Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.1984, Qupperneq 9

Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.1984, Qupperneq 9
Ægisgataa, 1979. Hugleiðingar um myndlist Louisu Matthíasdóttur EFTIR AÐALSTEIN INGÓLFSSON Kindur og bóndabær, 1982. Paprika Oog EGGALDIN Merkilegt nokk virðist Louisa leggja mesta vinnu í að lífga við dauða hluti, ávexti, ílát og eldhúsáhöld, meðan fólk og dýr verður í höndum hennar eins og líkingar sjálfra sín. Sjálfur er ég fremur gleyminn á mannfólk hennar, upplit þess og athæfi, en mér verður tíðum hugsað til papriku sem er hægra megin á mynd frá 1983 (birt með viðtalinu í STORÐ) og mér þykir beinlínis vænt um eggaldin sem breiða úr sér nálægt miðbiki stórfallegrar myndar frá 1981. Fráleitt er Louisa svo mikil mannafæla að hún taki grænmeti og ávexti fram yfir fólk. Ætli hún mundi ekki heldur taka undir það sem Cézanne sagði um epli sín: að hann hefði málun þeirra í hendi sér, gæti málað þau dögum saman í sömu uppstillingu, en fólk hefði þann leiða vana að hreyfa sig. Annað þykir mér líka merkilegt þegar ég horfi á þessar uppstillingar Louisu. Hún hefur í raun ekki brcnnandi áhuga á mismunandi áferð hlutanna, því sem greinir yfirborð kartöflu frá melónuhýði, hníf frá glerj- ungi skálar, hvað þá skírskotun þeirra til hins skyn- ræna eða munaðarfulla í okkur. Sautjándu aldar málar- ar Hollendinga, menn eins og Van der Ast, Heda og Pieter Claesz, hefðu heldur betur gert sér veislu úr þeim ávöxtum sem Louisa meðhöndlar svo hófsamlega. Hún leitar nefnilega þess sama í þessum „dauðu“ hlutum og í landslagi: jafnvægis, samræmis, hreinleika. Þegar Louisa verður leið á melónum og greipaldinum, og fær engan úr fjölskyldunni til að sitja kyrran stund úr degi, málar hún sjálfa sig, af sömu einurð og óbil- girni og allt annað. Fyrirmynd og fyrirætlan renna saman í eitt. Hið bandaríska ljóðskáld, John Ashbery, sem fylgst hefur náið með ferli Louisu í áratug, skrifaði skemmtilega lýsingu á sjálfsmyndum hennar: „stundum býr hún sér til lopapeysu á íslenska vísu, fjölbreytta í litum og með breiðum röndum. Hún stendur þarna með hendur á mjöðmum, eilítið óþreyjufull. Þetta er portr- ett af listamanni sem er um það bil að hefjast handa. Eða þá að hún treður upp í kápu og heldur fast í samanbrotna regnhlíf. Sú mynd minnir um margt á franskar grafíkmyndir frá átjándu öld, þar sem brugðið er upp lýsingum á ýmsum siðum og lifnaðarháttum. Hér er sem sagt tuttugustu aldar hliðstæða þeirra og sýnir myndlistarmann á útleið." (Formáli að sýningu Louisu í Robert Schoelkopf Gallery, 1982). SÖÐUG ENDURSKOÐUN Hvaðan kemur Louisu sú óskeikula sjónræna rökvísi sem fram kemur í málverkum hennar, studd glóandi litum í breiðum, hiklausum dráttum? Gagnrýnendur í Bandaríkjunum hafa verið iðnir við að finna henni stað í námunda við ýmsa meistara, áhrifavalda sem sálufé- laga. Uppstillingum hennar hefur verið líkt við verk átjándu aldar snillingsins Chardin, svissneski symból- istinn Hodler hefur verið nefndur í tengslum við fjalla- sýn hennar, de Chirico er talinn eiga hjá henni skugg- ana. Og eins og venja er þegar norrænn listamaður á í hlut, er Munch sagður lærifaðir Louisu. En þótt listamenn læri ætíð af öðrum listamönnum, stundum meir en af grandskoðun umhverfis síns og umþóttun, þá er ákaflega ólíkt Louisu að ánetjast nokkrum öðrum listamanni. Yfirlitssýning mundi án efa veita svör við ýmsum þeim spurningum sem leita á mann við skoðun verka hennar, en þar sem slík sýning hefur enn ekki verið haldin, verðum við að halda okkur við ágiskanir. Það er trúa mín að myndlist Louisu í dag sé ávöxtur sjálfsaga og stöðugrar endurskoðunar á for- sendum sem hún gaf sér þegar við upphaf ferils síns. Þá voru þær í sömu sporum, Louisa og Nína Tryggvadóttir, og drógu upp mjög einfaldaðar myndir af umhverfi sinu, sem einkenndust af stórum, þéttmáluðum flötum með yrjóttri áferð. En meðan Nína sagði á endanum skilið við hlutveruleikann, hélt Louisa í megindrætti hans í myndum sínum. Hún varð að skilja hlutina áður en hún málaði þá. Var hægt að skilja það sem lá handan við hlutina, hið óhlutlæga? Öftruðu efasemdir af þessu tagi henni frá því að mála afstrakt? Hvað veit ég. Víst er að hvað sem á gekk í bandarískri myndlist upp úr síðara stríði: afstrakt express, jónismi, popplist, mín- ímalismi, „post-painterly“ afstraktlist, þá hélt Louisa sínu striki. í viðtalinu í STORÐ segir hún: „Það hefur aldrei neitt komið mér á óvart í listum. Mér hefur aldrei fundist ég sjá neitt nýtt.“ En seinna bætir hún við: „Áhrifin koma alls staðar frá, hægt og bítandi.“ Er fráleitt að ætla að amerísk birta, eins og hún kemur fram í verkum Vesturl^ndamálara á borð við Diberkorn og Thiebaud, hafi laumast inn í málverk Louisu? Eins og hún læddist inn í málverk Ragnheiðar heitinnar Ream? MANNLEG nærvera Ekki get ég heldur varist því að hugsa til annars bandarísks listamanns, sem mér þykir ansi skyldur Louisu í anda sem handverki. Nefnilega Edwards Hopp- er, túlkanda einsemdar í borgarlífi. Hann kemur æði oft upp í hugann þegar horft er á mannskepnur Louisu og skepnur, þar sem þær standa, þögular og einmanalegar, hvort sem þær eru stakar og yfirgefnar eða í námunda við aðra lifandi veru. Sálfræðingar mundu segja að engin „tjáskipti" ættu sér stað í myndum hennar. Sjálf er Louisa þögul um áhrifavalda og uppáhaldsmálara. Þó gat bandarískur blaðamaður, Jerry Tallmer, togað upp úr henni höfn þeirra Matisse og Titians. Hér höfum við loks vísbendingu sem mark er á tak- andi. „Rauða herbergið" heitir ein frægasta mynd Mat- isse og hangir einmitt í Museum of Modern Art í New York, þar sem Louisa hefur eflaust séð hana ótal sinn- um. í henni er að finna alls konar hvunndagslega brúkshluti, borð, stóla, ílát, plöntur, litla skúlptúra og virðulega klukku. Allir þessir hlutir gefa til kynna mannlega nærveru, rétt eins og hlutirnir í málverkum Louisu. Þrátt fyrir það eru hlutirnir ekki viðstaddir sem hlutir, þeir vitna aðeins um nálægð einhverrar mann- eskju, innan í ramma sem á ekkert skylt við ytri mörk daglegs lífs, heldur afmarkar sérstaka myndveröld. Af sérhverjum þessara hluta stafar birtu sem á uppruna sinn í huga málarans, ekki veröld hlutanna. Fyrir Mat- isse vakti ekki að skapa eftirmyndir hins þekkjanlega heims, heldur að festa á striga hliðstæðu hans, með því „að draga allar kenndir saman í harðan kjarna" eins og hann nefndi það. Matisse sagðist fúslega varpa fyrir róða yfirborðslegum þokka, gerði það honum kleift að festa hendur á innsta eðli þess sem hann væri að mála. „Að baki þessa samansafns af augnablikum sem myndar yfirborð mannlegrar tilveru, Og breytir þeim stöðugt um leið, er hin eina og sanna náttúra hennar. Hennar ber okkur að leita." Með þessi orö Matisse að leiðarljósi, ættum við að komast örlítið nær innsta eðli málverka Louisu Matthíasdóttur. Louisa Matthíasdóttir LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 9. JÚNi 1984 9

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.