Morgunblaðið - 29.07.2001, Blaðsíða 3

Morgunblaðið - 29.07.2001, Blaðsíða 3
híbýli fólks á þeim tíma. Hún er ekki nema 1–2 daga að gera litla kúlu og verpir í hana strax. Eftir viku er bú- ið á stærð við golfkúlu. Eftir u.þ.b. þrjár vikur koma fyrstu þernurnar úr púpunum og þá getur drottningin helgað sig því eingöngu að verpa, þarf ekki lengur að standa í bygg- ingarframkvæmdum eða að draga björg í bú, um það sjá nú vinnudýr- in. En fyrir þann tíma, á meðan drottningin er ein, er lífið mikið hættuspil, því hún er fljúgandi úti allan daginn, sama hvernig viðrar, til að afla fæðu handa lirfunum, sem eru mikil átvögl. „Geitungsdrottn- ingin safnar ekki orkuforða, ólíkt hunangsflugudrottningunni, svo að nokkurra daga slæmur veðrakafli getur hæglega drepið búið. Það er ekkert óalgengt að finna litlar kúlur á miðju sumri, og allt dautt í þeim. Þetta er sumsé ástæðan, kuldi og ótíð á viðkvæmum tíma, í fyrrihluta júní,“ segir Erling. Búin eru gerð úr pappír Geitungadrottningarnar vakna upp úr 20. maí, og yfirleitt er það trjágeitungurinn, sem menn taka þá eftir; hinir eru minna áberandi, þótt farnir séu á kreik. Í lok ágúst er trjágeitungurinn að verða búinn með ferli sitt, en hinar tegundirnar klára það í lok september eða í októ- ber. „Drottningin, sem hóf störf um vorið, drepst síðan um haustið og af- komendurnir, nýju drottningarnar, makast við karlflugurnar og leggj- ast svo í dvala – grafa sig í jörðu, fara undir þök eða koma sér í annað skjól. Engin frjóvgun á sér stað eftir mökunina, því drottningarnar geyma sæðið í þar til gerðum sáð- hirslum, og nota það eftir þörfum að vori og sumri. Eftir að hafa makast við drottningarnar er hlutverki karl- dýranna lokið og þau drepast. Þetta er stutt gaman,“ segir Erling og glottir. Karlarnir eru eingetnir, verða til úr ófrjóvguðum eggjum og hafa því helmingi færri litninga en kvendýr- in. Á haustin er farið að dæla meira fæði í lirfurnar, til að þær verði stór- ar, og þannig verða til drottningar. Að öðru leyti eru þær eins og vinnu- dýrin, þernurnar. „Þernurnar eru ekki ófrjóar og geta meira að segja verpt eggjum og gera það, ef eitthvað kemur fyrir drottninguna. Afkvæmi þeirra verða öll karldýr, af því að þernurnar eru ófrjóvgaðar, hafa ekkert sæði. Stundum rekst maður á bú, sem er fullt af karlflugum. Ástæðan er ein- mitt þessi,“ segir Erling. Litur búanna getur verið ólíkur frá einni geitungategund til annarr- ar, og ræðst það einkum af því hvaða efniviður er notaður í papp- írinn. „Holugeitungurinn er oft með ljósbrún bú, enda er hann gjarn á að naga fúavið,“ segir Erling. En húsa- geitungurinn er með steingrá bú, því hann nagar óvarið, veðrað timb- ur, s.s. girðingarstaura og stillasa. Trjágeitungur og roðageitungur eru einnig með gráleit bú. Geitungarnir hafa mjög sterka kjálka og bera sig þannig að við pappírsframleiðsluna, að þeir fletta þynnum af trjástofnum og öðrum við, blanda það munnvatni og naga svo í mauk. Á slíku vinnusvæði er engu líkara en að búið sé að klóra viðinn með nöglum. „Þeir sækja mikið á sömu staðina, finna greinilega ákveðnar upp- sprettur og fara þangað ítrekað,“ segir Erling. „Stundum sér maður alls konar liti í búinu, rendur. Þá hafa þeir sótt í eitthvað málað. Ég man sérstaklega eftir einu fallegu búi á Arnarnesinu; þar var grár lit- urinn í grunninn, en með sérkenni- legum bláum röndum. Ég fór að líta í kringum mig og sá að í garðinum við hliðina var jeppakerra með heimasmíðuðum þilplötum, sem voru málaðar í nákvæmlega sama lit og var á búinu. Þeir hafa því farið yfir til nágrannans og sótt efnivið, þessar glysgjörnu, til að skreyta nú aðeins heimilið.“ Færri geitungar í búum eftir því sem norðar dregur Bú geitunga eru fjölbreytileg að gerð, en í megindráttum eru þau uppbyggð af sexstrendum klakhólf- um, með örþunnum milliveggjum. Niðurröðun þeirra er mismunandi, en algengt að þeim sé raðað í flatar plötur. Hvert bú er síðan byggt upp af slíkum klakhólfaplötum, með nokkru bili á milli, til að auðvelda umferð um það. Ysta lagið er svo pappírsskurn. Að sögn Erlings eru geitungar í íslenskum búum ekki eins margir og gerist í suðlægari löndum. „Í Suður- Englandi getur fjöldi húsageitunga í búi verið 20.000–30.000, og það gefið af sér um 1.100 drottningar, á með- an hér eru þeir yfirleitt 2.000–4.000 og flestir 6.000–8.000, og drottning- ar þar af tiltölulega fáar. Heildar- framleiðslan er þó meiri á báðum stöðum, því vinnudýrin lifa ekki allt sumarið; það er alltaf verið að fram- leiða nýjar þernur, til að leysa þær eldri af hólmi. Í rauninni er teg- undin fyrir utan útbreiðslusvæði sitt, ætti ekki að geta þrifist á Ís- landi með góðu móti. Hún á t.d. mjög erfitt uppdráttar í Suður- Finnlandi, rétt lafir þar inni, hún er það suðlæg.“ Á Nýja-Sjálandi, í Tasmaníu og á meginlandi Austur-Ástralíu býr húsageitungur við afburða góð skil- yrði, og kemur fyrir að heilu sam- býlin lifi yfir veturinn, þ.e.a.s. drottningar og þernur, sem og egg og lirfur. Slík bú geta orðið geysi- stór, eins og nærri má geta. Stærsta húsageitungsbú sem um getur í heiminum er einmitt frá Nýja-Sjá- landi, en í því reyndust vera 3–4 milljónir klakhólfa. Fjöldatölur í holugeitungsbúum eru nokkuð svipaðar og í húsageit- ungsbúunum, bæði hvað snertir Ís- land og útlönd, að frátöldu því sem nefnt var um Nýja-Sjáland. Hins vegar er algengt að ekki séu nema 300–400 einstaklingar í búi íslenska trjágeitungsins á haustin, en geta þó farið allt upp í 800. Til samanburðar má geta þess, að stærsta erlenda bú, sem vitað er um, var með 4.078 klak- hólf. Það var á Englandi. Bú roðageitungs virðast fáliðuð hér á landi, en upplýsingar eru tak- markaðar, þar sem aðeins þrjú hafa verið grafin upp og skoðuð, eins og áður er nefnt, en erlendis hefur fjöldi klakhólfa í roðageitungsbúi mestur orðið 1.506. Það var sömu- leiðis á Englandi. Nauðsynlegt að umgangast geitunga með tilhlýðilegri virðingu Og þá er komið að því að spyrja fræðinginn hvort geitungarnir séu hættulegir mannfólkinu, eða skyldu fréttir af árásargirni þeirra kannski vera eitthvað ýktar? „Það er ekki gott að hafa geitunga sem næstu nágranna; það verður bara að viðurkennast,“ segir Erling. „Þeir eru yfirleitt til friðs, en út af því getur brugðið. Það þarf ekki nema ein smámistök til, krakki að fikta við búin eða eitthvað álíka. Raunar eru það bara kvendýrin sem eru með gadd, því hann er ekkert annað en varppípa, sem fengið hefur nýtt hlutverk. Það er ekki gaman að fá yfir sig marga tugi stungna, því gaddurinn er tengdur eiturkirtli. Og það er nokkuð sterkt eitur, eða alla- vega mjög áhrifaríkt.“ Hvað getur fólk gert ef það er stungið? „Í flestum tilfellum er málið ekki alvarlegra en svo, að þetta er bara fjandi sárt. Maður efast ekkert um að hafa verið stunginn, því sársauk- inn kemur strax og er mjög nístandi og bólga fylgir í kjölfarið. Þetta fer að vísu eftir hversu djúpt geitung- urinn nær að stinga; ef hann nær að koma broddinum vel ofan í, getur þetta verið afar sárt. Maður verður að fylgjast vel með sér, eftir að hafa verið stunginn, athuga hvort um ein- hver ofnæmisviðbrögð er að ræða, og ef svo er, verður að leita beint til læknis; það er engin spurning. Það má ekki taka neinn séns í þessu. Ofnæmisviðbrögð geta lýst sér á ýmsan hátt; aukinn hjartsláttur er algengur sem og aukaslög, doði í kringum varir og heiftarlegur kláði. Ef menn fer að klæja annars staðar en í stungunni, er það viðvörunar- merki. Það verður sérstaklega að fylgjast með því ef krakkar lenda í þessu, að ekki sé minnst á minnstu börnin, sem ekki geta gert viðvart. Eina leiðin er að vera stöðugt á varðbergi. Það eru nokkur dæmi um að krakkar hafi fengið yfir sig fjöldann allan af geitungum. Enn sem komið er hafa engin dauðsföll orðið af völdum geitungastungna, en það kemur að því einhvern tímann. Þetta gerist í nágrannalöndunum. Nokkrar geitungategundir aðrar hafa borist til Íslands og ein þeirra er Vespa crabro, en sú tegund er völd að flestum dauðsföllum í ná- grannalöndunum. Hún er gríðar- stór, getur orðið 3–4 cm að lengd, og verpir í holum trjám; mesta hættan skapast, þegar börn eru að klifra án þess að vita af búunum. Ég á þrjú eintök af Vespa crabro, sem öll hafa borist til landsins. Ég á ekki von á að þessi tegund nái að koma sér fyr- ir hér, en maður veit svo sem aldrei. Hún og aðrar, sem hafa borist hing- að, lifa allar í nágrannalöndunum.“ Bíða í röðum handan grafar eftir skordýrafræðingnum Að sögn Erlings hefur dálítið ver- ið um það að fólk hafi viljað hafa bú í görðunum hjá sér, til að fylgjast með, og hann kveðst skilja það vel, enda sé fróðlegt að sjá hvað er að gerast, en verra ef strákagaurar úr hverfinu uppgötva búið. „Maður fréttir stundum af krökk- um sem eru að ögra geitungum. En það að kasta steinum í bú, eða pota í það með spýtu til að sjá hvað kunni að gerast, getur verið mikið hættu- spil,“ segir Erling. Hefur þú verið stunginn? „Já, blessaður vertu; af öllum teg- undunum fjórum. Ofnæmisviðbrögð- in eru mismunandi. Ég hef vægt of- næmi fyrir holugeitunginum, og er yfirleitt viku að jafna mig, það verð- ur ekki alvarlegra en það. Ég hef að vísu aldrei fengið yfir mig hersingu, einungis fáar stungir í hvert sinn, en ég fæ mjög slæman kláða í stung- una. En það tekur mig bara nokkra klukkutíma að jafna mig ef hinar tegundirnar stinga mig. Yfirleitt er maður að vasast í þessu á kvöldin, og ég er orðinn góður að morgni.“ Erling kveðst hafa séð geitunga fara inn í barnavagna, og vill því hvetja fólk til að gæta vel að þeim málum og nota flugnanet sem dug- ar, því lélegt net geti skapað falskt öryggi og þannig reynst verra en ekkert. Geitungur komist hæglega inn um minnstu smugu, en ekki sé víst að hann rati út aftur, sé komið að honum að óvörum, og þá gæti hann átt það til að stinga í óða- gotinu. En hvað á fólk að gera, ef það er með bú í grenndinni og vill losna við það? „Menn geta hjálpað sér sjálfir meðan búin eru lítil, en ég hef ráð- lagt þeim að fá sér aðstoð ef þau fara að stækka. Það verður nefni- lega að beita ákveðum reglum í sam- bandi við förgun þeirra, og allt fer eftir aðstæðum á hverjum stað. Ég hef verið að reyna að leiðbeina fólki, en það er mikill ábyrgðarhluti að vera að segja því að gera eitthvað, sem það e.t.v. klúðrar. Mér er illa við það. Ég hef því oftar en ekki far- ið sjálfur til að eyða búunum. Ég hef verið að taka bú alveg frá upphafi landnáms og hef því mörg á sam- viskunni. Margir geitungar bíða mín eflaust óþreyjufullir í hinu ríkinu, þegar þar að kemur, en hvort ríkið það nú verður, veit ég ekki,“ segir Erling að lokum, og brosir í kamp- inn. Í orðsins fyllstu merkingu. Myndir erlendra höfunda, aðrar en forsíðu- mynd Elmars Bellig, af Vespa crabro, eru úr bókinni: Robin Edwards. Social wasps. Their biology and control. Rentokil Ltd, East Grin- stead 1980. Birtar með leyfi. sigurdur@mbl.is Ljósmynd/Robin Edwards Roðageitungurinn er nýjasti landneminn. Hann uppgötvaðist ekki hér fyrr en árið 1986, í Hafnarfirði. Hér sést þerna vera að koma úr hreiðri, sem er grafið í jörðu. Á innfelldu myndinni hefur gat verið skorið í bú, og má þá vel greina sexstrend klakhólfin og einnig margföld pappírslögin utan um hreiðrið. Ljósmynd/Oddur Sigurðsson Trjágeitungur, þerna, á ætihvönn. Þetta er eina geitungategundin sem hefur fundist utan höfuðborgarsvæðisins. Trjá- geitungurinn nam hér ekki land fyrr en í kringum 1980, en telst nú vera sá algengasti tegundanna fjögurra. Trjágeitungur kemur búi sínu yfirleitt fyrir í trjám og runnum, en einnig oft undir þakskeggi húss eða á skjólvegg. Úti á landsbyggðinni er algengt að hann notist við holur í jörðu, grjóturðum eða skútum. Á innfelldu myndinni sést bú undir þakskeggi. MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29. JÚLÍ 2001 B 3 Ljósmynd/Erling Ólafsson Ljósmynd/A. D. Johnston

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.