Morgunblaðið - 05.01.2003, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 05.01.2003, Blaðsíða 8
8 B SUNNUDAGUR 5. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ Rauði kross Íslands hefur nú umsjón með byggingu fimm skóla í Nahrin héraði í Afg-anistan. Verkinu stjórnar Ríkarður Már Pétursson en hann er einn reyndasti sendi-fulltrúi Rauða kross Íslands. Nahrin-hérað varð illa úti í miklum jarðskjálfta hinn 25. mars sl. Um 800 mannsfórust í jarðskjálftanum og tíu þúsund misstu heimili sín. Í Nahrin eru um 90 þorp og talið er að þar búi um tíu þúsund fjölskyldur. Afganski Rauði hálfmáninn og Alþjóða Rauði krossinn brugðust strax við afleiðingum jarðskjálftans með neyðaraðstoð. Síðan var ákveðið að endurreisa fimm skóla á svæðinu og byggja þá þannig að þeir standist jarðskjálfta. Að höfðu samráði við menntamálayfirvöld var ákveðið að reisa skólana í Almatuo, Gawi, Joi Kalan, Tolihaa og Abserni Baraqi. Tveir skólanna munu hafa átta kennslustofur hvor og hinir sex kennslustofur hver. Auk þess að byggja skólahúsin munu Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn búa skólana húsgögnum, vatnsbrunnum og hreinlætisaðstöðu. Ævintýramaður um allan heim Ríkarður Már Pétursson sendifulltrúi og byggingarstjóri skólanna er fimmtugur, fæddur og uppalinn í Mosfellsbæ og ber nafn móðurafa síns, Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara. Það er ekki tekið of djúpt í árinni að segja að Ríkarður hafi lifað ævintýralegu lífi, að minnsta kosti mið- að við þá sem eiga sínar stærstu spennustundir við sjónvarpsskjáinn eða skrifborðið. Ríkarður er rafiðnfræðingur að mennt og hefur starfað á því sviði bæði hér heima og erlendis. Um tíma vann hann t.d. hjá Bang & Olufsen í Danmörku, þaðan fór hann til starfa norður á Svalbarða. Úr kuldanum lá leiðin suður til Gíneu þar sem Ríkarður var 1985–86. Næst fór hann til Narsarsuaq í Grænlandi þar sem hann starfaði við rafveitu á flugvellinum í fjögur ár, eða til ársins 1991. Ríkarður sagði upp starfinu í Grænlandi til að sigla ásamt Gunnari Marel Eggertssyni og fleirum á víkingaskipinu Gaia frá Noregi til Ameríku. Sú för endaði í Brasilíu árið 1992 á 500 ára afmæli siglingar Kólumbusar til Ameríku. Ríkarður var vanur til sjós, hafði m.a. verið á síld- arbáti og eitt sinn sigldi hann á litlum seglbáti frá Danmörku til Grænlands. Þá vann Ríkarður um tíma við smíði víkingaskipsins Íslendings með Gunnari Marel Eggertssyni skipasmið og skipstjóra. Eftir Gaia-leiðangurinn fór Ríkarður á námskeið hjá Rauða krossi Íslands fyrir sendifulltrúa og fór í kjölfarið að starfa fyrir Rauða krossinn. Ríkarður var fyrst sendur til Bosníu og Hersegóvínu árið 1992 meðan stríðið geisaði þar. Hann var á Balkanskaga í tvö ár og starfaði m.a. sem leiðangursstjóri bílalesta sem dreifðu hjálpargögnum. Í ferðum sínum komst Ríkarður oft í hann krappan. Einu sinni var bíll, sem hann var á, skotinn í tætlur. Öðru sinni átti hann snarræði og kaldri yfirvegun líf að launa þegar hann kom úr krappri beygju á fullri ferð. Sér til undrunar sá hann að þar var búið að setja upp varðstöð og jarðsprengjur á veginn. Það var ekkert ráðrúm til að stoppa heldur varð hann að þræða á milli sprengjanna. Þegar honum tókst loks að stöðva bílinn, sloppinn heilu og höldnu yf- ir sprengjurnar, voru hermennirnir á varðstöðinni að skríða úr skjóli sem þeir höfðu hent sér í. Þeir höfðu verið vissir um að bíllinn myndi springa í loft upp, en veifuðu nú Ríkarði að halda áfram um leið og þeir dustuðu af sér rykið. Ríkarður fór fyrst til starfa á vegum Rauða krossins í Afganistan 1995 en hefur einnig starfað í Suður-Súdan og Úganda. Störf hans á vettvangi hafa aðallega verið við byggingarfram- kvæmdir auk áætlanagerðar og dreifingar hjálpargagna. Kuldi setur strik í reikninginn Ríkarður kom til Afganistans, í þessari umferð, í júlí sl. Hann var á Íslandi í á annan mánuð í haust en sneri aftur til Afganistans í byrjun desember sl. En hvernig gengur bygging skólanna? „Það er óvenju harður vetur í Afganistan í ár þannig að framkvæmdir við skólabyggingarnar liggja niðri sem stendur. Við vonumst til að geta byrjað aftur um miðjan mars,“ sagði Ríkarður. „Ég er að vinna hér á jarðskjálftasvæðinu í Nahrin við að endurbyggja fimm skóla. Þeir munu þjóna fjögur til fimm þúsund nemendum. Þetta eru múrsteinsbyggingar á einni hæð, byggðar með tilliti til þess að þola jarðskjálfta. Þar til búið er að byggja skólahúsin er kennt í tjöldum og skólarnir eru tvísetnir. Kennsla fellur þó niður yfir kaldasta tímann. Nemendur eru allt frá sex til sjö ára gamlir og upp í fjórtán ára, bæði stelpur og strákar. Hlutfall stúlknanna er nú um 20–30%, en það er að aukast. Meðan talíbanarnir réðu fengu stúlk- ur ekki að ganga í skóla.“ Að sögn Ríkarðs er unnið við byggingu allra skólahúsanna samtímis. Það eru heimamenn sem byggja húsin. Búið að steypa grunna skólahúsanna og vinna ýmislegt fleira. Ríkarður áætlar að um fjórðungi af byggingarframkvæmdum sé lokið. Hann segir að verkið gangi vel þegar hægt er að vinna vegna veðurs. Vonir standa til að framkvæmdirnar verði langt komnar í byrjun maí nk. og segist Ríkarður búast við að koma aftur til Íslands í vor. En hvernig eru aðstæður í Nahrin? „Þetta er einangrað. Nú er mikill kuldi í landinu, en ekki miklir snjóar. Við erum að tala um 5 stiga frost. Það er ansi kalt þegar menn hafa ekki híbýli, eins og verkamennirnir sem vinna við skólana. Vegna kuldanna hef ég undanfarið verið að vinna við skipulagningu á dreifingu hjálp- argagna í Kabúl. Við erum að dreifa ofnum, kolum, teppum og plastyfirbreiðslum til 18 þúsund fjölskyldna í kringum borgina. Það verður dreift þrjú þúsund tonnum af kolum, 18 þúsund ofn- um og 36 þúsund teppum. Jólahátíðin og nýárið hafa farið fyrir lítið hjá okkur því við höfum ver- ið svo upptekin við að dreifa þessum hjálpargögnum.“ Bjartsýni ríkir í landinu Ríkarður segir að ástandið í Afganistan nú sé rólegt hvað öryggi borgaranna varðar. Það ber- ist ekki neinar fréttir af bardögum eða óeirðum. „Afganskir flóttamenn, sem hafa snúið aftur frá Pakistan og öðrum löndum, hafa verið illa búnir undir veturinn. Þeir sem ætluðu að ganga að húsum sínum hér hafa oftar en ekki komið að rústum einum.“ Ríkarður segist sjá mikinn mun á ástandinu í Afganistan nú og þegar hann dvaldi þar 1995. „Það er ánægjulegt að koma nú og sjá hvað mannlífið hefur tekið við sér. Hvað mikið líf og bjartsýni ríkir hjá Afgönum, það er yfirgnæfandi þó að það séu erfiðir tímar. Þegar ég var hér 1995 lá Kabúl undir stöðugri sprengjuhríð, hér féllu allt upp í 400 sprengjur á dag. Þá ríkti mikil svartsýni og fólk var vonlítið um að ástandið myndi nokkurn tíma lagast.“ Hrifnir af rauða skegginu Einn skólanna, sem Ríkarður vinnur að, rís í einangruðum fjalladal sem heitir Gawi og þar náðu talíbanar aldrei völdum. „Þar ræður ríkjum herforingi sem heitir Kafpar, það er sérstakt að Kafpar er kona. Talíbanarnir gerðu fjórar eða fimm tilraunir til að ná henni en tókst það aldr- ei. Svæði hennar var því aldrei á valdi talíbana. Það hefur eflaust hjálpað til hvað Gawi er af- skekktur dalur, þetta er 30–40 km frá Nahrin og enginn vegur. Það er ekið eftir þröngum árfar- vegi og gott að verja dalinn. Þessi kona, Kafpar, er þjóðsagnapersóna hér um slóðir.“ Ríkarður hefur lengi verið með rautt alskegg, en sem kunnugt er þykir skeggið höfuðprýði talíbana. Er það kostur að vera með alskegg í Afganistan? „Þeir eru að minnsta kosti ákaflega hrifnir af litnum á skegginu mínu. Þetta er sami litur og þeir reyna að ná með henna-litun. Forsvarsmenn í íslam eru gjarnan með litað skegg, en ég er með náttúrulegan lit. Vel rautt!“ Rætt var við Ríkarð í síma sl. fimmtudag. Það er eins og laugardagur hjá okkur því föstudag- ur er frídagur múslíma. Það var mikið um að vera í Kabúl. „Það er heilmikill íþróttaleikur hér í dag. Þar keppa tvö lið og er hvort á tíu hestum. Á miðjum leikvellinum er hringur. Þeir eru með dauða geit og keppnin snýst um hvort liðið getur komið henni inn í hringinn. Þetta er buzkhasi, þjóðaríþrótt Afgana. Ég hef séð svona keppni. Mér sýndist að það væri allt leyfilegt – nema kannski Kalashnikov-hríðskotabyssur. Það má berja á andstæðingnum með svipu, sparka, og atgangur er harður. Ég ætla að reyna að komast á leik- inn í dag.“ Heimildir: „Allir stríðsaðilar hafa skotið á mig.“ Morgunblaðið 15.12.1993. Ævintýrafuglinn. Toyotablaðið 1.2000. (www.toyota.is). Rauði krossinn (www.redcross.is, www.ifrc.org, www.icrc.org). Víkingur í Afganistan Líkt og fleiri innviðir Afganistan er vegakerfið víða lélegt. Hér er Ríkarður að paufast yfir fjallaskarð á leiðinni til Mikið er notast við SSB talstöðvar og með nýrri tækni má nota þær til tölvupóstsamskipta. Eins nota menn ger Ríkarður skoðar grjót sem notað er í grunn skólans sem rís í Sujan í Tolihaa. Skólarnir verða einnar hæðar múrs

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.