Lesbók Morgunblaðsins - 30.03.1996, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 30.03.1996, Blaðsíða 13
Mynd: Árni Elfar: Hæð yfir Grænlandi Smásaga eftir RAGNHEIÐIDAVÍÐSDÓTTUR Þegar Erna var lítil hélt hún að litl- ir karlar væru inni í útvarpinu; karlar sem töluðu til hennar. Mikið gat hún verið vitlaus. Nú var hún orðin 10 ára og hafði fyrir löngu séð að engir karlar voru inni í tækinu. Þar voru bara vírar, lampar og svolítið ljós sem kviknaði á þegar útvarpið var í gangi. Hún hafði sjálf kíkt þegar enginn sá til. Á morgnana kveikti pabbi á^ útvarpinu og hlustaði á veðurfréttirnar. I dag var súld á Dalatanga og veðurskipið Líma boðaði ísspangir úti fyrir Horni. Erna var oft svo- lítið þreytt á veðurfréttunum. Maðurinn, sem las þær, var svo raunamæddur í rödd- inni. En stundum talaði hann um hæð yfir Grænlandi og þá brosti pabbi og fór á sjó- inn. Svo kom hann til baka af sjónum og kyssti Ernu á kinnina. Þá var hún kát. Pabbi kom með rúsínur í boxi og nuddaði skeggbroddunum við vanga hennar. Það var olíulykt af skyrtunni hans. Þá kveikti hann á útvarpinu og beið eftir næstu hæð yfir Grænlandi. Útvarpið var vinur Ernu. Það var svo notalegt að hlusta á esperantókennsluna á meðan hún reiknaði dæmin sín. Þá stóð mamma á eldhúsgólfinu og straujaði dúka, skyrtur og svuntur. Frá strauborðinu lagði hýlega lykt sem blandaðist saman við ilm- inn frá rabbabarasultunni sem kraumaði í potti á eldavélinni. Svo komu fréttirnar klukkan sjö. - Eru þeir enn að murka lífið úr þessu blessuðu fólki austur í Víetnam, spurði pabbi annars hugar um leið og hann fletti þriggja daga gömlum Tíma. Hann þreyttist aldrei á að tala um stríðið í útlöndum og veðrið. Það var uppáhalds umræðuefnið hans. - Skyldi hann gefa á sjó á morgun, spurði hann svo og leit á mömmu sem var að veiða saltfiskinn upp úr pottinum. Erna þagði. Líka mamma. Það kom alltaf svo skrýtinn svipur á hana þegar pabbi talaði um sjóinn. Stundum stóð hún lengi við gluggann og horfði út í myrkrið. Þá vissi Erna að hún var að hugsa um pabba. Hún vissi líka að mamma var að hugsa um strákana hennar Elínar á Akri sem fórust með Sæborginni í fyrra. Erna hafði heyrt nöfnin þeirra lesin upp í fréttunum í útvarp- inu. Þá hafði pabbi bölvað hressilega, snýtt sér og skammast út í veðurfréttirnar. - Þeir spá norðan hægviðri þessir skrattar en svo skellur hann bara á með suðaustan hraglanda, hafði hann sagt. Hann var reiður í augunum. Svo fór hann á sjóinn og mamma tók sér aftur stöðu við gluggann. Erna var stundum reið út í veðurmann- inn með raunamæddu röddina. Af hverju gat hann ekki sagt satt? Af hverju kom ekki hæðin yfir Grænlandi þegar bræðurn- ir á Akri fóru á sjóinn? Hún hafði spurt en mamma sagði henni bara að halda áfram með dæmin sín. Hún myndi skilja þetta þegar hún yrði stór. En þrátt fyrir að veðurmaðurinn skrökv- aði stundum hlustaði Erna oft á útvarpið. Þar átti hún marga vini sem aldrei minnt- ust á hæðir eða lægðir. Árni í Hraunkoti var hennar maður. Vikulega lifði hún sig inn í ævintýri borgardrengsins sem fór í sveitina á sumrin og lenti í hinum svakaleg- ustu ævintýrum. í síðasta þætti var hann kominn á slóð bófa og ræningja þegar þulurinn tilkynnti að framhald yrði í næstu viku. Erna hlakkaði mjög til að heyra fram- haldið. Það var bara svo erfitt að bíða í heila viku án þess að vita hvernig Árna reiddi af í viðureign sinni við bófana. Hún varð því að láta sér nægja að hlusta á sjó- mannaþáttinn. Kannski myndi konan lesa kveðjuna sem hún sendi pabba á sjóinn. Það var kominn fimmtudagur. Loksins. í dag myndi hún fá að heyra af örlögum Árna sem hún skildi við í síðasta þætti í klónum á vondu köllunum. Myndi hann sleppa? Gæti hann komið boðum til lögregl- unnar? Erna hljóp heim úr skólanum þenn- an dag. Hún leit ekki á búið sitt í hrauninu og lét sem hún sæi ekki Klódhildi sem mjálmaði þar sem hún kúrði í sólinniund- ir hlöðuveggnum. Hugurinn var hjá Árna. Um leið og hún opnaði útidyrnar fann hún að eitthvað var öðruvísi. Hún kallaði á mömmu en fékk ekkert svar. Hvar var mamma, sem var vön að taka á móti henni með heitu kakói og matarkexj? Það var kalt og rakt loft í stofunni. Á gólfinu í eldhúsinu var strauborðið þakið þvotti. Þetta þótti Ernu skrýtið. Hún gekk um húsið og kallaði á mömmu - en fékk ekk- ert svar. - Hún hlýtur að hafa farið fram að Akri til Elínar, hugsaði hún með sér og gekk inn í stofuna. Þar beið útvarpið á hillu fyrir ofan skápinn - þar sem það hafði verið frá því pabbi kom með það heim af sjónum eitt haustið þegar hún var lítil og hélt enn að litlir karlar væru innan í því. Hún snéri takkanum á tækinu og settist síðan í sófann og kom sér þægilega fyrir. Klukkan var alveg að verða sex og Árni í Hraunkoti á næsta leiti. Mikið var tíminn lengi að líða. Þegar gamla vekjaraklukkan, sem mamma hafði fengið frá ömmu, sló sex slög stóð hún upp og sneri takkanum. Hún beið svolitla stund, enda vissi hún að tæk- ið yrði að hitna áður en í því heyrðist. En ekkert gerðist. Hún leit á nálina og fullviss- aði sig um að hún væri á réttum stað og beið svo áfram. Hún var orðin óróleg. Af hverju kviknaði ekki á tækinu? Allt í einu áttaði hún sig á að ekkert ljós logaði innan í því. Var tækið bilað? Var rafmagnið far- ið? Stundum fór rafmagnið fyrirvaralaust en hún trúði ekki að það væri að gerast einmitt núna þegar mest á reið og Arni í Hraunkoti að byrja. Hún leit á klukkuna og sá að hún var gengin þrjár mínútur í sjö. Óttaslegin hugsaði hún um örlög Árna og hvað hefði gerst í lífi hans þessar þrjár mínútur. - Mamma! Erna öskraði eins hátt og hún gat. Af hverju þurfti hún að fara út núna þegar hún þurfti mest á henni að halda? Hún óskaði þess að pabbi væri heima. Hann var svo laginn að gera við. Orvænt- ingarfull sneri hún takkanum fram og aft- ur í þeirri von að eitthvert hljóð kæmi frá tækinu. En ekkert gerðist. Vonsvikin sett- ist hún aftur í sófann. Hvað átti hún til bragðs að taka? Allt í einu fékk hún hug- mynd. Var ekki útvarpstæki á Akri? Erna stökk á fætur, klæddi sig í kápu og hljóp út á hlað. Fyrst útvarpið bilaði á örlaga- stundu var ekki um annað að ræða en hlaupa yfir að Akri til þess að hlusta á Árna og ævintýri hans. Þar var nýtt út- varp með batteríum sem strákamir hennar Elínar höfðu keypt þegar þeir sigldu til útlanda. Það var áður en veðurmaðurinn skrökvaði til um veðrið. Erna hljóp af stað. Hún hafði þegar misst af fimm mínútum og fylltist ótta við tilhugsunina um vin sinn í klónum á bófun- um. Hún gat ekki hugsað þá hugsun til enda hvað þessir óþokkar myndu gera hon- um ef þeir næðu honum. Hún hljóp áfram og sá bæinn að Akri handan við ána. Enn var góður spölur eftir. Hún reiknaði í hug- anum að ef hún hlypi alla leið myndi hún aðeins missa af fimmtán mínútum. Kannski myndi Árni spjara sig á þeim tíma. Það var ljós í eldhúsglugganum á Akri. Jæja, það var þá ekki rafmagnslaust þar, hugsaði Erna með sér og kættist heldur. Nú var aðeins síðasti spölurinn eftir og Erna hljóp við fót. En af hverju voru allir þessir bílar á hlaðinu? Gat verið að fleiri útvarpstæki í sveitinni væru biluð? Erna hafði aldrei séð svona marga bíla saman- komna nema fyrir framan kirkjuna á að- fangadagskvöld. Hún þekkti strax jeppann hans séra Ingólfs á Stað og sá ekki betur en nýju drossíunni hans Kjartans útgerðar- manns væri lagt við austurgaflinn. Erna bankaði hraustlega á útidyrnar og beið eftir að Elín kæmi til dyra. Reyndar fannst henni svolítið skrýtið að hún skyldi ekki koma út á hlað þegar hún heyrði geltið í Snotru sem kom fagnandi á móti henni. Líklega var allt fólkið upptekið af að hlusta á framhaldsleikritið í útvarpinu. Þegar enginn kom til dyra opnaði hún varlega dyrnar og gekk inn. Hún heyrði lágværar raddir í eldhúsinu en furðaði sig á að ekkert heyrðist frá útvarpinu. - Halló, er einhver heima? Hún bjóst við Elínu fram ganginn á hverri stundu. Af hverju svaraði fólkið ekki? Hún gægðist inn um dyrnar á eldhúsinu og brá í brún þegar hún sá allt fólkið sem þar var saman komið í kringum hringlaga eldhúsborðið á Akri. Fyrst kom hún auga á mömmu sem sneri baki í hana. Erna skildi ekki af hverju Elín hélt utan um axlirnar á mömmu. Hún skildi heldur ekki af hverju fólkið var ekki inni í stofu að hlusta á útvarpið. Allt í einu kom séra Ingólfur auga á Ernu. Hann brosti vandræðalega. - Komdu inn Erna mín, sagði hann og gekk á móti henni. - Má ég hlusta á Árna í Hraunkoti? Útvarpið okkar er bilað og pabbi kemur ekki heim fyrr en á morgun. Ella, er það í lagi? Erna var móð og óðamála. Ekkert svar. Séra Ingólfur leit á Elínu, sem stóð og hellti upp á könnuna. Hún leit undan augnaráði Ernu og horfði á mömmu. Ekkert þeirra mælti orð af vörum. Hvað var að gerast? Erna stoppaði í dyrun- um og beið eftir svari. Mamma stóð á fætur og gekk til hennar. Hún var rauð í kringum augun eins og hún hefði grátið. Hún gekk að Ernu'og faðmaði hana fast - svo fast að hún náði varla andanum. Séra Ingólfur klappaði henni vandræðalega á kollinn. Enginn sagði neitt. Það var far- ið að þykkna í Ernu. Nú voru sautján mín- útur liðnar og aðeins þrettán eftir að leik- ritinu um Árna. Hún gat með engu móti slitið hugann frá afdrifum vinar síns. - Það varð slys, Erna mín. Séra Ingólf- ur rauf þögnina. - Slys? hváði Erna. Hvernig slys? Ekkert svar. Allt í einu áttaði Erna sig á að eitthvað mikið var að. Mamma var ekki vön að gráta og prestinn sá hún aldr- ei nema við messur. Af hverju var mamma hér á Akri? Þúsund hugsanir flugu eins og örskot í gegnum huga Ernu þar sem hún stóð enn í eldhúsdyrunum, umvafin örmum mömmu. Var þetta ekki akkúrat svona þegar bræðurnir á Akri dóu á sjón- um? Þá voru séra Ingólfur, Kjartan útgerðar- maður, Elín og mamma samankomin í þessu sama eldhúsi. Hún mundi það svo vel vegna þess að Elín hafði gefið henni jólaköku með rúsínum sem hún gat með engu móti borðað. Þá voru Elín og mamma báðar rauðar um augun. Nú var allt ná- kvæmlega eins og þá. Aðeins eitt var öðru- vísi. Pabbi var ekki í hópnum núna. Skyndilega varðaði Ernu ekkert um Árna í Hraunkoti og viðureign hans við bófana. Henni var alveg sama hvað um hann yrði. Ekkert skipti máli nema pabbi. Hún tók fyrir eyrun og sá varir fólksins hreyfast. Þau voru að reyna að segja henni eitthvað en hún vildi ekki hlusta. Hún fann hvernig illskan náði tökum á henni; illska út í veðurmanninn með raunamæddu rödd- ina sem hafði sagt pabba frá hæð yfir Grænlandi og áframhaldandi hægviðri. Erna grét ekki eins og mamma. Hún los- aði sig varlega ur fangi hennar, gekk hægum skrefum í átt að stofunni og opn- aði dyrnar. Hún skimaði í kringum sig og leitaði að nýja útvarpinu. Þarna var það á miðju stofuborðinu og þagði. Með öruggum hreyfingum snéri hún takkanum og sá að ljósið kom strax. „Hér lauk fimmta þætti útvarpsleikrits- ins Árni í Hraunkoti. Lokaþátturinn yerður á dagskrá á sama tíma eftir viku. Útvarp Reykjavík, nú verða sagðar fréttir. Fimm manns komust af þegar lítill bátur sökk. Eins er einn saknað. Víðtæk leit stendur yfir..." Höfundur er rithöfundur. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 30. MARZ1996 13'

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.