Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2001, Qupperneq 20

Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2001, Qupperneq 20
20 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. JANÚAR 2001 Í dag verður opnuð í Galleríi Sævars Karls sýning Helga Þorgils Friðjóns- sonar „Portrett og ský“. Portrettmynd- irnar, sem eru þrettán talsins, eru af hinum og þessum einstaklingum, sum- um þekktum og öðrum ekki. Þegar Helgi Þorgils er spurður að því hvað hafi knúið hann til að vinna sýningu af þessu tagi segist hann alla tíð hafa málað port- rett, „kannski þó mest sjálfsmyndir. Ég var með portrettsýningu á Kjarvalsstöðum fyrir tíu árum og þá með Hallgrími Helgasyni. Mig minnir að hans sjónarmið hafi verið að portrett væru alls ekki gerð í dag og sú hugsun var for- senda sýningarinnar. Á þessari fyrri portrett- sýningu voru myndir af ýmsum kunningjum, sumar nýjar en aðrar eldri. Svo ákvað ég fyrir tveimur eða þremur árum að gera aðra sýningu af þessu tagi. Sævar Karl hefur verið að biðja mig um að sýna með reglulegu millibili, en það var ekki fyrr en ég fékk þessa hugmynd að mér fannst það spennandi“. Þú segist hafa málað sjálfsmyndir; Frida Kahlo sagði einhverju sinni að hún málaði myndir af sjálfri sér af því hún væri sá efnivið- ur sem hún þekkti best – á það kannski við um þig líka? „Kannski að einhverju leyti, en mér hefur alltaf fundist skemmtilegt að skoða portrett listasögunnar vegna þess að í þeim les maður bæði tímann og söguna betur en úr mörgu öðru – mun betur en t.d. úr skrifuðu orði. Í portrett- myndum kemur hvorttveggja fram, það sem á skylt við sálina og það sem tilheyrir hversdags- leikanum.“ Nú hefur verið bent á að í portrettmynd fel- ist ákveðin þversögn eða blekking, því myndin lítur út fyrir að hafa fangað eitt augnablik, en í raun er hún afrakstur langs ferlis í tíma. „Já, og þetta kemur ágætlega fram í text- anum hennar Hildar Bjarnadóttur í sýningar- skránni, en hún er ein fyrirsætanna. En í raun- inni má segja að þessi hugmynd eigi almennt við um málverk, þótt það sé kannski augljósara í portrettinu. Þar sem portrettið er bara mynd af persónu finnst manni sem maður skilji það á augnabliki. En auðvitað gildir það sama um portrett og önnur málverk, maður skilur þau ekki fyrr en maður hefur margskoðað þau og helst nálgast þau nokkrum sinnum. Svo vel skoðar þó yfirleitt enginn málverk, nema lista- maðurinn sjálfur og ef til vill einhverjir örfáir í viðbót. Reynsla margra þeirra sem sátu fyrir var að fyrst fannst þeim verkið mjög ólíkt sér, enda er myndin ekkert lík persónunni í fyrstu tvö til þrjú skiptin nema í einstaka tilfellum. En svo þegar fólk hefur séð verkið svona tíu sinn- um finnst því portrettið jafnvel alveg eins og persónan.“ Tíminn skiptir öllu máli í málverkinu Sumir segja að hugmyndir manna um port- rettið hafi breyst mikið eftir að ljósmyndin kom til sögunnar, því ljósmyndin beinlínis grípur þetta augnablik sem málverkið gerir ekki, og þannig varpar ljósmyndin nýju ljósi á málverk- ið og sögu þess. „Þarna kemur maður kannski aftur að þeim þætti sem alltaf er verið að ræða um og er í raun mjög greinanlegur í portrettum; að mál- verk og ljósmyndir eru ekki sambærilegir hlut- ir. Tíminn skiptir öllu máli í málverkinu, en augnablikið trúlega mestu í ljósmyndinni. Á sýningunni núna er ein skýjamynd og það er t.d. mjög athyglisvert að sumt skýjafar er þannig að þótt þú getir tekið ljósmynd af því þá er ekki hægt að mála það vegna þess að það verður svo ótrúverðugt, eða jafnvel svo súrreal- ískt. Ef maður hins vegar stíliserar þetta sama skýjafar verður það alveg eins og ský – það er þá meira eins og tákn fyrir skýið og öðlast þannig aftur trúverðugleika.“ Um sambandið sem myndast á milli fyrisætu og málara segir Helgi Þorgils að í fyrri port- rettsýningu sinni hafi hann valið vini sína eða kunningja til að mála, „en í þessari sýningu núna voru það meira andlitin sem kusu sýn- inguna. Þetta var ekki fólk sem ég þekkti í upp- hafi, en ég kynntist því að einhverju leyti smátt og smátt í gegnum vinnuna við portrettið. Þeg- ar það situr hérna verður maður eins og sál- fræðingur og fólkið byrjar að tala og tala“, seg- ir Helgi og hlær, „enda eru það margir tímarnir sem það bara situr hér hjá mér. En ferlið við þetta er ekkert ólíkt því sem sagt er frá í grískri bók sem Gunnar Harðarson þýddi fyrir nokkrum árum, þar sem persónuleikinn er veg- inn og metinn eftir byggingu andlitsins. Lög- unin á andlitinu, nefinu eða jafnvel holdafarið hefur ákveðna þýðingu varðandi persónuleik- ann. Manni finnst oft að maður kannist við per- sónu þegar maður sér andlit í fyrsta sinn, en svo er hún kannski allt öðruvísi en maður hafði ímyndað sér við nánari kynni“. Nú bera þessi portrett með sér blæ íkona eða helgimynda og skýin í bakgrunni sumra styrkja þá hugsun. Er einhver skyldleiki þarna? „Ég veit það ekki,“ segir Helgi, „kannski er þetta vegna þess að ég var með galleríið hans Sævars Karls í huga þegar ég vann allar mynd- irnar, nema þá af Sverri Guðjónssyni, sem er elst. Það má svo sem reikna með því þar sem þetta eru þrettán myndir og ein mynd af skýj- um, auk þess sem galleríið minnir pínulítið á kirkjuskip.“ Hægt að nálgast sama hlutinn frá svo mörgum hliðum í einu En hvað með portrettmyndir eins og í sögu Oscars Wilde af Dorian Gray, þar sem myndin er eiginlega orðin meira en manneskja? „Já, margar af fyrirsætunum nefndu það að myndirnar væru líkari persónunni en mann- eskjurnar sjálfar. Ég hef nú reyndar trú á því með málverk, að hægt sé að ná slíkri tilfinningu fram vegna þess að maður hefur svo mikið frelsi, umfram t.d. ljósmyndarann. Í málverk- inu er hægt að nálgast sama hlutinn frá svo mörgum hliðum í einu að hann verður ósjálfrátt viðameiri en maður heldur að hann sé. Popp- tímabil málverksins eyddi þessum möguleika að einhverju marki en ég álít mig nú frekar til- heyra þessum sögulegu málurum sem fara framhjá viðfangsefninu og allt í kringum það. Enda held ég að málverk af því tagi séu að koma aftur. Þessi kalda írónía sem hefur ein- kennt síðastliðin þrátíu ár í málaralist er að víkja, ásamt öllu því sem byggðist eiginlega eingöngu á einni, snöggri hugmynd. Sagan er aftur að koma fram í forgrunninn á öllum svið- um. Mér virðist meira að segja sem eitthvað hliðstætt sé að gerast í vísindum þar sem menn reyna nú að nálgast þá keðjuhlekki sem slitn- uðu í burtu á ákveðnu tímabili. Ætli samhengi hlutanna sé ekki farið að skipta meira máli á nýjan leik.“ Nú er verið að gefa út bók á Ítalíu um þig og þína list. Geturðu sagt mér eitthvað af því? „Búið er að skipuleggja tuttugu bóka flokk um fígúratíva samtímamálara og bókin um mig er ein sú fyrsta, en auk hennar koma út bækur um þá Jan Knapp og Salvo til að byrja með. Bókin um mig er um hundrað síður og með um 60 myndum. Útgáfufyrirtækið er vel þekkt svo það má búast við því að bækurnar fái ágæta dreifingu á alþjóðlegum vettvangi. Síðan á að koma út annar flokkur um listamenn sem eru heldur poppaðri, en mér finnst ég nú hafa lent í skemmtilegri flokknum,“ segir Helgi og brosir. Hringhreyfing sem veitir einnig heilmikil svör Talið berst að lestri Helga á Kierkegaard, en hann segir að útgáfufyrirtækið hafi beðið hann að senda einhverja tilvitnun sem hægt væri að nota sem einkunnarorð fyrir bókina. „Ég gleymdi því nú alveg,“ segir hann, „en fann svo í Kierkegaard það sem ég hefði getað hugsað mér að senda. Það var þegar Kierkegaard segir frá manni sem fór upp í sjöunda himin til að ræða við guðina. Þeir spurðu hvers hann myndi óska sér ef hann ætti eina ósk og fyrst hugsaði hann um peninga og ást og allt þetta sem mönnum dettur vanalega í hug. En að lokum kvaðst hann myndu óska sér þess að geta hleg- ið endalaust. Guðirnir hugsuðu sig lengi um og skellihlógu svo. Kierkegaard útskýrir síðan fyrir lesendum sínum að svona ósk sé ekki hægt að svara með neinu nema hlátri. Mér finnst þessi saga vera dæmi um fallegan hring, sem veitir líka heilmikil svör,“ segir Helgi. Sérðu þá ef til vill portrettin þín sem svona hringhreyfingu í kringum manneskju? „Já, ég gæti trúað því,“ svarar hann. „Ég gæti trúað að myndlistin mín væri svolítið á þessum nótum og þess vegna hafi ég orðið svona hrifinn af þessu. Maður leggur upp með ákveðna spurningu, vinnur sig áfram og fær kannski rökrétt svar vegna þess að maður heldur að maður fái svar – eins og guðirnir gerðu hjá Kierkegaard. Og stundum getur svarið jafnvel falist í því að svara ekki.“ Morgunblaðið/Einar Falur Helgi Þorgils Friðjónsson, myndlistarmaður. SÁLIN OG HVERSDAGS- LEIKINN „Portrett og ský“ heitir sýning Helga Þorgils Friðjóns- sonar sem verður opnuð í dag í Galleríi Sævars Karls. Portrettin eru þrettán talsins og bera með sér óræðni helgimynda, en að sögn listamannsins minnir sýningarsalurinn dálítið á kirkjuskip. FRÍÐA BJÖRK INGVARSDÓTTIR leit inn á vinnustofu hans og komst að því að úr portrettum má lesa ýmislegt bæði um söguna og tímann, sálina og hversdagsleikann. Helgi Sverrisson. Hildur Bjarnadóttir. Kristín Gunnlaugsdóttir. Karin Kneffel.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.