Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2001, Qupperneq 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. JANÚAR 2001 5
Þegar ein túlkun er álitin öðrum æðri
Tilvitnanir og vísanir í Biblíuna marka
ramma sögunnar um þernuna og Atwood
bregður nýju ljósi á þá fornaldarlegu heims-
mynd sem þar er sett fram, um leið og hún sýnir
fram á afstæði allra texta þegar túlkun er ann-
ars vegar. Þá leggur hún ekki síður áherslu á að
því frelsi sem felst í frjálsri tjáningu fylgir
ákveðin hætta, sérstaklega ef ein túlkun er álitin
öðrum æðri, eða jafnvel hin eina rétta.
Til þess að halda þegnunum niðri nota stjórn-
völd Gíleað því ekki einungis hefðbundnar að-
ferðir ógnarstjórnar, vopn og njósnir, heldur
hafa þeir markvisst útrýmt öllu því sem ýtt get-
ur undir aðra túlkun á tilverunni en þeir eru til-
búnir til að viðurkenna. Í þessum tilgangi hafa
þeir eytt öllu rituðu máli og bannað lestur og rit-
un. Allt sem tilheyrir tungumálinu, bókum,
lestri, túlkun og tjáningu lýtur því nýjum lög-
málum. Í stað þessara þátta siðmenningarinnar
hafa stjórnvöld komið upp einföldu myndmáli
sem ekki býður upp á möguleika til túlkunar.
En það segir ekki alla söguna. Líkt og í hag-
kerfum hins horfna heims, blómstrar verslun
með forboðna vöru á svörtum markaði í Gíleað –
og ein verðmætasta svartamarkaðsvaran er allt
sem tengist tungumálinu. Bókasöfnin eru tóm
eftir bókabrennur byltingarinnar, en ólögleg
starfsemi á borð við vændi er nú tengd notkun
tungumálsins. Sem dæmi má nefna að kross-
gátuleikurinn „Scrabble“ er bannaður gegn
hörðum viðurlögum en er samt sem áður stund-
aður af mikilli ástríðu í laumi, líkt og forboðnir
ástarfundir. Þannig er það sem tilheyrir hinum
forboðna heimi ritmálsins orðið að spennandi
leik sem tengist einnig frjálsri líkamlegri tján-
ingu sem sprettur af raunverulegum tilfinning-
um en ekki þjóðfélagslegri nauðsyn á barneign-
um. Allt sem lýtur að fortíðinni, sama hversu
lítilvægt það áður var, er nú áhugavert og hlaðið
merkingu fortíðarþrárinnar, svo sem hefðbund-
ið kvennatímarit sem húsbóndi Offred gefur
henni þegar þau hittast til að spila „Scrabble“. Í
þeim leik tengjast þau nánari böndum en æski-
legt er talið, því með því að velta forboðnum orð-
um í munni sér, með því að brjóta heilann um
tengingar, túlkun og merkingu hafa þau farið út
fyrir öll velsæmismörk og glufan fyrir fram-
vindu frásagnarinnar opnast.
Margaret Atwood er hér undir nokkrum
áhrifum frá Jaques Derrida sem hélt því fram
að hið ritaða orð væri opið fyrir allri túlkun og
tilheyrði engum sérstökum. Í samræmi við það
gerir Atwood ráð fyrir að stjórnvöldum þessa
framtíðarsamfélags standi mest ógn af hug-
myndinni um tungumálið sjálft, merkingu þess
og þeim hugsanlegu túlkunum sem ekki er hægt
að sjá fyrir eða stjórna.
Til að koma í veg fyrir hömlulausa túlkun
texta hafa stjórnendur Gíleað einungis varðveitt
eitt rit, sjálfa Biblíuna, en öðrum hefur verið
eytt. Orðin sem slík hafa því orðið fyrir eins-
konar menningarlegri gengisfellingu og er
„verðmæti“ orða eða „gengi“ þeirra eins og
rauður þráður í gegnum allt verkið. Grundvöllur
hins nýja ríkis byggist á því að stjórnvöld vilja
snúa aftur til munnlegrar menningar þar sem
tjáning er í lágmarki og miðast einungis við nyt-
samlegan tilgang. Biblían, bók bókanna, er læst
í skríni svo ekki sé hægt að túlka hana að vild.
Ráðamenn geta þá einir setið að þeim túlkunar-
möguleikum er þjóna ógnarstjórn þeirra. Um
leið verður biblían sá fjársjóður sem lagður er til
grundvallar öllu samfélaginu því henni fylgir
það vald sem áður fylgdi fjármagni hins kapítal-
íska samfélags. Atwood gengur svo langt að
gera biblíuna að staðgengli peninga markaðs-
samfélagins, því þetta nýja þjóðfélag byggist al-
farið á vöruskiptum. Þannig hafa allir aðrir
textar misst gildi sitt en þessi eini texti verið
færður í æðra veldi svo hann geti þjónað nýju
hlutverki.
Ef í nafni Loulou var fólgið bil á milli tákn-
myndar og veruleika þá hefur Atwood gert það
bil óendanlega vítt í „Sögu þernunnar“. Þern-
urnar hafa í samræmi við það allar þurft að gefa
nöfn sín upp á bátinn og eru einungis auðkennd-
ar með nafni eiganda síns. Þernan sem segir
söguna heitir því eins og áður segir Offred og
stöllur hennar gegna líkum nöfnum; Ofglen,
Ofwarren o.s.frv. Þær tilheyra þá Fred, Glen,
eða Warren. Hin raunverulegu nöfn þeirra eru
hluti horfins heims, því í hlutverki þeirra sem
þernur er engin eyða á milli nafns þeirra og lífs,
enda ekki um neina óvissuþætti eða túlkunar-
möguleika að ræða; þær beinlínis eru það sem
þær heita.
Bilið á milli sjálfsvitundar kvenna og
þess hlutverks sem þær gegna
En að sjálfsögðu er lífið aldrei svo einfalt og í
þeirri staðreynd leynist veikleiki þessa nýja
þjóðskipulags. Með sjálfum sér eiga þernurnar
minninguna um sín fyrri nöfn, nöfn sem bera
með sér óræðni allra túlkunarmöguleika sem í
því fyrra lífi fólst. Bilið á milli sjálfsvitundar
þessara kvenna og hlutverksins sem þær gegna
sem ambáttir er því óbrúanlegt, enda hafa þær
ekkert andlegt svigrúm, heldur einungis líkam-
legan tilgang. Það er því óhjákvæmilegt að ein-
hverjar þeirra freisti þess að brjótast út úr
ánauðinni.
Líkt og í þeim textum biblíunnar sem lagðir
eru til grundvallar í Gíleað felast miklir túlk-
unarmöguleikar í nöfnum og nafnleysi í þessu
verki. Spennan í framvindu sögunnar byggist að
nokkru leyti á löngun sögupersóna til að fylla
upp í nafnleysið og komast að „hinu sanna“ um
aðrar persónur verksins – að því sem býr að
baki nafninu sem þeim hefur verið úthlutað í
samræmi við hlutverk þeirra í nýju þjóðskipu-
lagi. Það sama á við um lesandann; hann fyllist
óþreyju og löngun til að komast að því sem
greinir eina persónu frá annarri og gefur lífi
þeirra tilgang. Það er því táknrænt innan sög-
unnar að sá karlmaður sem verður bjargvættur
þernunnar Offred, er sá eini sem veit hennar
raunverulega nafn. Þótt ekki sé alveg ljóst
hvernig Offred reiðir af í lok bókarinnar má ef
til vill lesa úr nafni hennar sterka vísbendingu
um að hún hafi í það minnsta losnað úr hlutverki
ambáttarinnar því Atwood hefur falið í nafninu
lítinn orðaleik. Offred, sem hljómar reyndar
eins og „offered“ er þýðir „fórnað“, heitir ekki
einungis Of-fred (eign Fred), heldur má einnig
lesa nafnið sem Off-red (frá rauðu) sem gæti
bent til þess að þernan hafi losnað úr viðjum
hinna rauðu einkennisbúninga þessara ambátta.
Þernan er því fulltrúi þeirra sem ekki geta sætt
sig við hið nýja þjóðskipulag og rýna í það óra-
víða bil sem myndast hefur á milli þess opinbera
og þess persónulega, þ.e.a.s. þess sem lýtur ein-
ungis leyndustu hugsunum einstaklinganna –
sem þrátt fyrir allt er
ekki hægt að stjórna.
Eftir að hinni eigin-
legu sögu þernunnar
lýkur, hefst sá hluti
verksins sem Atwood
hefur gefið nafnið
„eftirmáli“ en hann
gerist einhverjum ár-
hundruðum seinna á
ráðstefnu sérfræð-
inga á þessu skeiði
mannkynssögunnar.
Þar leikur Atwood sér
enn að eyðunni enda
er mynd sagnfæðings-
ins af Gíleað-tíma-
bilinu ekki í neinu
samræmi við þá mynd
sem saga þernunnar
sjálfrar gefur til
kynna. Ljóst er að fyr-
irlesarinn skynjar
ekki þagnirnar og
eyðurnar í sögunni.
Hann hefur engan
áhuga á þeim sem eru
þögulir né heldur á
röddum þeirra sem
ekki heyrist í á hinum
opinbera vettvangi.
Hann er því slæmur
„lesandi“, ólíkt okkur
hinum, sem „lesum á
milli línanna“ með
höfundinum sjálfum.
Atwood sýnir því fram
á að endalaust má
túlka, hagræða eða
jafnvel skrumskæla
söguna, hvort sem um er að ræða skáldsögu eða
mannkynssögu.
Ef til vill er til
margskonar sannleikur
Í nýlegu viðtali ræðir Margaret Atwood hug-
myndir sínar um afstæði sögunnar, en þær
skýra ef til vill að nokkru leyti hlutverk þern-
anna á tíma þar sem túlkunarmöguleikar og sýn
ólíkra tíma stangast á. „Þegar ég var ung,“ út-
skýrir hún, „trúði ég því að það sem ekki teldist
skáldskapur væri „sannleikur“. En ef maður les
sagnfræði sem skrifuð var, segjum í kringum
1920, og sagnfræði um sömu atburði skráða
1995 þá eru frásagnirnar mjög ólíkar. Vera má
að enginn einn „sannleikur“ sé til – ef til vill er til
margskonar sannleikur. En þótt ég slái þessu
fram á ég hreint ekki við að ekki sé til neinn
raunveruleiki,“ segir Atwood.
Í nýjustu bók sinni, verðlaunabókinni „The
Blind Assassin“ (Blindi launmorðinginn), fjallar
hún einmitt á mjög athyglisverðan máta um
raunveruleikann. Það gerir hún sem fyrr í gegn-
um tungumálið og birtingarmyndir þess í skáld-
skapnum. Hún bregður á leik með merkingu,
túlkunarmöguleika, bókhneigð og jafnvel bók-
menntagreinar. Enn er skáldskaparþráin hinn
undirliggjandi þráður, löngunin til að segja sög-
ur og tjá það sem á stundum er ósegjanlegt.
Atwood heldur því áfram að vinna með þá miklu
sögu sem liggur á milli línanna, í eyðunni eða
bilinu margumrædda.
Frásagnarmáti þessarar stóru skáldsögu
sver sig í ætt við fagurfræðilegar tilhneigingar
síðustu ára, en sagan er tvinnuð úr þremur ólík-
um þráðum sem allir tengjast þó innbyrðis.
Fyrst ber að nefna ættarsögu aldinnar konu, Ir-
is Chase, er rifjar upp líf sitt og sögu fjölskyldu
sinnar á ævikveldinu. Inn í þá sögu fléttast
skáldsaga eignuð systur hennar, Lauru, sem
fyrirfór sér ung að aldri. Skáldsagan, sem Iris
gaf út eftir lát systur sinnar, var á sínum tíma
mikið hneykslisefni þar sem hún fjallar um ást-
arsamband ríkrar yfirstéttarstúlku við rithöf-
und sem var eftirlýstur kommúnisti. Þriðja
söguefnið kemur í brotum inn í skáldsöguna
sem e.k. vísindaskáldsaga sem elskhuginn og
rithöfundurinn eftirlýsti spinnur fyrir ástkonu
sína á ástarfundum þeirra. Hann vinnur þar á
skyldum forsendum og sagnakonan Scheher-
azade í „Þúsund og einni nótt“ sem sagði sög-
urnar til að forðast ástleitni hlustandans. Til-
gangur rithöfundarins er þó þvert á móti að
reyna að halda athygli ástkonu sinnar með sög-
unum, lokka hana til að koma enn á ný til fundar
við hann til að heyra framhald sögunnar. Sama
máli gegnir um okkur sem lesendur; vísinda-
skáldsagan dregur heildarsöguna áfram þar
sem hún speglar innra líf aðalpersónanna og
hlutskipti þeirra.
Þessir þrír þræðir tvinnast eins og áður segir
saman í viðamikla skáldsögu er segir allt í senn;
þróunarsögu kanadísks samfélags, sögu um ör-
lög kvenna og ást í meinum á krepputímanum
og síðast en ekki síst þá sögu er skáldverkið
dregur nafn sitt af; sögu hins blinda launmorð-
ingja í ímynduðu samfélagi á framandi plánetu í
vísindaskáldsögunni. Að auki fléttast inn í
skáldverkið ýmsar fréttatilkynningar og blaða-
greinar er tilheyra opinberum vettvangi en
varpa jafnframt ljósi á þá miklu fjölskyldusögu
sem aðalpersónan,Iris Chase, er að reyna að
henda reiður á. Eftir sem áður fjalla allar þessar
ólíku sögur, „fjölskyldusagan“, „skáldsagan“ og
„vísindaskáldsagan“, um það sama; um mis-
ræmið á milli opinberrar sögu og sögu einstak-
lingsins. Eða öllu heldur um bilið þar á milli,
þ.e.a.s. eyðuna margfrægu – og allt það sem er
ósegjanlegt. Þegar sögurnar eru sagðar sam-
hliða kemur bilið í ljós, margræðni mannlegs lífs
og afstæði sannleikans sem Atwood ræðir um
hér að framan.
Enginn munur á sagnfræði
og skáldsögum
Breski sagnfræðingurinn og heimspekingur-
inn R.G. Collingwood er einn þeirra sem glímdi
við að skilgreina afstæði mannkynssögunnar í
samanburði við skáldskapinn á fyrri hluta tutt-
ugustu aldar: „Ef bæði sagnfræðiverk og skáld-
sögur eru afrakstur ímyndunaraflsins, þá er
enginn munur á verki sagnfræðingsins og
skáldsagnahöfundarins. Það eina sem greinir
þau að er að sýn sagnfræðingsins er álitin vera
sönn,“ sagði Collingwood. Samkvæmt því er
saga Atwood af þjóðfélagslegum hræringum,
sem óhjákvæmilega tengjast persónulegu lífi
einstaklingsins, því engu ómerkari heimild en
hin opinbera saga sagnfræðingsins.
Viðhorf Margaret Atwood til afstæðis frá-
sagnarinnar, í hvaða formi sem hún birtist,
byggist fyrst og fremst á umræðu um frásagn-
armátann. Jafnvel innan sinnar eigin sögu finn-
ur hún svigrúm til að velta fyrir sér ólíkum
möguleikum í framvindu frásagnarinnar, svo
lesandinn er ætíð meðvitaður um sköpunarferl-
ið sem liggur að baki verkinu. Honum er kunn-
ugt um ólíka möguleika og val sögumannsins á
sjónarhorni, sem að sjálfsögðu er val höfund-
arins. Atwood ræðst til atlögu við heimsmynd
okkar eins og við þekkjum hana samkvæmt hin-
um opinbera reynsluheimi og dregur ólík sjón-
arhorn fram í dagsljósið. Sjónarhorn sem iðu-
lega hafa ekki heyrst áður en segja þó
kunnuglega sögu, hina óopinberu eða þögulu
sögu þeirra sem ekki eiga sér augljósa málsvara
innan hefðarinnar. Atwood segir það ekki vera
markmið sitt þegar hún er að skrifa sögur sínar
að „fá lesandann til að lýsa sig með eða á móti
einhverju spursmáli. Lífið er flóknara en svo,“
segir hún, því „raunveruleikinn er settur saman
úr svo mörgum ólíkum sjónarhornum.“
Í þessu síðasta verðlaunaverki Margaret
Atwood tekst henni einmitt að skoða söguefnið
frá ólíklegustu sjónarhornum, veita lesandanum
innsýn inn í óravíðan sagnaheim, sem þó gerir
ekki nema sýna honum fram á hversu margt er
látið ósagt. Eða eins og Iris Chase, aðalsögu-
hetja bókarinnar orðar það – en leið hennar að
söguefninu er oft afar löng og krókótt: „Ég veit
að [sagan] er röng, ekki vegna þess sem ég hef
skrifað niður, heldur vegna alls þess sem ég hef
sleppt. Það sem ekki er sagt hefur viðveru, sem
er eins og fjarvera ljóss.“
Það má því álykta sem svo að Atwood treysti
lesanda sínum til þess að þreifa sig áfram í
myrkrinu, eins og blindi launmorðinginn sem
frelsar stúlku frá dauða á altari samfélagsins, en
hún hefur verið tunguskorin til þess að koma í
veg fyrir að hún tjái sig um hlutskipti sitt. At-
wood knýr lesandann til þess að hlusta eftir því
sem ekki er sagt – og þá ekki síður til þess að
skynja þá sögu sem ekki liggur í augum uppi.
Eins og módernistarnir hefur hún fundið form-
inu farveg í bókmenntalegri umræðu með því að
spyrja lesanda sinn hvaða hlutverki textinn
gegni. En hún lætur sér ekki nægja að skil-
greina það hlutverk, heldur spyr einnig hvernig
því sé gegnt í sínum eigin texta. Þannig lánast
henni að virkja lesandann til þess að taka af-
stöðu til síns eigin hlutverks í frásagnarhefðinni
og stemma stigu við sundrung þess skilnings-
leysis sem fylgt hefur manninum allt frá því
hann í oflæti sínu ögraði guðdómnum með bygg-
ingu turnsins fræga í Babýlonborg.
Margaret Atwood