Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. FEBRÚAR 2001 5 „óærlegur“ maður. Lögmenn svöruðu því til að þeim virtist til eiga að takast „duglegur og ær- legur maður“ í böðulsembætti. Megi þó gera undantekningu ef sýslumenn fái öngvan slíkan til verksins. Síðan segir: „En þó skyldu sýslu- menn athuga, að þeir taki ei til þess embættis líflausa eða upphengjandi þjófa, því svo stend- ur í lögbók vorri, að sýslumaður skuli fá mann fyrir sig.“5 Þessi úrskurður stangast á við aðr- ar heimildir sem benda til að ærulausir menn hafi yfirleitt skipað „böðuls stétt“ enda fengust fáir aðrir til starfsins. Kemur það skýrt fram í nokkru eldri heimild, dómi á Berufjarðarþingi 2. maí 1636, þar sem Magnús Arason sýslu- maður bar af sér róg prests nokkurs með eft- irfarandi hætti: „Sú er hin 28. rógsök og hljóð- ar svo, þú undir mitt yfirvald borið hefur, að eg hafi látið fátækan mann sverja sig í böðuls stétt og þrengt honum þar til með járnum á höndum og fótum. Hér á móti kom fram meðkenning Ólafs Jörundssonar, sem ljúflega segist hafa játað og ótilneyddur gengið undir böðuls emb- ætti, fyrir fjölmæli og afrækni sinnar sálu- hjálpar. Þetta vottað með undirskriptum ær- legra manna, sem segjast sig heyrt hafa, hann þessu ótilneyddan játa.“6 Böðullinn var eftir lögum fulltrúi eða staðgengill sýslumanns, um- boðsmanns konungs, en samt er sem svívirða hins dæmda hafi náð til hans. Því er líkast sem hann hafi flekkast af verki sínu. Vera má að böðulsembættið hafi verið hlaðið forneskju um bannhelgi og saurgun, að brotamenn, þjófar og morðingjar, hafi verið óhreinir á einhvern hátt að mati fólks. Sé það rétt hefur sá sem tók þá af lífi hreinsað hrylling afbrotsins af samfélaginu en smitast af honum um leið, stigið inn í heim sem ekki varð aftur úr komist. Óljóst er hversu sterkar þessar hugmyndir voru hérlendis en víst er að böðullinn var afar óþokkasæll, einkum væri hann vanhæfur eða klaufalegur við starf sitt því í slíkum tilfellum voru siðvenjur aftökunnar brotnar. „Einvígið“ tók á sig mynd sóðalegs níðingsverks þar sem engum reglum var fylgt. Í íslenskum heimild- um eru nokkur dæmi til um skeifhögga böðla sem juku úr öllu hófi sársauka hins dæmda. Í Skarðsárannál er aftöku hórdómsseks manns á alþingi 1602 lýst á eftirfarandi hátt: „Jón böð- ull, er höggva skyldi, var þá orðinn gamall og slæmur og krassaði í höggunum, en Björn lá kyr á grúfu, og þá sex höggin voru komin, leit Björn við og mælti: Höggðu betur maður! Lá hann svo grafkyr, en sá slæmi skálkur krassaði ein 30 högg, áður af fór höfuðið, og var það hryggilegt að sjá. Voru áminningar gerðar yf- irvöldunum þeim veraldlegu, að hafa örugga menn til slíks embættis, svo landið yrði ekki að spotti í þeirri grein.“7 Ástandið var ekki skárra 48 árum síðar, á alþingi 1650, en þá var hrepps- stjóri úr Árnessýslu, Guðmundur Narfason frá Kílhrauni, tekinn af lífi fyrir að hafa skorið konu sína á háls að næturlagi.8 Var hann líflát- inn með þeim hætti að fyrst voru bein brotin í útlimum hans og höfuðið að því búnu höggvið af honum og sett á háan stjaka á barmi Al- mannagjár. Gekk hann glaður til sinnar pínu, samkvæmt Seiluannál, bað guð og menn fyr- irgefningar, gagnstætt Jóni Sýjusyni, sem einnig var kallaður Ríðumaður, en hann með- gekk ekki og var harðsvíraður fram í andlátið. Í Seiluannál stendur skrifað: „Var margt talað, að á honum dauðum hefðu fundizt rúnastafir í skónum á eikarspjaldi og hárguð hausskel af manni; varð ei krassað af honum höfuðið í þrjá- tíu höggum, vöfðust öxarnar upp sem í stein hyggi; dó illa.“9 Í Vallholtsannál er sagt að hausskelin hafi verið rist rúnum, Jón hafi verið grafinn en viljað ganga aftur, „tekinn svo og brenndur“.10 Loks var konu nokkurri, stjúp- dóttur Jóns Ríðumanns, drekkt þar á þinginu fyrir barneign með stjúpa sínum. Er hún nefnd „sú vandræðaskepna Sigríður Einarsdóttir“ í alþingisbókum.11 Þrautadómur Guðmundar Narfasonar sýnir hvers konar réttarfar var í uppsiglingu hér- lendis. Örlög hans kunna að vekja hrylling, tal um ógnarlega harðneskjugrimmd, en höfum hugfast að á aftökustaðnum opnuðust mæri hins tímanlega, eða með orðum fransks fræði- manns: „Elífðarleikurinn er þegar hafinn. Kvalræði aftökunnar boðar tyftanir handan- heimsins, sýnir í hverju þær eru fólgnar. Þetta er leikhús helvítis; sársaukavein hins for- dæmda manns, stríð hans, blót og ragn vísa á óbætanlegt hlutskipti hans. En einnig má virða kvalirnar hérnamegin sem yfirbót er linað get- ur kárínurnar fyrir handan: Guð mun ekki hliðra sér hjá því að taka slíkt píslarvætti til greina sé undir það gengist með æðruleysi. Grimmd jarðneskra tyftana verður dregin frá þrautinni sem í vændum er; í henni má greina fyrirheiti fyrirgefningar.“12 Af þessum sökum þótti nauðsynlegt að dauðamaðurinn lýsti sekt sinni, játaði glæp sinn fyrir allra sjónum, því aftökustundin var augnablik sannleikans. Játningin staðfesti sannindi glæps og dóms í kvalræði hins sakfellda. Fátt virðist hafa breyst til batnaðar, þrátt fyrir hneykslan fólks árið 1602, ef dæma skal eftir síðustu aftöku á Austfjörðum árið 1790, en frá henni verður greint síðar. Saga íslenskra dauðarefsinga lýsir oft og tíðum iðrunarleysi á dauðastund, klaufsku og handahófskenndu valdi sem hlaut háðulega útreið í sögnum og sögum; Jón böðull og Jón Sýjuson birtast okk- ur hvað eftir annað undir nýjum nöfnum á sautjándu og átjándu öld. Æruleysi og syndaskuld Böðulsembættið festist ekki í sessi í Evrópu fyrr en með vexti borgarsamfélags á síðari hluta miðalda. Þá fyrst var ákveðnum einstak- lingum falið að sjá um fullnustu líkamlegra refsinga – og blóðstokkin óhugnaðarmynd böð- ulsins verður til, þegar ættasamfélagið er að líða undir lok. Þetta gerðist ekki í einu vetfangi enda hafa hugmyndir um ópersónulegt refsi- vald átt erfitt uppdráttar, auk þess sem fólki bauð frá fyrstu tíð við embætti böðulsins. Lög bæjanna kváðu á um flóknari og strangari lík- amsrefsingar en áður þekktust, taldi Hugo Matthiessen (1910), en kúgun kallar á mót- stöðu sína, og vonir yfirvalda um að unnt væri að eyða hinu illa með svellkaldri refsihörku, af- tökum og limlestingum, reyndust haldlausar því fólk varð fljótt ónæmt fyrir hryllingnum. „Böðullinn er tjáning þessarar samfélagslegu baráttu,“ ritaði Matthiessen. „Innreið hans í menningarsöguna hefur svip af byltingu því í skarpri mótsögn við sjálftekt ættanna og ein- staklinganna stígur hann fram harður og grófur sem fulltrúi samfélags er vildi fram- fylgja lögum út í æsar þeirra sjálfra vegna.“13 Merking hans tók hins vegar nokkrum breyt- ingum í tímans rás. Þegar böðulsstéttin mynd- ast í þýskum verslunarbæjum þrettándu og fjórtándu aldar þá er víða litið á böðla sem ber- synduga vesalinga er vöktu samúð vegna síns hryggilega hlutskiptis. Blóðdómarnir komu í fang þeirra einna, hins ábyrgðarlausa verkfær- is, dundu á þeim sem óafmáanleg syndaskuld, þótt þeir væru framkvæmdir í nafni og fyrir boð yfirvalda. „Þungur af blóði stóð böðullinn í augum almúgans, sem þverbrotinn syndari er gat aðeins með strangri iðrun og yfirbót gert sér vonir um að hljóta náð og komast undan eldum helvítis.“14 Óvíst er hvort þessi skilningur á böðlinum og embætti hans hefur fest rætur á Norðurlönd- um, en undir lok miðalda mun hann hafa vikið fyrir hugmyndum um að böðullinn væri pest- arbrunnur sem fólk óttaðist og leit til með hræðslublöndnu ógeði. Erfitt er að skýra þetta til hlítar en líklegt er að pestnæmið tengist skiptum böðuls við afbrotamenn, einkum þjófa, sem töldust óhreinir frá fornu fari. Hinn æru- lausi þjófur var uppspretta sýkingar því hann saurgaði með návist sinni böðulinn og gálgann sem aftur smitaði böðulinn er sýkti afbrota- manninn enn frekar. Æruleysið magnaðist því á aftökustaðnum; allt var gegnsýrt því í heimi böðulsins: gálginn, kaginn, tól hans og ólar, hinn dæmdi og hann sjálfur. Embætti evr- ópskra böðla tengdist ennfremur soraverkum af ýmsu tagi, því auk aftakna, hýðinga og lim- lestinga sáu þeir oft um hreinsun sorps og hræja, dráp meindýra, greftrun sjálfsmorð- ingja og handtöku vitfirringa. Staða hans var slík innan samfélagsins að honum var ekki einu sinni unnt legstaðar í vígðri mold eftir dauð- ann, eins og Matthiessen hefur rakið mörg dæmi um. Smitandi daun lagði af persónu hans, líkt og væri hann holdsveikur; allt sem hann snerti á skemmdist að dómi fólks. Þetta viðhorf hefur ríkt á sautjándu og átjándu öld, til dæmis í Danmörku, enda átti æruleysið átti sér langar taugar frá fornu fari og náði jafnt til böðulsins, fjölskyldu hans og þjónustufólks; það lak líkt og eiturvilsa um alla hans ætt og gerði hana að samansafni úrþvætta sem öllu ærlegu fólki bauð við. Þetta viðhorf mun ekki hafa breyst á sautjándu öld þrátt fyrir opinber boð sem ætlað var að efla vegsemd böðla. Fólk vildi hvorki bera þá til grafar, hjálpa konum þeirra í barnsnauð né taka afkvæmi þeirra til náms eða þjónustu. Þetta var útskúfuð stétt. Þar með er sagan ekki öll því þótt böðullinn teldist óhrein vera, þá komst samfélagið ekki af án liðsinnis hans. Böðullinn var fram á átjándu öld mikilvægur embættismaður í borg- um og bæjum Norður-Evrópu, enda útnefndu yfirvöld hann með formlegum hætti auk þess sem hann sór hátíðlegan embættiseið svo sem fyrr er getið. Böðulsembættið bauð einnig upp á góðar tekjur, til dæmis í Danmörku, því greitt var fyrir hverja aftöku auk fastra launa á sextándu og sautjándu öld. Mun böðullinn í Ribe hafa verið launahæstur böðla í Danaveldi því árið 1585 fékk hann einn dal fyrir sverðs- högg og hengingu, hálfan dal fyrir húðstrýk- ingu og eyrnaskurð, einn og hálfan dal fyrir eldsbruna og loks tvo dali fyrir stagl og hjól. Böðulskaupið mun hafa stigið eftir þetta því árið 1612 gáfu yfirvöld í Kaupmannahöfn út nýjan taxta þar sem kveðið var á um tveggja dala þóknun fyrir hálshöggningu. Heimilað var að greiða einn dal til viðbótar þyrfti að leggja hinn höggna á hjól, fjóra dali fyrir hjólbrot og sundurpörtun, tvo dali fyrir hengingu þjófs og fjóra dali fyrir brennu nornar eða galdra- manns. Hálfur dalur var greiddur aukreitis fyrir píningar. Auk alls þessa naut böðullinn fastra árslauna, 24 dala, sem þótti gott miðað við laun annarra embættismanna. Á Helsingja- eyri hafði böðullinn árið 1580 48 merkur í fast- ar árstekjur en kennarar latínuskólans fengu aðeins 40 merkur hvor.15 Þetta tvöfalda launa- kerfi skapaði böðlinum sterka stöðu innan bæj- arsamfélagsins þótt persóna hans væri umvaf- in andstyggð, sora og saurgun sem fyrr er getið. Heimildir: 1 Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. I. Sögufélag: Reykjavík 1918–20. 2 Halldór Laxness: Íslandsklukkan. Vaka-Helgafell, Reykjavík, 1999 [1943–1946]. 3 Michel Foucault: Surveiller et punir: Naissance de la prison. Éditions Gallimard: París 1975. 4 Tekið skal fram að böðlar voru oft drepnir erlendis þegar þeim mistókst verk sitt, til dæmis í Þýskalandi, á Helsingjaeyri og í Svíþjóð. Ræða má um einhvers konar alþýðuréttlæti, þegar hatur fólks, ógeðið og bölvunin, dundi á böðlinum líkt og hann einn bæri ábyrgð á því sem gerst hafði. Hámenntaðir lögmenn lofuðu pyndingar í ræðu og riti, virðulegir dómarar kváðu upp sæg dauðadóma, en blóðþorsti almennings beindist gegn böðlinum einum (Hugo Matthiessen: Böddel og Galgefugl. Et kulturhistorisk Forsög. Gyldendalske Boghandel, Nordisk Forlag, Kaup- mannahöfn, 1910). 5 Alþingisbækur Íslands VI. Sögufélag, Reykjavík, 1933–1940. 6 Alþingisbækur Íslands V, 1922, 1925–1932. 7 [Skarðsárannáll] Annálar 1400–1800 I, 2. Hið ís- lenzka bókmenntafélag, Reykjavík, 1923. 8 Alþingisbækur Íslands VI, 1933–1940. 9 [Seiluannáll] Annálar 1400–1800 I, 3, 1924. 10 [Vallholtsannáll] Annálar 1400–1800, I, 4, 1925. Samskonar frásögn er í Eyrarannál (Ann. 1400–1800, III, 3, 1935), en Seiluannáll er líklega frumheimild í báðum tilvikum. 11 Alþingisbækur Íslands VI, 1933–1940. 12 Michel Foucault, 1975. 13 Hugo Matthiessen, 1910. 14 Sama heimild. 15 Hugo Matthiessen, 1910 „En þó skyldu sýslumenn athuga, að þeir taki ei til þess embættis líflausa eða upphengjandi þjófa, því svo stendur í lögbók vorri, að sýslumaður skuli fá mann fyrir sig.“ „Elífðarleikurinn er þegar hafinn. Kvalræði aftökunnar boðar tyftanir handanheimsins, sýnir í hverju þær eru fólgnar. Þetta er leikhús helvítis; sársaukavein hins fordæmda manns, stríð hans, blót og ragn vísa á óbætanlegt hlutskipti hans.“ Höfundur er dósent í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. „Jón böðull, er höggva skyldi, var þá orðinn gamall og slæmur og krassaði í höggunum, en Björn lá kyr á grúfu, og þá sex höggin voru kom- in, leit Björn við og mælti: Höggðu betur maður! Lá hann svo grafkyr, en sá slæmi skálkur krassaði ein 30 högg...“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.