Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2001, Page 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. JANÚAR 2001
J
ónas Jónsson frá Hriflu er að margra
áliti áhrifamesti maður 20. aldar.
Móðir hans hét Rannveig Jónsdóttir.
Rannveig hafði eignast tvö börn í
fyrra hjónabandi og eignaðist fimm
með seinni manni sínum, Jóni Krist-
jánssyni. Jónas var yngstur þeirra.
Þegar Rannveig gekk með hann
missti hún tvö barna sinna með fjögurra daga
millibili. Það var í október og voru börnin tvö
grafin sama dag: Jónas fimm ára og Sigrún eins
árs. Jónas yngri fæddist 1. maí 1885. Friðrika,
systir hans, sem var átta árum eldri, heyrði
móður sína segja: „Ég veit ekki hvers vegna guð
hefur gefið mér þetta barn, þegar hann hefur
tekið tvö frá mér.“
Þegar Jónas var sautján ára gamall var um
sumartíma hálffertugur kaupamaður í Hriflu,
Brynjólfur Magnússon að nafni. Hann hafði
tekið kennarapróf frá Flensborgarskólanum
1898 og fékkst um þær mundir á vetrum við
kennslu í Leiru á Reykjanesi (Rosmhvalanes-
hreppi, Gullbringusýslu). Sagt er að Brynjólfur
hafi fengið dálæti mikið á Jónasi, þótt hann skýr
og skemmtilegur. Hann bauð Jónasi að dveljast
hjá sér vetrarlangt við ýmis léttastörf, og hét að
veita honum nokkra tilsögn í námi. (Jónas
Kristjánsson o.fl.: Jónas Jónsson frá Hriflu.
Ævi hans og störf. Reykjavík, 1965.) Þannig at-
vikaðist það að Jónas fór í sína fyrstu för út í
heiminn haustið 1902.
Ekkert hefur verið skrifað um dvöl Jónasar í
Ráðagerði, en svo hét bær Brynjólfs í Leiru,
enda lifði Jónas þar kyrrlátu lífi. Jónas Krist-
jánsson, bróðursonur hans, segir einungis í
æviágripi frá 1965 „...og dvaldist hjá Brynjólfi
um veturinn í góðu yfirlæti“. Guðjón Friðriks-
son er enn fáorðari: „Að aflokinni dvöl í Leiru
um veturinn fór hann gangandi til Reykjavíkur
til að skoða höfuðstaðinn.“ (Guðjón Friðriksson:
Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni.
Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu I, Reykja-
vík, 1991.)
Fyrir þremur árum gluggaði ég í bréf sem
Jónas Jónsson skrifaði systkinum sínum, Krist-
jáni og Friðriku, og nú eru í eigu Jónasar Krist-
jánssonar, fyrrv. forstöðumanns Árnastofnun-
ar. Vöktu þá sérstaka athygli mína bréfin sem
hann ritaði þeim úr hinni miklu Evrópudvöl
sinni, sem stóð í þrjú ár (1906–1909). Í sumar
tók ég aftur til við bréfin og þótti nú rétt að fara
enn aftar í tímann, til elstu bréfanna, sem skrif-
uð voru veturinn 1902–1903. Átta bréf hafa
varðveist og slitrur úr því níunda. Fimm þeirra
eru til Kristjáns. Bréfin til Friðriku er annars
eðlis, að hluta til bókmenntaleg, og sönnun þess
að efni og blær er lagað að viðtakanda. Jónas
skrifaði miklu fleiri bréf þennan vetur. Öll bréf
sem hann skrifaði móður sinni fóru með henni í
gröfina 1923, að ósk hennar. Þannig segir Jónas
í einu bréfi til bróður síns: „En jeg vona að þið
hafið fengið brjefin mín með jólaferðinni, og svo
hef jeg sent með seinasta pósti 6 brjef í einum
böggli og skrifað utan á til þín hvernig sem það
fer.“
Bréfin lýsa næmleika Jónasar, áhugasvið
hans er víðfeðmt og kemur sumt á óvart. Í bréf-
um til bróður lýsir hann lífinu í Ráðagerði og
beint og óbeint kemur fram samanburður á lifn-
aðarháttum og húsakynnum heima og heiman.
Lýsingar hans á mataræði og matartilbúningi
flokkast undir þjóðháttafræði. Hann gerir einn-
ig veðurathuganir og vill að bróðir hans geri
slíkt hið sama. Hann talar lítið um nám sitt, sem
hann telur aðeins undirbúningsnám, en fram
kemur sterk löngun til að komast til Akureyrar
í skóla ef aðstæður heima leyfa. Sú ósk rættist
og settist hann í Akureyrarskóla haustið 1903.
Sjóferðin undirbúin
Fyrsta bréfið skrifar Jónas Kristjáni bróður
sínum líklega 19. september 1902 í Meðalheimi
á Svalbarðsströnd þar sem hann bíður eftir
strandferðaskipinu Hólum. Bréfið er skrifað í
þremur lotum, á tveimur dögum. Kristján hefur
beðið hann að athuga fyrir sig um bókband.
Faðirinn hafði fylgt honum í Meðalheim, en þar
bjuggu hjón á sjötugsaldri, Bjarni Gíslason og
Guðrún Davíðsdóttir, einnig Rósa Sigurðar-
dóttir húskona og sonur hennar Valdimar Val-
vesson (Valdi) 19 ára. Eru þau nafngreind í
bréfinu en alls bjuggu tíu manns í Meðalheimi
skv. kirkjubók.
Svalbarðsströnd heitir ströndin austan Eyja-
fjarðar og er í Suður-Þingeyjarsýslu. Sval-
barðseyri heitir þorpið og hafði verið verslunar-
staður frá 1894. Dálitla svipmynd fær lesandinn
af staðnum, því að Jónas kemur í búð félaga
(kaupfélagið), veltir tunnum fyrir Jakob
Björnsson kaupmann og kaupir spjöld til að
merkja kofortin sín hjá Theódóri Jensen kaup-
manni.
Bréfið hefst á þessum orðum: „Kæri bróðir!
Nú er sunnudagurinn kominn og „Hólar“ ekki
komnir ennþá vestan af fjörðunum og ekki búist
við þeir fari af Svalbarðseyri fyrr en á þriðjudag
því bæði fjelagar og Jakob ætla að senda vörur
þá, svo farmskipunin stendur líklega yfir heilan
dag.“ Af þessu má ráða að Jónas hafi tekið sér
far frá Svalbarðseyri en hvorki frá Húsavík,
eins og stendur í fyrrnefndu æviágripi frá 1965,
né frá Akureyri, eins og stendur í ævisögunni
frá 1991. Jónas greinir frá því helsta sem á daga
hans hefur drifið frá föstudegi. Hann hefur farið
niður á Svalbarðseyri með Valda og fengið lím-
onaði í búð félaga: „Siggi Sigfússon var í búð fje-
laga, og var hinn liprasti í allri framkomu og að
lokum þegar enginn var í búðinni nema við tók
hann límonaðiflösku – í sinn reikning – og hellti í
vatnsglös handa þremur; síðan blönduðum við
það með vatni og átum kex með / kanske á
kostnað verzlunarinnar!“
Fyrsta sjóferðin er framundan, en hún átti
eftir að standa í hálfan mánuð, þótt ekki komi
það fram í bréfunum. Það þurfti því að ýmsu að
huga: „Þeir segja mjer bæði Valdi og Bjarni að
af því strandbátarnir eru svo rúmlitlir megi far-
þegar ekki hafa hirzlur hjá sér á öðru plássi
vegna þrengsla; matinn verði þeir að hafa í poka
sem láta má í rúmið eða undir það en menn
mega, ef þeir vilja, geyma kassa sína á þriðja
plássi... og það ætla jeg að reyna til að geta
gengið um þau; en með því að afhenda yfir-
mönnum farangur sinn fær maður aldrei að sjá
hann alla leiðina fyrr en þar sem maður fer í
land...“ Jónas fer niður á Svalbarðseyri og kaup-
ir hvítt léreft í búð félaga til að hafa fyrir nest-
ispoka. „Svo ætla jeg að smásækja matinn í kof-
ortið,“ skrifar hann. Bjarni sagði honum að
þannig hefði Guðmundur á Sandi haft það. En
það þarf að fleiru að hyggja: „Í morgun saumaði
Guðrún vasa á milliskyrtuna að framan fyrir
peningabudduna og vona jeg að það gefist vel.
En Rósa ætlar að sauma hinn pokann.“
Daginn eftir fór Jónas niður á Eyri til að
merkja kofort sín; miðana hafði hann fengið hjá
Jensen kaupmanni, stífan pappír sem hann
negldi á lokin. Þá gerðist það að Jakob kaup-
maður kallaði til hans og spurði hvort hann vildi
vinna sér inn nokkra aura. Hann var til í það og
vann á annan tíma við að velta tunnum fram á
bryggju og þáði að launum 50 aura. Þá er blaðið
fullskrifað og kvatt: „Vertu blessaður og sæll.
Þinn bróðir Jónas Jónsson. Jeg bið að heilsa
ykkur öllum innilega og hjónin líka. Sami.“ At-
hygli vekur að Jónas skrifar ávallt undir bréfin
fullu nafni.
Jónas fáorður um sjóferðina
Jónas Jónsson er fáorður um sjóferðina suð-
ur í bréfum til systkina sinna. Hann skrifar
Kristjáni bréf 17. október í Ráðagerði og efst í
huga hans er að fjölskyldan fái engar fréttir af
honum fyrr en undir jól. Þetta leiðir hugann að
erfiðum og strjálum póstsamgöngum um alda-
mótin. Bréfið hefst á þessa lund: „Kæri bróðir! –
Jeg er farinn að skammast mín fyrir að jeg
skyldi ekki skrifa ykkur af Seyðisfirði, því brjef-
ið sem jeg skrifaði mömmu liggur ennþá í Kefla-
vík af því póstur var nýlega farinn þegar það
kom þangað svo þið fáið þessi brjef ekki fyrr en
undir jól og verður þá að vonum farið að lengja
eftir skeyti.“ Jónas fær bréf frá Kristjáni 20.
desember, ritað 29. nóvember, og afsakar þá
enn í jólabréfi að hafa ekki skrifað á leiðinni suð-
ur: „... en því meir skammast jeg mín fyrir letina
á Hólum um daginn að jeg skrifaði ykkur ekki
og jafnvel þótt að á hverri höfn væri farið með
póstinn í land svo ekki er það til afsökunar,
fremur hitt að jeg var aldrei vel frískur og hafði
engin skrifáhöld nema niður í lest en mest var
það þó hugsunarleysi.“ Þetta er það eina sem
lesandinn fær að vita um sjóferðina úr þessum
bréfum. Hvað hann skrifaði móður sinni í fyrsta
bréfinu geymir jörðin. Í æviágripi frá 1965 er
ekkert minnst á sjóferðina. Þegar Jónas var
gamall maður skrifaði hann þátt sem hann nefn-
ir „Fyrsta sjóferðin“ og setur þá ferðina í póli-
tískt samhengi. Frásögnin birtist í bók tveimur
árum eftir andlát hans (Jónas Jónsson: Sam-
ferðamenn. Minningaþættir. Jónas Kristjáns-
son bjó til prentunar, Akureyri, 1970). Guðjón
Friðriksson vinnur upp úr henni í bók sinni
1991: „Ferðin tók hálfan mánuð og varð mikil
lífsreynsla fyrir þennan efnilega en lítt verald-
arvana sveitapilt. Hann ferðaðist á öðru far-
rými, en á Austfjörðum fylltist lestin af sjó-
mönnum og kaupafólki sem var á leið suður.
Óloftið, þrengslin og sóðaskapurinn voru ægi-
leg. Ekki bætti úr skák drykkjulæti ölvaðra
manna og óveður sem skipið lenti í undan Suð-
urlandi. Jónas var bæði sjóveikur og hræddur á
leiðinni, og þar að auki var áhöfn skipsins dönsk
og tókst yfirmönnum þess ekki að dylja lítils-
virðingu sína á Íslendingum. Sjóferðin og nið-
urlæging landa hans brenndi sig í huga Jónasar
og átti þátt í að móta lífsskoðun hans.“
Viti tengist öryggi á hafi og vekur athygli
Jónasar. Í bréfinu frá 17. október segir hann frá
ferð út á Garðskagavita. Vitinn var reistur 1897.
Lýsing Jónasar er myndræn: „Skamt fyrir utan
Útskálar er viti yzt á nesinu. Jeg fór þangað og
annar drengur líka. Vitinn er á að giska 16 alna,
byggður úr gráum múrsteini en ljósið efst uppi
undir afarstórum glerhjálmi, ljósið er ekki
stærra en á vanalegum lampa en spegill sem
kastar ljósinu snýst í kringum það og byrgir það
stundum, gjörir það afar skæran blossa á milli.“
Heimilisbragur og húsaskipan
Á tíma árabátaútgerðar bjuggu á annað
hundrað manns í Leiru, sem liggur milli Garða
og Keflavíkur. Nú er þar golfvöllur. Í fyrsta
bréfinu greinir Jónas nákvæmlega frá heimilis-
háttum í Ráðagerði. Hann notar orðið jarðepli
fyrir kartöflur, en það nýyrði náði ekki fótfestu í
málinu þótt gott sé. Jónas skrifar: „Brynjólfur
hefir engan kvenmann; hjer eru að vísu gömul
hjón í húsinu, og sýður hún fisk og jarðepli fyrir
hann; en mest gjörir hann það sjálfur á olíu-
maskínu og býr til svo góðan mat að fáar konur
munu vera honum öllu fremri sem búa til
óbreyttan mat, enda hefir hann dálitla æfingu
(var matreiðslumaður á botnverping í tíu vikur)
og er það annálað af mörgum hjer í kring hvað
VERÖLDIN SEM
KÁLFSKINN EITT
Ráðagerði í Leiru þar sem Jónas dvaldi í fyrsta sinn fjarri fjölskyldu sinni. Brynjólfur Magnússon kennari þar hafði verið nyrðra, kynnst Jónasi ung-
um og bauð honum að dvelja hjá sér vetrarlangt við léttastörf og veita honum tilsögn við nám. Teikning: Björn Ófeigsson.
Jónas Jónsson frá Hriflu rúmlega tvítugur.
Þetta er elsta ljósmynd sem til er af honum.
Ljósmyndari: P.H. Bech. - Vejen.
FYRSTA FÖR JÓNASAR JÓNSSONAR ÚT Í HEIMINN
Hér er rýnt í bréf sem Jónas Jónsson frá Hriflu sendi
systkinum sínum frá Ráðagerði í Leiru á Reykjanesi en
þar dvaldi hann veturinn 1902 til 1903. Í þessari fyrri
grein eru skoðuð bréf til bróður.
E F T I R G E R Ð I S T E I N Þ Ó R S D Ó T T U R