Lesbók Morgunblaðsins - 07.12.1996, Page 3
LESBÖK MOIM.l \I5I \I)SI\S - MI \\I\(,/I IS I II!
48. tölublað -71. árgangur
EFNI
Landmælingar
íslands eiga langt starf að baki við kortlagn-
ingu landsins og fyrst eftir aldamótin hvíldi
það á dönskum mælingamönnum. Agúst
Böðvarsson, sem nú er rúmlega áttræður,
hefur manna bezta yfirsýn yfir landmæling-
arnar og nú stendur hann að veglegri bók
um þetta efni. Hér er gripið niður í bókina
þar sem segir frá mælingum á Öræfajökli.
Dómhús
Hæstaréttar er risið við Arnarhól, en
Safnahúsið og Þjóðleikhúsið njóta sín sem
fyrr, þótt boðað væri að svo yrði ekki þeg-
ar þessu húsi var mótmælt. Ungur arki-
tekt, Sigurður Pálmi Ásbergsson, hefur
gert úttekt á húsinu og telur það vel hann-
að hús, sem fari vel á sínum stað.
r
Irinn
Kenneth Branagh er einn
atkvæðamesti kvikmynda-
gerðarmaður á Bretlands-
eyjum um þessar mundir.
Jónas Knútsson skoðar í
grein glímu hans við verk
William Shakespeare á
hvíta tjaldinu og ber sam-
an við aðrar útgáfur af kvikmyndun verka
skáldsins. Myndin Þrettándakvöld (The
Twelfth Night) hóf nýlega göngu sína á
Bretlandi, en níu bíómyndir eftir verkum
WiIIiams Shakespeares hafa verið frum-
sýndar nýlega eða eru í smiðum. Ef William
Shakespeare væri á lífi gæti hann sagt
farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti sín
við kvikmyndaheiminn. Samt hafa kvik-
myndagerðarmenn sýnt verkum hans meiri
áhuga en sögum nokkurs annars höfundar,
lífs eða liðins.
London
er áfangastaður margra íslendinga í des-
embermánuði sem endranær. Olafur Elías-
son hefur skrifað grein um það, sem á
boðstólunum er þar í borg á tónlistarsvið-
inu. Þar á meðal leikur Sinfóníuhljómsveit
Lundúnaborgar í aðalsal Barbican Center,
en hljómsveitin er talin einhver besta sinfó-
níuhljómsveit í heimi.
GUÐMUNDUR BÖÐVARSSON
ÞÓ FARI NÓTT YFIR
Er nóttin fór yfír og næddi um ungar greinar
nístandi vindur úr hinni bitrustu átt,
að trölli varð drangur, að ókindum stakir steinar,
að stórveldi hættunnar fjallið myrkvað og grátt.
Þá stóðst þú við gluggann og sást út til sólarlagsins,
er síðasta dagskíman kvaddi okkur einmana stað,
og mæltir af harmi þíns hjarta og barnsást til dagsins:
Hver hefur sólina skapað? Segðu mér það.
Ég vissi ekki svarið. Hvað vita allar heimsins þjóðir? -
Þó varð mér það auðvelt á tungu sem fornkunnugt Ijóð:
Guð hefur skapað sólina, sagði mín móðir,
og hún sagði alltaf satt, hún mamma mín, vina mín góð.
Þú krafðist ei frekara svara, en sökktir þér niður
í sefjun gamallar trúar, sem mörgum varð sönn.
Og um okkur bæði rann kvöldsins kyrrláti friður,
þó koldimmt væri úti og hlæði þar niður fönn.
Þó nótt fari yfír og drúpi haustfölir hagar,
í hringleikjum stormanna dansi snjóélin hörð,
já, hvernig sem er, þá bjarmar og brosir og dagar
af barnanna sólást, á hinni skugguðu jörð.
Guómundur Böðvarsson, 1904-1974, var Ijóóskóld og bóndi ó Kirkjubóli í
Hvítórsíðu. Fyrri Ijóð hans eru flest nýrómantísk, en með tímanum gætir í
þeim vaxandi þjóðfélagslegrar óherzlu.
Forsíóumyndina tók Einar Falur Ingólfsson af aóventugöngu í Brooklyn, New York.
ÞEGAR SMÆÐIN
VERÐUR STYRKUR
RABB
Við höfum dottið í lukkupott-
inn. Það er búið að upp-
götva okkur, og það á að
veðja á okkur. Lykli er snú-
ið í ryðbrunnum skrám hins
stöðuga íjársveltis og ís-
lenskum vísindamönnum
hleypt úr prísundinni. ís-
lenskur ofurhugi og prófessor við Harvard,
einn virtasta háskóla Bandaríkjanna, hefur
hrint í framkvæmd draumi margra íslenskra
vísindamanna undanfarna áratugi. Þeim
draumi að geta nýtt þær einstöku aðstæður
sem bjóðast hér á landi til erfðafræðirann-
sókna. ísland er einstakt að þessu leyti. Það
hafa margir vitað og unnið samkvæmt því.
Varið til þess ævi sinni að nýta þau tæki-
færi sem ísienska þjóðin gefur og byggja
þann grunn sem síðari rannsóknir munu
standa á. Þetta hafa menn gert hver fyrir
sig eða nokkrir saman undanfarna áratugi,
fyrir það fé sem hægt var að afla hverju
sinni. Fjárskorturinn var alltaf það sem
hamlaði, menntunin, hugmyndirnar, efnivið-
urinn og viljinn voru fyrir hendi, en krónurn-
ar ekki. Stundum fékkst heldur stærri styrk-
ur, heldur fleiri aurar eitt árið en annað eins
og gengur, - en aldrei svo að það lofaði
fjárhagsgrunni til frambúðar.
Þess vegna hafa orðið kaflaskipti við til-
urð fyrirtækis sem nokkrir íslenskir vísinda-
menn eiga frumkvæði að. íslensk erfðagrein-
ing heitir það og er staðsett í Hálsasveit
hinni nýju ofan við Ártúnsbrekkur. Hlutafé
er 800 milljónir króna og er að mestu reitt
fram af erlendum fjárfestum, sem hafa sann-
færst um að fé þeirra verði vel varið.
Hvað er það, sem þeir eru að fjárfesta í?
Hvað höfum við fram að færa? Það vill svo
til, að sjálf hef ég um árabil tekið þátt í
rannsóknum áþessu sviði og árið 1980 flutti
ég fyrirlestur á heilbrigðisþingi í Alaska, sem
ég kallaði When being small is your strength,
- eða Þegar smæðin verður styrkur þinn.
Þar var fjallað um Island sem land tækifær-
anna fyrir erfðarannsóknir og faraldsfræði.
Rökin fyrir því að ísland sé einstakt að þessu
leyti voru sterk þá og hafa styrkst síðan.
íslendingar eru einsleit þjóð hvað erfðir
varðar, - einangrun á þessari eyju frá land-
námi, svipaður bakgrunnur þeirra sem hing-
að komu (sem birtist m.a. í því að menn
hafa getað deilt um uppruna Islendinga í
áratugi, - en það er kapítuli út af fyrir sig)
og töluverð blöndun fólks milli landshluta
hefur stuðlað að þeirri tiltölulega einsleitu
þjóð, sem hér býr í dag.
Áhuga Islendinga á ættum og skyldleika
er við brugðið. Þetta veldur því að við getum
rakið ættir bæði lóðrétt eða aftur í tímann,
og Iárétt til skyldleika meðal samtímamanna
okkar í marga liði. Ekki kunna menn þetta
allt utan að, en tölvutæknin hefur auðveldað
mjög allt starf ættfræðinga. Það er hins
vegar ekki nóg að eiga tölvu, menn verða
að hafa áreiðanlegar heimildir. Með manntal-
inu 1703 er hornsteinninn lagður, Eftir 1800
voru manntöl tekin reglulega, fyrst hvert
fimmta en síðar hvert tíunda ár. Kirkjubæk-
ur geyma mikinn fróðleik, þótt þær séu ekki
óbrigðul heimild um giftingar, skírnir og
dánardægur. Síðast en ekki síst hafa áhuga-
menn um ættfræði víðs vegar að á landinu
rakið einstakar ættir mun lengra aftur en
þessar opinberu heimildir ná._
Erfðafræðinefnd Háskóla Islands var
stofnuð 1965 með það að markmiði að greiða
fyrir erfðafræðirannsóknum með því að skrá-
setja og rekja saman ættir. Hún lagði grunn
að sínum skrám með því að færa inn á tölv-
ur manntalið frá 1910, aftur í tímann rakti
hún ættir einstaklinga til manntalsins 1845,
og fram í tímann eru ættir raktar ogtengd-
ar þjóðskránni frá 1952. Þannig er kominn
traustur tölvutekinn grunnur sem spannar
um 7 kynslóðir.
Erfðir ráða miklu um útlit manna, eins og
allir vita. Jens Pálsson prófessor í mannfræði
hefur tekið þetta viðfangsefni vísindalegum
tökum og rannsakað svipgerð margra tugþús-
unda íslendinga, bæði hér heima og erlendis.
Við þetta má bæta að Blóðbankinn hefur
greint tvo af hveijum þremur íslendingum
til blóðflokka, greint vefjagerð margra þús-
unda og erfðagerð íjölmargra. Leitin að or-
sök arfgengrar heilablæðingar, sem hijáð
hefur níu ættir hér á landi var meðal við-
fangsefna dugnaðarforksins Ólafs Jenssonar
bankastjóra Blóðbankans og samstarfs-
manna hans. Á undanförnum mannsaldri
hafa um 150 einstaklingar úr þessum ættum
orðið fyrir heilablæðingu áður en fimmtugs-
aldri var náð. Rannsóknirnar hafa leitt í ljós
upphaf meinsins hjá einum sameiginlegum
forföður þessara ætta. Þessi ólánsami maður
bjó yfir stökkbreyttu geni, sem hefur valdið
mörgum kynslóðum afkomenda hans svo
miklum skaða og sorg. Nú hefur genið verið
einangrað og ljóst er í hverju skaðinn er
fólginn. Fyrsta stóra skrefið til að vinna bug
á meinvaldinum er þar með stigið.
Þegar leitað er að orsökum sjúkdóma er
nauðsynlegt að þekkja útbreiðslu þeirra.
Einnig hér stöndum við mjög sterkt að vígi.
Menntunarstig almennings er hátt, sem ger-
ir samvinnu miklu greiðari en til dæmis þar
sem ólæsi er útbreitt. Heilbrigðisþjónusta
er á háu stigi og skráning sjúkdómstilfella
nánast óbrigðul. Krabbameinsskrár hér á
landi eru með þeim bestu sem þekkjast.
Skráð hafa verið öll tilfelli krabbameins á
landinu frá 1954, og bijóstakrabbameins frá
1911. Skrárnar gefa óvenju áreiðanlegar
upplýsingar um tíðni krabbameins ekki að-
eins vegna þess að gera má ráð fyrir að
sjúklingar komist allir undir læknishendur,
heldur einnig vegna þess að greining á mein-
gerð æxla er öll framkvæmd á sama stað,
hjá Rannsóknarstofu Háskóla íslands í
meinafræði. Við það bætist, að krufning lát-
inna er mjög algeng, sem veldur því að greina
má dulda sjúkdóma, til dæmis æxli, hjá fólki
sem hefur látist af öðrum orsökum. Þetta
skiptir máli þegar verið er að kanna hvernig
sjúkdómar erfast.
En við þekkjum ekki aðeins þá sjúku, -
fáar þjóðir vita meira um lífshætti hinna
heilbrigðu og hvernig hættan á því að veikj-
ast byggist upp. Hér á landi hefur gríðarlega
umfangsmikil rannsókn verið í gangi í 30 ár
sem hefur það að markmiði að draga úr
hjarta- og æðasjúkdómum. Hjartavernd hefur
mælt ýmsa áhættuþætti þessara sjúkdóma
hjá þriðjungi þjóðarinnar, eða um 90 þúsund
manns. Þijátíu þúsundum manna hefur verið
fylgt eftir frá 1967. Þannig er hægt að fylgj-
ast með heilsufari hvers og eins, átta sig
betur á sambandinu milli heilbrigðis og lífs-
hátta og um Ieið á orsökum sjúkdóma. Menn
svara spurningalistum um heilsufar sitt og
þannig fær Hjartavernd upplýsingar um út-
breiðslu annarra sjúkdóma en þeirra sem
tengjast hjarta og æðum. Eftir rannsókn fær
hver einstaklingur ráðgjöf í trúnaði, en í allri
vinnslu gagna er nafn hans hvergi skráð.
Auðvitað er það frumforsenda rannsókna af
þessu tagi, að fullur trúnaður ríki um allar
upplýsingar og að menn geti treyst því að
alger nafnleynd ríki.
Það sem ég hef rakið hér að framan er
nóg til að gera ísland að landi tækifæranna
fyrir vísindamenn á þessum sviðum, - en
þar að auki lumum við á bónusvinningi.
Brot af íslensku þjóðinni hefur sest að í
annarri heimsálfu og meðat Vestur-íslend-
inga í Kanada og Bandaríkjunum má finna
mikinn fjölda fólks sem er eingöngu af ís-
lensku bergi brotinn. Að upplagier það því
sambærilegt við ættingja sína á íslandi, -
en í þijár til fjórar kynslóðir hefur þessi
hópur búið við allt aðrar aðstæður, lífs-
hætti, mataræði, og veðurfar, en afkomend-
ur hinna, sem eftir urðu heima. Þarna legg-
ur íslandssagan okkur í hendur einstakt
tækifæri til að greina að áhrif erfða og
umhverfis á heilsu manna. Slík rannsókn
hefur verið í gangi í bráðum tuttugu ár og
vindur sífellt upp á sig.
Við eigum fleiri auðlindir en fallvötnin og
fískinn í sjónum. Þekking okkar á uppruna
og ættum, heilbrigði og sjúkdómum meðal
þjóðarinnar er auðlind. Auðlind sem fyrst
pg fremst má nýta til að bæta líf og heilsu
íslendinga sjálfra, - en sem einnig getur
orðið til þess að varpa ljósi á orsakir erfðra
sjúkdóma meðal annarra þjóða og auka líkur
á lækningu. Við eigum vel menntaða vísinda-
menn, sem þegar eru að vinna að nýtingu
þessarar auðlindar. Það er fagnaðarefni þeg-
ar þeir fá byr undir báða vængi. Ég óska
Islenskri erfðagreiningu allra heilla og vona
að starf hennar verði langt og farsælt.
GUÐRÚN PÉTURSDÓTTIR
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 7. DESEMBER 1996 3