Lesbók Morgunblaðsins - 07.11.1998, Blaðsíða 20

Lesbók Morgunblaðsins - 07.11.1998, Blaðsíða 20
ARTHUR RIMBAUD; GULL- GERÐARMAÐUR ORÐSINS MYNDSKREYTING eftir sænska súrrealistann Max Walter Svanberg við Ijóð eftir Rimbaud. EFTIR BERGLINDI GUNNARSDÓTTUR „Til hans liggja þræðirnir úr öllum áttum nútímaskáldskapar." Jón Oskar „Sköpunin byrjar með sársaukafullum aðskilnaði við guð og upphafi nýs, sjálf- stæðs vilja, í þeim tilgangi að þessi að- skilnaður megi snúast í einskonar samein- * ingu sem er háleitari en séð verður upp- haflega." The Mystic Will, H.H. Brinton „Einu sinni, ef ég man rétt, var lífmitt stöðug veisla þar sem sérhvert hjarta opnaðist og öll vín flóðu. Kvöld eitt faðmaði ég fegurðina - mér fannst hún vera bitur - og ég vanvirti hana. Ég stælti mig andspænis réttvísinni. Ég flýði. Ó nornir, ó eymd, ó heift, ég hef skilið fjársjóð minn efth■ í ykkar höndum... Égheftært upp vonina innra með mér. í þögulu stökki skuggalegs dýrs hef ég - brotlent og kæft alla gleði... “ Úr Árstíð í Víti FRANSKA skáldið Arthur Rimbaud (1854-1891) lifði fýrstu tuttugu ár ævinnar í einum alls- herjar draumi um skáldskapinn; hann lagði lífið á metaskálar hans, hann sá það í því ljósi sem hann óskaði og það sjálft var fjarri þeim draumi og óskum. Skáldskapurinn var bæði lausn hans á lífinu og frá lífinu, það var hans tæki til að nálgast það og fara frá 'því um leið. En hann meðtók aldrei lífið; þeg- ar hann rétti að því höndina særði hann sig. Hann hryllti við lífínu, fann til óbeitar og snerist gegn því. Um síðir bræddi sólin af honum vængi draumsins og hann hrapaði of- an í sitt eigið víti sem bíður allra skálda þeg- ar þau fljúga of hátt og tapa vitinu eða lífinu eða hvorutveggja. Þetta er einskonar ritúal sem fer framhjá flestu fólki og samfélagið lætur sig engu varða, ósýnileg fórnfæring, borin uppi af innri ástríðueldi, sem hefur það markmið að skapa gersemar úr þjáningunni án þess að nokkur átti sig á því. Seinnihluta ævinnar, tæplega átján ár, ein- setti hann sér að lifa án drauma um annað en hið jarðbundnasta af öllum hlutum: að safna að sér auði í viðskiptum á harðdrægan hátt við frumstæðustu og erfiðustu skilyrði í Af- *ríkuríkinu Abyssiníu. Sá auður sem hann dró saman við illþolanlegar aðstæður og með vafasamasta hætti, þar sem hann stundaði m.a. vopnasölu og var að einhverju leyti við- riðinn þrælasölu, varð að engu við ótímabær- an dauða hans. Sú auðlegð sem hann hafði á unga aldri skapað úr draumum sínum blés aftur á móti út eins og risavaxinn loftbelgur, tröllaukið skýjafar, og talar enn til allra þeirra sem eru ungir, bráðlátir og fullir af óþoli yfir lífinu í hinum vestræna hluta jarð- arinnar. Undir lok ævi hans fóru menn að uppgötva gildi þess sem hann hafði skrifað, en fyrir hann var það um seinan og hann lét sér fátt um finnast. Hann hafði snúið endanlega baki við skáldskapnum. „Fjandinn hafi ljóðlist- ^ina,“ sagði hann: „Merde pour le poesie.“ Og því til staðfestingar brenndi hann öll handrit sín. Honum hafði verið rækilega hafnað og sýndur mikill kuldi þegar hann gaf út fyrstu ljóðabókina sína, Árstíð í Víti, og það íyrirgaf hann ekki. Slíkt er alltaf viðkvæmt og hann var of stoltur, en líkast til einnig óöruggur. Hann stóð berskjaldaður í ljóðunum og að auki var formið og tónninn með öðrum hætti en þá tíðkaðist. Ennfremur stóð hann á krossgötum og hafði háð mikið sálarstríð. Honum fannst sem öll hans lífsstefna fram að þessu væri illilega rangsnúin, allt frá því hann einhenti sér út í yrkingarnar af því of- stæki og krafti sem einkenndi eðlisfar hans. ^Hann sýndi ljóslega í ljóðunum innri baráttu við djúpstæðan efa og mikla trúarþörf þar sem hann dæmdi sjálfan sig vægðarlaust, en einnig heiminn. Samt sem áður er niðurstað- an sú að efinn sigrar og hann hafnar trúnni. Óvíst er þó að hann hafi þá jafnframt afneitað skáldskapnum; ef til vill var það ekki fyrr en honum hafði verið hafnað af bókmenntaheim- inum í París. Afdrifaríkt uppgjör hans við fortíðina fól ekki síst í sér sambandsslit hans við eldri skáldbróður sinn, Paul Verlaine. Það var að öllum líkindum ástarsamband, auk þess sem þeir voru sálufélagar. Rimbaud virti Verlaine mjög sem skáld, en hann dáðist að hálfvöxn- um piltinum og skynjaði snilligáfu hans. Sam- an gengu þeir allar götur Parísar og Lund- úna og landvegi þar á milli, niðursokknir í eina hugðarefni sitt, skáldskapinn, talandi stöðugt og yrkjandi; algerlega horfnir inn í þennan heim sem getur veitt svo mikið al- gleymi, frábitnir með öllu hinum ytri heimi og fullir fyrirlitningar á honum. A þessum tíma urðu skil í skáldskap þeirra beggja, og franskri ljóðlist um leið, slík var örvunin sem þeir veittu hvor öðrum að þeir hafa báðir ver- ið tvíefldir. En um leið hafði vinátta þeirra þær skuggahliðar sem fylgja samböndum sem samfélagið leyfir ekki, og á þessum tíma, um 1870, var kynvilla talin höfuðsynd. Báðir urðu að gjalda grimmilega fyrir það, en að auki voru þeir fullkomnir skýjaglópar, frá- hverfir almennri vinnu og lifðu að mestu á peningum sem móðir Verlaine sendi þeim. Endalok sambandsins urðu harmsöguleg og Rimbaud stóð uppi með l£f í rústum í víðtæk- um skilningi þess orðs, tæplega tvítugur að aldri. Hann snýr baki við öllu því sem hann hafði trúað á, þar með talið ljóðlistina. Það voru hans stærstu mistök að margra mati. En hver furðar sig á því? Hver sækist eftir stöðu skáldsins í samfélagi þar sem efnisleg gildi ein eru virt og eftirsótt? Allur fjöldinn, sem flýr áþján hins veraldlega heims yfir í andlega heima fegurðar og tilfinninga, sýnir þó og sannar að það sé manninum nauðsyn; hann lifir ekki á brauði einu saman. Og núna er enn harðar vegið að ljóðskáldum en á dög- um Rimbaud; það er eins og verið sé smám saman að ryðja þeim úr vegi, þurika út þenn- an miðil; menn eru að glata hæfileikanum til að njóta ljóða. Jafnvel forlögin sjálf ganga fram fyrir skjöldu að forsmá þau. Rimbaud gekk í flokk fjandmanna sinna er hann gekk peningahyggjunni á hönd; þar hafði hann ekki erindi sem erfiði því skáldið var of ríkt í honum. Tími morðingjanna Arið 1946 kom út bók eftir bandaríska rit- höfundinn Henry Miller; The Time of the Assassins, nefnist hún. Þessi bók er stúdía um franska skáldið Arthur Rimbaud, en einnig um Skáldið og listamanninn í heimin- um; hinn skapandi anda. Miller þekkir sjálfan sig í Rimbaud og hann finnur í honum erkitýpu allra skálda á þessum síðustu tím- um. Viðhorf Millers er að sönnu litað af þeim tíma er hann lifir; það er tími seinni heims- styrjaldarinnar og þeirra eyðingarafla sem þá ríkja þegar rödd skálda fer lágt og drukknar í drunum atómsprengjunnar. Af þeim sökum er sýn hans myrk. Þetta eru Heltímar og hann kallar eftir skáldskap sem nær að heyrast í gegnum þann vágný sem þeim fylgir, en lýsir jafnframt efasemdum um að slíkt sé gerlegt. Hann finnur til sakn- aðar eftir þeim tímum þegar skáldskapurinn náði eyrum manna svo um munaði og hann sér í Rimbaud slíkt skáld og fer býsna djúpt í skoðun sinni. í franska skáldinu eru svo sterkar andstæður og líf hans svo mótsagna- kennt að hann verður enn athyglisverðari fyrir bragðið. Þetta er bæði varnarskjal fyrir Rimbaud og einnig hlutlæg lýsing á mannin- um og skáldinu, á hinu stórbrotna verki sem hann lét eftir sig, en einnig þeim stórbrotnu mistökum sem hann gerði og hvernig hann íyrirgerði sjálfum sér. Þetta er líka nöpur ádeila á vestrænt samfélag frá hans dögum til okkar; samfélag sem útskúfar andlegum stórmennum sínum, gerir úr þeim utangarðs- menn og betlara. Hér á eftir hef ég valið nokkur brot úr bók Millers til að gefa hug- mynd um efnistök hans og skoðun á skáldinu Arthur Rimbaud. „Sú veröld sem Rimbaud leitaði ungur var ógerleg. Hann gerði hana lifandi, auðuga og leyndardómsfulla til að bæta upp missi þess- ara eiginleika í veröldinni sem ól hann ...“ „Þegar Rimbaud hafnaði lífinu innra með sér gaf hann sig á vald myrku afli sem stjórn- ar gangi jarðarinnar. Með því að neita að Arthur Rimbaud hefja sig yfir (transcend) þær aðstæður sem hann fæddist til dæmdi hann sig til óþolandi kyrrstöðu. Klukkan stöðvaðist bókstaflega fyrir honum. Þaðan í frá hlaut hann að „drepa tímann", eins og við segjum af óbæri- legri nákvæmni, án þess að vita af því. Engu máli skiptir hversu önnum kafinn hann er; loftvogin sýnir eintóman lífsleiða. Athafna- semin undirstrikar einungis tengslaleysi hans. Hann er orðinn eitt með þvi tómi sem hann áður reyndi að brúa með efnislausum regnboga fullkomleikans..." „Eina björgunarvonin sem hann viður- kennir er frelsi. Og frelsið í hans tilviki þýddi dauðann, eins og hann komst að raun um. Enginn hefur sýnt okkur jafnvel og Rimbaud að frelsi hins einangraða einstak- lings er einskær hilling. Einungis sá maður sem hefur losað sig úr viðjunum þekkir frels- ið. Slíkt frelsi verður maður að vinna sér inn. Sú frelsun gerist smám saman; það er hæg og harðsótt barátta þar sem skuggaverurnar eru kveðnar niður. Þeim verður ekki útrýmt með öllu því draugar eru alltaf jafnraunveru- legir og sá ótti er vekur þá upp. Til að þekkja sjálfan sig er, eins og Rimbaud ráðlagði í sínu fræga Bréfi um sjáandann, nauðsynlegt að losa sig við árana sem herja á mann ...“ „Allt sem okkur er kennt er lygi,“ mót- mælti Rimbaud á æskuárum sínum. Hann hafði rétt fyrir sér, fullkomlega rétt. En það er okkar köllun á jörðu að berjast gegn lygi uppfræðslunnar með því að sýna fram á sannleikann sem býr í okkur. Jafnvel ein og sér getum við gert kraftaverk. En mesta kraftaverkið felst í því að sameina alla menn á vegum skilningsins. Lykillinn er Kærleikur. Harðneskjulega sem það hljómar, verða menn að kenna á og yfirvinna allar lygarnar, blekkingarnar og svikin, en í sameiningu með öðrum. Þetta ferli gengur undir því stranga nafni: fórn..." „“Gylltu fuglarnir sem flögra úr skuggan- um af ljóðum hans!“ Hvaðan komu gylltu fuglarnir hans Rimbaud? Og hvert stefna þeir? Þeir eru hvorki dúfur né gammar; þeir byggja loftin. Þeir eru einkalegir sendiboðar sem skriðu úr eggjunum í innstu myrkrum og var sleppt lausum í logabirtu uppljómun- arinnar. Þeir líkjast í engu dýrum loftsins, né heldur eru þeir af englakyni. Þeir eru hinir fágætu fuglar andans sem ber við himin og fljúga frá einni sól til annarrar. Þeir eru ekki fangaðir í ljóðunum heldur veitt frelsi þar. Þeir hefjast á vængjum algleymisins og hverfa í logann. Undirselt þörfinni um algleymi er skáldið eins og litfagur og ókennilegur fugl, fastur í ösku hugsunarinnar. Ef honum tekst að frelsa sig er það til að takast á hendur fórnar- flug til sólarinnar. Draumarnir um endur- sköpun veraldarinnar eru aðeins endurómur af örum púlsslögum hans sjálfs. Hann ímynd- ar sér að heimurinn muni fylgja honum, en svo sér hann skyndilega að hann er einn. Aleinn, en þó umkringdur sköpunarverkum sínum sem styðja hann í því að færa hina æðstu fórn. Hið ógerlega hefur gerst; sam- ræða höfundarins við Skaparann hefur verið fullkomnuð. Og héðan í frá mun söngurinn heyrast yfir aldirnar, verma hjörtun, fylla hugskot hvers manns... Maðurinn lítur ekki til sólar án tilgangs; hann krefst ljóss og hita, ekki fyrir skrokkinn sem hann kastar burt einn dag heldur fyrir sína innri veru. Mesta þrá hans er að brenna í algleymi, að sameina sinn litla loga eldhafi alheimsins ... Ein sköpun kallast á við aðra; í eðli sínu er hún einn og sami hluturinn. Bræðralag manna felst ekki í því að hugsa eins, eða gera það sama, heldur í þeirri viðleitni að lofa sköpunarverkið. Söngur sköpunarinnar rís upp af rústum veraldlegrar athafnar. Ytri maðurinn deyr í þeim tilgangi að afhjúpa gyllta fuglinn sem þenur vængi sína á leið til guðdómsins...“ •20 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 7. NÓVEMBER 1998

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.