Lesbók Morgunblaðsins - 03.05.1997, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 03.05.1997, Blaðsíða 12
ORÐAFORÐI 3 UÓÐRÝNI III DAVÍÐ STEFÁNSSON FRIÐLAUSI FUGLINN Ég er í ætt við alla sem erfa hinn dökka lit. Ég er friðlausi fuglinn, sem flýgur með villtum þyt. Ég er friðlausi fuglinn, sem fæddist með villtri þrá, sem elskar heiðingjans himin og hamrafjöllin blá. Ég er friðlausi fuglinn, sem frelsinu mikla ann, sem hatrið gerði að hetju og heimskan söng í bann. RIÐ 1919 kom út fyrsta ljóðabók Davíðs Stefánssonar frá Fagra- skógi. Hann var tuttugu og fjögurra ára, hafði nýlokið stúdents- prófi og var sestur á háskólabekk, þar sem hann hugðist nema forspjallsvísindi um skeið. Svörtum fjöðrum var tekið af mikilli hrifningu og gaf þessum villta fugli byr undir báða vængi til að halda áfram flugi sínu um víðáttur skáldskaparins. í Ljóðasafni I, sem út kom hjá Vöku/Helgafelli árið 1995 í tilefni af hundrað ára afmæli skáldsins, ritar Gunnar Stefánsson um skáldið og segir: „Það er alkunna að skáld sem samtíðin hrífst af mæta stundum tómlæti eftirkomenda. Svo fór um Davíð, að því leyti að gagnrýnendur og menntamenn seinni kynslóðar hafa lítt haldið honum fram, þótt jafnan hafi hann notið vinsælda meðal alþýðu manna.“ Af mörgum var Davíð talinn gamaldags og svo var hann talinn alþýðu- skáld, af sumum ágætis söngtextahöfundur eða kvæðahnoðari. Allt eftir því hvaða straumar og stefnur voru í tísku á þeim tíma. Hann er af þeirri kynslóð sem orti bundið og rímað - en veigraði sér ekki við að bijóta reglumar til að segja það sem hann vildi segja. Davíð Stefánsson var nefnilega að mörgu leyti svo langt á undan öðrum skáldum sinnar samtíðar. Hann orti ekki um náttúruna af einskærri hrifn- ingu á henni, heldur notaði hana oft sem myndmál til að segja frá innra lífi ljóðmælandans, eða þess sem ljóðið lýsir. Hann notar hið áþreifanlega til að lýsa tilfinningum og líðan. Hann orti um fugla og villt dýr - minna um búfénað og heimilisketti. Hann talar einföldum orðum og gengur beint til hjartans, eins og Þórar- inn Bjömsson, skólameistari, sagði. Mér hefur alltaf fundist Friðlausi fuglinn lýsa höfundareinkennum Dav- íðs öðmm Ijóðum betur. Hann teflir stöðugt fram andstæðum; lýsirtog- streitu og átökum. Átökum milli ytra og innra lífs; milli þátta í einstakl- ingnum sjálfum, milli einstaklings og samfélags. Friðlausi fuglinn er í ætt við alla sem erfa hinn dökka lit og flýgur með viltum þyt. Hann er svarti sauðurinn sem ekki verðurtaminn. Hann mun ekki gangast undir borgaralegar reglur, né verða settur í trúarlegt búr; hann elskar heiðingjans himin, hamrafjöllin blá. Það er óbyggð náttúr- an og frelsið sem himinninn, óbundinn af nokkrum skilyrðandi trúarkredd- um, sem eru hans lendur. En svartir sauðir skapa sér óvild í byggð, þar sem lögmál og reglur gilda sem fela í sér höft á frelsi einstaklingsins; hann er dæmdur og bannfærður af leyfilegum mannlegum þáttum, þ.e.a.s. hatri og heimsku. Samt hafnar hann málamiðlunum; hann forðast að leita í skjól, þótt kalt sé utan byggða og bregðist vor og sól; þótt vonirnar og draumarnir ræt- ist ekki og alls staðar mæti honum kuldi. Hann þekkir sitt eðli og er því trúr; hann sækir styrk sinn í þá sjálfs- þekkingu og heiðarleika, syndir á móti straumnum og tekur afleiðingun- um, þótt hann eigi vissulega í innri baráttu; í hjartanu hálfu er dagur, en hálfu kolsvört nótt; þetta eilífa einvígi á milli jákvæðra og neikvæðra þátta tilfinningalífsins - sem hvert mannsbarn verður að þola sína ævi- daga, jafnvel þótt við reynum að vera einhliða og alltaf eins. Ég er friðlausi fuglinn, sem forðast að leita í skjól, þó kaldan blási um brjóstið, og bregðist vor og sól. Ég er friðlausi fuglinn, sem flýgur í norðurátt, er syngjandi svanir líða suður um heiðið blátt. Ég er friðlausi fuglinn, sem finnur sinn villta þrótt. í hjartanu hálfu er dagur, en hálfu kolsvört nótt. SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR MARK, MÖRK, EYÐI- MÖRK OG RJÓÐUR EFTIR SÖLVA SVEINSSON Mark hefur fjarska fjölbreytta merkingu í máli manna. Það er einkenni, tákn sem sýnir eiganda. Það er líka mark- mið, skotskífa, mál, og í knattleikjum er mark skilgreind stærð sem er mismunandi eftir eðli leiksins; mark í fótbolta er miklu stærra en handboltamark. Auk þess er mark landamerki, og sú merking er leiðandi í þessari umræðu. Það eru mörk miili landa, sýslna, jarða, lóða. Þetta orð er til í grannmálum. Færeying- ar segja mark í merkingunni landamerki, merki, takmark. í sænskri mállýsku er mark notað um auðkenni. í fornu máli Þjóð- veija og Englendinga þýddu hliðstæð orð merki, tákn. Allt kemur þetta í eina höfn í þeirri notkun orðsins sem nú er almenn. En leita skal í latínu að upptökum orðsins. Margo merkir rönd í því máli, og sú merk- ing bendir eindregið til þess að landamerki sé upphafleg merking orðsins í Norðurlanda- málum. Landamerki eru ávallt tiltekin lína, rönd, hvort sem hún er dregin eftir náttúru- legum aðstæðum, til dæmis eftir á eða vatni, eða eftir hugsaðri línu milli ákveðinna við- miðana. í þessu samhengi má benda á enska orðið margin sem merkir meðal annars rönd, til dæmis spássía í bók. Mörk er nú oftast notað sem þyngdar- eða mynteining, þungi nýfæddra barna er mældur í mörkum, og þýski gjaldmiðillinn heitir mark. Sú merking verður algjörlega látin liggja milli hluta hér, því að eldri notk- un orðsins verður höfð til hliðsjónar, en hún lifir að nokkru leyti í daglegu máli manna núna - og þó í breyttri merkingu! Mörk var notað í merkingunni skógur, óbyggð, víðavangur. Orðið er líka dregið af latneska orðinu margo, en hefur hljóð- verpst og var ekki nema að sumu leyti not- að í sömu merkingu og mark. í nýnorsku er mork og mark notað í merkingunni skóg- lendi, úthagi, en danska orðið mark þýðir engi, ræktarland, víðavangur. Englendingar áttu að fornu mearc og notuðu um landa- mæri, hérað, merki, og Gotar hinir gömlu sögðu marka í hliðstæðri merkingu að við- bættu ákveðnu svæði. Þannig ber allt að sama brunni. Margo hefur getið af sér tvö orð í norrænum málum sem upphaflega hafa verið sömu eða svipaðrar merkingar, en síðan skilist að í hugum fólks, að minnsta kosti að nokkru leyti. Það er fróðlegt að líta í fornrit til að sjá orðanotkunina. I Heimskringlu segir Snorri Sturluson frá Önundi Yngvarssyni Svíakon- ungi: Um hans daga var ár mikið [góðæri] í Svíþjóðu. Önundur var allra konunga vinsæl- astur. Svíþjóð er markland [þ.e. skóglendi] mikið, og liggja þar svo eyðimerkur [þ.e. eyðiskógar, engin byggð] að margar da- gleiðir eru yfir. Önundur konungur lagði á það kapp mikið og kostnað að ryðja markir [þ.e. skóga] og byggja eftir ruðin [þ.e. rutt svæði í skógi]. Hann lét og leggja vegu yfir eyðimerkur og fundust þá víða í mörkun- um skóglaus lönd, og byggðust þar þá stór héruð. Varð af þessum hætti land byggt, því að landsfólkið var gnógt til byggðarinn- ar. Önundur konungur lét bijóta vegu um alla Svíþjóð, bæði um markir og mýrar og fjallvegu. Fyrir því var hann Braut-Ónundur kallaður. Hér kemur ljóslega fram sá skilningur að mörk er skógur, og markland er skóg- lendi, og eyðimörk er eyðiskógur, líklega skógur þar sem enginn býr fremur en skóg: ur í vanhirðu, dauðir stofnar og illgresi. í orðabók er sú merking gefin, en sögð dauð. Nú merkir orðið einkum sandauðn eða auðn yfirleitt. Og í yfirfærðri merkingu er orðið notað um litla vitsmuni, eða hvað sagði ekki Hannes Hafstein: Þinn líkami er fapr sem laufguð björk, en sálin er ægileg eyðimörk. Olafur sonur Ingjalds Svíakonungs kemur líka við sögu í Heimskringlu og átti fótum líf sitt að launa og flýði undan Svíum: Fór hann þá vestur markleiði [skógarleið] til ár þeirrar er norðan fellur í Væni og Elfur heitir. Þar dveljast þeir, taka þar að ryðja mörkina og brenna og byggja síðan. Urðu þar brátt stór héruð. Svona fóru menn að, þeir ruddu skóginn, en þar sem skógur hefur verið ruddur verð- ur til rjóður. Síðan brenndu menn landið og grófust fyrir rætur tijánna. Þá var hægt að byggja það, hefja ræktun nytjajurta. Höfundurinn er cand. mag. í íslensku. MERGUW MÁLSINS 23 AÐ VEGA AÐ LIGGJANDI MANNI EFTIR JÓN G. FRIÐJÓNSSON að þykir ekki fagurt að veitast að þeim sem stendur höllum fæti eða getur ekki borði hönd fyrir höfuð sér né heldur að sparka í liggjandi andstæðing. Slík siðfræði er ugglaust jafngömul mann- skepnunni eins og fjölmargar reglur, skráðar og óskráðar, eru til vitnis um. I Eyrbyggja sögu segir frá bardaga á Vigrafirði en þar áttust við Steinþór og bræð- ur hans og Þorbrandssynir. Fjörðurinn var isi lagður og höfðu hinir siðarnefndu komið sér fyrir í skeri en urðu að lúta í lægra haldi. Þeir Steinþór gengu upp í skerið og léttu eigi fyrr en fallnir voru allir Þorbrands- synir. Síðan segir í sögunni: Þá mælti Þórð- ur blígur að þeir skyldu á milli bols og höfuðs ganga allra Þorbrandssona en Steinþór kvaðst eigi vilja vega að liggj- öndum mönnum (Eyrb. 45. kafli). Afstaða þeirra bræðra er mjög ólík. Þórður vill ljúka verkinu svo að eigi þurfi um sár að binda en Steinþór vill ekki vinna níðingsverk. I textabútnum er afstöðu þeirra bræðra lýst með á eftirminnilegan hátt tveimur orðatil- tækjum: ganga á milli bols og höfuðs e— s/á e—m og vega að liggjandi manni. Bein merking hins fyrra felur í sér að höfuð er skilið frá bol, en það hafði táknræna merk- ingu og vísar til þess að ekki sé frekari að- gerða þörf. Hið síðara er notað í beinni merkingu í tilvitnuðum stað en yfirfærð merking liggur nærri, sbr. geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér sem jafnan er notað í óbeinni merkingu. Höfundur er prófessor. 12 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 3. MAÍ 1997

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.