Morgunblaðið - 20.04.2002, Blaðsíða 5

Morgunblaðið - 20.04.2002, Blaðsíða 5
 Hann þagnar og veltir vöngum stundarkorn en heldur svo áfram: „Úr hvaða orðum sem vill getur maður búið til klaufalega útkomu sem enginn verður stolt- ur af, en stöku sinnum getur það haft sinn til- gang. Kristileg stemmningsbrúkun fellur til að mynda stundum allvel inn í trúmálagutl og grín. En út úr slíku getur líka komið einhver ann- arleg endaleysa. Yfirleitt reynir höfundur að fá góða útkomu út úr vinnu sinni við að raða sam- an orðum og flétta hugsun sína en útkoman má aldrei vera sú sama. Skáldsögur mínar eru hver með sinni stílsetningunni og minningasögurnar eru af allt öðru sauðahúsi. En það er feikna erf- itt að skipa þessu niður í dalla.“ „Ungæðislegt og hálf bjálfalegt“ Halldór Guðjónsson fékk snemma áhuga á ís- lenskri tungu og beitti sér fyrir málrækt í Mos- fellsdal þegar hann var barn að aldri. Á þetta var minnt í samsæti sem sveitungar Auðar og Halldórs héldu þeim hjónum í Hlégarði í Mos- fellssveit 14. febrúar 1956 í tilefni af afhendingu Nóbelsverðlaunanna tveimur mánuðum fyrr. Meðal þeirra sem þar tóku til máls var Ólafur Þórðarson á Varmalandi sem rakti minningar frá æskudögum sínum og skáldsins þar í sveit- inni en þeir voru leikfélagar. Kom fram hjá Ólafi að þegar Halldór litli í Laxnesi var níu ára hafi hann beitt sér fyrir stofnun félags meðal leiksystkina sinna og nefndi það Barnafélag Mosfellsdals. Halldór var ritari félagsins og samdi lög þess. Ólafur dró plaggið fram í sam- sætinu, ritað af Halldóri, og las lög félagsins. Meginboðorðin voru þau að ekki mætti taka egg fugla, ekki blóta en temja sér að tala hreina og góða íslensku. „Þetta er nú heldur ungæðislegt og hálf bjálfalegt,“ segir Halldór þegar við rifjum þetta upp yfir kaffisopa í borðstofunni á Gljúfrasteini í maí 1988. „Ég var einbirni fyrstu sjö ár ævinn- ar og hafði vanist að umgangast mér eldra fólk og hef því snemma verið hátíðlegur og háfleyg- ur í tali. Mér þótti tungumáið þegar í bernsku afar áhugavert tæki og var víst næmur að henda á lofti orð og orðtök og geyma í huga mér. Ég kunni ekki annað mál en það sem talað var á götunni í Reykjavík enda lítið farinn að gefa gaum að tungunni áður en við héldum á vit sveitarinnar. Af fólki sem kom austan úr Hornafirði og var langdvölum hjá okkur í Lax- nesi lærði ég aftur á móti nýtt afbrigði af ís- lenskri tungu, austurskaftfellsku, sem mér fannst á margan hátt sannari íslenska en það mál sem talað var hér fyrir sunnan. Annars koma efnisatriðin í plagginu gamla mér ekki á óvart. Ég man að blótsyrði voru mér sífellt til ama og dýravinur hef ég ætíð verið, – amma mín gamla kenndi mér að aldrei mætti tala illa um dýr.“ Að kynna sig með klukkugrein Þegar á unglingsárum er ljóst að Halldór hefur verið farið að langa til að koma einhverju af skrifum sínum frá sér á prent og fer brátt galvaskur að skrifa greinar í blöð. Oftast hefur verið talað um, að fyrsta grein hans sem birst hafi í blöðum hafi tengst fornri standklukku, sem var ættargripur í fjölskyldu hans og prýðir nú anddyri Gljúfrasteins. Í viðtali Jóns úr Vör við Halldór sem birt var í Útvarpstíðindum síðla árs 1944 ber þessa klukku á góma þegar skrásetjari kemur í íbúð Halldórs við Vesturgötu í Reykjavík: – Þarna sérðu klukku, sem hefur slegið í minni ætt í 150 ár, segir Halldór Kiljan Lax- ness, og um hana skrifaði ég fyrstu blaðagrein- ina mína og það fyrsta, sem eftir mig kom á prenti. Þá hef ég líklega verið 12 ára. Þessi grein kom, ef ég man rétt, í Morgunblaðinu. Og vinur minn, Sigurður Guðmundsson skóla- meistari, hefur sagt, að með henni hafi ég kynnt mig fyrir þjóðinni, því þar sagði ég nafn mitt og ætt. Klukkan var fyrst í eigu Ísleifs Einars- sonar í Brekku á Álftanesi, en hann var langa- langömmubróðir minn í móðurætt. Hann var yfirdómari í Landsyfirréttinum, en klukkan er frá Edinborg. Tveimur árum skeikar hjá Halldóri í viðtal- inu því greinin sem um ræðir birtist í Morg- unblaðinu 7. nóvember 1916 en þá var hann 14 ára. Greinin bar yfirskriftina „Gömul klukka“ og fyllir tæplega helming textarýmisins á einni síðna blaðsins sem á þessum tíma var aðeins fjórar blaðsíður. Þótt Halldór væri ungur var Morgunblaðið þó yngra, aðeins þriggja ára, í nóvember 1916. Um klukkugreinina hefur margt verið ritað og því ekki ástæða til að fjölyrða um efni hennar á þessum vettvangi. Þess má þó geta til gam- ans, að í viðtali við Jens Benediktsson í Morg- unblaðinu 4. september 1946 ber þessa grein á góma og kveðst skáldið hafa haft af henni nokkra mæðu eftir að hún birtist því að „um skeið æptu jafnaldrar mínir þetta á eftir mér: Gamla klukka!“ segir Halldór. Er greinin var prentuð fyrir tæpum 86 árum var fyrri heimsstyrjöldin í algleymingi og gat að lesa í dálknum vinstra megin við fyrirsögn greinarinnar fregnir af kafbátahernaði Þjóð- verja fyrir Austurlandi sem blaðinu var „símað um“ frá Seyðisfirði. Með fljóta tíðindi úr Ís- landssögu er gerðust þennan dag: „Höggvinn Jón Arason og synir hans 1550.“ Og til marks um hve bæjarbragur í Reykjavík var ólíkur því sem nú gerist er auglýsing á sömu síðu: „Sauð- um og dilkum úr Borgarfirði verður slátrað á Laugavegi 13 miðvikudaginn 8. og fimmtudag- inn 9. þessa mánaðar. Pantið slátur í tíma.“ „Þar sem fjólan angar og ljómar eins og stjarna himins …“ Greinin um gömlu klukkuna í Morgunblaðinu var ekki hið fyrsta sem birtist á prenti undir nafni Halldórs Guðjónssonar frá Laxnesi. Fyrr hafði þetta 14 ára piltbarn í Mosfells- dal skrifað greinarkorn í júníhefti barnablaðs- ins Æskunnar 1916. Fyrirsögn þess var: Barnablaðið „Sólskin“ og er höfundur sagður H. Guðjónsson frá Laxnesi. Hann fjallar um börnin í byggðum Vestur-Íslendinga og nýtt blað þeirra, Sólskin, barnablað Lögbergs. Halldór birtir dæmi um greinarkorn vestur- íslensku barnanna í blaðinu og annað efni sem frá þeim hafi borist og segir: „Samvinna og þýðleiki milli systkinanna austan og vestan hafs ætti að þrífast með þeim smærri eins og hefir sýnt sig að þrífst með þeim stærri.“ Hall- dór segir í Æsku-greininni, að hann hafi ný- lega sent „Sólskinsbörnunum“ í Ameríku nokkrar línur um íslenska vorið og sumardýrð- ina sem íslensku börnin eigi nú í vændum. Efni Halldórs birtist í Sólskini, 1. árgangi, 37. tölublaði sem dagsett er 15. júní 1916, tæpum fimm mánuðum áður en greinin um gömlu klukkuna kom í Morgunblaðinu. Fyrirsögnin var: „Sólskinsbörn“ og undir stóð: „Kveðju- sending frá landa ykkar og vini austur á Ís- landi“. Halldór byrjar þennan fyrsta pistil sinn sem birtur er utan heimalandsins á að segja frá því að hann hafi séð barnablaðið, lesið smágrein- arnar sem börnin hafi sent því „og það liggur við að ég sé hissa yfir því hve vel þið eruð að ykkur – að geta ritað svo indælar og liðugar skrítlur og frásagnir“. Hann segir síðan börn- unum í Vesturheimi ítarlega frá Íslandi, „land- inu sem ykkur á að vera allra kærast“. Í vetrarbyrjun sama ár, 9. nóvember 1916, birtist nýr boðskapur skáldsins unga vestur- íslenskum blaðalesendum í Winnipeg, raunar tveimur dögum eftir að greinin um gömlu klukkuna var prentuð í Morgunblaðið í Reykja- vík. Þessi skrif bera yfirskriftina „Til Sólskins- barna“ en í undirfyrirsögn stendur: „H. Guð- jónsson frá Laxnesi sendir“. Halldór segir Sólskinsbörnum nánar frá sumrinu, sumarstörfum, búskap, íslenskum húsdýrum, heyskap og öðru er tengist undir- búningi fyrir veturinn. En síðan segir hann: „Ef þið væruð komin hingað til mín núna skyldi ég á augabragði koma með ykkur upp í fjallið, upp í berjamóinn, upp í hlíðina, þar sem fjólan angar og ljómar eins og stjarna himins og birkitrén lágu, lykja kringum smáu, fögru fjallablómin …“ og á eftir fylgja hástemmdar lýsingar á íslenskri náttúru með tilvitnum í ís- lensk skáld, kvæði þeirra og ættjarðarljóð. Undir lok pistils síns birtir Halldór eigið ljóð, „Til Sólskinsbarna“, sem hann segist þó biðja lesendur fyrirgefningar á. Að bylgjan, sú hin bláa þess biður heitt mín önd, flytji kæra, kæra kveðju að vesturströnd og óskir hinum ungu Íslendingum þar til happa og láns á lífsins leiðum alstaðar. uldumaðurinn Snær svinni Morgunblaðið 13. júní 1916. Það fyrsta sem birtist eftir Halldór Kiljan Laxness á prenti var ljóðadálkur og undir stendur: Snær svinni. Halldór var þá fjórtán ára. Lesbók Halldór Laxness 2002 Morgunblaðið ∼ 5

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.