Lesbók Morgunblaðsins - 21.05.1988, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 21.05.1988, Blaðsíða 7
útflúruðu burstunum. Þá var það dökk- grænt. Það virtist ekki mjög hrörlegt í dimm- unni — jafnvel einskonar reisn yfír því, hvort sem það var vegna „gullinsniðs" glugganna og útidyranna eða kannski hafði nóttin og púrtvínið lagst á eitt að láta líta svo út af takti við lífið og listina. Myndskerinn opnaði útidymar með lykli og tendraði ljós í ganginum. — Við komum upp ( kontórinn, sagði hann lágt — og höldum áfram að ræða málin meðan þau festa svefninn. Þótt undarlegt megi virðast hafði ég aldr- ei áður komið inn í þetta hús, því vettvang- ur okkar var Café Rosenberg. Hvemig var umhorfs? Sonnettuskáldið fékk sér meira kaffi, setti upp gleraugun og tók þau aftur af sér. — I ganginum virtist flest að niðurlotum komið, þar á meðal kista ein mikil — hún var hálfopin og troðfull af fatadmslum, sem einnig lágu ofan á lokinu og reyndar hingað og þangað ásamt skófatnaði, mestmegnis úr gúmmí. Hrörlegur spegill hékk fyrir ofan kistuna. Upp á loft lá stiginn sá ama og leifar af handriði, reyndar forkunnarfogm. Hann læddist á undan mér upp stigann og það brakaði í hverju þrepi. Loks stóðum við andspænis grænmálaðri hurð. Myndskerinn tók enn fram lyklakippuna og lauk dymnum upp. — Þetta er kontórinn, sagði hann og fálm- aði í myrkrinu. Daufa skímu lagði inn um gluggann, og nálægt honum þóttist ég greina stól með háu baki — og lítið borð með stómm lampa. Myndskerinn læddist varlega í myrkrinu í áttina að glugganum og ég sá handlegg hans teygja sig að lamp- anum — og það tendraðist rauðleitt ljós sem flæddi um nánasta umhverfí. Stóllinn með háa bakinu var allur útskorinn, mikii lista- smíð. Einnig borðið og lampinn með rauða glerkúplinum. Hinumegin við borðið var gamall og lúinn stóll með slitnu leðri. Út- skorinn bókaskápur með skrautlegu „leyni- hólfi" í miðju og klukka útskorin á vegg. Hún gekk ekki lengur. — Hún er búin að vera hálf fimm síðast- liðin sex ár, sagði myndskerinn og benti mér að setjast í leðurstólinn. Fór síðan að bókaskápnum og tók enn upp lyklakippuna og lauk upp „leynihólfínu" — og kom til baka með púrtvínsflösku og tvö glös. Ég hélt áfram að virða herbergið fyrir mér. Sitthvorumegin við bókaskápinn héngu gamlar ljósmyndir af fólki í útskomum römmum á dökkrauðu betrekkinu: Virðuleg- ir menn með skegg í ýmsum útgáfum og ungar og fríðar konur með feimnislegt og dálítið dularfullt bros. Á veggnum andspæn- is var stórt skatthol, allt útskorið og mikil völundarsmíð. Yfir því hékk dásamlega fög- ur olíumynd af sólsetri og við hliðina önnur minni af stúlkuandliti. Hinumegin við skatt- holið mótaði fyrir dyrum, betrektar með rauðu einsog veggurinn. „Leynidyr," hugs- aði ég með mér. A gólfinu siitið rautt teppi, sem leit út fyrir að vera persneskt. Loftið var mettað af ryki, vindlalykt og súmm púrtvínsfnyki. Myndskerinn setti flöskuna og glösin á borðið og settist sjálfur í útskoma stólinn. Andlitið öðlaðist nýja fegurð og dulúð í rauðu birtunni frá lampanum — hann horfði á mig þögull, tók síðan flöskuna og hellti í glösin. — Skál, sagði hann og lyfti glasinu. — Skál fyrir listinni! — Skál fyrir lífsins leyndardómi, sagði ég til að segja eitthvað spaklegt. Svo varð aftur þögn. Hann rétti mér vindlakassann. — Gjöf frá forsætisráðherranum, sagði hann þegar hann hafði kveikt í vindlinum sfnum og byijaður að púa af innvirðulegri nautn. Og bætti svo við: — Lífið er einsog vond sonnetta, illa kveðin og full af mót- sögnum. Eg treysti mér ekki til að svara þessu og dreypti á púrtvíninu. — Þú ætlaðir að trúa mér fyrir leyndar- máli, sagði ég loks. Hann lét sem hann heyrði þetta ekki og hélt áfram þar sem frá var horfið: — Samt treysti ég þér til að yrkja sonn- ettu um mig þegar ég er allur og birta hana í Lesbókinni. Svo bætti hann við: — Ég reikna með því að deyja á undan þér, með því að ég er eldri. — Hvað um konuna og bömin? spurði ég varfæmislega og með hálfum huga. Þögn. — Eg býst við hún deyi líka — kannski á morgun, kannski hinn. Kannski eftir fimm ár. Kannski deyja þau öll. Kannski sum. Þau hafa ekki minn stfl. Það er erfítt að vera fæddur til sérstakra hluta, og þó næsta auðvelt. Ég mundi gefa þér tvö til þijú böm, ef ég treysti þér fyrir þeim. — Sama og þegið, muldraði ég. — Giftu þig aldrei. Þú mundir missa skáldgáfuna. Ég gerðist órólegur og leit útundan mér á hurðina rauðu. — Hvað er hinumegin við þessa hurð? — Stigi. — Og hvað er við endann á stiganum? — Hanabjálkaloft. Svo hvessti hann á mig augun, og rauðum bjarma sló á annað glerið. — Veistu hvað ástin er? Ég hummaði — varstu ekki að enda við að segja að ég væri sonnettuskáld? — Hún er bókmenntir — oftast lélegar. Veistu hvað lífíð er? — Listin, sagði ég. — Oftast léleg, muldraði hann og stóð á fætur. — Það er betra að snúa því við: list- in er lífíð — hitt er eintóm hagfræði. Hann gekk hnarreistur og eilítið óstyrkur að hurðinni rauðu — og enn tók hann upp lyklakippuna. — Þú gengur á eftir mér upp stigann. Þegar upp á loftið er komið, kveiki ée-. Eg elti röddina upp þrepin, eitthvað upp í myrkrið. Svo fann ég að við vorum staddir á pallskör, en ég þorði ekki að hreyfa mig — hafði það á tilfínningunni að ég gæti steypst framyfír mig — niður — eitthvað í óendanlegt myrkur og tóm. Þá kviknaði á ljósi, gamalli péru. Fyrir framan mig á miðjum pallinum var líkkistan. Ég starði á hana agndofa — á útskurðinn. Ég tók orðið af sonnettuskáldinu: — sem enn hefur ekki verið lögð síðasta hönd á, þvf eitt homið á glansandi eikarlok- inu er næsta slétt en með daufri teikningu sem má ráða fram úr. Sonnettuskáldið hélt áfram sem í leiðslu: — starði á listilegt handbragðið, sem þó var yfirhlaðið og viðhafnarmeira en nokkuð sem ég hef áður séð. — Þetta hefiir tekið mörg ár, tautaði ég án þess að líta á myndskerann. — Ég hófst handa þegar klukkan stans- aði. Síðan eru liðin fímm og hálft ár. Næst- ,um sex. Ég þarf að venjast henni — venj- ast tilfinningunni. Sjá fyrir mér athöfnina — skynja hana. í nótt ætla ég að sofa í henni. Myndskerann sá ég aldrei eftir þetta, enda forðaðist ég Café Rosenberg. Mánuði síðar rakst ég á kunningja minn í Austur- stræti. — Hefurðu frétt það? sagði hann. — Frétt hvað? spurði ég. — Hann er dáinn. — Hver er dáinn? — Myndskerinn. Ég rölti á Café Rosenberg. Settist við borð og tók upp vasabókina. Sonnettuskáldið stóð á fætur, furðu bratt- ur. — Þannig var það nú garpur minn, svona varð hún til sonnettan sú arna. Hún birtist aldrei í Lesbókinni, enda týndi ég vasabók- inni. Hef eignast margar síðan og týnt þeim flestum. Ég skrifaði kvæðið eftir minni. Svo veifaði hann vasabókinni glaðlega. — Nú er ég að hugsa um að týna þess- ari jíka — en fyrst sting ég henni í vasann. Ég stóð einnig á fætur. — Hvemig væri að geyma hana í kist- unni? Myndskerinn bað þig að yrkja um sig sonnettu. — Við skulum rölta aftur út í góða veðr- ið og skoða stelpumar. Sem við gengum út í sólskinið bætti hann við, eins og ekkert væri sjálfsagðara: — Þetta verður skfnandi hús hjá þér — kannski þú leyfir mér að hýrast í kontóm- um, ég borga þér sanngjama leigu. — Kannski, sagði ég eins og ekkert væri sjálfsagðara. — Þú ættir kannski að spyija konuna fyrst. Svo bætti hann við og var byijaður að spá í stelpuman — Kannski fyllir maður bara kistuna með sonnettum. Og tuldraði síðan einsog við sjálfan sig: — Og lætur svo grafa hana — með við- höfn... Höfundur er rithöfundur í Reykjavík. STEINUNN ÁSMUNDSDÓTTIR: Á veitingahúsi Gluggakistan full af blómum, byrgir fólki að utan sýn en ég sé það þar sem það strunsar á milli laufblaðanna úti í rigningunni — kona tekur disk minn með ósnertum matarhaug fínnst ég vera leikari f aukahlutverki. Mér finnst forvitnileg hlutverk fólksins þama úti. Ég er kannski sú sem ekkert hlutverk fékk — áhorfandinn á milli blómanna. Svo eru það bílamir sem hreyfast f gegnum trjástofnana, marglit búr full af leikaraefnum sem bíða eftir að komast á áfangastað — til að taka við nýjum hlutverkum. Erfíðum, grátbroslegum og hlægilegum. Nú er öskubakkinn fullur tími fyrir mig að ganga á brott. Reyni að muna öll orðin sem ég á að segja f dag svo ég fái jákvæða umfjöllun tunguhvassra gagmýnenda. Höfundur er ung Reykjavíkurstúlka. ARI GÍSLI: Kennslutími Orð þagnarinnar eru engum viðkomandi Nóttin er föl, dagamir opin andlit líða hjá eins og allur annar sársauki blandin gleði Það birti fallega þennan dag göngustígurinn var greiðfær engin sól, aðeins hvftur himinn iðandi mannlff, séð úr glugga - klukkan biluð. Núna það er í lagi núna — núna er ég einn og hef sagt skilið við hversdagsleikann — og leiði sjálfan mig á vit drauma Ég er rólegur um sinn — skoða stöðuna Þetta er í Iagi núna — þegar ég stend við garð dauðans með blóm — núna Höfundur er ungur piltur í Reykjavík. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 21. MA[ 1988 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.