Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. FEBRÚAR 2001 3 Í LESBÓK hefur undirritaður áður rabbað um móðurmálið og þá ekki síst ísmeygileg áhrif enskunnar á íslenska tungu nú um stundir. Þetta er óþrjótandi umræðuefni þeim sem láta sig viðgang tung- unnar varða. Morgunblaðið birti einkar at- hyglisverða grein um miðjan janúar um erlend fyrirtækjaheiti á Íslandi og ensk orð – heilu setningarnar í auglýsingum. Þetta var lofsvert framtak og raunar er Morgunblaðið sá fjölmiðill íslenskur sem helst verður sagt að standi vörð um tung- una þótt þar skjótist mönnum auðvitað stöku sinnum. Það hendir okkur öll. Hjá því verður seint komist. Sá voldugi fjöl- miðill Ríkisútvarpið á lögum samkvæmt að leggja rækt við íslenska tungu. Þótt þar á bæ sé margur maðurinn vel máli farinn eiga of margir bögubósar og ambögusmiðir greiða leið að hljóð- nemanum og þar með eyrum landsmanna. Í þessu sama tölublaði Morgunblaðsins þar sem fjallað var um ensku í auglýs- ingum þurfti ekki að fletta lengi áður en komið var að heilsíðuauglýsingu um ferð- ir til Suður-Afríku. Þar stóð á miðri síðu: „Explore South Africa“ og tvítekið til aukinnar áherslu. Vandalítið hefði ferða- skrifstofunni verið að íslenska þetta og segja: „Kannið Suður-Afríku“ eða „Kynn- ist Suður-Afríku“. Nei, enska skyldi það vera. Ferðaskrifstofa sem heitir „Prima hf.“ og auglýsir undir orðunum „World Club“ getur sjálfsagt ekki verið þekkt fyrir að nota eingöngu íslensku. Það er sennilega ekki nógu heimsborgaralegt. Áfram var Morgunblaðinu flett þennan laugardagsmorgun uns kom að viðhorfs- grein Kristjáns G. Arngrímssonar undir fyrirsögninni „Undir vök að verjast“. Eft- ir lesturinn fannst mér tvennt sitja eftir sem höfundurinn vildi koma á framfæri: Í fyrsta lagi hvort ekki sé nú rétt að „áherslan á skiljanleika fari að þyngjast og minna veður sé gert út af því hvort kórrétt sé farið með máltæki og eitt eða tvö enn“. Í öðru lagi : „. . . hvort ástæða sé til að alltaf sé hangið í því að beygingarreglum sé fylgt“. Þetta er auðvitað viðhorf, en ekki get ég sagt að mér sé það að skapi. Sé þess- um sjónarmiðum fylgt eftir gefur það augaleið að verulega má draga úr ís- lenskukennslu í skólum og kannski hætta henni alveg. Það skiptir ekki máli hvernig menn tala eða skrifa – ef það skilst þá er allt í lagi. Þá mætti auðvitað hugsa sér að nota þann tíma sem sparast í skólunum til að kenna meiri ensku – eða hvað? Þetta finnst mér háskalegur hugs- unarháttur. Ég heyrði á dögunum þegar sagt var í útvarpi eða sjónvarpi „undir vök að verj- ast“ og þangað er fyrirsögn greinar Kristjáns sótt. Þar var auðvitað ruglað saman tveimur orðtökum, að „eiga undir högg að sækja“ og „eiga í vök að verjast“. Síðarnefnda orðtakið er einkar gagnsætt og auðskiljanlegt – það er að segja ef menn vita hvað vök er. Kannski þekkti fréttamaðurinn ekki orðið vök og þá er honum auðvitað nokkur vorkunn með tveimur ennum (einkunn, miskunn, for- kunn og vorkunn – tvö enn, en það á kannski eftir að hætta að skipta máli!). Raunar er „undir vök að verjast“ óskilj- anlegt vegna þess að merkingarlega er það rökleysa og rugl. Þess sjást merki að ýmsir kunna ekki lengur einföldustu málfræðireglur og beygingar. „Efnahagur landsins hefur hnignað.“ „Laus störf á Landsspítali – háskóla- sjúkrahús.“ „Það er skömm að því hvað hún hefur litla fjármuni úr að spila.“ „Sjáið þið fyrir hvenær þessu fer að lægja aftur?“ „Hnoðmörinn bættur út í.“ „Starfsmenn dýragarðarins.“ „Verulegt magn af laxi í kvíunum var dauður.“ Þetta eru ekki skálduð dæmi. Þetta eru raunveruleg dæmi úr blöðum og ljós- vakamiðlum. Og: „létt verk og löð- urmannlegt að bregðast við þessu . . .“ var sagt um framkvæmd á dómi Hæsta- réttar í máli Öryrkjabandalagsins. „Fengum vinnu við að breiða út saltfiski.“ „Safna fyrir krabbameinssjúkum börn- um.“ „Verði ekki orðið að kröfum . . .“ „Kristjana er kvænt fjögurra barna móð- ir . . .“ Þetta eru líka raunveruleg dæmi. Það er því miður af nógu að taka. Talsmaður Landssímans komst þannig að orði á dögunum, þegar bilun varð í Múlastöð og símasambandslaust í stórum hluta Reykjavíkur, að Múlastöðin hefði „farið niður“ og þegar rætt var um fyrri bilun þá „fór Orkuveita Reykjavíkur út“. Sjálfsagt hafa margir skilið hvað átt var við (einkum þeir sem kunna eitthvað í ensku), en vart er hægt að segja að vel hafi verið komist að orði. Það hvarflaði aðeins að mér að aka nú Suðurlands- brautina og athuga hvort Múlastöðin væri „farin niður“ eða stæði enn. En þetta er náttúrulega útúrsnúningur. Í kristilegu útvarpsstöðinni sem út- varpar úr „Rokkvill“ (Steinagerði?) á Miðnesheiði heyrist stundum í predikara sem talar um að díla við Guð og díla við vandamál og díla yfirleitt við allt á himni og jörðu og að ekki dugi neitt hálfkák- kristíanití! Oftar en einu sinni hefur sá hinn sami látið að því liggja hvað enskan sé í rauninni miklu betra mál en íslensk- an. Til dæmis sé í enskri útgáfu Biblíunn- ar talað um úlfa en í sama versi í íslensku Biblíunni væri talað um varga! „Sjálfs hans æfi’ er álík varga,/ einn sér verður hann að bjarga,“ kvað Grímur Thomsen um Arnljót Gellini. Þessi annars ágæta útvarpsstöð á að „efla íslenska tungu“ eins og segir í útvarpslögum en útvarpar langtímum saman á ensku. Nú má vera að einhverjum þyki það smámunasemi að vera að jagast í því hvernig er talað og skrifað í fjölmiðlum. Unnendur íslenskrar tungu, og sá sem þetta skrifar telur sig í þeirra hópi, taka það óstinnt upp þegar móðurmálinu er misþyrmt. Kannski er þetta íhaldssemi og viðkvæmni en það verður þá að hafa það. Einhver verður að vera í andófinu og ekki má láta reka á reiðanum. Og þegar haldið var áfram að fletta títtnefndu Morgunblaði kom að eitt þús- und nítugasta og öðrum þætti vöku- mannsins Gísla Jónssonar um íslenskt mál. Hafi hann heiður og sóma af því and- ófi sem hann heldur þar uppi gegn ambögum og aulaskap í málnotkun og málfari. ES. Er það ekki íhugunarefni hvort ís- lenskukennsla í skólakerfinu er í réttu horfi þegar í spurningakeppni framhalds- skólanna kemur í ljós að enginn þekkir Gunnarshólma (náttúrulýsing kvæðisins talin úr Norður-Múlasýslu!), enginn veit hver orti Ferðalok og enginn þekkir eitt kunnasta kvæði Gríms Thomsen um Goð- mund á Glæsivöllum? Það hlýtur að vera unnendum íslenskra bókmennta og menn- ingararfsins nokkurt umhugsunarefni. MÚLASTÖÐIN FÓR NIÐUR OG ORKUVEITAN ÚT RABB E I Ð U R G U Ð N A S O N STEFÁN ÓLAFSSON HEIMSÁDEILA (BROT) Þessi öld er undarlig, allir góðir menn um sig ugga mega að mestu illir taka yfirráð, að því hef eg um stundir gáð að þeim er fylgt í flestu. Fer eg með efnið undarlegt. Ef þér girnist nokkuð frekt manna fylgi að fanga, þá skal hann ekki óttast guð og ekki stunda hans heilög boð, heldur rækja hið ranga. Þingheimurinn þýtur upp, þegar hann sér Belzebub dýrkaður er af einum, aðhyllast og elska hann, einnig verja, hver sem kann, bæði í ljósi og leynum. Stefán Ólafsson var sautjándu aldar skáld og fornfræðingur. Ásamt Hallgrími Péturssyni er hann talinn eitt af helstu skáldum aldarinnar. Heimsádeila er með- al þekktustu kvæða Stefáns en háðið lá vel fyrir honum. Steðji sögunnar og hið ó-sögulega nefnist seinni grein Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur um skáldsögu breska rithöfundarins Angelu Carter, „Nætur í fjöl- leikahúsi“. Í greininni er fjallað um óvenju- lega sögusýn höfundarins sem miðar að því að afhjúpa afstæði raunveruleikans. Skálinn á Keldum er talinn vera eina miðaldabyggingin á Ís- landi, langelsta hús landsins. Gísli Sigurðs- son fjallar um skálann og jarðgöngin sem liggja frá honum en þau eru talin vera elsta mannvirki á landinu. FORSÍÐUMYNDIN Regnbogi yfir Reykjavík. Ljósmyndari: Ásdís Ásgeirsdóttir. LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 5 . T Ö L U B L A Ð - 7 6 . Á R G A N G U R Böðlar í sögn og sögu nefnist grein eftir Matthías Viðar Sæmundsson um íslenska „böðuls ætt“ fyrr á tímum sem sáralítið er vitað um þótt hún hafi tekið á sig allmótaða mynd í munnmælum og skáldskap seinni tíma. Ólafur Elíasson sýnir nú verk sín í Nútímalistasafninu í Boston. Hulda Stefánsdóttir skoðaði sýn- inguna með listamanninum sem segir að án áhorfandans séu listaverk ekki til.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.