Morgunblaðið - 19.12.2003, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 19.12.2003, Blaðsíða 14
14 | FÓLKIÐ | FÖSTUDAGUR 19|12|2003 MORGUNBLAÐIÐ Hvað gerir rithöfund að rithöfundi? Það telst alltaf til viðburða þegar nýir skáldsagnahöfundar stíga fram á sjónarsviðið, senda frá sér sínar fyrstu skáldsögur, þó oftar en ekki sé viðkomandi höfundur kannski búinn að senda frá sér ljóðabók eða bækur áður og jafnvel smásagnasöfn líka. Það er nú einu sinni svo hjá bókaþjóðinni að fátt þykir merki- legra en skáldsaga, að ekki sé talað um ef hún er hnausþykk. Fyrir þessi jól senda fjórir höfundar frá sér sína fyrstu skáld- sögu, Guðmundur Steingrímsson, Linda Vilhjálmsdóttir, Berg- sveinn Birgisson og Sölvi Björn Sigurðsson. | arnim@mbl.is FEIMINN VIÐ AÐ KALLA MIG RITHÖFUND Guðmundur Steingrímsson er mönnum helst kunnur fyrir áralangt starf sitt í hljómsveitinni Skárren ekkert, sem heitir nú Ske, en hann hefur einnig verið iðinn pistlahöfundur fyrir út- varp og blöð. Áhrif mín á mannkynssöguna, sem Forlagið gefur út, er fyrsta skáldsagan sem hann skrifar og nærtækt að spyrja hann hvort hann sé nú loksins orðinn rithöfundur. „Ég er dálítið feiminn við að kalla mig það, finnst ég verða að skrifa fleiri bækur,“ segir Guðmundur, en hann er ekki búinn að hafa samband við símaskrána til að láta breyta starfsheiti sínu þar úr harmonikkuleikari. Aðspurður hvort ekki hefði verið hægt að segja það sem hann vildi í knappri smásögu eða ljóði svarar hann að bragði: „Nei, alls ekki, það væri frekar að ég hefði getað sagt þetta allt í meitlaðri hæku, til greina kom hæka, löng saga eða gjörn- ingur í Nýlistasafninu á mánudagskvöldi, sem enginn hefði mætt á. Ég hefði haft húmor fyrir því.“ Guðmundur segir að bókin sé ekkert sem hafi þjakað sig árum saman. „Ég skemmti mér konunglega við að skrifa hana, svo vel að ég er byrjaður á næstu bók,“ segir hann. „Hún verður full af dulspeki og klámi og fjallar um endalok veraldar.“ Guðmundur, sem er alvanur að fara í viðtöl sem tónlistarmaður, segir það hafa komið sér á óvart hvað allt orðalag sé miklu drama- tískara í kringum allt sem viðkemur bókum. „Það er eins og það sé um líf og dauða að tefla. Ég fékk hugmynd að sögu sem skemmtilegt var að glíma við og víst túlkar hún visst viðhorf mitt til lífsins, en í raun ekkert ósvipað og platan Life, Death, Happiness & Stuff sem Ske gerði fyrir ári. Í viðtölum vegna hennar vorum við aftur á móti ekkert spurðir af því hvort eitthvað hefði þjakað okkur eða sótt svona svakalega á okkur, að við hefðum orðið að gefa út plötu. Skáldskapur er ekki sjúkdómur.“ Hvort er skemmtilegra að vera rokkari eða vera rithöfundur? „Það jafnast fátt á við gott gigg á sviði, en þetta er hvort tveggja ákveðinn farvegur til að tjá sig, þó svo að vitanlega skilji mann fáir. En það er hluti af þessu.“ ENGINN MUNUR Á AÐ VERA LJÓÐSKÁLD EÐA RITHÖFUNDUR Linda Vilhjálmsdóttir hefur verið framarlega í flokki íslenskra skálda á undanförnum árum og sent frá sér nokkrar ljóðabækur. Lygasaga sem Forlagið gefur út er fyrsta skáldsaga hennar og Linda segist nú vera orðin rithöfundur þó ekki miði hún það við skáldsöguna sem slíka. „Það miðast frekar við úthald en söguna sjálfa,“ segir hún og hyggst ekki breyta starfsheitinu í síma- skránni; þar segist hún vera sjúkraliði; „ætli ég leyfi því ekki að standa.“ Eins og nefnt er hefur Linda skrifað mikið af ljóðum í gegnum tíðina. Hún segir að það sem sem hún sé að segja frá í skáldsögunni hefði hún ekki getað sagt í ljóði eða smásögu. „Ég reyndi að koma hluta af þessu í smásögur en það gekk ekki upp og ljóðformið hentaði þessu efni einfaldlega ekki.“ Linda segir að það sé í sjálfu sér enginn munur á að vera ljóð- skáld eða vera rithöfundur. „Ég tel engan áþreifanlegan mun vera þar á milli. Það sem gerir það að verkum að ég tel mig vera alvöru rit- höfund núna, og reyndar frá því áður en þessi bók kom út, var að ég hætti á spítalanum og einbeitti mér að því að skrifa. Ég hafði verið í hálfri vinnu og þorði lengi vel ekki að stíga skrefið til fulls, afþví ég vildi ekki gefa á mér höggstað. Á meðan ég var útivinnandi sjúkraliði gat ég alltaf afsakað mig með því að ég væri ekki að sinna ritstörfum af fullum krafti. Það er mikil yfirlýsing að segja „ég er rithöfundur“, en það er ekkert óyfirstíganlegt, maður verður bara að taka slaginn.“ Fylgir því að vera rithöfundur í fullu starfi ekki fátækt og kröm? „Jú, ég er að fatta það núna,“ segir Linda og hlær. „Ég hélt að ljóð- skáldin væru blönkust af öllum listamönnum og ég mundi pottþétt komast í álnir þegar ég færi að skrifa skáldsögur. Ég var alltaf að öf- unda einhverja metsöluhöfunda, en ég sé það nú að ég sit enn á sama flæðiskerinu.“ LJÓÐ MYNDI EKKI DUGA Sölvi Björn Sigurðsson sendir frá sér bókina Radíó Sel- foss sem Mál og menning gefur út. Sölvi Björn hefur gefið út ljóðabækur og einnig þýtt ljóð. Hann segir að líklega sé rétt að kalla hann rithöf- und að svo stöddu. „Ég veit reyndar ekki hvað það er sem skilgreinir hvort maður er rithöfundur eða ekki, en eigum við ekki að segja svo.“ Skráning í símaskránni er ekki eitthvað sem vefst fyrir Sölva Birni, hann segist ekki vera í símaskránni „svo ég tek það bara með trompi þegar þar að kemur,“ segir hann og hlær við. Eins og getið er hefur Sölvi Björn sent frá sér ljóða- bækur en hann segir að ljóð myndi ekki duga til að segja þá sögu sem hann rekur í Radíó Selfoss. „Það er vit- anlega talsverður munur á skáldsögu og ljóði og þar sem það er frekar mikið um atburði í bókinni, frásögnin er við- burðarík, þá held ég að hún hefði ekki komist fyrir í ljóði,“ segir hann. Að- spurður hvort epískt söguljóð myndi duga svarar hann að bragði: „Það yrði þá að vera mjög langt ljóð ort undir hexametri.“ Sölvi Björn er þegar byrjaður á næstu skáldsögu og var reyndar búinn að skrifa fyrstu gerð hennar áður en Radíó Selfoss kom út. „Ég var ekki nógu ánægður með hana og ákvað að hvíla hana um stund áður en ég tek til við hana aftur,“ segir hann og tekur undir að það sé hollt rithöfundum að vinna svo, að geyma textann aðeins. „Ég held líka að ritun Radíó Selfoss geri mig betur í stakk búinn til að takast á við að endurskrifa hina bókina.“ Verður það þá meistaraverk þitt? „Maður reynir að gera sitt besta.“ Sem stendur fæst Sölvi Björn aðeins við það að skrifa og ætlar að reyna við það eins lengi og unnt er. „Það er ekki auðvelt að komast í þá stöðu að geta sinnt ritverkum eingöngu, ekki síst þegar maður er að hefja rithöfund- arferil, en maður verður að láta vaða og sjá hvernig landið liggur.“ LJÓÐIÐ KEMUR AFTUR Bergsveinn Birgisson sendi frá sér bókina Landslag er aldrei asnalegt sem Bjartur gefur út. Bergsveinn dvelst í Noregi og svaraði spurningum í tölvupósti. Aðspurður hvort hann sé nú loks kominn á það stig að vera kallaður rithöfundur svarar Bergsveinn því til að í huga þeirra sem dæma bókina hans og fleira fólks virð- ist skilningurinn sá að þetta sé hans fyrsta „eiginlega“ bók „og þá gjarna kölluð „frumraun“, ergo: nú er mað- urinn rithöfundur. En ég minni á að ég hef gefið út tvær ljóðabækur áður. Ég hallast að því að maður sé rithöf- undur þegar maður segir buxurnar sínar fínustu buxur í heimi, þvert á allar tískubúðir. Það gerði ég semsé í ljóðabókunum sem ég nefndi,“ segir Bergsveinn og bætir við að hann sé ekki búinn að breyta starfsheiti í Símaskránni, enda hafi hann aldrei komist í íslensku símaskrána, „og þar af leiðandi er ég kannski ekki eig- inlegur „Íslendingur“. Það þýðir síðan að ég hef enga vinnu og af því má ætla að ég sé kannski ekki til. Mér er líka illa við síma og tek undir það sem gamlar kellingar sögðu þegar sveita- síminn fyrst kom, að það er allt lygi sem sagt er í síma.“ Eins og getið er hefur Bergsveinn ort ljóð og sent frá sér tvær ljóðabækur. Spurður hvort ekki hefði dugað að segja það sem felst í sögunni með ljóði svarar hann svo: „Spurnin er tvíþætt: er ljóð og saga það sama er miðla skal hugsun, og er jafnauðvelt að miðla þessu til fólks. Fyrir mér eru saga og ljóð tvennskonar hugsunarform. Sagan er trúlega eldri og hennar súgur og gjall- andi annar en ljóðsins. Snorri Hjartarson orti ljóð um örlögin: „Allt er á reki / allt er örlögum háð“, og Erik Fossnes Hansen norski gerði 800 síðna róman um þessa hugsun. Þú spyrð: Er Snorri nóg? Snorri er á ýmsan hátt að gera annað en sögumaðurinn, að fara í smáatriði á því gerum við ekki hér. Hvað varðar miðlun til fólks: Ljóðabækur seljast ekki, en þó hefur aldrei verið jafn- mikið ort. Að vera skáld er svipað og að vera mállaus í dag. Ég segi bara eins og Cesar Vallejo: „Sælir eru þeir sem eru með klukku og hafa séð Guð“.“ Í framhaldi af því kviknar spurningin hvort það sé einhver munur á því að vera ljóðskáld eða rithöfundur. „Út frá samfélagslegu sjónarhorni er munurinn sá sami og munurinn á úti- gangsmanni og vel lukkuðum túrbókapítalista. Svo finnst mér. Bhaktin benti á að skáldsagan sé margradda. Ljóðið er harðari húsbóndi. Það krefst ákveð- ins kjarna, maður þarf að meina eitthvað og yrða það klárt og persónulega í ljóðinu. Við lifum meira margradda í dag. Postmodern-hugtakið er leyst af hólmi af flestum með „fjölhyggju“-hugtakinu, en það er að meina ekki neitt um nokkurn skapaðan hlut, en masa þeim mun meira. Þetta samfélags- ástand hæfir betur skáldsögu en ljóði. Þessvegna hafa rithöfundar það betra en skáld í dag. En ljóðið kemur aftur, daginn eftir partíið. Nú er partí í mann- heimum.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.