Morgunblaðið - 13.04.2003, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 13.04.2003, Blaðsíða 2
2 B SUNNUDAGUR 13. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ ÉG er eiginlega ekkert fynd-inn, ég þarf alltaf að hafaeitthvert handrit til aðstyðjast við, vera með ein-hverja grímu. En í eðli mínu er ég sko alls enginn brandara- karl,“ reyndi séntilmaðurinn Rowan Atkinson að telja blaðamanni Morg- unblaðsins trú um er þeir áttu tal saman á dögunum. Tilefnið var reyndar ekki beint greining á því hvort Atkinson væri fyndinn eða ekki, við hin vitum líka alveg að hann er það, nei, tilefnið var að nú um helgina er frumsýnd um gervallan heiminn, þ.á m. hér á landi nýjasta gaman- mynd þessa geðþekka Breta, Johnny English, eða Jói enski eins og útfæra má á íslensku – Jón spæjó er nátt- úrlega frátekinn. Blanda af Bond og Bean Í myndinni leikur Atkinson enn eina furðufígúruna, breska leyniþjón- ustumanninn Johnny English, sem stendur allt í einu frammi fyrir því – vegna eigin misgjörða – að vera eini eftirlifandi leyniþjónustumaðurinn í þjónustu drottningar, henni og þjóð- inni allri til ómældrar mæðu. Sjáiði til, þótt English hafi á einhvern óút- skýrðan hátt álpast í þetta ábyrgð- armikla starf, þá er hann svolítill klaufi, eiginlega algjör klaufi, kann að stafa orðið leyniþjónusta en þar með virðast hæfileikar hans upp taldir. En hann vill vel, er fullur af metnaði og tekst einhvern veginn alltaf ætlunar- verk sitt á endanum, þrátt fyrir allt gangi á afturfótunum, rétt eins og hjá kollega hans, frönsku leynilögregl- unni Clouseau, sem Peter Sellers lék svo óborganlega í nokkrum myndum frá sjöunda og áttunda áratugnum. En fyrir þá sem ekki þekkja til Bleika pardussins – af einhverri óskiljanlegri ástæðu – þá mætti kannski segja að Jói enski væri blanda af James Bond og herra Bean. Og kannski vegna þessarar aug- ljósu tengingar við Bond kemur þessi frægasti njósnari hennar hátignar fyrst upp í huga Atkinsons þegar blaðamaður segir til þjóðernis. Hvers vegna þá? „Bond kemur upp í hugann þegar þú segir Ísland því þar er töku- staðurinn frægi sem notaður var í síð- ustu Bond-mynd. Hann vakti mikla athygli hér í Bretlandi og við hrifumst mjög af þessu mikilfenglega lands- lagi. Svo á ég reyndar vin sem tekur reglulega upp auglýsingar á Íslandi og hann er algjörlega hugfanginn af landinu og er jafnan uppfullur af skemmtilegum sögum af landi og þjóð þegar hann kemur úr Íslandsreisu – allar mjög jákvæðar fyrir ykkur vel að merkja,“ segir þetta kurteisa val- menni á hinni línunni, sem maður reyndar er vanari að sé önugur og ókurteis, í hlutverkum sínum, þ.e.a.s., sem Svarta naðran og herra Bean. Þetta eru auðvitað þau hlutverk sem við þekkjum hann best í, ásamt auka- hlutverkum í ýmsum gamanmyndum, eins og hlutverk prestsins í Fjórum brúðkaupum og jarðarför. Í bresku Spaugstofunni En í heimalandinu er Atkinson hvað þekktastur sem uppistandari og þátttakandi í goðsagnarkenndum gamanþáttum þar í landi sem sýndir voru síðla á áttunda áratugar við miklar vinsældir. Þættirnir hétu Not The Nine O’Clock News og voru nokkurs konar Spaugstofa þeirra Breta. Þá var Atkinson tiltölulega ný- stiginn fram á sjónarsviðið, enda hafði hann þá tiltölulega nýlokið námi í raf- magnsverkfræði við Oxford-háskóla. Já, maðurinn er verkfræðingur að mennt en hefur enga leiklistarmennt- un. „Það má eiginlega segja að ég hafi álpast út í grínið. Var í sakleysi mínu að vasast í félagslífinu í skólanum, m.a. með því að fíflast eitthvað upp á sviðið, og svo vatt þetta einfaldlega upp á sig.“ Kannski af þessum sökum er Atk- inson ekki þessi hefðbundna kvik- myndastjarna. Er fyrir það fyrsta alltof jarðbundinn og hófstilltur að sögn vina og kunningja í bransanum. Stephen Fry, góðvinur Atkinsons og mótleikari í þáttunum um Svörtu nöðruna, lét t.a.m. þau orð falla að það væri ekki snefill af skemmtanabransa í honum. „Ég veit það nú ekki,“ segir Atkinson hógvær er blaðamaður ber undir hann þessi ummæli og það er ekki laust við að hann verði svolítið vandræðalegur. „Við skulum bara segja að ég finni mig ekki alveg nógu vel í galakvöldverðum og á drottn- ingafrumsýningum, þótt ég hafi vissulega gaman af slík- um athöfnum.“ Og Atkin- son viðurkennir fúslega fyrir blaðamanni að þeg- ar hann er búinn að eyða heilum dögum og vikum í að tala við blaðamenn um sömu myndina og sjálfan sig, ansa sömu spurning- unum aftur og aftur og aft- ur, þá klóri hann sér hausn- um og fari að velta fyrir sér hvort það hafi virkilega verið þetta starf sem hann valdi sér. „Allavega er ég þá hreint ekki að gera það sem ég geri best, þ.e. þegar ég tala við blaðamenn. Ég hef svo sem al- veg gaman af því að spjalla, en ég er betri í því að koma fram,“ segir Atk- inson. Aðspurður hvort hann sjái sig þá tilneyddan að „koma fram“ þegar hann talar við blaðamenn, hvort hann þurfi að setja á sig grímu og leika kvikmyndastjörnu þá vill hann nú kannski ekki alveg taka svo djúpt í ár- inni en viðurkennir þó að hafa þurft að finna sér rétta gírinn, öðlast sjál- straustið og sannfæra sjálfan sig um að hann gæti verið hann sjálfur. Persóna úr kreditkortaauglýsingu Og blessunarlega er Atkinson ekki hann sjálfur í myndinni um Jóa enska. Myndin sú fjallar eins og áður segir um skrifstofublók hjá leyniþjón- ustunni bresku sem lendir allt í einu í þeirri stöðu að vera eina von þjóðar sinnar sem hann ann svo heitt, sá eini sem komið getur í veg fyrir að frönskum auðkýfingi, fjarskyldum kon- ungsfjölskyldunni (John Malkovich með svo ýktan franskan hreim að hann gæti hafa stokkið beint úr úr Allo! Allo! þáttunum) takist að hrifsa krúnuna frá Betu frænku sinni og láta krýna sjálfa sig sem konung. Mjög er gert út á helsta stolt þeirra Breta þegar að farsælum kvikmyndum kemur, Bond-myndirn- ar. Bond gamli, þessi smókingklædda heilaga kýr fær það aldeilis óþvegið í Jóa enska, en þó allt í góðu. Uppbygg- ing myndarinnar er sem Bond-mynd væri og vissulega gerir Jói sitt besta til að temja sér ofursvala takta koll- ega síns og landa, með æði misjöfnum og oft á tíðum sprenghlægilegum af- leiðingum. Þegar blaðamaður furðar sig á því við Atkinson að engum hafi dottið þessi hugmynd að bíómynd í hug fyrr, að ganga alla leið í að gera gys að Bond-fyrirbærinu, þá tekur Atkinson undir og bætir við að hann sé feginn að einhver höggvi loksins eftir því augljósa, hingað til hafi blaðamenn nefnilega verið svo uppteknir við að líkja myndinni við Austin Powers – sem er skiljanlegt upp að vissu marki en Jói er þó mun nær Bond. „Bara vegna þess að hér er verið að gera grín að njósnamyndum þá dett- ur fólki umsvifalaust Austin Powers í hug. Málið er að Jói enski er ekkert lík Austin Powers. Fyrir það fyrsta er myndin að grunninum til ósköp hefð- bundin njósnasaga, bara með fyndn- ari og fáránlegri aðalpersónu en mað- ur á að venjast í slíkum myndum. Þannig er hún nær Bond-myndunum en aðrar njósnagrínmyndir hafa ver- ið.“ Þessi nýjasta persóna Atkinsons, Jói enski, á rætur sínar að rekja til kreditkortaauglýsingar – Barclay- card – sem birtist fyrst fyrir áratug eða svo. Þessi kostulegi leyniþjón- ustumaður mæltist vel fyrir þannig að menn fóru fljótlega að tala um að smellið yrði að gera mynd með hon- um. En aldrei varð neitt úr þeim hug- myndum, ekki fyrr en 1999, þegar Atkinson settist niður með handrits- höfundum og reyndi að sjóða eitt- hvað saman. „Til að byrja með var það mjög erfitt og við vorum alls ekki viss um að þessi týpa sem gerði sig sig svo vel í einnar mín- útu auglýsingum, myndi virka í heilli bíómynd. Þetta var mikil áskorun, sem á endanum tókst, viljum við halda.“ Jói er betri maður en Bean Sjálfur segist Atkinson löngum hafa verið unnandi Bond-myndanna – glöggir muna eftir honum í litlu hlutverki í Ne- ver Say Never Again – en þó er hann mun hrifnari af bókunum hans Ians Flemmings. „Bæk- urnar um Bond eru magnaðar og því miður hafa myndirnar fjarlægst þær æ meira með hverri nýrri mynd sem kemur. Fyrir mér er það mikið atriðið hvenær bækurnar gerast, þ.e. á sjötta áratugnum, því þessi hetja er svo innilegt afsprengi þess áratugar. Mér þykir mönnum hafa tekist þokkalega upp við að uppfæra hann í tíma en þó ekki betur en svo að hann á æði oft til að virka á mig eins og nýstokkinn út úr tímavél, öll þessi gildi hans og afstaða, til kvenna og annarra lífsins freistinga. En hinn eina sanna Bond er að finna í bók- unum og í Jóa enska erum við eiginlega að gera grín að hvoru tveggja. Annars þarf svo sem ekk- ert að gera grín að Bond, hann er orðinn bestur í því sjálfur, í þessum síðustu myndum sínum.“ Leikstjóri Jóa enska heitir Peter Howitt, er landi Atkinsons og á að baki tvær myndir, rómantísku gam- anmyndina Sliding Doors (með Gwyn- eth Paltrow) og vísindatryllinn Anti- Trust. Blaðamaður ber undir Atkinson hvað komið hafi til að nákvæmlega þessi leikstjóri var valinn til verksins, leikstjóri sem enga reynslu hafði af gerð viðlíka hreinræktaðra farsa- kenndra gamanmynda. „Sliding Door var vissulega fyndin mynd, þótt hún hafi líka verið dramatísk. Svo æxlaðist þetta nú þannig að við hittumst, náðum vel saman og slógum til. Það merkilega er að nú tveimur árum síðar, eftir að hafa gert saman mynd, þá náum við enn vel saman,“ segir Atkinson kíminn og segir vel hugsandi að þeir eigi aftur eftir að vinna saman í framtíðinni. Það fer ekki framhjá manni að Jói enski er mun geðþekkari gaur en frændur hans Svarta naðran og herra Bean, þannig að aldrei þessu vant leikur Atkinson blíðan náunga. „Jói er tvímælalaust indælasti náungi sem ég hef nokkru sinni leikið. Herra Bean er ekki indæll maður því hann er mjög langrækinn, eigingjarn og almennt upptekinn af sjálfum sér. Hann er eiginlega ofvaxið barn. Jói hefur aftur á móti stórt hjarta og vill öllum vel. Þess vegna er mun auð- veldara að finna til með honum og styðja hann.“ Þegar blaðamaður segist gefa sér að Jói sé að þessu leytinu líkastur honum sjálfum þá hlær Atkinson og segir Jóa sannarlega líkastan sér, eða vonar það allavega. Annað sem gerir Jóa að mörgu leyti ánægjulegri að leika, að mati Atkinsons, er að honum við hlið er nær alltaf hinn ofurþolinmóði undir- maður hans, Bough (berist fram „buff“). Svarta naðran hafði sér við hlið hinn hundtrygga og nautheimska skósvein Baldrick en Bean var aftur á móti einn, svo til alltaf. „Það er ein- mitt þess vegna sem mér hefur ætíð fundist miklu erfiðara að leika Bean heldur en hinar persónurnar, ég kann betur við að leika á móti einhverjum.“ Og því var búinn til félagi fyrir Bean í myndinni um hann, bandaríski listaverkasérfræðingurinn. „Ná- kvæmlega. Bean virti hann auðvitað algjörlega af vettugi, en hann var vissulega mótleikari fyrir hann. Ég er miklu meira fyrir slíkan húmor, þann sem verður til í samskiptum tveggja einstaklinga.“ Franskur kóngur er versta martröðin Í myndinni reynir franskur auðkýf- ingur að komast yfir bresku krúnuna og við það er gengið á lagið og alið enn og aftur á hinum djúpstæða ríg sem ríkt hefur milli Englendinga og Frakka í ár og aldir. En er það ekki enn versta martröð allra Englend- inga að fá yfir sig franskan konung? „Trúlega. Og það er eiginlega hálf- kaldhæðnislegt að myndin skuli koma út einmitt núna þegar enn einu sinni andar köldu á milli þjóðanna. Við vilj- um halda og láta eins og við búum í þessari dýrðlega samheldnu Evrópu, en hann blundar samt enn undir niðri þessi sögulegi rígur milli þjóðanna. Frakkar eru ekkert að breytast og við Bretar munum ekkert flýta okkur að því. Ég ber virðingu fyrir Frökkum sem þjóð og það skemmtilega við þá er að það má gera grín að þeim, þeim er alveg sama. Ég dáist að þeim fyrir það. Við Bretar mættum kannski læra svolítið af þeim í þessum efnum.“ Rowan ökuþór Eins og áður segir er Jói enski um margt gerð eftir Bond-uppskriftinni skotheldu og því fylgir auðvitað að að- alpersónan, Jói , keyrir um á ofsalega flottum bílum, í þessu tilfelli Aston Martin, bíll sem Atkinson valdi sjálf- ur, enda með ólæknandi bíladellu. „Ég hef átt 5 eða 6 Aston Martin bíla og á einn núna sem ég keppi á, ítalsk- an Zagato V8 ’86 árgerð. Ég keppi reglulega í Aston Martin-kappakstr- inum í Englandi, mátti það reyndar ekki í fyrra fyrir sakir tryggingamála en í ár verð ég ekki að leika í neinni mynd þannig að ég verð trúlega með.“ Og ekki vill hann Rowan blessaður viðurkenna að hann sé góður ökumað- ur, ekki frekar en að hann sé fyndinn. En að því gefnu hlýtur hann að vera hinn besti ökuþór, því Rowan heitir hann – Rowan fyndni. Jói enski er sýnd í Sambíóunum, Háskólabíói og Laugarásbíói. Rowan heitir hann – Rowan fyndni Þegar hann er ekki Svarta naðran þá er hann bjáninn hann herra Bean. Og þegar hann er ekki bjáninn hann herra Bean þá er hann kjáninn hann Jói – Jói enski. Og þegar hann er ekki kjáninn hann Jói enski þá er hann verkfræðingurinn Rowan Atkinson – verkfræðingurinn, bíladellukallinn, leikarinn og gúmmígerpið Rowan Atkinson. Skarphéðinn Guðmundsson ræddi við hinn síðastnefnda um alla hina, sérstaklega þó Jóa enska – nýjasta furðufuglinn í safni Atkinsons. skarpi@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.