Morgunblaðið - 20.04.2002, Blaðsíða 3

Morgunblaðið - 20.04.2002, Blaðsíða 3
Aldarafmæli manna eru merk tímamót, hvort sem þeir erulífs eða liðnir. Þegar Halldór Laxness á í hlut eraldarafmæli viðburður, sem snertir þjóðina alla. Þar ræðurekki mestu, að skammt er liðið frá andláti hans, heldurhitt að verið er að minnast lifandi samferðamannsÍslendinga, sem mun fylgja þeim, um ókomna tíð, svolengi sem læs maður býr í landinu. Nú fer því fjarri aðHalldór Laxness hafi lætt sér inn á þjóðina, talandi meðblíðmælum eða fagurgala upp í hana. Öðru nær. Hann fóreinatt mjög óvarlega um hennar helgustu vé. Traustustu þræðirnir í þjóðarstoltinu voru raktir í sundur þráð fyrir þráð og minntu þá stundum meira á trosnað garn en silkisaum og svo voru þeir ofnir saman aftur í afkáralegum myndum. Þjóðhollir menn og elskir að sögu sinni og feðranna dáð náðu ekki upp í nefið á sér og hugsuðu skrumskáldinu þegjandi þörfina. En samt komust þeir ekki lengi hjá að viðurkenna að vel var að þessum voðaverkum unnið. Og smám saman skynjuðu fleiri og fleiri að Halldór frá Laxnesi elskaði ekki landið sitt minna en aðrir menn. Hann var þess aðdáandi og vinur og þekking hans á Íslendingsins innri manni tók öllu fram. Og í raun má færa fyrir því rök að hann hafi treyst þjóð sinni út í hörgul. Þess vegna var honum óhætt að draga fram það skrýtna og skoplega í fari hennar og að lokum varð ekki annað séð en það væri einn helsti kostur landsins, hve mikið væri þar um einkennilega menn. Hann særði vörslumenn tungunnar, málsins eina, holundarsárum og þeir sáu ekki betur en að fyrir honum vekti að koma sér og henni fyrir kattarnef. En svo fór að lokum að þau sár greru til fulls, enda hefur enginn síðari tíma maður auðgað íslenskt mál meira en Halldór, kannað þanþol þess og ystu landamæri. Halldór Laxness, síðasta þjóðskáldið, Rithöfundurinn, hefði hvenær sem hann vildi getað horfið frá sínu fólki til annarra landa og skrifað sig þar til hárra hæða. Og hann rataði vissulega víða og dvaldi stundum lengi, við útlent atlæti, en samt fór hann hvergi. Davíð Oddsson forsætisráðherra Samsettar myndir úr sýningu Lansbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, Þar ríkir fegurðin ein - Öld með Halldóri Laxness. Hönnun Ólafur J. Engilbertsson/Sögumiðlun ehf. Lesbók Halldór Laxness 2002 Morgunblaðið ∼ 3

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.