Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2001, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2001, Blaðsíða 15
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. JANÚAR 2001 15 2000 árum búið í öllu Finnlandi og suður um miðjan Noreg og Svíþjóð. Örnefni benda í sömu átt. Í erindi Samuli Aikio frá Finnlandi kom fram að margir telja að Samar hafi komið til landa sinna um það bil sem bronzöld gekk í garð í Skandinavíu, ca 1500–1000 f. Kr.; verið komnir til Finnlands um 2500 f. Kr. Samar voru samfélag veiðimanna sem bjuggu afar dreift í ættbálkaskiptum einingum, 100–200 manns, þar sem Samabærinn, þorpið, var ein- ingin. Menn giftust milli byggða og öðluðust þar með rétt til lands eða landnýtingar. Hvert þorp hafði dómsvald í sínum höndum. Inn í þessi þorp kom ríkisvaldið, kirkjan, veraldleg yfirvöld af hverju tagi sem er þegar ríki færð- ust á legg. En þorp er ekki sama og þorp, ef svo má segja, vetraraðsetur voru annars stað- ar en sumarhíbýlin, fylgdi ferðum hreindýr- anna og samfélagið var veglaust. Sleðar og skíði voru notuð á vetrum, bátar á sumrin. Ríkjastofnun í Noregi, Svíþjóð, Rússlandi og síðar Finnlandi breytti þessu, skóp ákveðin landamæri og nýjar aðstæður fyrir málþró- unina og ferðir Samanna: þeir urðu þegnar fjögurra ríkja – og skattstofn. Þetta er komið á í öllum byggðum Sama um og upp úr 1200; sums staðar voru mörkin svo óljós að margir Samar voru tví- og jafnvel þrískattaðir. Þetta sést glögglega í Egils sögu Skallagrímssonar þar sem segir frá uppgangi Þórólfs Kveldúlfs- sonar: Þórólfur átti gott bú á Sandnesi „og gerði um veturinn ferð sína á fjall upp og hafði með sér lið mikið, eigi minna en níu tigu manna. En áður hafði vandi á verið, að sýslu- menn höfðu haft þrjá tigu manna . . . Hann hafði með sér kaupskap mikinn. Hann gerði brátt stefnulag við Finna og tók af þeim skatt og átti við þá kaupstefnu. Fór með þeim allt í makindum og í vinskap, en sumt með hræðslu- gæði“, þ.e. undir ógn. Síðar rænir Þórólfur Finna í samvinnu við aðra; finnferð og finn- skattur koma oft fyrir í Egils sögu. Hér kemur fram gömul málnotkun, en Finni var Sami í máli norrænna manna að fornu; Finnmörk er því Samaland. Finnar voru hins vegar kallaðir Kvenir, sem er afbökun úr finnsku orði, Kainulaiset. Sjálfir kalla Samar sig „Sápmi“, en ein beygingarmynd þess er „Sami“. Á miðöldum fóru Rússar og Finnar að kalla þá „Lappa“, sem er annaðhvort dregið af samnefndu svæði í Norður-Skandinavíu eða af þýzku orði sem þýðir bjálfi og var heimfært á Sama meðal þýzkra kaupmanna. Náttúra, kirkja, menntun og bókmenntaiðja Samalönd voru auðug af margs kyns nátt- úrugæðum. Skinn voru verðmæt, hvalbein og húðir, fiskur – og þar fannst járn: Kiruna og Gällivara eru kunnugleg nöfn úr landafræð- inni. Stjórnvöld beindu þegnum sínum ákaft í norðurátt, inn á lendur Sama, og krenktu rétt þeirra miskunnarlaust. Í stuttu máli má segja að afleiðingin hafi orðið sú að Samar hættu að elta villtar hreindýrahjarðir, þeim var útrýmt og eru þær nú einungis til í Suður-Noregi. Samar urðu hirðingjar á 17. öld og færðu sig um set með hjarðir sínar eftir því sem gaf til beitar. Áður áttu þeir tamda hreina til þess að lokka til sín villt dýr til veiða. Mörg beitilönd Sama hafa á þessari öld horfið undir uppi- stöðulón stórvirkjana. Kirkjan hafði áhrif á sögu Sama þegar á miðöldum, einkum þá sem næstir bjuggu ströndinni. Þar náði kirkjan fyrst tökum á landi og þjóð; um 1200 í Finnlandi, 1250 í Tromsø. Orthódoxakirkjan reisti klaustur í byggðum Sama í austurhéruðum Finnlands og rússneskum byggðum Sama. Samaland var eiginlega umkringt kirkjum. Enn munu þó til margvíslegir siðir úr gömlum átrúnaði. Samar í Svíþjóð byrjuðu að skrifa á 17. öld og síðar tóku norskir og finnskir Samar sér penna í hönd. Ellen Inga O. Hætta, deildarstjóri hjá Samaþinginu í Karasjok, ræðir um menntun Sama. „Þrátt fyrir hagstæða löggjöf erum við smám saman að tapa fótfestunni,“ segir hún og notar hugtakið „fornorskning“ um þá stefnu sem lifnaði með rómantísku stefnunni í Nor- egi, ein þjóð, eitt land; forsvenskning og -finskning heitir þetta handan landamæranna. Þeir sem töluðu samísku í norskum skólum voru með ýmsu móti neyddir til þess að tala norsku, t.d. leiddu kennarar þá hjá sér ef þeir spurðu á samísku. Nú er samíska á samískum svæðum nokkuð trygg frá leikskóla upp að og í framhaldsskóla. Samíska er þar kennslumál í tilteknum sveitarfélögum. Ný lög í Noregi um framhaldsnám á æðri skólastigum taka hins vegar af skarið með það að norska er kennslu- málið. Norska Samaþingið hefur áhrif á nám- skrá í samískum fræðum fyrir börn og ung- linga og fær fjárveitingar til þess að láta semja sérstakt efni. En þetta krefst líka sérstakrar fræðslu fyrir kennara. Öllum norskum börnum er kennt um lífsháttu Sama. Á fyrsta ári í framhaldsskóla á samískur nemandi rétt á 113 tíma kennslu í móðurmáli sínu. En á því er misbrestur; ef nemendur eru fáir fá þeir bara 60% tímanna. Vuokko Hirvonen frá Noregi ræðir um bók- menntir á samísku. Elztu samísku textarnir, „joik“, eru skráðir upp úr 1670. Flestir sam- ískir rithöfundar skrifa á norðursamísku, en Suðursamar, Austursamar og Lulesamar eiga líka rithöfunda. 1979 var rithöfundasamband Sama stofnað til að efla bókaútgáfu. Niels Aslak Valkenpaa fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1988 fyrir ljóðabókina Faðir minn, sólin, en sólin er kjarninn í goðafræði Sama og þeir eru synir hennar, hún er faðir þeirra. Samískir rithöfundar hafa opnað möguleika samískra myndlistarmanna á að koma list sinni á framfæri og þessi bók- menntaiðja hefur styrkt samíska sjálfsvitund, bókmenntirnar lýsa samfélagi Sama, styrkja hefðir þeirra og kynna margar þeirra fyrir yngri kynslóðum. Mýtólógían hefur öðlast nýtt líf. Nokkuð hefur verið þýtt á skandinavísk mál, meira heldur en á finnsku; samískar bók- menntir hafa líka verið þýddar á ensku, ítölsku o.fl. mál. Kynslóðaskipti eru framundan meðal rithöfunda, en erfitt verður fyrir yngstu kyn- slóðina að halda uppi merki þeirra sem senn leggja frá sér pennann. Fjölmiðlar og nafnavenjur John T. Solbakk ræddi um samíska fjölmiðla og samísku í fjölmiðlum. Samísk fjölmiðlasaga á rætur til 1872 þegar Samar sóttu fyrst um styrk og leyfi til þess að gefa út tímarit. Um- sókninni var hafnað. Menn vissu reyndar að Sama vantaði lesefni en úr því var ögn bætt 1873–75 þegar Muitalægje kom út á norður- samísku. 1899–1903 kom Sami usteb út, einnig á norðursamísku, það var mjög kristilega sinn- að og hafði þá stefnu að blanda sér ekki í stjórnmál. Í Svíþjóð kom út árin 1904–5 samískt blað á sænsku, 1919 hófu sænskir Samar útgáfu blaðs og frá 1980 hefur það að verulegu leyti verið á norðursamísku. Finnskir Samar ýttu úr vör árið 1934. Noregur: Sagai Muittalægje í ritstjórn Anders Larsens kom út 1904–11 og var lifandi málgagn. Síðan hafa Samar gefið út ýmis rit, ýmist á þjóðtungum eða samísku, einkum norðursamísku. Þetta eru fréttir, hvatningarorð, áróður. Samar voru með margvíslegu móti kúgaðir í málfarslegum efnum og blaðaútgáfan var nauðsynlegur þátt- ur í að halda uppi andófi og efna til gagn- sóknar. Saga Sama og mál þeirra voru einfald- lega ekki kennslugreinar; maður sem bar samískt nafn gat ekki eignazt jörð. Sámi Áigi kemur út tvisvar í viku í Karasjok, upplagið er um 1.000 eintök og barnablað kem- ur út tvisvar á ári. Annað blað kemur út tvisvar í viku í Kautokeino, einnig í 1.000 eintökum, Assu. Þessi tvö blöð fá styrk frá ríkinu sem nemur tæpum 8 milljónum norskra króna. Ságat er prentað á norsku í um 2.300 eintök- um; samísk blöð í Noregi eru því prentuð í um það bil 4.300 eintökum, tæpur helmingur á samísku. Joik er sérstök ljóðlist Sama, gjöf sólarinnar til barna sinna og blandin söng eða syngjandi. Harald Gaski, prófessor í Tromsø, kallar joikið „freistingu hugsunarinnar“ og þessvegna er það svo orðfátt. Mestur hluti söngsins er hikorð, la-la-la, na-na-na o.s.frv. Sumir joikar eru svo bundnir einstaklingum og ætt þeirra að aðrir skilja ekki neitt af því ef lykilorðið í textanum er þeim framandi. Marg- ir einstaklingar eiga joik sem er bundinn þeim og heiðursvottur þegar aðrir syngja hann. Vindurinn á líka joik, björninn og örninn, sólin og jörðin. Joik er einkar persónulegur tjáning- armáti og var bannað eftir að kristni náði fót- festu vegna þess að kristnir menn tengdu það seiðskröttum sem joikuðu til þess að falla í trans. Ég hitti mann sem rekinn var til skóla- stjóra fyrir um það bil tíu árum fyrir að joika í skólanum. Joikar eru bæði epískir og lýriskir, sumir með nokkurn texta. Joikar með ástar- orðum í rómantískum anda eru til fyrir daga rómantíkur suður í Evrópu. Samískar nafnvenjur eru sérstakar. Menn heita einu nafni, en framan við það koma nöfn eldri ættliða, tveggja eða þriggja, og geta verið bæði úr karl- og kvenlegg. Elsa Jóhann Har- aldur gæti verið íslenzk samsvörun, Jóhann væri þá t.d. nafn afa, en Elsa væri langamma. Brúðhjún í Karasjok. Samar búa sig mjög skrautlega upp á við margvísleg tækifæri og kunnugir sjá á búningnum hvaðan fólk kemur. Tuomas Magga, samískur fræðimaður og einn skipuleggj- andi ráðstefnunnar, sagði að Samar vildu búa sig skrautlega því að lengst af ári væri lítil litadýrð í heimkynnum þeirra svo þeir vildu skera sig úr. Höfundur er skólameistari Ármúlaskóla. „Samískir rithöf- undar hafa opnað möguleika samískra myndlistarmanna á að koma list sinni á framfæri og þessi bókmenntaiðja hefur styrkt samíska sjálfs- vitund.“ Heyr þú blíðust himnadrottning, harma minna sárust orðin. Herleidd var ég úr húsi föður, heft í skipi og seld á torgi. Grét ég sáran móður mína, myrta og brennda af vondum mönnum. Bræður sjö og systur fjórar, svo hvarf mér allt heimsins yndi. Huggun veit mér himna brúður, í hérvist minni í þessum heimi. Þola má ég þrautir margar, þrældóm, einsemd, fjarri vinum. Þá er ég er þrotin kröftum, þreytt ég geng til kirkju nýrrar. Tendra ljósin tíu og átta, tóna fagra nem með eyrum. Augum lít ég mildrar móður, Maríu svip á fleti gljáðum. Á róðukrossi ristur sárum, röðull himna, Kristur sjálfur, herrans son og helgrar meyjar, heimsins von og björgun manna. Til auglits þíns og þinnar móður, þráfaldlega augum renni, bænir þyl og brjóstið kramið, bið að lækna af mildum hætti. Kór Himinn, jörð og grænargrundir, grös og fiskar, sem lömb í haga. Börnin smá sem björg og steinar, bjarkir, rósir, mosi og fuglar. Hafið blátt og heiðar stjörnur himnadrottning, lof þér syngja. Hjúkrun smáðra, helgust meyja, huggar oss uns dauðinn sækir. VILBORG AUÐUR ÍSLEIFSDÓTTIR Höfundur er sagnfræðingur. Kvæðið er hluti texta við kristnitökukantötu Austurrík- ismannsins Helmuts Neumanns, sem frum- flutt var í Vínarborg í fyrri viku. MARÍU- KVÆÐI HERLEIDDR- AR KONU Þeir sitja á hápalli salarkynna og svitna af gáfnahrolli. Og hlusta á áhrif orða sinna í andlega dauðum polli ! Því kraftinn vantar í æðar allar, þar ólgar ei lengur blóð. Og innan bæði og utan vallar er einleikin hrokaslóð ! Í sjálfsánægju þeir sitja glaðir og svara spurningaglás. Og verða svo ósköp uppveðraðir ef allt er á sömu rás! Þeir hagræða seglum í sveiflum tíða, og sýna þar matið snjallt. En skyldi menningin skaða bíða ef skraf þeirra týndist allt? RÚNAR KRISTJÁNSSON Höfundurinn er skáld á Skagaströnd. MENNING- ARVITARNIR

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.