Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2001, Side 12
12 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. JANÚAR 2001
1
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.
2
Sem Guðs son forðum gekk um kring,
hún gengur ársins fagra hring
og leggur smyrsl á lífsins sár
og læknar mein og þerrar tár.
3
Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrar þraut,
í sannleik hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.
4
Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt,
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
í hendi Guðs er jörð og sól.
5
Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt,
hann heyrir sínum himni frá
hvert hjartaslag þitt jörðu á.
6
Í hendi Guðs er hver ein tíð,
í hendi Guðs er allt vort stríð,
hið minnsta happ, hið mesta fár,
hið mikla djúp, hið litla tár.
7
Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin ystu höf.
8
Vor sól og dagur, herra hár,
sé heilög ásján þín í ár.
Ó, Drottinn, heyr vort hjartans mál
í hendi þér er líf og sál.
Oft fer svo um kvæði sem við heyrum fyrst og fremst sungin, að þau eins og glataupprunalegu gildi sínu að talsverðu leyti. Áhersla færist yfir á tónlist, lag ogsöng, og við hættum jafnvel að gefa gaum að merkingu og boðskap textans.Við leggjum eyrun að söngnum og ljóðtextinn hverfur í einhvers konar auka-
hlutverk. Þetta á allt eins við um sálma, þótt orðið sé meginþáttur boðskapar fagnaðar-
erindisins, enda verður að gangast við því að æði margt í íslensku sálmabókinni er hálf-
gert hnoð. Það gildir þó ekki um þennan nýárssálm Matthíasar Jochumssonar
(1835–1920). Ólafur Briem segir í umfjöllun um skáldskap Matthíasar í útgáfu sinni á
Ljóðum hans í úrvali (Rannsóknastofnun í bókmenntafræði og Menningarsjóður, Reykja-
vík 1980, bls. 60) að sér finnist nýárssálmurinn Hvað boðar nýárs blessuð sól „heilsteypt-
astur af sálmum Matthíasar“. Orðið sálmur er upprunalega dregið af grísku sögninni psál-
lein sem merkir að gripla (eða „plokka“) strengi og haft um hörpuleik. Af því var svo
myndað no. psalmós, „hörpusöngur“ – eða söngur við strengleik – og haft um hebreska
orðið mizmor (söngur af því tagi er Davið söng til hörpu – John Ayto: Dictionary of Word
Origins, New York 1990). Orðið fær svo merkinguna trúarljóð – en sálmasöngur í nútíma-
merkingu verður til eftir siðaskipti. Sálmar eru því sérstök kveðskapargrein sem mótast
efnislega af guðfræðikenningum og trúarviðhorfum hvers tíma og sækir myndmál og við-
miðun í ýmiss konar táknmál kristinnar kirkju. Og þá verður einnig að hafa í huga að
margt af því er dregið af heimsmynd sem orðin er úrelt, þar sem aukin þekking hefur veitt
okkar nýjan skilning á veröld okkar og alheimi. Þetta ber að hafa til hliðsjónar þegar rýnt
er í sálm séra Matthíasar ásamt einlægu trúartrausti hans, raunar trúarsannfæringu.
Form sálmsins er átta ferhend erindi undir rímnahætti sem stafhenda nefnist (fjórir
bragliðir í vísuorði, sá síðasti stýfður og ríma tvö fyrri vísuorðin saman og tvö hin síðari),
nema hvað hér er að auki forliður í öllum vísuorðum allra erinda. Formið er því í senn
mjög reglubundið og einfalt – og fer það vel við allt að því barnslega trúareinlægni skálds-
ins. Ljóðmálið er að sama skapi einfalt, orðin auðskilin og setningaskipan og oðraröð blátt
áfram. Fleyg hafa þó orðið tvö síðari vísuorðin í 3. erindi og allt 6. erindið. Fátt er um lík-
ingar og umritanir. Helst má nefna líkinguna allt þitt ráð sem hverfult hjól (4. er.), náttúr-
unnar jól (1. er.) og stormsins hörpuslátt (5. er.). Skáldleg tilþrif felast einkum í táknum og
andstæðum.
Aðaltákn sálmsins er sólin, enda er það hin hækkandi sól í ársbyrjun sem vekur upp-
hafsspurningu sálmsins, – spurningu sem er í raun engin spurning þar sem skáldið veit
svarið og birtir það umsvifalaust. Annað meginþema þessa kvæðis er því samsömun sólar
og guðsmyndar. Endurfæðing birtunnar á noðurhveli er sem fæðing frelsarans. Nú veit
enginn hvenær Jesús fæddist, en ákveðið var að fagna fæðingu Jesú 25. desember á að-
alhátíð rómverska sólguðsins Sol Invictus og hvíldardagurinn var færður frá laugardegi
til sunnudags, dags sólarinnar. Sólin sem ímynd Guðs er algeng hugmynd á miðöldum, og
sést það vel í íslenskum kveðskap í hinum frægu sólarerindum Sólarljóða. Og sólin gengur
auðvitað ekki „ársins fagra hring“ (2. er.) þótt svo sýnist fyrir augum manna. En allt er
þetta táknrænt og nær hámarki í sálminum í hinum fleygu orðum í þriðja erindi: „í sann-
leik hvar sem sólin skín / er sjálfur Guð að leita þín“.
Hitt meginþemað er er svo hinn persóngerði Guð er allt veit, allt sér og heyrir og hefur
allt í hendi sér: „hið minnsta happ, hið mesta fár, / hið mikla djúp, hið litla tár“ (6. er.) – og
tjáð er með skáldlegum hætti í andstæðum, sem séra Matthías beitir oft í ljóðum sínum.
Margir eiga nú erfitt með að sætta sig við slíka guðshugmynd. Þykir þeim örðugt að skilja
að slíkur guð sé á bak við þá mannvonsku, hamfarir og hörmungar er dynja yfir mann-
kynið. Og ekki síður torvelt að skilja þá allt að því smáborgaralegu smækkun á hinum
skapandi mætti tilverunnar að ímynda sér hann sem manngerving er líkt og stendur á
hleri til að nema hverja hugsun sérhvers manns. En slík er hin einlæga og barnslega
trúarsannfæring skáldsins, sem þó háði marga hugarglímu við óskiljanleik manns og
heims.
LJÓÐRÝNI
MATTHÍAS JOCHUMSSON
NÝÁRSSÁLMUR
N J Ö R Ð U R P. N J A R Ð V Í K
þess að gera þetta allt áhrifameira raulaði
karlinn sjálfur með. Örlygur Sigurðsson,
stemmningsmaðurinn mikli, lét heldur ekki
sitt eftir liggja, hóf því upp raust sína og það í
kröftuglegasta lagi. Þótt vini mínum, Örlygi sé
margt til lista lagt, þá er sönglistin ekki hans
sterkasta hlið. Auðsætt er að sönggyðjan hefur
aldrei nokkurn tíma haft fyrir því að kasta á
hann kveðju. Hvort Örlygur lítur á sjálfan sig
sem baðherbergisbaritón eða „toilettenor“ veit
ég ekki, en þrátt fyrir þessa miklu annmarka,
þá magnaðist gamanið og stemmningin þarna
á bryggjunni, öllum viðstöddum til óblandinn-
ar ánægju. Það sem ég tel nú eftir á að hyggja
að hafi vakið mesta kátinu meðal manna var
það hversu gjörólíkir „söngfuglarnir“ í þessum
kostulega dúett voru, annars vegar hrjúfur
strigabassi frá Íslandi (Norðurlandi) og hins
vegar mjúkraddaður tenór frá Suður-Ítalíu.
Söngskemmtun þessari lauk svo með því að við
kvöddum þennan glaðbeitta spiladósasala án
þess að eiga við hann nokkur viðskipti, svo
blessaður karlinn sat þarna eftir með sárt enn-
ið. Hann átti svo sannarlega betra skilið. Hér
væri ef til vill ekki úr vegi að geta þess svona í
framhjáhlaupi að dóttursonur og nafni Örlygs,
söngvarinn Örlygur Jakobsson Smári, getur
svo vissulega prísað sig sælan fyrir að hafa
ekki erft rödd afa síns.
Um dvölina á Kaprí ætla ég að verafrekar fáorður, enda þótt við hefðumnotið hennar í ríkum mæli og vanda-laust væri að fara mörgum fögrum
eða fjálglegum orðum um einstaka náttúrufeg-
urð eyjarinnar. Fyrsta daginn, 18. ágúst,
klöngruðumst við alla leið upp að kastalavirki
Tiberíusar keisara og skoðuðum einnig hús
sænska læknisins og rithöfundarins Axels
Munthe sem stendur á fallegum stað efst á
eynni. Það er ennfremur með öllu óhugsandi
að fjalla um Kaprí án þess að minnast lítillega á
tvennt til viðbótar, í fyrsta lagi gat nokkurt,
sem er býsna áþekkt gatinu í gegnum Tóina í
Dyrhólaey og hins vegar á Grotta Azzurra eða
Bláa hellinn, sem víðfrægur er, enda lengi
dregið að sér fjöldann allan af erlendum ferða-
mönnum. Þarna inni í hellinum og reyndar líka
fyrir utan hann syntum við Thor eða öllu held-
ur ærsluðumst í nokkurn tíma, okkur ekki að-
eins til stundargamans heldur til ógleyman-
legrar gleði. Satt best að segja minnist ég
þessara óborganlegu gamanláta okkar þarna í
volgum sjónum eins og þau hefðu gerst í gær. Í
einu framhaldi af þessu er vert að geta þess að
mörgum ártugum síðar gafst mér tækifæri
sem leiðsögumanni að sigla inn í og skoða hella
í Vestmannaeyjum eins og til að mynda Kaf-
helli í Hænu og Fjósin, vestan í Stórhöfða, sem
að mínum dómi standast fyllilega samanburð
við Grotta Azzurra á Kaprí. Í þeim síðarnefnda
kvað víst vera sérstaklega fallegt við sólarlag,
þá slær einkennilegum og töfrandi litbrigðum
á bergið og sjóinn í hellinum. Þeirrar sýnar
nutum við hjónin, að vísu óbeint, þegar Odd-
geir Kristjánsson, eftirlætistónskáld Eyjar-
skeggja, sýndi okkur á sínum tíma ljómandi
fallegar ljósmyndir sem hann hafði tekið í
Fjósunum við slík skilyrði. En þrátt fyrir fá-
dæma fegurð þeirra þá held ég að mig myndi
ekki langa til að synda eða busla í Vestmanna-
eyjahellunum.
Perugia í hjarta Umbriu á sér langa og
merka sögu, sem nær til fornsögulegra tíma.
Frá sjöttu til þriðju aldar fyrir Kristsburð réðu
Etrúskar, sú nafntogaða menningarþjóð þar
ríkjum. Eftir 295 fyrir Kristsburð komust svo
Rómverjar til valda í Perugia. Á miðöldum
verður hún svo sjálfstætt borgarríki, sem læt-
ur mjög að sér kveða á sviði stjórnmál, lista,
uppfræðslu og annarra menningarmála. Til
marks um það má t.d. geta þess að þar var
fyrst reistur eða stofnaður háskóli árið 1308 og
enn þann dag í dag hefur Perugia merku
menningarhlutverki að gegna vegna þess að
þar var settur á laggirnar háskóli fyrir erlenda
nemendur og stúdenta árið 1927 og veitir
ítalska utanríkisráðuneytið fjölda þeirra náms-
styrki. Sá sem þetta ritar var t.d. svo lánsamur
að fá þriggja mánaða styrk árið 1979. Að mín-
um dómi eiga Ítalir svo sannarlega skilið mikið
hrós fyrir þetta framtak sitt og frumkvæði.
Ónafngreindar nágrannaþjóðir þeirra gætu
mikið af þeim lært, enda verða þær að teljast
miklir eftirbátar þeirra á þessu sviði.
Fyrir miðjan september settumst við Thor á
skólabekk í þessari merku menntastofnun,
sem er til húsa í Gallenga-höllinni, einhverju
reisulegasta byggingarmannvirki frá átjándu
öld þar í borg, steinsnar frá etrúska boganum
fornfræga. Fyrir utan nám í ítalskri tungu og
bókmenntum lögðum við Thor einnig stund á
listasögu. Auk listasafna í Perugia, sem hafa
miklar gersemar að geyma, börðum við líka
freskur Cimabues, Giottos, i Lorenzetti og
Simones Martini í San Fransesco-kirkjunni í
Assisi augum. Ég hugsa að það sé ekki ofmælt
að við höfum staðið sem bergnumdir frammi
fyrir freskum eða veggmyndum Gioros bæði í
grafhvelfingunni og svo í efri hluta kirkjunnar,
sem lýsa lífsferli dýrlingsins, Heilags Fransis
frá Assisi. Álíka ógleymanlegar eru sömuleiðis
freskur Piero della Fransesca í kórnum í San
Fransesco-kirkjunni í Arezzo, þar sem rakin
er helgisagan um krossinn, en þangað fórum
við í fylgd með prófessorunum okkar í lista-
sögu, okkur til óblandinnar fagurfræðilegrar
nautnar.
Einhverju sinni var frægur ítalskur leikari
fenginn til að lesa upp ljóð eftir Dante, Petr-
arca, Heilagan Fransis frá Assisi og Lorenzo Il
Magnifico Medici og fleiri ítalska skáldjöfra og
gerðu nemendur sérstaklega góðan róm að
flutningi hans.
Utan skólans var margt gert til menn-ingarbrigða í Perugia. Leiksýningarog tónleikar voru til að mynda al-gengir þar. Einhverju sinni urðum
við þeirrar óvæntu ánægju aðnjótandi að
hlusta á tónverk eftir þýska tónskáldið Paul
Hindemith og það undir hans eigin stjórn og
fóru tónleikarnir fram í kirkju, þó ekki í dóm-
kirkju staðarins og vöktu þeir bæði hrifningu
og aðdáun allra viðstaddra. Úr því að kirkjur
hafa verið nefndar hér á nafn að framan mætti
benda á nokkuð svona í framhjáhlaupi sem
vakti fremur furðu okkar en hrifningu en það
var skilti á einum veggnum eða súlunni innan-
dyra þar sem stóðu þessi stórletruðu orð:
„Vietato sputare sul pavimento“, sem útleggst
á íslensku: Bannað að hrækja á gólfið“. Ekki
ber á öðru en einhver brögð hafi verið að slíku
háttalagi í þann tíð, en nú hafa sem betur fer
öll slík bannorð verið fjarlægð úr ítölskum
guðshúsum og það fyrir löngu. Batnandi
mönnum er best að lifa. Ég veit ekki hvað Thor
hefur um það að segja, en eitt er víst að ég bý
enn að þeim mikla fróðleik, sem mér var miðl-
að í Perugia forðum daga.
Að námsdvöl okkar í Perugia lokinni héldum
við til Feneyja þar sem við skoðuðum þau
markverðustu menningarverðmæti er þessi
furðulegi fenjastaður hefur upp á að bjóða.
Hér verður þó ekki farið nánar út í þá sálma að
þessu sinni, hins vegar má til gamans geta þess
að þar í borg bar fyrir augu okkar tvo heims-
fræga menn og það svo að segja samstundis.
Þannig vildi til að við vorum staddir inni á mál-
verkasafni uppi á annarri hæð við San Marco-
torgið. Fyrir utan okkur voru ekki margir
gestir í salnum, reyndar aðeins einn maður og
kona, sem við veittum enga sérstaka athygli
fyrst í stað, en fyrr en varði bárum við kennsl á
manninn, sem reyndist vera enginn annar en
stórleikarinn enski Michael Redgrave, en oft
er skammt stórra högga eða réttara sagt
stórra stjarna á milli, af því að svo að segja
jafnskjótt og okkur var þetta ljóst, varð okkur
litið út um gluggann og blasti þá við sjónum
okkar á miðju San Marco-torginu ekki minni
maður en sjálfur Orson Welles spígsporandi
þarna við annan mann. Erindi hans til Feneyja
hefur áreiðanlega verið í sambandi við fyrir-
hugaða kvikmyndagerð hans af sjónleik
Shakespeares um márann, Óþelló. Um heims-
frægð er það að segja að hún getur tíðum
reynst fallvaltur mælikvarði, en það á engan
veginn við þá snillinga tvo sem hér hafa verið
nefndir að framan, vegna þess að þeim tókst að
ávaxta sitt pund á sínu sviði svo rækilega að
það verður í minnum haft svo lengi sem menn-
ing og listir eru nokkurs metnar í þessum ófull-
komna heimi okkar.
Að lokum langar mig til að vitna í bréf, sem
ég skrifaði föður mínum frá París í nóvember-
byrjun: „Ferðin frá Feneyjum til Parísar gekk
ekki allskostar áfallalaust. Ekkert markvert
gerðist fyrr en við komum til Mílanó, en þar
áttum við að skipta um lest. Í sparnaðarskyni
ferðuðumst við á þriðja farrými og einmitt
þess vegna dundi ólánið yfir okkur. Á járn-
brautarstöðinni í Mílanó fengum við þær
slæmu fréttir að þriðjafarrýmisfarþegum væri
ekki hleypt til Frakklands á sunnudögum og
stangaðist það gjörsamlega á við þær upplýs-
ingar, sem við höfðum fengið á ferðaskrifstof-
unni í Feneyjum. Okkur sárnaði þetta mjög
eins og vonlegt var, enda sáum við fram á
svefnlausa nótt á háværri og kaldri brautar-
stöð, svangir og næstum auralausir. Við keypt-
um okkur nokkrar samlokur og lögðumst síðan
fyrir í biðsalnum og biðum morgundagsins
með óþreyju og kvíða. Það var fátt fólk í saln-
um og við gátum því sofið furðuvel þrátt fyrir
nætursvalann. Næsta dag fórum við snemma á
fætur og tókst okkur að sjá það helsta í Mílanó,
þar með talda dómkirkjuna, á þeim fimm tím-
um sem við höfðum fram að hádegi. Kl. 14.40
lögðum við síðan af stað. Fórum í gegnum
Sviss. Sáum hluta af Lago Maggione, ítölsku
og svissnesku Alpana. Komum til Parísar kl.
6.30 næsta morgun. Áttum ekki einn einasta
franka. Skildum því allan farangurinn okkar
eftir á stöðinni og gengum alla leið heim til Ör-
lygs á Montparnasse. Á leiðinni komum við í
Notre Dame, sem er eitthvert það dýrðlegasta
guðshús sem til er í víðri veröld. Hlýddum þar
á morgunmessu og orgelleik og nutum við
þessarar heilögu morgunstundar til fullnustu,
enda er birtan alltaf best árla dags. Betri heim-
komu, já, ég segi heimkomu, er ekki hægt að
hugsa sér.
Höfundurinn rak málaskóla í Reykjavík í marga
áratugi.