Morgunblaðið - 16.01.2004, Síða 47
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. JANÚAR 2004 47
litla húsinu sem þau Ásgeir og Ingi-
björg byggðu sér til ellinnar var svo
einstaklega full af hlýju og gestrisni.
Ég sé hann ljóslifandi í anda horfa að-
eins til hliðar, rifja upp atburði frá
framboðsfundum og kosningabaráttu
sem hann háði af festu og drenglyndi
á farsælum þingferli. Annars voru
mál líðandi stundar stöðugt hugleik-
in. Hann hafði heilsteypta sýn og
útfrá henni lagði hann mat á hlutina
og gaf öðrum ráð.
Ásgeir gæti hafa gert orð Hann-
esar Hafstein að sínum:
Starfið er margt, en eitt er bræðrabandið
boðorðið hvar sem þér í fylking standið
hvernig sem stríðið þá og þá er blandið
það er: Að elska, byggja og treysta á landið.
Seint í október sl. stóð ég upp frá
kaffiborðinu í Ásgarði, endurnærður
af gestrisni og hlýju þeirra Ásgeirs og
Ingibjargar og ætlaði að kveðja inni í
stofu. Þá stóð Ásgeir í Ásgarði á fæt-
ur og mælti af reisn og festu íslenska
bóndans: „ég fylgi þér til dyra“. Nú
fylgjum við honum til dyra og þökk-
um hlýjar minningar um góðan vin og
drengskaparmann sem bæði leiddi og
miðlaði samferðafólkinu ríkulega af
hugsjónum og baráttuþreki.
Blessuð sé minning Ásgeirs
Bjarnasonar í Ásgarði.
Ingibjörg Kolka og Jón
Bjarnason.
Fátt er stjórnmálamönnum mikil-
vægara en að eiga sterka bakvarð-
arsveit heima í héraði. Eiga vini sem
hvetja, efla og byggja upp og veita
skjól í nöprum vindum. Þannig vinur
var Ásgeir Bjarnason mér frá fyrstu
kynnum. Að koma í Ásgarð var eins
og að koma í föðurgarð. Húsbóndinn
beið í hlaðvarpanum með útbreiddan
faðminn. Eftir hóflegt kelerí og þegar
búið var að dást að fegurðinni í
Hvammssveit var gengið til stofu.
Þar var húsmóðirin búin að dekka
veisluborð af sinni alkunnu gestrisni
og myndarskap. Hversu oft fékk ég
ekki að njóta þessara ómetanlegu
gæða og hversu dýrmætar eru þessar
minningar mér. Hlýjan sem streymdi
frá þessum góðu hjónum fékk mann
til að gleyma stund og stað. Það var
gott að halla sér í sófann í stofunni í
Ásgarði, hlusta á atburði löngu lið-
inna tíma í Dölum, sögur frá Alþingi
og baráttu manna fyrr á árum fyrir
hlutum sem okkur þykja svo sjálf-
sagðir í dag.
Ásgeir hafði ungur menntað sig
bæði hérlendis og erlendis til að taka
við stóru búi föður síns í Ásgarði, og
víst var að á búskap hafði hann alltaf
áhuga. En þessi ungi sveitarhöfðingi
var hvattur af samferðamönnum árið
1949 til að taka sæti á Alþingi. Er
skemmst frá því að segja að árin urðu
29 sem hann gegndi þingmannsstörf-
um, fyrst fyrir Dalamenn og síðar
fyrir Vestlendinga. Með komu hans á
þing hófst mikið framfaraskeið í Döl-
um. Þannig lýsir sveitungi Ásgeirs
því í bók sem kom út nú fyrir jólin, að
með komu hans á þing hafi birt yfir
Dölum, hann hafi bókstaflega dregið
Dalamenn út úr steinöldinni, eins og
hann orðar það, enda átti Ásgeir að-
dáun og virðingu samferðamanna
sinna sem hlóðu á hann trúnaðar-
störfum langt umfram þingmennsku.
Þegar ég kynntist Ásgeiri fyrst var
hann orðinn fullorðinn maður og
stjórnmálavafstur að baki, en hann
varð þó aldrei gamall maður þótt árin
yrðu mörg. Brennandi áhugi hans á
líðandi stund gerði hann síkvikan í
hugsun og athöfnum. Ásgeir var höfð-
ingi í þess orðs bestu merkingu,
nægjusamur fyrir sjálfan sig og
hreykti sér ekki af fornri frægð,
þurfti þess aldrei með, því hann var
stór af sjálfum sér. Hann hafði ríka
réttlætiskennd og djúpa samúð með
þeim sem höllum fæti standa. Allt
fram á síðustu stundu leituðu menn
ráða hjá honum um stórt og smátt.
Það var oft viðkvæðið hjá Dalamönn-
um þegar mikið bar til tíðinda „hvað
skyldi Ásgeir nú segja um þetta“. Þau
fáu skipti sem hann fór á mannamót
nú hin síðari ár þyrptust menn að
honum og úr þeirri þyrpingu bárust
jafnan háar hlátursrokur. Síðast þeg-
ar við töluðum saman í síma var
óvenju margt sem bar á góma sem
kitlaði hláturtaugar okkar beggja.
Eitthvað var þó sem sagði mér þegar
við kvöddumst að líklega skemmtum
við okkur ekki meira saman í þessum
heimi.
Áður en nýja árið heilsaði kvaddi
Ásgeir. Hann skilur eftir sig það
veganesti sem hverjum manni er dýr-
mætast, góðan orðstír. Nöfnu minni í
Ásgarði sendi ég mínar innilegustu
samúðarkveðjur, einnig sonum hans
og fjölskyldu allri. Dalamenn kveðja
einn af sínum bestu sonum. Með
þakklæti í huga kveð ég hann og óska
honum fararheilla.
Ingibjörg Pálmadóttir.
Þegar Ásgeir Bjarnason fv. alþing-
isforseti er allur, fer mér sem fleirum
að sakna vinar í stað. Við Ásgeir
kynntumst fyrir nærfellt hálfum
fimmta áratug, þegar ég tók sæti á
Alþingi við hlið hans í þingflokki
framsóknarmanna. Aldursmunur
okkar var nokkur, en lífsreynslumun-
ur sýnu meiri en aldursmun nam, því
að hann hafði m.a. lifað blóðuga inn-
rás Þjóðverja í Noreg þar sem hann
var við nám og störf, sloppið til Sví-
þjóðar með nokkurri áhættu um slíka
ferð. Síðar heppnaðist honum að
komast til Íslands á hátíma heims-
styrjaldarinnar um Bretlandseyjar
og tók þá við búi í Ásgarði að föður
sínum nýlátnum. Ásgeir hafði lifað og
reynt ástvinamissi á besta aldri. Þar
skildi líka reynsluheima okkar, því að
ég hafði aldrei þolað neinn söknuð eft-
ir nákomið fólk. Þar að auki vorum
við komnir úr sinni áttinni hvor. Þrátt
fyrir allan mun lífsreynslu og upp-
runa fór svo að við urðum brátt góðir
kunningjar og fyrr en varði trúnaðar-
vinir, ef svo djarft má til orða taka.
Við treystum hvor öðrum.
Ég geri enga tilraun til þess að
skýra frá þróun kunningsskapar okk-
ar á Alþingi (1960–1978) sem reyndin
varð og allt til hinsta dags. Ég get
varla ímyndað mér að ég hafi getað
lagt honum sitthvað nytsamlegt til, en
hitt er víst að Ásgeir byggði mig upp
af víðtækri reynslu sinni af þjóðmál-
um og þingstörfum, fræðslu um menn
og málefni í hagnýtum skilningi, svo
mér mátti að gagni verða.
Það reyndi ég af áratuga kynnum
af Ásgeiri í Ásgarði að hann var ekki
,,allra vinur“ og þurfti því ekki að
leggja það á sig að vera hvers manns
viðhlæjandi með skjalli og smjaðri.
En háttvísi hans var óbrigðul. Hann
komst vel af við alla. Hann naut
trausts og virðingar fram yfir flesta
þá sem velkjast í pólitík. Vitaskuld
veit ég ekkert. Þó grunar mig, að með
Ásgeiri Bjarnasyni sé fallinn síðasti
bændahöfðingi á Íslandi.
Með þessum fáu orðum kveð ég
ágætan vin minn, aldraðan mann,
sem ég hlýt þó að sakna að eiga ekki
lengur orðastað við, enda vitsmunir
hans óskertir til dauðadags. – Eftirlif-
andi eiginkonu hans og sonum og
öðru venslafólki flyt ég einlæga sam-
úðarkveðju, Vinarkveðja, að hætti
Hórazar:
Vinur minn valinn
vopnum beitir ekki.
Fólskuna firrist,
forðast tál og hrekki.
Kastar ei, svo verði
eitrið manni að meini, fláræðis fleini.
Ingvar Gíslason.
Aldinn héraðshöfðingi er til foldar
hniginn eftir dáðríkan dag, þar sem
drengskapurinn réð ævinlega ríkjum.
Kær voru kynni mín af Ásgeiri
Bjarnasyni Dalagoða um áraskeið og
fyrir þau ber að þakka. Við áttum
samleið á þingi um átta ára skeið og
af varð góð vinátta við ráðhollan og
einlægan atgervismann sem hvergi
fór með gný og látum en rækti starf
sitt afar vel, heillyndur, glettinn vel
og kunni þá ljúfu list að laða menn til
sátta. Sem forseti Efri deildar og síð-
ar Sameinaðs Alþingis var hann virt-
ur vel, réttsýnn, fastur fyrir en sann-
gjarn. Ásgeir var ekki einn þeirra
sem oftast kvöddu sér hljóðs á Al-
þingi, en hann setti mál sitt fram með
ljósum hætti og rökstuddi mál sitt
mjög vel, skýr var framsetningin og
ævinlega alveg víst að hugur fylgdi
máli. Í nefndastörfum sínum kynnti
hann sér mál vandlega, hlýddi af
gaumgæfni á mál manna og mælti svo
fram tillögu að nefndaráliti sem allir
gátu sætt sig vel við. Nákvæmni og
vandvirkni einkenndi öll hans vinnu-
brögð. Það kom eðlilega af sjálfu sér
að Ásgeiri væri falinn margs konar
trúnaður, einkum fyrir bændastétt-
ina, enda var hann stoltur af starfs-
sviði sínu og hafði mikinn metnað fyr-
ir stéttarinnar hönd, trúði á mátt
gróðurmoldarinnar og verðugt hlut-
verk þeirra sem hana erja fyrir ís-
lenzkt samfélag. Sjálfum er mér þessi
góði drengur minnisstæðastur fyrir
sína hóglátu hlýju og gefandi ein-
lægni, sem gamansemin góð kryddaði
svo eftirminnilega. Og ein mynd
framar annarri kemur í muna fram. Í
Handarhaldinu svokallaða heima á
Reyðarfirði óttaðist ég, að dagar hans
og föruneytis væru taldir, er ég kom
þar að sem bifreið þeirra hafði farið
út af og steypzt niður í stórgrýtta
fjöruna, en blessunarlega sá ég alla
koma út, allhart leikna að vísu og
lemstraða en yfirvegaða vel miðað við
aðstæður. Þá hugsaði Ásgeir fyrst og
síðast um hversu kona hans og annað
samferðafólk hefði það, þó sennilega
hefði hann orðið hvað harðast úti. Og
heima í stofu hjá okkur Hönnu gjörði
hann að gamni sínu og gat enginn
fengið séð að hann hefði skömmu áð-
ur verið við dauðans dyr. Þakklæt-
isgjöfin þeirra hjóna til okkar gleym-
ist aldrei og sá hugur sem greinilegur
var að baki orðanna.
Mikil er mín þökk við leiðarlok að
hafa fengið að kynnast svo vel slíkum
afbragðsdreng sem Ásgeiri Bjarna-
syni. Við Hanna sendum Ingibjörgu
og öðru hans fólki einlægar samúðar-
kveðjur. Það merlar skært á minn-
ingu Ásgeirs Bjarnasonar. Blessuð sé
minning hans.
Helgi Seljan.
Það er merkilegt hvað einstakar
myndir frá æskuárum geta geymst
ljósar í huganum þó að árin líði og yfir
flest annað fenni.
Vorið 1936 komu Hólasveinar í
verknámi að Reykjum í Hrútafirði og
unnu að framræslu. Sex ára snáða,
sem vildi fylgjast með öllu, þótti mikið
til þessarar rösklegu sveitar ungra
manna koma. En í huga hans festist
mynd og nöfn tveggja og aðeins
tveggja úr hópnum. Báðir voru þeir
dökkir yfirlitum, hávaxnir og hefðu
fallið að lýsingu hvort sem var úr
Laxdælu eða Njálu. Nöfn þeirra
geymdust og ég vissi hvaðan þeir
komu. Jón Egilsson frá Selalæk var
kominn af slóðum Njálu, en Ásgeir
Bjarnason frá Ásgarði í Dölum bar
með sér svipmótið sem féll að Lax-
dælu. Ekki hef ég þekkt þessar sögur
þá en sagnamyndin kom síðar þegar
ég hafði kynnst báðum þessum Hóla-
sveinum sem gildum bændum, hvor-
um í sínu héraði, og báðum sem virt-
um fulltrúum héraða sinna á
Búnaðarþingi.
Næst er mér Ásgeir minnisstæður
frá framboðsfundi fyrir Alþingiskosn-
ingar 1959 að Brún í Bæjarsveit, sam-
eiginlegum fyrir flokkana og þótti
mér, þá nýlega komnum í héraðið,
forvitnilegt að sjá og heyra forystu-
sveit Vestlendinga. Vel leist mér á
framkomu og málflutning Ásgeirs.
Þótti hann gjörvilegur, prúður í fram-
göngu, glöggur og skýr í máli og rök-
fastur. Þó að aðrir væru orðfleiri og
e.t.v. málliprari þótti mér sem í Ás-
geiri ættu bændur verðugan fulltrúa
og líklegan til að halda hvarvetna vel
á málum þeirra. Hann hafði þá þegar
verið kosinn til fjölda trúnaðarstarfa
og auk þeirra starfa, sem honum
höfðu verið falin í sveit sinni og hér-
aði, hafði hann mætt á Stéttarsam-
bandsfundum, setið á Búnaðarþingi
og átt sæti á Alþingi fyrir Dalamenn í
fullan áratug.
Ég átti síðan því láni að fagna að
vinna með Ásgeiri á mörgum sviðum,
nánar og lengur en flestum öðrum.
Aldrei bar skugga á þau samskipti,
því réð prúðmennska Ásgeirs öðru
fremur. Ásgeir Bjarnason lét sér
Búnaðarfélag Íslands alla tíð mjög
miklu varða; hann var búnaðarþings-
fulltrúi í meira en aldarþriðjung og
stjórnarmaður í tvo áratugi, lengst af
sem formaður. Hann fylgdist vel með
störfum félagsins í heild og með ár-
angri einstakra starfsmanna hvers á
sínu sviði, kom gjarnan við á skrif-
stofum starfsfólksins þegar tóm gafst
til fyrir eða eftir fundi og blandaði
geði við fólkið á sinn vinsamlega og
gamansama hátt. Hann lét sig orð-
spor félagsins og starfseminnar miklu
varða og þá fannst vel að þykknaði í
Ásgeiri þegar honum fannst ómak-
lega að því eða bændastéttinni vegið.
Þennan góða hug Ásgeirs til Bún-
aðarfélags Íslands, og síðar Bænda-
samtaka Íslands, fundum við vel hve-
nær sem fundum bar saman eftir að
beinum afskiptum hans hér var lokið.
Þá spurði hann jafnt frétta af mönn-
um og málefnum hjá Búnaðarfélag-
inu.
Ásgeir var maður hógvær í mál-
flutningi og var sjaldan fyrstur til að
taka til máls á fundum. En þegar að
því kom fundu menn fljótt að afstaða
hans markaðist af skynsemi og
skarpskyggni og tillögur hans voru
þá mikils metnar.
Ásgeir var frábær fundarstjóri, en
það varð um svipað leyti að hann var
kjörinn forseti Efri deildar Alþingis
og hann varð formaður Búnaðar-
félags Íslands og þar með forseti
Búnaðarþings. Ekki þarf að því að
spyrja hvort þingsköp væru ekki vel
virt á báðum stöðum, en á Búnaðar-
þingi fundu menn fyrir lipurð, að-
gætni og réttsýni Ásgeirs, og enn
gátu búnaðarþingsmenn metnast af
því þegar Ásgeir var orðinn forseti
sameinaðs Alþingis og „þriðjungur af
þjóðhöfðingja“ þegar svo bar undir.
En Ásgeir var alltaf sami látlausi og
ljúfi bóndinn í Ásgarði.
Fyrir fáum árum fór starfsfólk
Bændasamtaka Íslands í kynnisför
um Snæfellsnes og Dali. Að sjálf-
sögðu var ekki ekið hjá garði í Ás-
garði. Þar tóku eldri og yngri Ás-
garðshjón á móti öllum hópnum og
það af ferðafólkinu, sem hafði ekki áð-
ur kynnst eða heyrt af landsfrægri
rausn og gestrisni Ásgarðsheimilis-
ins, fékk nú að reyna hana. Sú heim-
sókn varð okkur öllum eftirminnileg.
Við hjónin munum lengi minnast
góðra stunda, ótalmargra, með þeim
Ingibjörgu og Ásgeiri, hvort sem var
hér í Reykjavík á lausum stundum,
oft á milli strangra funda, eða í Ás-
garði í gamla húsinu reisulega eða því
nýja og hlýlega, þar sem þau áttu sér
skjól síðari áratugina. Fyrir þessar
stundir þökkum við af heilum hug.
Við sendum Ingibjörgu og Ásgarðs-
fólkinu öllu okkar innilegustu kveðjur
með þakklæti fyrir góð kynni. Mikill
er sjónarsviptirinn þegar slíkur höld-
ur fellur í valinn sem Ásgeir í Ásgarði
var.
Jónas Jónsson.
Ég kynntist Ásgeiri í Ásgarði um
Jónsmessuna fyrir 25 árum, sama
sumar og hann lét af þingmennsku.
Hann var þá enn á góðum aldri.
Þannig vildi til, að ég var kallaður í
bráðavitjun inn að Ásgarði. Þegar
þangað kom duldist engum að við-
komandi var látinn og staðfesti ég
andlátið. Bóndinn, sem ég þekkti auð-
vitað af myndum úr fjölmiðlum, stóð
við hlið mér og spurði fyrir kurteis-
issakir, hvað væri næst á dagskrá hjá
lækninum. Að hafa samband við
hreppstjórann lögum samkvæmt,
sagði ég. Hann stendur við hlið þér,
sagði þá þessi fyrrum alþingismaður,
forseti Alþingis, forustumaður
bænda, oddviti sveitar sinnar og trún-
aðarvinur og hjálparhella margra
sveitunga sinna.
Það var engin tilviljun, að Ásgeir í
Ásgarði var í fremstu röð, hvar sem
hann fór. Þar fór saman gjörvileiki,
glæsimennska, góðar gáfur og for-
ustuhæfileikar svo og gæfa, sem þeir
einir öðlast, sem gera annarra þarfir
að sínum og berjast fyrir þeim. Ás-
geir átti ekki langt að sækja þessa
eiginleika og má segja, að hann hafi
sopið þá með móðurmjólkinni. Hann
ólst upp á stóru heimili í Ásgarði. Þar
var mikill gestagangur og orðlögð
stórmannleg gestrisni. Faðir Ásgeirs,
Bjarni Jensson, var höfðingi og nutu
þess bæði háir sem lágir. Sérstaklega
var þeim sinnt, sem þurfandi voru,
sjúklingum og seinfærum. Það er al-
kunna, að þegar Ásgeir tók við búi
föður síns ásamt Jens, bróður sínum,
voru þar sex vandalausir og var ekki
um það að ræða að nein breyting yrði
á við húsbóndaskiptin. Þannig voru
félagsmálastofnanir þeirra tíma.
Ásgeir naut virðingar Dalamanna.
Þeir voru honum auðvitað ekki allir
sammála í pólitík, en hann átti sér fáa
óvildarmenn og ef einhverjir voru, þá
fóru þeir vel með það. Ásgeir var hóf-
samur í allri framkomu og óáleitinn
með skoðanir sínar. Við ræddum oft
menn og málefni líðandi stundar og
vorum saman um margt, þó við vær-
um ekki samferða í flokki, ég til hægri
við Ásgeir. Eins og allir vita gat póli-
tíkin oft verið hörð hér fyrr á árum og
stappaði nærri trúarbrögðum. Fram-
sóknarstefnan átti djúpar rætur í
hjörtum margra Dalamanna og hafa
alþýðleg framkoma Ásgeirs og vin-
sældir hans eflaust átt sinn þátt í að
tryggja fylgi flokksins á þessum slóð-
um. Eitt sinn vitjaði ég Lárusar heit-
ins Alexanderssonar í Fagradal að
hausti. Hann var þá kominn á tíræð-
isaldur. Hann var dyggur framsókn-
armaður. Þegar við ræddum heilsu
hans, sagði hann mér, að hann ætlaði
sér að tóra a.m.k. til vors til að geta
kosið gegn helv…. íhaldinu. Steinólf-
ur sonur hans fer hlýlegum orðum
um Ásgeir í nýútkomnum einræðum
sínum. Þar þakkar hann þátt Ásgeirs
í margvíslegum framfaramálum í
Dölum á síðari hluta 20. aldarinnar.
Það var sérstakt happ fyrir mig og
konu mína, þegar Ásgeir og Ingibjörg
buðu okkur í fyrsta sinn til veislu á
gamlársdag á níunda áratugnum. Þá
hafði verið til siðs um nokkurra ára
skeið, að starfsfólk sýsluskrifstofunn-
ar í Búðardal með Pétur Þorsteinsson
sýslumann í broddi fylkingar færi í í
Ásgarð. Flæktumst við Elín Ásta með
í þetta skipti af ástæðum, sem mér
eru gleymdar. Var það upphafið að
árvissum viðburði fyrir okkur og til-
hlökkunarefni. Ásgeir var hafsjór af
sögum af samferðamönnum heima og
heiman og fór létt með vísur. Hann
var veitull, fór eins og ávallt fremstur
í gleðinni og var hrókur alls fagnaðar.
Ekki sparaði sýslumaðurinn sig held-
ur og verða þessir vinafundir ógleym-
anlegir okkur öllum, sem þar voru.
Það var lengi símstöð í Ásgarði.
Pétur sýslumaður sagði frá því, að
hann hafi hitt Ásgeir fyrst við afar
sérstæðar aðstæður. Hörmulegt flug-
slys hafði orðið á Svínadal og mann-
skaði. Þegar lögreglu og sjúkralið bar
að var maður uppi í staur að gera við
símalínurnar, sem farið höfðu í sund-
ur í slysinu. Þetta var Ásgeir í Ás-
garði, forseti sameinaðs Alþingis, í
fullkomnu æðruleysi að vinna verk,
sem ekki varð undan vikist. Honum
verður ekki betur lýst þessum ágæta
sómamanni, sem nú er fallinn frá.
Við Elín Ásta sendum hlýjar sam-
úðarkveðjur heim að Ásgarði og
stöndum í þakkarskuld við hjónin
Ingibjörgu Sigurðardóttur og Ásgeir
Bjarnason.
Sigurbjörn Sveinsson.
Við göngum út frá því að allt líf á
sér upphaf og endi. En þó er það svo
að fæstir eru kallinu viðbúnir. Mér
var því brugðið er ég fregnaði um
andlát vinar míns Ásgeirs Bjarnason-
ar í Ásgarði enda aðdragandinn
skammur og lítill tími til að kveðja.
Kynni mín við Ásgeir Bjarnason
urðu ekki löng en eru mér afar dýr-
mæt. Fljótlega eftir að ég kom í Dal-
ina varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi
að kynnast þeim hjónum sem frá
fyrsta degi, tóku mér eins og eigin
dóttur og voru höfðingjar heim að
sækja. Heimili þeirra stóð mér ávallt
opið í blíðu og stríðu og voru þau
hjónin alveg samstillt í því. Slíkt er
ekki gefið og verð ég þeim ævinlega
þakklát fyrir allt og allt.
Ásgeir var mjög hlýr og traustur
vinur sem oftar en ekki miðlaði til mín
úr reynslubrunni sínum. Sem fyrr-
verandi þingmaður Dalamanna og
síðar Vestlendinga, bjó hann yfir mik-
illi reynslu og þekkingu og bar einatt
hag Dalamanna fyrir brjósti. Hann
var ákveðinn og stórbrotinn persónu-
leiki og fylgdi sínum skoðunum fast
eftir en gerði öllum jafnt undir höfði.
Þegar þingstörfum lauk og aldurinn
færðist yfir virtist mér hann draga
sig í hlé frá amstri stjórnmálamanns-
ins en fylgdist grannt með þjóðmál-
um og málefnum heimamanna úr
fjarlægð og þreyttist aldrei á því að
gefa góð ráð Dalamönnum til heilla.
Ásgeir var trúlega ekki allra en
þeim sem hann tengdist vinarbönd-
um, sýndi hann ómetanlega tryggð og
hollustu. Slík vinátta er fátíð og verð-
mæt þeim sem njóta. Í mínum huga
var Ásgeir sem bjarg sem bifaðist
ekki og hafa Dalamenn misst hljóm-
mikla rödd í víðum skilningi. Dala-
SJÁ SÍÐU 48