Morgunblaðið - 13.04.2003, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 13.04.2003, Blaðsíða 10
10 B SUNNUDAGUR 13. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ Þ að eru ekki nema tuttugu til þrjátíu ár síðan lítil matvörubúð leyndist á öðru hverju götuhorni í þéttbýli hér á landi. Þá var hægt að stökkva út í búð á peysu og inniskóm enda þurftu fæstir að ganga lengra en 100 metra að næstu verslun. Kaupmennirnir heilsuðu með nafni, voru kunn- ingjar og vinir fólksins í hverfinu og spjölluðu við það um daginn og veginn á hverjum degi. Nú eru verslanir þessar óðum að hverfa. Á höfuðborgarsvæðinu fylla þær varla tvo tugi en hafa líklega verið á annað hundrað þegar best lét. Verslanakeðjur, stórmarkaðir og lágvöruverðsverslanir hafa tek- ið við og virðast vera rekstrarform nútímans. Þegar betur er að gáð leynast nokkrar litlar rótgrónar verslanir í hverfum höf- uðborgarinnar þar sem enn eimir eftir af anda liðinna ára. Sumar þessara búða iða af lífi þrátt fyrir að eiga undir högg að sækja í aukinni samkeppni. Liðin tíð að senda börnin út í búð Þorvarður Björnsson hefur rekið verslunina Háteigskjör á horni Háteigsvegar og Rauðarárstígs síðastliðin þrjátíu ár og man tímana tvenna: „Áður en stórmarkaðirnir komu til sögunnar var hér stöðugur straumur fólks allan daginn. Hingað komu hús- mæðurnar úr hverfinu til að versla, skiptast á fréttum og spjalla. Þær eyddu oft löngum tíma hér í búðinni því þær hittu svo marga sem þær þekktu. Á þeim tímum var einnig algengara að börn væru send út í búð að versla og þótti það ekkert tiltökumál enda verslunin í göngufæri frá heimili þeirra. Í dag er þetta að mestu hætt, það þorir enginn að senda barnið sitt einsamalt út í búð,“ segir Þorvarður. Ingibjörg Snæbjörnsdóttir húsmóðir var vön að versla í Víði í Starmýri. „Maður fór út í búð og hitti þar nágranna sína úr næstu húsum og götum. Þegar nýtt fólk flutti í hverfið kynntist maður því úti í búð. Það var ævinlega skemmtilegt að fara að kaupa í matinn, þetta var svo félagslegt. Svo kom að því að versluninni Víði var lokað og þá þurfti ég að sækja annað. Ég áttaði mig á því síðar að upp frá því missti ég smám saman samband við fólkið í hverfinu og kynntist ekki leng- ur nýju fólki í hverfinu. Í dag er þetta svona, maður veit hreinlega ekki hver býr í næsta húsi,“ segir Ingibjörg. Guðni Þorgeirsson var kaupmaður til fjölda ára í Kópavogi þar sem hann rak verslunina Kársneskjör. „Við lifðum á allt öðrum tímum. Við kaupmennirnir vorum í miklu meiri nálægð við viðskiptavinina en tíðkast í dag. Við lent- um stundum í því að börnin komu út í búð til að leita að mömmu sinni. Þá var náttúrulega rétt að bregðast við og róa þessa vini okkar sem voru oft innkaupamenn fyrir heimilin. Þá fylgdi stund- um smáspjall undir kók og prins póló á meðan þau biðu eftir mömmu. Á þessum tíma voru verslanirnar ákveðið öryggi fyrir börnin af því þar kannaðist verslunarfólkið við flest börnin, en það er ekki hægt að segja að þetta sé svona í dag nema í undantekn- ingartilvikum,“ segir Guðni. Mikil fækkun lítilla matvöruverslana Ekki eru til nákvæmar tölur um fjölda matvöruverslana sem reknar voru af sjálfstætt starfandi kaupmönnum fyrir tuttugu, þrjátíu árum en fjöldi félaga í Kaupmannasamtökunum gefur e.t.v. einhverja vísbendingu, þótt þar séu skráðir kaupmenn á mörgum öðrum sviðum. Fyrir tuttugu árum voru 800 félagsmenn í samtökunum en nú eru þeir um 300. Að sjálfsögðu hafa miklar breytingar átt sér stað á matvörumarkaðnum sem gera að verkum að eignarhald á versl- unum er með allt öðru móti nú en fyrir tuttugu árum og kaup- menn eru skráðir í ólík samtök, en þessar tölur gefa þó ákveðnar vísbendingar. Í sögu Kaupmannasamtaka Íslands kemur fram að 115 mat- vörukaupmaður hafi skrifað undir mótmælaskjal árið 1928 í Reykjavík og Hafnarfirði og gefur vísbendingu um fjölda þeirra þá. Samkvæmt upplýsingum frá Kaupmannasamtökunum eru inn- an við tuttugu sjálfstætt starfandi kaupmenn á höfuðborgarsvæð- inu nú sem reka aðeins eina verslun hver. Fyrir aðeins tíu árum, voru þeir tæplega fjörutíu. Heimir L. Fjeldsted, fyrrverandi kaupmaður í Kjörbúð Reykjavíkur og fyrrverandi formaður Félags matvöruverslana tók saman fjölda verslana af þessu tagi í Reykjavík. Að hans sögn voru þær 31 árið 1999 en milli 50 og 60 1989. Af þessu má sjá að fækkunin á sjálfstætt starfandi matvöruverslunum er veruleg. Tölur úr skýrslu Samkeppnisstofnunar um matvörumarkaðinn frá árinu 2001 sýna þetta einnig. Þar kemur fram að árið 1996 voru aðrar verslanir en þær sem tilheyrðu stórfyrirtækjum og verslanakeðjum með 15% markaðshlutdeild. Aðeins fjórum árum síðar, árið 2000, var markaðshlutdeild sjálfstætt starfandi mat- vöruverslana komin niður í 6–7%. Samkeppni úr öllum áttum Á undanförnum árum hefur kaupmaðurinn á horninu fengið sí- vaxandi samkeppni úr öllum áttum. Auk stórmarkaða og lágvöru- verðsverslana hafa klukkubúðir (10–11 og 11–11) og bensínstöðv- ar, sem margar eru farnar að selja matvæli, einnig haft áhrif. „Okkar sérstaða núna felst kannski einna helst í persónulegri þjónustu og því að við sendum heim endurgjaldslaust,“ segir Þor- varður í Háteigskjöri um það hvernig kaupmanninum á horninu tekst að fóta sig í samkeppninni. „Það er mikið af eldra fólki hér í hverfinu sem nýtir sér þessa þjónustu og ég fer oft með pantanir til fólks eftir lokun. Fólk er mjög þakklátt fyrir heimsendingarnar og maður lendir oft í kaffi enda hafa viðskiptavinirnir verið kunn- ingjar manns til margra ára,“ segir Þorvarður. Kaupmaðurinn á horninu á fleiri tromp í hendi til að standast aukna samkeppi. Hjördís Andrésdóttir er kraftmikil ung kona sem festi kaup á versluninni Skerjaveri í Skerjafirði fyrir Hjartað á horninu „Við kaupmennirnir vorum í miklu meiri nálægð við við- skiptavinina en tíðkast í dag. Við lentum stundum í því að börnin komu út í búð til að leita að mömmu sinni. Þá var nátt- úrulega rétt að bregðast við og róa þessa vini okkar sem voru oft innkaupamenn fyrir heim- ilin. Þá fylgdi stundum smá- spjall undir kók og prins póló á meðan þau biðu eftir mömmu.“ 

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.