst í
tiltekt og röðun í kerfi og næsta skref er
síðan að koma á upplýsingaþjónustu en
þegar hún veröur sérhæfðari verður þörf
fyrir meiri grunnmenntun á því sviði sem
bókavörðurinn vinnur."
Enginn Bóka
SAFNSFRÆÐINGUR
VlÐ DAGBLÖÐIN
En hvað um önnur atvinnutækifæri í grein-
inni?
„Ég hef satt að segja lengi furðað mig á
því að enginn bókasafnsfræðingur er við
dagblöðin hér. Það hlýtur þó að vera mik-
ilvægt fyrir fréttamennsku að fá slíka
þjónustu að ég ekki tali nú um alþingis-
mennina. Ég skil bara ekki hvernig þeir
komast af án yfirgripsmikillar upplýs-
ingaþjónustu og sama mætti segja um
ráðuneytin. Það hlýtur að vera mikilvægt
að eiga aðgang að skipulögðu safni gagna.
Annars nýtast upplýsingar ekki sem þar
er þó að finna.
Jú, jú, auðvitað er mikilvægt að bóka-
safnsverðir séu hlutlausir. Það er brýnt
fyrir þeim í námi. Þeir mega alls ekki láta
sínar skoðanir hafa áhrif á bókaval og þá
þjónustu sem þeir láta í té.
En varðandi tölvubyltinguna er það nú
orðið skylda í bókasafnsfræðinámi í Há-
skólanum að taka tölvunámskeið. Þar eru
kennd þrjú tölvunámskeið núna en þeim
mun sjálfsagt fjölga. Ymis vandamál í
sambandi við tölvuvæðingu bókasafna eru
enn óleyst, en þótt tölvuvæðingin sé ekki
beint knýjandi enn, þá megum við ekki
missa af lestinni.
Jú, það er mikið starf aö vera lektor í
þessum fræðum og starfsdagurinn hjá mér
er vissulega ekki búinn klukkan 5 á dag-
inn. Og ekki bætir úr að aðstæður í deild-
inni í Háskólanum eru mjög slæmar. Allt
sem nota þarf við kennsluna er á staðnum
erlendis en hér þarf ég að bera allt á
sjálfri mér á milli kennslustofa. Hér fá
nemendur litla starfsþjálfun, söfnin eru
flest lítil og vanmáttug. Þetta er stundum
eins og að kenna tannlækningar en hafa
engan tannlæknastól. En burt séð frá að-
stöðuleysinu er þetta ákaflega áhugavert
starf. Ég hef verið svo heppin að lenda
alltaf í einhverju skemmtilegu á starfs-
ferlinum og oftar en einu sinni fengið að
byggja frá grunni og brjóta vandamál til
mergjar — og jafnvel sjá árangur, og þeg-
ar hjólin fara að snúast gleymast gjarnan
öll þau átök sem þurfti til að fá þau í
gang.“
LESBOK MORGUNBLAOSINS 9. JÚNi 1984 5