Morgunblaðið - 01.03.2002, Page 10
FRÉTTIR
10 FÖSTUDAGUR 1. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ
FRIÐARTILLÖGUR Sádi-Araba í
deilum þeim sem geisað hafa í
Austurlöndum nær milli Ísraela og
Palestínumanna komu til umræðu á
Alþingi í gær. Halldór Ásgrímsson
utanríkisráðherra lét þá í ljós
ánægju sína með þetta skref í frið-
arátt og það væri fagnaðarefni að
nýjar tillögur hefðu komið fram í
deilu Palestínumanna og Ísr-
aelsmanna. Hann kvaðst telja að
Ísraelsmenn hlytu að taka í útrétta
sáttahönd arabaríkja.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þing-
maður Samfylkingarinnar, vakti at-
hygli á þróun mála í þessum heims-
hluta við upphaf þingfundar og
spurði ráðherra hvort hann hygðist
beita sér í þessum málefnum og þá
hvernig, enda væri mikilvægt að Ís-
land og íslensk stjórnvöld legðu sitt
af mörkum til þess að tillögurnar
fáist ræddar á alþjóðlegum vett-
vangi.
„Við þurfum að beita okkur í
þessu máli, beint og óbeint,“ sagði
Þórunn og benti á að skapast hefði
breið og þverpólitísk samstaða á
Alþingi um sjálfstæði Palestínu.
Halldór Ásgrímsson (B) sagði að
Íslendingar mundu beita sér innan
alþjóðastofnana til þess að þrýsta á
málið. Upplýsti hann að sendiherra
Ísraels á Íslandi kæmi til landsins í
byrjun mars og að stjórnvöld
mundu eiga viðræður við hann um
ástandið í Miðausturlöndum.
„Það liggja líka fyrir heimboð til
utanríkisráðherra, bæði til Ísraels
og Palestínu. Það er verið að kanna
það hvenær það getur orðið að
veruleika,“ sagði utanríkisráð-
herra. Hann sagði að það hefði
staðið til að af heimsóknum yrði í
september sl., en af því hafi ekki
orðið og málið sé í athugun.
„Við munum leggjast á sveif með
öðrum Norðurlandaþjóðum og
þrýsta á um að samningar hefjist á
nýjan leik. Með þeim hætti getum
við best lagt okkar af mörkum til
þess að skriður komist á mál. Hins
vegar er það alveg ljóst að þeir sem
þarna skipta mestu máli eru að
sjálfsögðu arabaríkin og Bandarík-
in og ekki má gleyma Evrópusam-
bandinu. Það eru þessir sterku að-
ilar sem koma til með að skipta
meginmáli hvernig til tekst í fram-
haldi,“ sagði Halldór og benti jafn-
framt á hlutverk Ísraela og Palest-
ínumanna sjálfra í deilunni.
Gesturinn í landinu
tortímandinn?
Rannveig Guðmundsdóttir (S)
sagði málið geysilega þýðingarmik-
ið og kvartaði hún undan því að
svör ráðherrans hefðu ekki verið
nægilega afgerandi. „Vissulega
væri að því sómi fyrir okkur Íslend-
inga ef Alþingi og stjórnvöld
myndu aðhafast í málefnum Palest-
ínu,“ sagði þingmaðurinn og bætti
því við að ástandið nú fyrir botni
Miðjarðarhafs væri með öllu óvið-
unandi.
„Er ekki kominn tími til þess að
þessar þjóðir beiti sér af hörku við
stjórnvöld í Bandaríkjunum að
reyna að fá stuðning þeirra við þær
tillögur sem fram hafa komið og
þær aðgerðir sem stjórnvöld í Evr-
ópu hafa viljað hafa uppi til þess að
leysa deiluna,“ spurði Rannveig og
bætti því við að allir vissu, sem
vildu það vita að Sharon forsætis-
ráðherra Ísraels færi sínu fram í
trausti þess að Bandaríkin færu
ekki gegn honum. „Við erum öll
sek,“ sagði Rannveig ennfremur.
„Við höfum horft á það í áratugi án
afskipta að þjóð hefur verið undir-
okuð og afgirt núna á 220 víggirtum
smásvæðum. Nú virðist hægt og
sígandi að eiga að tortíma þessari
þjóð og það er gesturinn í landinu
sem er tortímandinn. Þessu eigum
við ekki að una,“ sagði Rannveig.
Forsætisráðherra segir
afstöðu Íslands afgerandi
Ögmundur Jónasson, formaður
þingflokks Vinstri grænna, sagðist
taka undir hvatningu til íslensku
ríkisstjórnarinnar og utanríkisráð-
herra um að beita sér í þágu friðar í
Austurlöndum. „Það er mikilvægt
að við tölum skýrt og höfum sterka,
siðferðilega rödd í þessum efnum,“
sagði hann.
Davíð Oddsson forsætisráðherra
sagði hins vegar ríkisstjórnina,
undir forystu utanríkisráðherra,
hafa talað með mjög afgerandi
hætti í þessu máli og látið rödd Ís-
lands heyrast mjög sterkt. Sagði
hann utanríkisráðherra fylgja
þessu sterkt eftir og með miklum
ágætum og starfsmenn utanríkis-
þjónustunnar hvarvetna fylgdu því
eftir. Það væri þó ekki gert með
„básúnuhljómi eða lúðrablæstri“,
enda færi ekki vel á því að þjóð eins
og sú íslenska stæði þannig að mál-
um.
Forsætisráðherra kvaðst hins
vegar vara mjög eindregið við um-
mælum af því tagi sem Rannveig
Guðmundsdóttir hefði látið sér um
munn fara. „Að gesturinn í landinu
hagi sér svona. Í því felst væntan-
lega að gesturinn eigi þá að koma
sér í burtu og til síns heima, hvar
sem það er nú. Ef utanríkisráð-
herra talaði með þessum hætti, að
Ísraelsmenn væru gestir í þessu
landi og ættu að fara brott á haf út,
eins og var í tísku að tala um forð-
um tíð, þá yrði ekki mikið á hann
hlustað. Svona ummæli eru stór-
varasöm,“ sagði forsætisráðherra.
Össur Skarphéðinsson gerði at-
hugasemd við þessi orð forsætis-
ráðherra og sagði mikilvægt að
þegar svo alvarleg málefni væru til
umræðu að umræðan færi ekki nið-
ur á „svo lágt plan“. Sagði hann
ekki forsætisráðherra sæmandi að
koma með þessum hætti inn í um-
ræðuna, sem þangað til hefði verið
byggð á málefnalegum grunni.
Vísaði Össur til þess að eitt af
lykilatriðunum í tillögum Sádi-
Araba fælist einmitt í því að hinn
óboðni gestur, þ.e. Ísraelar, hefðu
sig brott af hernumdu svæðunum
og hefði þetta m.a. verið kallað
„land fyrir frið“.
Sagðar kveikja von í brjósti
heimsbyggðarinnar
Halldór Ásgrímsson undirstrik-
aði þá að íslensk stjórnvöld hefðu
beitt sér í þessu máli og sú vinna
stæði enn. Sagði hann tillögur
arabaríkjanna kveikja von í brjósti
heimsbyggðarinnar og að fram-
gangi þeirra þyrfti að vinna. „Við
verðum að leggjast á þá sveif og
það munum við gera. Ég veit ekki
hvernig á að tala skýrar. Ég hef áð-
ur fordæmt atferli Ísraelsmanna í
þessu máli, en ég geri mér vonir um
það að nú muni þeir snúa við
blaðinu vegna þess að nú kemur
fram útrétt hönd og einnig vegna
þess að ég sé ekki að þeir eigi neinn
annan kost.“
Í tilefni þessara orða utanríkis-
ráðherra kom Össur Skarphéðins-
son aftur í ræðustól og sagði kveða
við nýjan tón, talað væri mun skýr-
ar en áður og því bæri að fagna.
Hvatti hann íslensk stjórnvöld til
þess að nýta sér sambönd sín í
þessu skyni og vísaði sérstaklega til
þeirra „góðu tengsla sem forsætis-
ráðherra hefði lýst að hann hefði
við háttsetta áhrifamenn í Evrópu-
sambandinu.“ Hvort ekki væri ráð
að forsætisráðherra nýtti sér þessi
tengsl nú, ráðherrann sem „oftar
en ekki hefur sýnt áhuga sinn á ut-
anríkismálum, jafnvel í þeim mál-
um að sumum hefur þótt nóg um“,
eins og hann orðaði það.
Eftir efasemdum
utanríkisráðherra tekið
Davíð Oddsson forsætisráðherra
kom aftur í ræðustól vegna þessara
ummæla formanns Samfylkingar-
innar og gagnrýndi hann harðlega
fyrirþað sem hann kallaði „galgopa-
hátt um alvarleg mál“, sagði mál-
flutning hans fremur hæfa því sem
gerðist í menntaskólum.
„Það sem vekur sérstaka athygli
varðandi Ísland, hefðu menn ein-
hvern minnsta snefil af þekkingu
eða vitsmunum á utanríkismálum
og stefnu Íslendinga í þeim fyrr og
síðar, er að utanríkisráðherra skuli
tala með þeim hætti sem hann ger-
ir, með stuðning allrar ríkisstjórn-
arinnar á bak við sig til þess,“ sagði
Davíð.
Vísaði forsætisráðherra til þess
að ríkisstjórn Íslands hefði í gegn-
um tíðina viljað styðja fast við bakið
á Ísrael. Í ljósi sögulegra tengsla
landanna og hins mikla stuðnings
væri eftir því tekið þegar utanrík-
isráðherra léti í ljós efasemdir, án
nokkurs hávaða þó eða fyrirgangs,
um framgöngu þessa vinaríkis okk-
ar.
Utanríkisráðherra um friðartillögur Sádi-Araba í deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs
Segir Ísraelsmenn
hljóta að taka í
útrétta sáttahönd
Morgunblaðið/Golli
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Davíð Oddsson forsætisráð-
herra tóku báðir þátt í umræðum um friðarumleitanir.
ÞRÍR ráðherrar ríkisstjórnarinn-
ar með forsætisráðherra í broddi
fylkingar mæltu fyrir frumvörp-
um til laga um nýskipan mála á
sviði vísindarannsókna og
tækniþróunar á Alþingi í gær.
Forsætisráðherra mælti fyrir
frumvarpi um Vísinda- og tækni-
ráð, menntamálaráðherra fyrir
frumvarpi um opinberan stuðning
við vísindarannsóknir og frum-
varp til laga um opinberan stuðn-
ing við tækniþróun og nýsköpun í
þágu atvinnulífsins var flutt af
iðnaðarráðherra.
Ráðherrar og fjórtán aðilar í
ráðinu til þriggja ára í senn
Forsætisráðherra vísaði til
þess að í samræmi við ákvæði
laga um Rannsóknarráð Íslands
hefði endurskoðun þeirra staðið
yfir að undanförnu í samráði við
fjölmarga aðila. Niðurstaða þess-
arar endurskoðunar lægi nú fyrir
og fæli í sér tillögur um að veru-
legar breytingar yrðu gerðar á
stjórnskipulagi rannsóknarráðs
og tengdri starfsemi.
Meðal nýmæla sem í frumvörp-
unum felast má nefna að stefna
stjórnvalda í vísinda- og tækni-
málum verður mótuð af Vísinda-
og tækniráði til þriggja ára í
senn. Umfjöllun þess á hvoru
sviði um sig skal undirbúin af vís-
indanefnd og tækninefnd. For-
sætisráðherra skipar 14 menn í
Vísinda- og tækniráð til þriggja
ára í senn og jafnmarga til vara
samkvæmt tilnefningum ýmissa
aðila. Auk þessara fulltrúa munu
forsætisráðherra, fjármálaráð-
herra, iðnaðarráðherra og
menntamálaráðherra eiga sæti í
ráðinu og verður forsætisráð-
herra formaður þess. Mennta-
málaráðherra mun skipa úr þess-
um hópi sjö aðila í vísindanefnd
og iðnaðarráðherra sama fjölda í
iðnaðarnefnd.
Vísaði forsætisráðherra til þess
að í ljósi reynslu undanfarinna
ára af starfi Rannsóknarráðs, eft-
ir sameiningu Rannsóknarráðs
ríkisins og Vísindaráðs árið 1994,
alþjóðlegri þróun og vaxandi mik-
ilvægis þessa málaflokks þyki nú
tímabært, að færa samræmda
umfjöllun um málefni vísinda og
tækni á efri stig stjórnsýslunnar.
Hann sagði ljóst að framlög at-
vinnulífsins til rannsókna fari ört
vaxandi og jafnframt aukist
metnaður vísindasamfélagsins í
réttu hlutfalli við góðan árangur
þess.
Síðasta ræða ráðherra
tengd breytingunum
Björn Bjarnason menntamála-
ráðherra mælti væntanlega sín
síðustu orð á þingi sem mennta-
málaráðherra í tilefni af um-
ræðum um frumvörpin þrjú í
gær, en meðal þess sem kom þar
fram, var að endurskoðunar á
skipulagi Stjórnarráðsins er ekki
að vænta fyrr en e.t.v. við lok
kjörtímabils núverandi ríkis-
stjórnar. Svanfríður Jónasdóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar,
vísaði til þess að sömu röksemdir
og fælust í nýskipan vísinda- og
tæknimála hlytu að eiga um aðra
þætti í opinberri stjórnsýslu, t.d.
skipulag Stjórnarráðsins.
Benti Svanfríður á að algengt
álitamál væri til hvaða atvinnu-
veganefnda þingsins einstök mál
ættu að fara til frekari meðferðar
og á síðustu árum væri ekki óal-
gengt að sköruðust milli ráðu-
neyta einstakir málaflokkar, sér-
staklega þegar um nýja
atvinnuvegi væri að ræða.
Forsætisráðherra svaraði því
til að þegar við stjórnarmyndum
hefði komið til umræðu uppstokk-
un ráðuneyta. Þó væri ljóst að
mikilla breytinga væri vart að
vænta á næstunni, enda þótt unn-
ið væri að málinu og e.t.v. mætti
vænta tillagna þar að lútandi fyr-
ir lok kjörtímabilsins.
Þrjú stjórnarfrumvörp um nýskipan mála á sviði vísindarannsókna og tækniþróunar
Umfjöllun um vísindi
og tækni færð á efri
stig stjórnsýslunnar