Morgunblaðið - 20.04.2002, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 20.04.2002, Blaðsíða 8
8 ∼ Lesbók Halldór Laxness 2002 Morgunblaðið A UÐUR Sveinsdóttir Laxness stendur nú á tímamótum í lífi sínu. Hún hefur ákveðið að flytja úr Gljúfrasteini eftir áratugalanga bú- setu þar og búa sér heimili í nýrri íbúð í Mosfellsbænum. Þeg- ar blaðamann ber að garði rétt fyrir níu að morgni er Auður búin að leggja á borð fyrir kaffi og þegar farin að und- irbúa hádegisverð. Af magninu að dæma er maturinn ekki fyrir hana eina svo það er ljóst að enn eru töluverð umsvif í heimilishaldinu hjá henni, þótt hún sé orðin 83 ára gömul. Hún er kvik á fæti, þar sem hún skýst á milli eld- húss og borðstofu og setur kaffi í dæmigerða ítalska espressokönnu. „Ég á margar könnur niðri í kjallara sem hétu „Pento“, en þær voru afskapleg góðar. Ég hef alltaf haft svona kaffi, mér finnst ekki gott kaffi úr rafmagns- könnum,“ segir Auður brosandi um leið og hún tyllir sér við borðstofuborðið. „Viðskilnaðurinn við húsið er ekki vondur,“ segir hún þegar hún er spurð hvernig flutning- arnir leggist í hana, „ég er búin að lifa mínu lífi hérna, og það getur varla orðið lengra, ég er búin að vera hérna í 56 ár. Mér finnst það fínt, enda verð ég hérna í nágrenninu og vil alls ekki fara neitt annað.“ Húsið að Gljúfrasteini var teiknað af Ágústi Pálssyni, sem einnig teiknaði t.d. Neskirkju, og það er um margt sérstakt, sniðið að þörfum hennar og Halldórs með ákaflega persónu- legum blæ. „Pabbi gerði hér öll ljós og gerði upp ljósakrónuna í stofunni. Það kom þannig til að ég fór í búð þar sem fékkst dálítið af þessu hvíta gleri sem er í ljósunum og keypti það allt. Ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að gera við þetta gler, en þetta var 1945 og þá fékkst ekkert í búðunum. Pabbi smíðaði því ljósin ut- an um glerin. Baðkarið hérna hjá okkur er líka t.d. dálítið styttra en gengur og gerist, en þetta var eina baðkarið sem fékkst í bænum – hjá Helga Magnússyni. Magnús sonur hans var bekkjarbróðir minn og hann lét mig hafa karið,“ segir Auður hlæjandi. „Þótt ég hefði viljað fá eitthvað lengra, hefði það ekki verið hægt. En það var nú ýmislegt hérna í húsinu sem ég hef þurft að láta skipta út af því það var ekki nógu vandað, eins og slökkvararnir sem voru búnir til úr einhverju gömlu og ódýru. Í húsinu stendur þó enn í rauninni allt eins og var í upphafi, nema bara að það þurfti að færa flygilinn sem var hérna fyrir framan gluggann. Hann þoldi ekki hitabreytingarnar þar og það sprakk í honum hljómbotninn. Þar sem hann er núna var áður hornsófi með hand- ofnu áklæði, sem fór til Ásdísar systur minnar þegar hann varð að víkja fyrir píanóinu. Ann- ars voru öll gluggatjöld og áklæði í húsinu handofin af Karólínu Guðmundsdóttur vef- konu. Ég vildi hafa það þannig og hannaði út- litið á vefnaðinum. Megnið af gluggatjöld- unum var einlitt, en þau sem voru stutt voru með einföldum bekkjum. Þessi vefnaður var hér uppi þar til hann var orðinn ónýtur.“ Litirnir í húsinu eru óvenjulegir og þeim hefur ekki verið breytt. Auður segist alltaf hafa haft þennan sama hlýja græna lit á borð- stofunni því hún kunni vel við hann. Arkitekt- inn, Ágúst, valdi allan við inn í húsið, svo sem í stofunni „hann brá sér þó til Ameríku þegar verið var að byggja,“ segir Auður og brosir, „og þá var óvart settur hvítur eða mjög ljós viður í loftin í stofunni, sem var alveg hræði- legt. Það var þó sem betur fer allt tekið niður og lagfært.“ Auður segir að þau hafi líka verið ákaflega heppin með smiði, trésmíðaverkstæðið Björk sá um smíðarnar og það sem unnið var þar hefur allt enst fram á þennan dag. „En þegar við vorum búin að vera hér í svona fjögur ár létum við breyta aðeins, því það var ekki hægt að opna á milli eldhússins og borðstofunnar. Ég lét opna þar á milli og um leið var sett stál- borð í eldhúsið, sem er það besta sem ég veit,“ segir Auður, sem oft hefur þurft að hafa mikið við í eldhúsinu, sem er þó hreint ekki stórt. „Við Guðjón Einarsson, sem var kokkurinn okkar, fundum upp svo ágætt system niðri í kjallara til þess að geta flýtt fyrir okkur þegar tekið var á móti mörgu fólki. Einu sinni var von á 80 manns í mat sem gátu svo ekki komið á tilsettum degi vegna veðurs svo það þurfti að fresta máltíðinni um tvo daga. Á endanum komu þó allir á páskadag, fólkið sat hérna upp allan stigann og þetta gekk allt saman ágæt- lega. Guðjón eldaði alltaf fyrir okkur þegar gestir komu en það var mikið og oft. “ Í þessu tiltekna tilfelli var verið að elda af tilefni tónleika píanóleikarans Henryk Sztompka, árið 1950. Auður stendur á fætur og fer ofan í skúffu í borðstofunni þar sem hún geymir tónleikaskrár, boðskort og ýmislegt tengt viðburðum úr lífi hennar og Halldórs. Innan um fjölmargar aðrar liggur einnig efnis- skrá þessara tónleika, fallega prentuð rétt eins og þeir hefðu átt sér stað í tónleikasal úti í bæ. „Sztompka var voðalega hræddur hérna á Ís- landi,“ rifjar Auður upp er hún dregur efnis- skrána fram í dagsljósið, „honum fannst svo mikið rok. En hann spilaði afskaplega vel.“ Auður segir frá því í samtalsbókinni „Á Gljúfrasteini“ að Ágúst arkitekt hafi talað „mest um hljómburð í sambandi við [Gljúfra- stein], eins og hann gerði ráð fyrir að [þar] yrði eintómur konsert“, en það er rétt eins hann hafi haft hugboð um það sem síðar varð. Því það eru vísast ekki margir sem hafa haft reglulega tónleika á heimili sínu um langt skeið, eins og þau Halldór og Auður, og því forvitnilegt að fá að vita hvernig það kom til. „Hann Ragnar í Smára átti flygil sem hann fékk í Barnaskólaportinu, en flygillinn var stríðsgóss frá Englandi. Ragnar bað síðan mann frá Danmörku að gera flygilinn upp og sagði okkur svo að hann vildi láta okkur fá flygilinn gegn því að við héldum tónleika fyrir útlenda gesti sem kæmu til landsins. Og við Halldór gerðum það. Ég man nú ekki hvenær síðustu tónleikarnir voru en þeir voru reglu- legir um langt árabil. Gestirnir voru vinir okk- ar úr Reykjavík, Ragnar og Björg kona hans, Kiddi í Kiddabúð og þeir sem stóðu að Tónlist- arfélaginu.“ Aðspurð segir Auður að það hafi nú atvikast þannig að vinir þeirra voru frekar músíkfólk en rithöfundar þó að auðvitað hafi þau stund- um haldið boð fyrir rithöfunda líka og þeir komið til þeirra í gegnum tíðina. Sjálfur lék Halldór á píanó, „en bara fyrir sig, eða okkur,“ segir Auður. „Hann hætti þó að spila um tíma því hann fékk svo mikla gikt í hendurnar, en svo lagaðist það allt í einu og hann fór að spila aftur.“ Hún segir það merkilegt að þegar fór að líða á ævikvöld Halldórs hafi tónlistin haft sinn sess; „það síðasta sem hann gerði hérna á heimilinu áður en hann fór á spítalann, það var að spila á píanóið.“ Talið berst aftur að tónleikum í húsinu og Auður er spurð hvort þau hafi ekki í raun rekið einskonar menningarsetur en ekki bara heim- ili? „Jú,“ svarar hún að bragði, „það má alveg segja það.“ Ýmsir frægir gestir komu í tengslum við þessa tónleika svo sem Mistislav Rostropovits, en hann kom þó ekki til að spila. „Ég spurði hvort hann ætlaði ekki að leika fyrir okkur,“ segir Auður og hlær, „en hann sagði, „veistu, ég bara gleymdi konunni heima“. Hann var þó ekki giftur enn, enda svo ungur á þessum tíma – var auðvitað bara að tala um sellóið! Við Halldór hittum hann þó oft eftir þetta, á tón- leikum erlendis auk þess sem við vorum eitt sinn boðin út að borða með honum og Ashken- azy-hjónunum sem var ákaflega ánægjulegt. Þeir eru báðir skemmtilegir menn.“ Þótt yfirleitt fari fólk bara heim til sín að tónleikum loknum var því ekki þannig farið á Gljúfrasteini. Auður segist í fyrstu hafa haft kaffi og meðlæti fyrir tónleikafólkið, „en síðan settum við það upp í að hafa mat. Það var ágætt,“ segir hún einfaldlega, „og gekk ágæt- lega,“ rétt eins og ekki hafi verið svo mikið fyr- ir því haft, þótt verulegt umstang hljóti að hafa fylgt því. Stundum setti veðrið strik í reikninginn og Auður segist minnast fyrrnefndrar 80 manna veislu einmitt vegna þess að Halldór fór á jeppanum sem þau áttu til að sækja hjálp- arstúlkur sem áttu að vera henni til aðstoðar. „Hann ætlaði svo aldrei að komast heim og varð að lokum að skilja bílinn eftir í Reykjahlíð því veðrið var svo slæmt og fannfergið svo mikið að hann þurfti að ganga með stúlkunum heim. Stúlkurnar voru þær Inga Mogensen og Ingunn móðursystir mín, en þegar þær komu hingað voru þær svo aðframkomnar að ég varð að leggja þær á teppi hérna á gólfinu og draga nælonsokkana í tætlum af Ingu Mogensen. Ingunn frænka mín var betur búin í ull- arsokkum svo hún var í lagi.“ Það er ljóst að ekki hefur alltaf verið auðvelt að búa svona utan við bæinn og þegar Auður er spurð um aðdraganda þess að þau völdu að búa á Gljúfrasteini segist hún engu hafa ráðið um það, „þetta var Halldór búinn að plan- leggja. Það var eiginlega þannig að við syst- urnar vorum að velta því fyrir okkur að setja upp barnaheimili úti í Viðey. Stríðið var ennþá og við gátum fengið skólann, sem Steinn Steinarr átti, leigðan fyrir fimm þúsund krón- ur. Okkur fannst þetta voðalega sniðugt og Steinn fór með okkur að skoða aðstæðurnar. En þá kemur Engilbert Hafberg, sem átti þá Viðey, og segir okkur að báturinn kosti hundr- að og fimm þúsund, og ekki getum við verið með barnaheimili í eyju án þess að eiga bát, svo þetta féll allt um sjálft sig.“ Auður segir að það hafi verið þegar hún kom til baka úr þessari ferð, en þau Halldór voru þá búin að vera saman í ein fimm ár, að hann seg- ir henni að hann sé nú að hugsa um að byggja uppi í Mosfellssveit. „Ég varð voðalega hissa og hélt fyrst að hann meinti bara svona sum- arbústað eða eitthvað svoleiðis. En þetta hefur verið svo þrauthugsað hjá honum að það er al- veg sama á hvaða glugga maður lítur hérna, það er alstaðar jafnfallegt útsýni. Halldór vel- ur staðinn og kaupir landið. Hann var sömu- leiðis búinn að útvega sér vatnsréttindi og vél- ar til þeirra framkvæmda, en það þurfti að leggja leiðslur um nokkurn veg. Hann fékk líka Vilmund Jónsson, sem aldrei fór neitt til annarra í vinnu, ekki einu sinni til barnanna sinna, til þess að koma hingað áður en húsið var byggt og gera rotþró,“ segir Auður og bendir um leið út um borðstofugluggann á fuglana sem þar eiga sinn þátt í útsýninu, sem er enn jafnfallegt og þegar Halldór var að velja staðinn. Inn í húsið flutti Auður svo á aðfangadag 1945, sem aukinheldur var brúðkaupsdag- urinn hennar. „Þá fór ég hingað, þegar ég var búin að borða jólamatinn heima hjá mömmu og Halldór heima hjá sér. Ég kom með móð- urbróður mínum sem kveikti upp í ljósavélinni fyrir mig og kenndi mér á allt sem ég þurfti að Frjáls í mínu lífi Eftir Fríðu Björk Ingvarsdóttur „Þegar mannskepnan sagði fyrsta orðið einhverntíma í fyrndinni, þá byrjaði lygin. “

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.