Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2001, Side 4

Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2001, Side 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. JANÚAR 2001 Í SÖGUNNI „Loulou; or, The Domestic life of the Language“ (Loulou; eða heim- ilislíf tungumálsins) segir rithöfundur- inn Margaret Atwood sögu sem er að mörgu leyti einkennandi fyrir hug- myndaheim hennar og ævistarf. Sagan birtist í smásagnasafninu „Bluebeard’s Egg“ (Egg Bláskeggs) árið 1983 og fjallar um leirkerasmiðinn Loulou. Mótandi tengsl hennar við jörðina þjóna táknrænu hlut- verki því hún er jarðbundin í meira lagi. Hún býr með nokkrum skáldum sem andstætt við hana eru einstaklega háfleyg. Sum eru fyrrver- andi eiginmenn hennar og öll fyrrverandi ást- menn. Loulou sér fyrir öllum efnislegum þörf- um skáldanna svo þeir geti óáreittir einbeitt sér að skáldskapnum og tungumálinu – eða öllu heldur því valdi sem í tjáningunni felst. Öll hafa skáldin heillast af nafni Loulou, nafni sem þeir segja að feli í sér fullkomnar andstæð- ur því það ber með sér léttleika og léttúð ljós- hærðra dansmeyja, sem þeir segja vera í ósam- ræmi við hina dökkhærðu og jarðbundnu konu sem Loulou er í raun. Loulou þykist því vita hvað þeir eiga við þegar þeir lýsa henni sem „jarðbundinni“ – þeir eiga við að hún sé nánast „ólæs“ og eru þá að miða við sinn eigin fjálglega skáldskap. Það sem vekur áhuga skáldanna á Loulou er reyndar nátengt táknfræði, eða með öðrum orðum bilinu á milli óhlutbundins orðs (nafnsins) og hlutbundins veruleika (manneskj- unnar). Eða eins og sá skáldanna sem best er að sér í málvísindum útskýrir fyrir Loulou; „bilinu á milli táknsins og þess sem það stendur fyrir“. Annar úr hópi skáldanna nennir ekki einu sinni að nota fræðilegar forsendur á borð við táknmál til að skilgreina þessa löngun og talar tæpi- tungulaust um áhuga þeirra á því „hvað finna má í bilinu sem var á milli Loulou og nafnsins hennar“, en rannsóknin á því er einmitt það sem bindur skáldin saman. Sjálf hefur Loulou ekki áhuga á slíkum hár- togunum um tungumálið og hvað orðin standa fyrir: „Hverjum er ekki sama hvað hlutirnir eru kallaðir? segir hún við skáldin. „Brauðbiti er brauðbiti. Annaðhvort langar mann í hann eða ekki.“ Enda hefði Loulou reyndar heldur kosið að heita „hversdagslegra nafni, svo sem Mary eða Ann“. Glíman á milli Loulou og skáldanna stendur sem sagt um orðin, um sjálft tungumálið. Um tjáninguna og réttinn til að nefna hlutina og finna þeim þannig stað í ákveðinni heimsmynd. Orðræðan og tungumálið tilheyrir skáldunum í þessari sögu og þau nýta sér þá staðreynd óspart til þess að móta umhverfi sitt og stjórna Loulou. Skáldin varpa fram fáheyrðum og tor- skildum orðum er hana varða í hennar áheyrn og grafa undan sjálfstrausti hennar og sjálfs- ímynd þar sem hún skilur ekki orðaforða þeirra. Stundum grunar hana jafnvel að þeir séu að búa orðin til. Hún lætur þó sem ekkert sé, heldur ótrauð áfram við að móta leirkerin og baka óað- finnanleg brauð, en reynir þó að fletta upp í orðabók svo lítið beri á. En því miður er orða- bókin, hinn opinberi skilningur á tungumálinu, lítil stoð því hún staðfestir oftast nær bilið á milli skilnings Loulou og ólíkra túlkunarmöguleika. Tómið og hin ógnvekjandi auða síða Skáldin líta ekki á leirkerin sem Loulou mót- ar sem skapandi list, heldur sem iðn. Þeir álíta vinnu hennar auðvelda miðað við sína eigin list- rænu (og óáþreifanlegu) tilburði í baráttunni við „tómið og hina ógnvekjandi auðu síðu“. Fyrir þeim er „öll list einungis leið til að forðast sjálfs- morð“. Í samræmi við það er viðhorf þeirra til umhverfisins og Loulou ákaflega sjálfhverft. „Þú fullkomnar mig,“ segir fyrsta skáldið sem hún kynntist með miklum létti, enda vill hann ekki horfast í augu við hugsanlega eyðu í sínu lífi. Um leið er hann ófær um að meta Loulou út frá öðrum forsendum en þeim sem lúta að hon- um sjálfum. Þegar allt kemur til alls er Loulou þó upp- spretta andagiftar þeirra allra, alls sem þeir hugsa og skrifa. List þeirra eða skáldskapurinn, er tilraun til að fylla upp í tómið eða eyðuna á milli þeirra eigin fantasíu um konuna Loulou og þess sem hún er í raun. Í eyðunni felast því allir túlkunar- og tjáningarmöguleikar þeirra. Skáldin hafa áskilið sér óskoraðan rétt til að „nefna“ hlutina og móta skynjunina á umheim- inum í samræmi við sín viðmið. Sem andstæða þeirra, er Loulou því „þögul“ eða jafnvel mál- laus í návist þeirra. Henni til mikillar skap- raunar verður henni iðulega orðfall er skáldin beina orðum sínum til hennar. Í sambandi Loulou við skáldin ríkir stöðug spenna varðandi tungumálið, spenna er byggist á sambandinu á milli þess sem sagt er og þess sem er ósegjanlegt. Með því að byggja upp þessa spennu tekst Atwood að virkja lesandann í lestrinum, hann kemst ekki hjá því að reyna að ráða í bilið eða eyðuna – koma með sína túlkun líkt og skáldin. Hið ósegjanlega leikur því stórt hlutverk í þessu verki, ef til vill ekki minna hlut- verk en það sem er sagt. Á þennan hátt notar Atwood tungumálið til að afhjúpa það bókstaf- lega skilningsleysi sem ríkir í samskiptum kynjanna, „ólæsi“ þeirra gagnvart hvort öðru. Skáldin hafa eignað sér tungumálið og ræða það í lágum hljóðum eins og þeir séu að ræða trúar- brögð. „„Tungumálið“ sker sig frá venjulegum orðum: því tengist launhelgur ljómi“, eins og segir í sögunni en Loulou hefur ekki aðgang að þeirri launhelgi. Í stað þess að nota málið til að eiga raunveruleg tjáskipti við hana (eða kven- fólk yfirleitt) nota skáldin það til að bjaga, túlka eða móta heimsmyndina að eigin þörfum. Leit Loulou að annars konar karlmanni í sögulok ber því engan árangur þar sem meira að segja end- urskoðandinn hennar reynist jafn „skáldlegur“ og skáldin. Loulou sættir sig því að lokum við að fullkom- inn skilningur er ef til vill ekki til. Sú hugsun leiðir huga lesandans óhjákvæmilega að sög- unni um tilurð tungumálanna í Biblíunni. En er þjóðum heimsins var tvístrað við byggingu Bab- elsturnsins forðum varð skilningsleysið eða hið ósegjanlega í fyrsta sinn þáttur í mannlegum veruleika. Hið ósegjanlega verður þáttur í stjórnskipulaginu Að öllum líkindum er þessi vísun í uppruna skilningsleysisins í tengslum við Babelsturninn engin tilviljun hjá Atwood því árið 1985, eða tveimur árum eftir að smásagan um Loulou og skáldin birtist, kom út ein þekktasta skáldsaga hennar til þessa, „The Handmaid’s Tale“ (Saga þernunnar). Þar tekur Atwood enn á ný til við að skrifa um tungumálið og það vald sem felst í því að „nefna“ hlutina. Og að þessu sinni setur hún hugmyndina í kristið samhengi, án nokkurra málalenginga. Í skáldsögunni er átakasvæði tungumálsins ekki lengur heimfært upp á heim- ilislífið heldur þjóðfélagið í heild sinni og hið ósegjanlega er ekki einungis hluti af lífi hvers einstaklings heldur einnig stór þáttur í að við- halda fyrirkomulagi stjórnvaldsins. „Saga þernunnar“, sem oft er flokkuð sem vísindaskáldsaga, gerist í Bandaríkjum framtíð- arinnar eftir að kapítalískt samfélag nútímans hefur liðið undir lok við valdatöku herskárra kristinna heittrúarmanna. Enn eru það karl- menn sem eigna sér tungumálið með því að byggja upp gamaldags ættfeðrastjórn og sníða nýju samfélagi stakk eftir (mis)túlkunum sínum á Gamla testamentinu. Í þessu samfélagi, lýð- veldinu Gíleað (sem vísar til Gamla testament- isins), eru konur ýmist flokkaðar sem eiginkon- ur, Mörtur (enn ein biblíuvísunin), frænkur eða þernur. Eiginkonur þjóna mönnum sínum sam- kvæmt fornri hefð, Mörtur vinna verstu verkin við þjónustu og þrif, en frænkur sjá um gæslu og uppfræðslu (heilaþvott) þernanna, sem eins og aðalsöguhetjan, Offred, hafa verið hnepptar í ánauð til barneigna. Þær konur sem ekki falla inn í þessar skilgreiningar eða geta ekki alið börn, eru „unwomen“ eða „ókonur“ og ýmist teknar af lífi eða gerðar útlægar, þar sem þær þjóna ekki sínum líffræðilega tilgangi í sam- félaginu. Þernurnar klæðast skarlatsrauðum einkennisbúningum sem eru táknrænir fyrir fordæmingu samfélagsins á „ókristilegri“ hjú- skaparstöðu þeirra fyrir byltinguna, en með rauða litnum vísar Atwood m.a. til frægrar sögu Nathaniel Hawthorne um konu sem fordæmd er af þjóðfélaginu fyrir að eiga óskilgetið barn og þarf að ganga með skarlatsrautt merki um „hórdóm“ sinn á brjóstinu. Fyrirmyndin að hlutverki þernanna er fengin úr biblíunni. Þær eru staðgenglar eiginkvenna stjórnendanna á sama máta og þerna Rakelar, eiginkonu Jakobs, í Gamla testamentinu. Bók Atwood hefst reyndar á eftirfarandi tilvitnun í fyrstu Mósebók: „En er Rakel sá að hún ól Jak- ob ekki börn, öfundaði hún systur sína og sagði við Jakob: „Láttu mig eignast börn, ella mun ég deyja.“ Jakob reiddist þá við Rakel og sagði: „Er ég þá Guð? Það er hann sem hefir synjað þér lífsafkvæmis.“ Þá sagði hún: „Þarna er Bíla ambátt mín. Gakk þú inn til hennar, að hún megi fæða á skaut mitt og afla mér afkvæmis.“ Í þessu nýja samfélagi Gíleað hefur túlkun þessa forna texta verið teygð til hins ýtrasta með afturhvarfi til hugmynda er beinlínis byggj- ast á ánauð kvenna. Þernurnar eru ambáttir eins og Bíla, sem engu fá ráðið varðandi eigið líf. Þær eru neyddar til að liggja með eiginmönnum annarra kvenna til að getnaður eigi sér stað og afhenda börnin eiginkonunum við helgiathöfn um leið og skilið er á milli við fæðingu. Þessu hlutskipti geta þær ekki mótmælt án þess að leggja líf sitt í hættu. Réttur þeirra til að tjá sig og nota tungumálið til að fjalla um það sem þær varðar hefur verið afnuminn. Óskir þeirra og væntingar tilheyra þess vegna því ósegjanlega, sem í þessu tilviki er eyðan á milli hinnar op- inberu og viðurkenndu orðræðu og persónu- legra þarfa hins þögula einstaklings. HEIMILISLÍF TUNGU- MÁLSINS Hin eftirsóttu bókmenntaverðlaun, Booker- verðlaunin bresku, voru nýverið veitt kanadíska rit- höfundinum Margaret Atwood. FRÍÐA BJÖRK INGVARSDÓTTIR velti fyrir sér athyglisverðum hug- myndum Atwood um frásagnartækni, mátt tungu- málsins og þýðingu hins ósagða í skáldskap hennar eins og hann hefur þróast í gegnum árin. Mynd af Babelsturninum frá 1670, eftir Livius Creyl. Samkvæmt Biblíunni markaði bygging turnsins endalok fullkomins skilnings meðal mannanna og þeir tóku að tala ólíkum tungum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.