Lesbók Morgunblaðsins - 03.08.1996, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 03.08.1996, Blaðsíða 3
LESBÖK MORGENBLAÐSEVS - MI\M\(,/1ISHI! 30. TÖLUBLAÐ - 71. ÁRGANGUR EFNI Verk eftir Gunnlaug Stefán Gíslason. Fyrsta samsýning íslenskra vatnslitamálara er í Hafnarborg. Tíu listamenn eiga verk á sýningunni. Þrátt fyrir að fjölmargir ís- lenskir myndlistarmenn hafi gefið vatn- slitunum gaum - í meiri eða minni mæli - hefur samstarf islenskra vatnslitamál- ara löngum verið af skornum skammti. Það er ekki fyrr en nú, með sýningunni Akvarell ísland, að þeir hafatekið saman höndum Eyrarsundsbrúin er eitt af forgangsverkefnum Evrópusam- bandsins á sviði samgöngumála. Hún mun tengja saman Málmey og Kaupmannahöfn og opna beinar landsamgöngur frá Skand- inavíu til meginlands Evrópu. Brúin verð- ur á tveimur hæðum og mun flytja um 20 þúsund bíla og 200-300 járnbrautarlest- ir á sólarhring og kostnaðurinn er talinn munu nema um 200 milljörðum íslenskra króna. Ýmis náttúruverndarsamtök hafa deilt á brúna vegna umhverfisáhrifa, en nú er öllum hindrunum rutt úr vegi og bygging brúarinnar hafin. Jörðin úr lofti kallast verkefni sem franski ljós- myndarinn Yann Arthus-Bertrand hefur tekist á hendur og m.a. komið hingað til lands þess vegna. Móður jörð eru margar hættur búnar og markmiðið með loft- myndunum er að vekja athygli jarðarbúa á ástandi heimkynna þeirra þegar ný öld nálgast óðfluga. Þórshöfn á Langanesi varð löggiltur verzlunarstað- ur árið 1846, en vorið 1839 höfðu sljórn- völd leyft kaupmönnum úr næsta ná- grenni að verzla þar. Nú þegar verzlunar- staðurinn Þórshöfn er 150 ára, hefur þess verið minnst á staðnum, en Friðrik G. Olgeirsson, sagnfræðingur, rifjar upp sögu staðarins af þessu tilefni. Forsíðumyndina af Yann Arthus-Bertrand við Ijósmyndun yfir íslandi tók Golli. JÓHANN SIGURJÓNSSON FYRIR UTAN GLUGGA VINAR MÍNS Hljóðnað er, borg, á breiðum strætum þínum, bláhvítur snjór við vota steina sefur, draumsilkið rakið dimma nóttina hefur deginum fegra upp úr siifurskrínum. Vökunnar logi er enn í augum mínum, órói dagsins bleika spurning grefur djúpt í mitt hjarta, er kemur seinna og krefur kyrrðina um svar, um lausn á gátum sínum. Vinur. þú sefur einn við opinn glugga, æskunnar brunn í svefnsins gylltu festi sígur þú í og safnar fullum höndum. Hugur minn man þinn háa pálmaskugga, hafí ég komið líkur þreyttum gesti utan frá lífsins eyðihvítu söndum. Jóhcmn Sigurjónsson, 1880-1919, vor fró Laxamýri í Þingeyjorsýslu, en flutti ungur til Danmerkur, þar sem hann haslaði sér völl sem rithöfundur og skrif- aói mikió ó dönsku. Hann varð þekkt leikritaskóld, t.d. fyrir Fjolla-Eyvind og Galdra-Loft, en hann var einnig Ijóöskóld og orkti fyrsta móderníska Ijóóió ó islenzku. RABB HLÁTUR EÐA GRÁTUR? VIÐ GRÉTUM af hlátri, tók- um bakföll, reyndum að taka okkur saman í and- litinu en skelltum upp úr á nýjan leik. Við sátum við borð á veitingastað á hótelinu okkar í Sankti Pétursborg, fimm vest- rænar konur á aldrinum þrjátíu og fimm til sjötugs og hegðuðum okkur eins og smástelpur. Við vorum að koma af fjöl- mennri ráðstefnu í Helsinki og kynntumst fyrir tilviljun í rútubíl á leið til Sankti Pétursborgar. Nú sátum við síðla kvölds að snæðingi á tælensku veitingahúsi á efstu hæð þungiamalegrar steinbygging- ar, sem var hótelið okkar. Hótelið var risastórt, hlaðið sýnd- arglæsibrag án þess að því fylgdi vottur af smekkvísi eða þægindum. Lítil grænn plaststrákur pissaði án afláts í klunnalega skál úr marmara og steinsteypu sem stóð á miðju gólfi í víðáttumikiu anddyri. Gull- rákir skreyttu loft og veggi líkt og risa- barn hefði slett þar málningu í leik. Hér og þar trónuðu óþægilegir stólar með rauðu plussáklæði umhverfis efnismikil borð úr dýrum viði. Biðraðir settu svip á hótelið. Þær voru alls staðar. Menn biðu eftir lyklum, pössum, peningum, morgun- verði, kaffi eða drykkjarföngum á íslensku kráarverði. Við horfðum út í gráa sumarnóttina. Út um gluggann blöstu við skellóttar risa- blokkir úr vondri steypu svo langt sem augað eygði. Svalir héngu í hundraðatali utan á þessum óaðlaðandi mannabústöð- um og grétu rauðu ryði. Hér og þar lýstu rússneskar ljósakrónur upp glugga. Fáein- ir glæsivagnar og nokkrir fornlegir bílar, sumir dekkjalausir, húktu á bílastæðum og varla sást nokkur maður á gangi. Byggingarnar runnu saman líkt og tré í skógi og féllu að grámuskulegum kvöld- himninum úti við sjóndeildarhringinn. Það rigndi. Fyrr um daginn höfðum við skoðað miðborgina, hina gömlu höfuðborg rúss- neska keisaradæmisins. Við heimsóttum meðal annars Vetrarhöllina sem arkitekt- inn Francesco Bartolommeo Rastrelli teiknaði eftir fyrirmælum Péturs mikla. Líklega hefur hvorki fyrr né síðar tekist að skapa jafn fágætan og fíngerðan vef úr hugviti og dýrustu efnum heims og þarna. Rauðagull og roðasteinar, raf, harðviður og marmari tengdust í óviðjafn- anlegri hljómkviðu lita og forma í hveijum salnum á fætur öðrum. Þarna mátti sjá dýrðleg listaverk Hermitage-safnsins, sem upphaflega var einkasafn Katrínar miklu. Hún lét kaupa fyrir sig stórt listaverka- safn í Berlín árið 1764, aðalega myndir eftir flæmsku og hollensku meistarana en síðan hefur safninu bæst ógrynni lista- verka sem spanna sögu mannsandans. Þó hafa mörg verkanna farið forgörðum í hörmungum styijalda, verið seld af skammsýnum ráðamönnum eða jafnvel gefin sem mútufé til að greiða fyrir sam- skiptum austurs og vesturs við lok síðari heimstyijaldar. Við sáum líka gulli skreyttar dómkirkjur helgaðar Kristi upp- risnum og ýmsum dýrðlingum austurkirkj- unnar. Fararstjórinn hafði látið móðan mása allan daginn. Hún sagði okkur frá Pétri mikla og Katrínu miklu, heimilislífi þeirra, fjölskyldueijum, sigrum og ósigrum. Hún fræddi okkur um Puschkin og Dostojevski, en minntist ekki einu orði á Sovétsöguna og herra hennar. Það var engu líkara en að okkur ferðalangana hefði dreymt þá félaga Lenín og Stalín. Við höfðum hrifist af fegurð og glæsileika miðborgarinnar, sem ber nafnið Feneyjar norðursins með rentu. Við höfðum keypt heklaðar „dúll- ur“ og heimagerðar svuntur af horuðum gömlum konum sem réttu að okkur hand- verk sitt og tautuðu „fimmtán dollarar“ . Við höfðum spjallað lengi við bráð- skemmtilegar rússneskar mæðgur, lækna, sem vildu bjóða okkur í mat, þótt þær hefðu sjálfar tæpast til hnífs og skeiðar. Við rákumst á þær á tehúsi við ánna, þar sem þær voru að gera sér dagamun eftir fjórtán stunda vinnudag. Eldri systirin hafði fengið launin sín greidd þá um dag- inn, laun sem tæpast dygðu til fram- færslu í viku á íslandi. Gestrisni þeirra og hlýja snerti okkur djúpt. „Margt hefur farið forgörðum við fall Sovétkerfisins sem varðar líf og heilsu almennings", sögðu þær. „Við höfum alltaf haft skömm á kommúnismanum en nú heyrir örugg og ódýr barnagæsla, góðir almennir barnaskólar, almenn heilbrigðisþjónusta og atvinnuöryggi nánast sögunni til. Nýju rússarnir maka krókinn og verða ríkari dag frá degi, en við trúum því samt að smám saman muni ástandið batna. Við erum vel menntuð og dugleg. Vinna og aftur vinna mun skila börnum okkar betra samfélagi.“ Við kvöddum mæðgurnar með söknuði. Mikið hefði verið gaman að borða með þessum elskulegu konum. Nú sátum við hér, fimm borgaralegar konur að vestan, yfir tælenskum mat. Tvennskonar tónlist barst okkur til eyrna. Annars végar hjómaði dökk og tilfinninga- þrungin baritonrödd sem söng fagurt rúss- neskt þjóðlag og hins vegar glumdu undarlegar rokur, ókennileg öskur eða skringileg hljóð líkt og hás prestur væri að tóna á móti ryðguðum kór. Við báðum þjóninn okkar að slökkva á hávaðanum. Hann ypti öxlum og virtist ekki skilja. Ein samferðarkonan, dvergvaxinn banda- rískur prófessor um sjötugt, benti ákaft á eyrun á sér, dinglaði fótunum ótt og títt og setti upp sársauka svip. Við tókum andköf, en vesalings þjónninn varð ennþá vandræðalegri. Ég stóð upp og rann á hljóðið. Viti menn; í hliðarsal voru nokkr- ir miðaldra japanskir karlmenn að gera sér dagamun. Hálftómar vodkaflöskur, glös og myndbandstæki þöktu borð. Karl- arnir dönsuðu og sungu allt hvað af tók á miðju gólfi umhverfis félaga sinn, full- orðinn mann í klæðskerasaumuðum jakkafötum af dýrustu gerð. Sá hélt um karókítæki, skók sig ægilega í mjöðmun- um og tónaði af mikilli innlifun: „It is now or never...“ . Ég starði á þá agndofa. Við vorum svo sannarlega staddar á mótum tveggja heima. Hér gat allt gerst. Líklega er fáum rússum hlátur í huga. Þjóðfélagskerfi kommúnistaflokksins er hrunið. Farið hefur fé betra. Hins vegar virðist samhjálpin og velferðarstuðningur sem voru aðalsmerki annars rotins al- ræðisríkis vera fyrir bí. Frelsið að vestan virðist hér snúist upp í andstæðu sína. Viðkvæmustu kvisti mannlífsins kelur í hraglanda hinnar fijálsu samkeppni. Umbreytingin er snögg og ýktari en dæmi eru til á Vesturlöndum. Samt má vera að við getum eitthvað af þessu lært. Ætli við gætum þess nægilega vel á sparnað- ar- og samdráttartímum að halda eftir því sem gott er og gagnlegt og skera ein- ungis brott bruðl og fúa? Breytingar ger- ast ekki í einu vetfangi, það tekur kynSlóð- ir að aðlagast og umskapa mannlegt sam- félag og færa það til skárri vegar. Snögg umskipti skapa tómarúm þar sem hlutir en ekki fólk verða í fyrirrúmi. DÓRA S. BJARNASON LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 3. ÁGÚST 1996 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.