Morgunblaðið - 01.03.2002, Qupperneq 20
LANDIÐ
20 FÖSTUDAGUR 1. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ
RÆKTUNARBÚIÐ Torfunes í
Ljósavatnshreppi opnar heimasíðu
um hesta á næstunni þar sem hægt er
að nálgast allar upplýsingar um starf-
semina og sjá þá hesta sem þar hafa
verið ræktaðir undanfarna áratugi.
Um er að ræða mikið af myndum og
umsagnir um Torfuneshrossin.
Á undanförnum árum hefur Torf-
unes notið álits fyrir hæfileikarík,
samvinnuþýð, traust og viljamikil
hross og hægt er að lesa um þá
keppnishesta sem notið hafa mestrar
athygli. Einnig er að finna texta um
þær hryssur sem vakið hafa athygli á
sýningum.
Á heimasíðunni er hægt að skoða
afkvæmin, framtíðarefnivið ræktun-
arinnar og þar má m.a. sjá folann
Fald frá Torfunesi sem er á fyrsta
vetri og varð hlutskarpastur á sýn-
ingu sem haldin var í Saltvík hinn 24.
janúar sl. Hann hlaut eignarbikar.
Mikil uppbygging er framundan á
Ræktunarbúinu Torfunesi sem mun
verða hlutafélag, en til stendur að út-
búa aðstöðu fyrir ferðamenn og kaup-
endur, þar sem þeir geta gist ef á þarf
að halda. Torfunes er í samstarfi við
Bjarna Pál Vilhjámsson sem skipu-
lagt hefur hestaferðir fyrir ferða-
menn.
Í nágrenni Torfuness eru fjöl-
breytilegir möguleikar hvað varðar
hestaferðir, en ferðirnar með Bjarna
sem mest hafa verið um sunnanverða
Þingeyjarsýslu hafa vakið athygli er-
lendra ferðamanna og hefur m.a. ver-
ið fjallað um þær í blaðinu Sunday
Times. Um er að ræða átta daga ferð-
ir þar sem farið er um fjalllendið
norðan Mývatns og þar í kring og um
svæði Dimmuborga og Jökulsár-
gljúfra.
Baldvin Kristinn Baldvinsson, bú-
stjóri Ræktunarbúsins í Torfunesi,
segir aðstöðuna fyrir kaupendur
nauðsynlega til þess að þeir geti tekið
sér tíma til þess að kynnast þeim
hrossum sem þeir ætla að kaupa.
Markmiðið sé að veita ráðgjöf til
þeirra sem velja sér hesta og leið-
beina um val og kaupendurnir geti
dvalið um tíma á búinu. Mikilvægt sé
að markaðssetja hross með metnaði
og til að allir geti verið ánægðir þarf
að finna hesta sem henta fyrir hvern
og einn.
Á heimasíðunni gefur einnig að líta
umsagnir kaupenda og hvernig þeir
hestar sem koma frá Torfunesi hafa
staðið sig. Þar eru m.a. umsagnar-
aðila Sigurbjörn Bárðarson verð-
launahafi. Búið er að þróa fullkomið
vefumsjónarkerfi fyrir hrossabænd-
ur, en það hefur fyrirtækið Netlist
gert í samvinnu við Ræktunarbúið
Torfunes og Gísla B. Björnsson hönn-
uð. Það kerfi gerir ræktendum
hrossa kleift á einfaldan og þægileg-
an hátt að halda úti sölu- og upplýs-
ingavef með öllum þeim þáttum sem
þeir vilja kynna og varðar ræktunina.
Þar er m.a. að finna upplýsingar um
ræktunarbú, ættartré hrossa, af-
kvæmi, myndasöfn, myndbandaskrár
o.m.fl. Allt efnið er auðvelt að upp-
færa beint á Netið í gegnum stjórn-
kerfið ODIN, vefumsjónarkerfi fyrir
hrossaræktendur.
Baldvin Kristinn væntir góðs af
þessu þróunarstarfi sem átt hefur sér
töluverðan undirbúning og býst við
að Ræktunarbúið Torfunes muni
vaxa og dafna í framtíðinni sé vel á
haldið.
Uppbygging og kynn-
ing á Torfuneshrossum
Laxamýri
Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Torfunes hefur notið álits fyrir hæfileikarík og viljamikil hross.
MJÓLKURBÚ Flóamanna á Sel-
fossi tekur við rekstri Mjólkursam-
lags Kaupfélags Héraðsbúa á Egils-
stöðum í dag. Árleg mjólkurfram-
leiðsla MBF verður nú um 42% af
heildarmjólkurmagni í landinu.
Birgir Guðmundsson er mjólkur-
bússtjóri MBF. Aðspurður um fyr-
irsjáanlega aukningu verkefna í
mjólkursamlaginu á Egilsstöðum
svarar Birgir, að rúlla eigi rekstr-
inum hægt og rólega af stað, í svip-
uðum farvegi og verið hefur. „Síðan
ætlum við að gefa okkur tíma til að
fara nákvæmlega ofan í allar hug-
myndir til að fá út bestu samlegð-
aráhrif í dæminu. Við höfum allskyns
hugmyndir sem ekki er tímabært að
fjalla um á þessu stigi. Menn eru
bjartsýnir á að það sé hægt að gera
þetta allt saman vel,“ sagði Birgir.
Talað er um að hugsanlega verði
ostagerð á Egilsstöðum aukin að
tegundum og magni. Mjólkurstöðin
hefur tekið inn um 3,5 milljónir lítra
mjólkur árlega, þar af hefur ríflega
1/3 hluti farið í framleiðslu á moz-
arellaosti.
Helga Jónsdóttir lét í gær af störf-
um sem mjólkurbússtjóri á Egils-
stöðum en verður eitthvað áfram hjá
fyrri eigendum, Kaupfélagi Héraðs-
búa, til að gera upp rekstur samlags-
ins það sem af er ári.
Guttormur Metúsalemsson verður
vinnslustjóri Mjólkursamlagsins á
Egilsstöðum, en hann hefur áður
gegnt þar stöðu mjólkurbússtjóra og
verkstjóra. Guttormur segir menn
bjartsýna á þróun mála og að verk-
efni aukist jafnvel, en of snemmt sé
að segja til um það nú. Væntanlega
verði hlutirnir skoðaðir með vorinu.
Framleiðendur eystra gerast í
framhaldinu félagar í MBF, en fé-
lagssvæðið nær nú frá Hellisheiði
syðri til Hellisheiðar eystri.
Hugsanlega
farið út í aukna
ostagerð
Egilsstaðir
MBF tekur við rekstri Mjólkursam-
lagsins á Egilsstöðum í dag
TÓLF þátttakendur taka þátt í próf-
kjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg
sem fram fer 9. mars. Prófkjörið er
opið flokksmönnum og stuðnings-
mönnum flokksins.
Þeir sem taka þátt í prófkjörinu
eru: Ari Thorarensen, Benedikt
Benediktsson, Björn Ingi Gíslason,
Halldór Valur Pálsson, Ingunn Guð-
mundsdóttir, Jón Sigurðsson, Magn-
ús Gíslason, Nína Björg Borgars-
dóttir, Páll Leó Jónsson, Ragnhildur
Jónsdóttir, Samúel Smári Hreggviðs-
son og Sigurður Þór Sigurðsson.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla
fer fram föstudaginn 1. mars og föstu-
daginn 8. mars í Óðinsvéum, Austur-
vegi 38 á Selfossi, milli kl. 18 og 20.
Tólf í próf-
kjöri
í Árborg
Selfoss
LEIKSKÓLINN Ásheimar á Sel-
fossi sendi nýlega frá sér ný-
gerða skólanámskrá sem er
stefnumótandi leiðarvísir um
uppeldisstörf og sýnir leiðir
leikskólans að markmiðum aðal-
námskrár leikskóla. Leikskólinn
Ásheimar starfar í samnefndu
húsi við Austurveg og hefur
verið þar síðan 24. nóvember
1979. Stöðugildi í Ásheimum
eru rúmlega tíu, þar dvelja
samtímis 48 börn og er dval-
artíminn 4–9 klukkustundir.
Leikskólastjóri er Helga Geir-
mundsdóttir.
Gerð námskrárinnar byggist
á samþykkt sem gerð var í bæj-
arstjórn Árborgar 1999 um að
gert yrði átak í leikskólum til
að fylgja eftir aðalnámskrá
leikskóla. Frá því í nóvember
sama ár hafa leikskólakennarar
og starfsfólk Ásheima unnið
reglulega að námskrárgerðinni.
Við formlega útgáfu skóla-
námskrár Ásheima flutti Helga
Geirmundsdóttir leikskólastjóri
ávarp og börnin sungu nokkur
lög fyrir gesti.
Morgunblaðið/Sig. Jóns.
Börnin sungu fyrir gesti við útgáfu námskrárinnar í Ásheimum.
Leikskólinn Ásheimar
með skólanámskrá
Selfoss
♦ ♦ ♦