Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. FEBRÚAR 2001 13 Langt inn í skóginn leitar hindin særð og leynist þar, sem enginn hjörtur býr, en yfir hana færist fró og værð. Svo fjarar lífið út... Ó, kviku dýr, reikið þið hægt, er rökkva tekur að og rjúfið ekki heilög skógarvé, því lítil hind, sem fann sér felustað vill fá að deyja ein á bak við tré. Um blóð, sem fyrr var bæði ungt og heitt, mun bleikur mosinn engum segja neitt. En þú, sem veizt og þekkir allra mein, og þú, sem gefur öllum lausan taum, lát fölnað laufið falla af hverri grein og fela þennan hvíta skógardraum. Er fuglar hefja flug og morgunsöng og fagna því, að ljómar dagur nýr, þá koma öll hin ungu, þyrstu dýr að uppsprettunnar silfurtæru lind – öll, nema þessi eina, hvíta hind. (Í dögun, 1960.) B LÓMASKEIÐ Davíðs Stefánssonar (1895–1964) sem ljóðskálds spann- aði hartnær þrjátíu ár, og segja má að hann hafi orðið þjóðskáld strax með fyrstu ljóðabók sinni, Svörtum fjöðrum (1919). En eftir að Ný kvæðabók kom út 1947 varð langt hlé, eða allt til 1956 er hann sendi frá sér Ljóð frá liðnu sumri og síðan Í dögun (1960). Þessar tvær bæk- ur fengu nokkuð blendnar viðtökur, og þótti sumum, og þá ekki síst yngri skáldum, sem þjóðskáldið Davíð væri nú vart annað en daufur endurhljómur sjálfs sín. Ég þykist þó muna vel, að ljóðið Skógarhind hafi vakið talsvert mikla athygli og verið tekið sem dæmi um hve öflug og áhrifamikil ljóðagerð Davíðs væri enn. Á þessum langa tíma hafði margt breyst í íslenskri ljóðagerð. Varla þarf að minna á hina svokölluðu og margumtöluðu formbyltingu, sem mér finnst reyndar stundum orðum aukin, því að bæði var miklu fyrr byrjað að yrkja órímuð ljóð og svo hitt að ljóð atómskáldanna voru býsna oft stuðluð og í föstu formi, þótt það væri öðru vísi. En ótvíræð breyting, og að mínu áliti mun áhrifameiri, var fólgin í aukinni áherslu á myndvísi í ljóðum. Myndmálið, myndin, varð grundvöllur hinnar nýju ljóðagerðar upp úr stríðslokum, að láta myndir tala sínu máli og forðast að leggja út af þeim. Rím- uð orðræða var í raun gerð útlæg. Því má segja að áherslan hafi færst frá því að segja til þess að sýna. Og í þessu tvennu felst ákveðinn tvískinnungur í ljóðinu Skógarhind. Form þessa ljóðs er í reynd fjögur fjögurra vísuorða erindi og stakt vísuorð í lokin, en með tveimur undantekningum þó. Fyrsta og annað erindið tengjast saman þannig, að síðasta lína fyrsta erindis er aðeins hálf og seinni helmingurinn upphaf annars er- indis, af því að efnismeðferð breytist. Og það gildir einnig um tvær viðbótarlínur ann- ars erindis, sem eru eins konar fullyrðing ljóðmælandans. Stuðlasetning er reglu- bundin og hnígandi tvíliður ríkjandi þótt ekki sé hann allsráðandi. Bygging ljóðsins efnislega er fólgin í myndum í fyrsta og fjórða erindi og hinni stöku línu, – og eins konar útleggingu og umfjöllun upphafsmyndarinnar í erindunum tveimur þar á milli. Myndmálið er einfalt, beinar myndir, engar líkingar en ein myndhverfing (hindin kölluð hvítur skógardraumur í 3. er.) og ein önnur umritun í lok annars erindis þar sem mosanum er gefið mál, og hinn bleika lit hans má trúlega skilja á táknrænan hátt. Upphafsmyndin er skýr. Við sjáum hind sem leitar afdreps til að deyja og sá dauði er kyrrlátur og að því er virðist eðlilegur. En svo tekur við útlegging höfundar / mæl- anda. Hún er í raun tvenns konar ávarp og ein fullyrðing. Fyrst eru önnur dýr skóg- arins ávörpuð og beðin um að sýna tillitssemi og virða hina deyjandi hind. En þar sem hún hefur þegar leitað afsíðis má þó fremur búast við að þau séu alls óvitandi um ör- lög hennar. Og fullyrðingunni um blóðið og mosann er að minni hyggju ofaukið, enda koma þessar tvær línur hvorki heim við formbyggingu né rímfléttu ljóðsins. Þá er Guð ávarpaður, og skilgreindur í ávarpinu (sagt hvað hann veit, þekkir og gerir) og hann beðinn að hylja hina dauðu hind með haustlaufum. Má þar reyndar einnig sjá eins konar erkitýpiska notkun haustsins í tengslum við dauðann. Loks er svo dregin upp mynd af lífi skógarins árla næsta dags þegar öll dýrin koma til að svala þorsta sínum í lind uppsprettunnar, er skilja má sem tákn lífsins. Og í stöku línunni sjáum við svo það að lokum sem ekki sést. Efnislega er ljóðið þá um lífið sem hverfur og heldur þó áfram, en ekki alveg eins og áður. Væntanlega kallar lokamyndin af því sem ekki sést fram eins konar saknaðarkennd hjá lesanda. Hann veit það sem lífsmynd skógarins veit ekki. Ég sagði fyrr að í ljóðinu væri ákveðinn tvískinnungur. Með því á ég við myndirnar annars vegar og útlegginguna hins vegar. Nú má auðvitað ekki afneita því að til sög- unnar kemur ákveðinn smekkur. Mér þykir útleggingin nefnilega veikja ljóðið og jaðra við væmni, en verða ekki til þess að styrkja myndirnar. Og ég verð að segja það eins og er að mér finnst önnur lína þriðja erindis („og þú, sem gefur öllum lausan taum“) beinlínis klúðursleg og einna helst til þess eins að fylla form og rím. Sannast að segja hef ég verið að velta því fyrir mér hvort miðerindin tvö eru ekki næsta óþörf. Mér finnst upphafs- og lokamyndin búa yfir svo miklum styrk og áhrifamætti að það sé hreinlega óþarfi að leggja út af þeim. DAVÍÐ STEFÁNSSON SKÓGARHIND N J Ö R Ð U R P . N J A R Ð V Í K LJÓÐRÝNI Í New York kemur dögunin með fjórar forarsúlur og hvirfilvind af svörtum dúfum buslandi í fúlu vatni. Í New York stynur dögunin í gríðarstórum stigum og leitar milli brúnanna að liljum lýsandi angistar. Dögunin kemur og enginn leggur hana í munn sér því morgunninn og vonin eru hvergi nærri. Stundum koma mergðir af smápeningum svífandi og rífa í sig yfirgefin börn á götum úti. Fyrstu vegfarendurnir skynja innað beini að þeirra bíður ekki paradís eða ástarneisti heldur forarvilpa tölustafa og reglna, innantómir leikir og tilgangslaus sviti. Dagsbirtan er grafin í skarkala og hlekki af ófyrirleitnum vísindum með slitnar rætur. Um götur úthverfanna reika örmagna verur, líkt og nýstignar á land eftir skipbrot í blóði. FREDERICO GARCIA LORCA JÓN HALLUR STEFÁNSSON ÞÝDDI Höfundur var spænskt leik- og ljóðskáld sem var uppi frá 1899 til 1936. Þýðandi er útvarpsmaður. DÖGUN É G FINN kuldann dansa um lík- ama minn þar sem ég stend úti á götu og horfi á snjóinn falla til jarðar. Ég er með lokuð augun og ég ímynda mér öll þau fjölbreyttu mynstur sem hvert og eitt snjókorn kann að mynda. Þau eru eins og við mannfólkið sem ekkert er eins. Rétt eins og snjókornin komum við af himni ofan, bráðnum og að lokum sameinumst við jörðinni þar sem við annað hvort höfum verið falleg ásýndar í augum samferðamanna okkar eða óþarfa kuldalegt mynstur. Ég leyfi huganum að reika yfir nokkrar götur og yfir túnið mikla í áttina að húsinu þar sem þú býrð. Ég sé þig fyrir mér sofandi í rúminu þínu, sál liggjandi inni í líkama sem má hafa sig allan við í baráttu sinni við sjúk- leika sinn. Þú andar djúpt þegar hitinn umleikur þig allan og þú andar ótt og títt þegar hnífar kuldans stingast í gegnum beinin. Með aumum höndum þínum reynir þú að ná höfðinu út úr sársaukaklemmunni sem þrýst- ir þér saman. Ég óska þess að ég geti birst þér í draumi þar sem ég tíni þér marglitan vönd af blómum og færi þér í von um að ná að lina þjáningar líkamans með því að hlúa að hjartanu. Hvert eitt stakt blóm er merki þess sem ég hef að gefa þér. Sum blómin eru óþroskuð en önnur hafa skaddast. Blómið sem þú tekur til þín í draumnum er blómið sem vefur sig utan um þig þegar þú ert veikur, blómið sem þerrar svitann á enni þínu og blómið sem vætir þurrar varir þínar, blómið sem græðir sár þín og blómið sem veit- ir þér öryggi og hlýju þegar máttur líkamans og þess öryggis sem hann býr yfir hvílist. Af hverju stend ég ekki við rúmstokkinn holdi klædd og hlúi að manninum sem ég elska. Af hverju heyri ég snjókornin hvíslast á um hve eymdarlegt bergmál hjarta mitt gefur frá sér. Af hverju þarf máttur ástar minnar að ferðast svo langt til að ná til þín og samt ná aðeins til þín í draumi. Af hverju gagnrýndir þú mig fyrir að vönd- ur hjarta míns bar með sér sködduð blóm. Sástu ekki að ég var að reyna að vökva þau rétt og lyfta þeim til sólar svo þau gætu blómstrað. Sástu ekki öll hin fallegu blómin sem voru allt um kring. Ert þú kannski maður án andlits sem gekkst fram hjá mér í fjöldanum, heyrðir ekki marrið í snjónum og gleymdir að líta upp til himins og virða fyrir þér fegurðina sem hvert og eitt lítið snjókorn óskar sér í falli sínu til jarðar að einhver sjái. Ég sá þig, ég elska þig . en blómvöndurinn liggur enn í snjónum. Hvernig gat þetta verið annað en draumur. FJARLÆGÐ Ö R S A G A E F T I R D Ý R L E Y Y O U N G Höfundurinn er námsmaður í Reykjavík.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.