Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. FEBRÚAR 2001 Þ AÐ eina sem þú getur reitt þig á er tíminn“ eða „Your only real thing is time“ er yfirskrift sýningar Ólafs Elíassonar sem opnuð var í síðustu viku í Nú- tímalistasafninu, Institute of Contemporary Art, í Boston. Þó er það svo að við að skoða innsetningar, skúlptúra og ljósmyndaverka Ólafs sækir að manni efi um að þessi fullyrð- ing standist. Oftar en ekki leikur listamað- urinn sér að hugtaki tímans og ýmist þjapp- ar honum saman, s.s. í verkinu 360-gráðu væntingar, innsetningu með ljósi sem rennur sem sporbaugur um hringlaga rými, eða frystir augnablikið eins og í röð ljósmynda af falli Markarfljóts. Það kemur hins vegar ekki á óvart að tímahugtakið skuli vera Ólafi hugleikið þar sem hann er önnum kafinn um þessar mund- ir. Frá Boston lá leiðin um Ísland til Austur- ríkis þar sem opnuð verður sýning á verkum hans í mars, sýning sem hann hefur unnið að í eitt ár og verður þrefalt stærri en sú sem nú er uppi í Boston. „Tíminn verður mér sífellt mikilvægari, því ég hef svo lítið af honum,“ segir Ólafur. „Í framhaldinu velti ég því svo fyrir mér hvað tími sé, hvernig honum sé best varið og hvernig tíma er glatað.“ Af 7 verkum á þess- ari sýningu í Boston er að finna tvær nýjar innsetningar auk eldri verka og tveggja ljós- myndasería frá Íslandi. Sýningin er styrkt af Íslenskri erfðagreiningu og í tilefni hennar var unnin heimildarmynd um verk Ólafs sem sýnd er samhliða í safninu. Þá var gefin út sýningarskrá þar sem m.a. er að finna ít- arlegt viðtal sýningarstjóra safnsins, Jessicu Morgan, við listamanninn. Í tengslum við sýninguna var Ólafi boðið að vinna umhverfisverk sem hluta sérstaks verkefnis á vegum Nútímalistasafnsins. Sá viðburður á sér stað á vordögum þegar Ólaf- ur hyggst ferja „hluta af Íslandi“, eins og hann kemst að orði; íslenskum jarðvegi, vikri og hrauni, á báti eftir ánni sem rennur um Boston. Ólíkar útfærslur hringformsins Sporbaugur, gárur á vatnsborði og augað – þetta óendanlega form hringsins – kemur endurtekið fyrir í verkum á sýningunni. Gengið er inn í forsal safnsins og við blasir hringlaga spegill á vegg, sem færist örlítið fram og aftur, og skekkir með því mynd sína. Hljóðin frá pumpunni á gólfinu minna á andardrátt. Spegillinn verður eins og sjáaldur augans sem horfir til baka til áhorfandans. Í stórum sal þar fyrir innan er aðeins að finna eitt verk, hið elsta á sýningunni. Járnhringur er festur á vegg, alsettur göt- um sem spúa bláum gaslogum í myrkrinu. Engar nætur á sumrin, engir dagar að vetri nefnist þetta verk frá 1994. Stigi upp á aðra hæð safnsins er umlukinn stálrörum og festingum. Þetta reynist bak- hlið annarrar af tveimur nýjum innsetning- um Ólafs á sýningunni og strúktúrinn til þess gerður að bera uppi falskt gólf salarins, sem lyft hefur verið upp í hæð stigahandriðs- ins. Komið er upp á lítinn pall en meirihluti gólfrýmisins er hulinn vatni. Margfaldir baugar neonljósa blikka í loftinu í innanverð- um salnum og endurspeglast á yfirborði vatnsins í verkinu Neongárur. Leiðin liggur niður í næsta sal þar sem sett hefur verið upp hringlaga rými utan um verkið 360- gráður væntingar. Fyrir tilstilli halógenperu og linsu sem snýst hægt um ljósið varpar litaprisman baug um rýmið sem hreyfist eins og sporbaugur um tungl þessa einfalda standlampa. Utan við salinn er verkið Fimm- falt auga frá síðasta ári, vafningslaga stál- strúktúr sem liggur um hringlaga form speg- ils á veggnum. Verkum þessum spilar listamaðurinn sam- an ásamt tveimur ljósmyndaseríum. Annars vegar hefur hann fylgt eftir úr lofti öfugu rennsli Markarfljóts allt að upptökum þess og hins vegar hefur hann orðið sér út um svarthvítar ljósmyndir sem kortleggja sömu- leiðis ána úr lofti en nú frá upptökum í Neðri Emstru og út að sjó. Hvorut tveggja lýsir hann sem æfingum í fjarvíddarskynjun aug- ans. Upplifun áhorfandans er verkunum allt Ólafur segist hafa gaman af því að spila saman eldri og nýjum verkum og skoða sam- spil þeirra út frá ólíkum sjónarhornum. Í öll- um tilvikum leggur hann ríka áherslu á að verkin séu ekki fullunnin, búi ekki yfir neinni merkingu, nema fyrir upplifun áhorfandans. Hugmynd sem rekja má aftur til fyr- irbærafræði í heimspeki 16. aldar, einkum Husserls, og kenninga hans um tímann sem hugtak bundið persónunni og óháð umhverfi hennar. Spurningin um skynjun og veru- leika. „Hlutverk áhorfandans verður mun skýr- ara í tónsköpun þar sem upplifun áheyrenda er nauðsynleg staðfesting á tilvist verksins,“ segir Ólafur. „Ég vil meina að það sama eigi við um myndlist, að án áhorfandans sé verkið ekki til. Það má því í raun segja að ég sé að vinna með þetta bil milli áhorfandans og verksins. Fjarlægðina þar á milli.“ Þegar lesnar eru greinar um verk Ólafs Elíassonar er gjarnan gert mikið úr nátt- úrutilvísunum verkanna og notast við lýsing- arorð eins og „dulúðug“ og „mikilfengleg“. Svo er á listamanninum að heyra að þetta sé langt frá því að vera það sem fyrir honum vakir. „Þetta var hræðilegt til að byrja með, en það hefur dregið úr þessu,“ segir Ólafur. „Mér finnst eins og viðhorf fólks til mynd- listar almennt hafi breyst. Það hefur dregið úr þessari þörf til að alhæfa og komast að skotheldri niðurstöðu. Verkunum mínum er tekið með opnara og afslappaðara hugarfari en áður. Kannski hef ég líka lært af þessum fyrstu viðbrögðum og breytt framsetningu verkanna að einhverju leyti.“ Framsetning Ólafs á fyrirbærum náttúrunnar; regni, þoku, sólsetri, regnboga, endurspeglun vatnsborðsins og gárum þess, eru með þeim hætti að þau eru í senn auðskilin áhorfand- anum, stundum hlægilega einföld í framsetn- ingu, en um leið undarlega áhrifamikil þegar best lætur. Þessi augljósi tilbúningur verk- anna, sviðsetning þar sem jafnframt glittir í baksviðið, er lykilatriði og ýtir undir meðvit- und áhorfandans um þá blekkingu sem á sér stað. „Þú ert ekki bara að horfa á eða upplifa verkið heldur ertu líka að upplifa sjálfan þig upplifa verkið,“ segir Ólafur. Náttúra norð- ursins verður því eins og miðill til þess að hreyfa við vitund áhorfandans, vekja hann til umhugsunar um upplifanir sínar. Þegar vitneskja og skynjun verða eitt „Það er enginn raunveruleiki til,“ segir Ólafur. „Aðeins tími sem er eitt samfellt nú, því það er sama hverjar upplifanir þínar hafa verið í fortíð eða verða í framtíð, þú upplifir aðeins í núinu.“ Með þessum hætti leggur hann út frá titli sýningarinnar „Your only real thing is time,“ sem skilja má sem skila- boð listamannsins til áhorfandans. Tilvísun- arfornafnið „þú“ kemur gjarnan fyrir í titlum sýninga Ólafs, s.s. eins og í þeirri sem haldin var í Galleríi Bonakdar Jancou í New York fyrr í vetur undir yfirskriftinni „Your now is my surroundings“, sem útleggja má sem „Núið þitt er umhverfi mitt“. „Það sem vakir fyrir mér er að sýna fram á gagnkvæm tengsl okkar við umhverfið sem því miður eru alltof oft í ójafnvægi. Það er eins og um- hverfið hafi miklu meiri áhrif á okkur en við á umhverfi okkar,“ segir Ólafur. „Okkur hættir til að gleyma sjálfum okkur og verða eins og hlutir í því umhverfi sem við höfum búið okkur til. Í framhaldinu tekur hann dæmi af kvikmyndinni „The Truman Show“ og senunni þar sem söguhetjan áttar sig á að ekki er allt sem sýnist í hennar lífi. „Ætli ég sé ekki alltaf að reyna að kalla fram hjá áhorfendum þetta augnablik þegar söguhetja myndarinnar, sem hefur róið á haf út, rekst á máluð leiktjöld himins í bakgrunni og áttar sig á að það sem hann taldi raunveruleika var bara blekking,“ segir Ólafur. „Ég er að leita eftir þeim viðbrögðum sem verða þegar hugur og líkami klingja saman eitt augna- blik. Þegar vitneskja og skynjun mannsins verða eitt.“ ÁN ÁHORFANDANS ERU VERKIN EKKI TIL Tímahugtakið og samband áhorfandans við núið er útgangspunktur á sýningu Ólafs Elíassonar í Nútíma- listasafninu í Boston. HULDA STEFÁNSDÓTTIR hitti listamanninn að máli og skoðaði sýninguna, þá viða- mestu á verkum Ólafs vestanhafs hingað til. Ljósmynd/John Kennard Innsetningin Neongárur eftir Ólaf Elíasson í Nútímalistasafninu í Boston. Ljósmynd/John Kennard Hluti ljósmyndaverks af Markarfljóti úr lofti séð. Ljósmynd/Hulda Stefánsdóttir Tímahugtakið er listamanninum sífellt hug- leiknara. Hér stendur Ólafur í neðri sal safnsins og horfir upp undir stálstrúktúr sem er e.k. baksvið verksins Neongárur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.