Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2001, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2001, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. JÚNÍ 2001 9 kynhlutverka má svo tengja hinni kvenlegu orðræðu sem oft fylgir tungutaki sæbóls og Netinu; en þar er mikið talað um að vefa og spinna. Ekki má heldur gleyma því að tölvan á rætur sínar að rekja til vefnaðarvéla, en það var einmitt kona, Ada Lovelace, sem lék lyk- ilhlutverk í þróun tölvutækninnar á fyrri hluta nítjándu aldar. Sæberótík: Dagur bílsins Á tuttugustu öldinnu tóku tengsl manns og bíls á sig mjög sérstaka mynd. Bíllinn varð að tákni einstaklingshyggjunnar, og hugmyndin um einkabíl samofin tilfinningu sjálfstæðis og sjálfræðis – að því leyti sem ferðafrelsi er merki sjálfræðis, og því í raun bíllinn að helsta staðfestingarteikni sjálfsmyndarinnar. Þannig eru samskipti bíla og manna mjög gott dæmi um samþáttun tækni og lífrænna þátta, þarsem borgarlandslagið í dag er hann- að fyrir bíla, lagað að kröfum vélvæddrar um- ferðar fremur en fótknúinnar. Samhæfing manns og bíls er líka gott dæmi um þá sam- þáttun manns og vélar sem liggur til grund- vallar skilgreiningu vísindasagnfræðingsins Donnu Haraway á sæborg (cyborg). Þessi hugmynd um félagsskap manna og bíla er efni skáldsögu J.G. Ballard, Crash, frá árinu 1973, en þessi skáldsaga er almennt talin bera rík einkenni sæberpönks og jafnvel vera einskonar guðmóðir hreyfingarinnar. Fyrir sína parta bendir Ballard á William Burro- ughs sem sína fyrirmynd, og þannig mætti sjálfsagt rekja sæberpönk langt aftur í aldir. Crash segir frá fremur lífsleiðum hjónum sem nota stöðug framhjáhöld til að krydda dauflegt kynlíf sitt. Einn daginn lendir eig- inmaðurinn í árekstri, og maður í hinum bíln- um lætur lífið. Sjálfur er eiginmaðurinn nokk- uð skaddaður og þarf að liggja á spítala um stund. Þangað heimsækir hann undarlegur öróttur maður og yfirheyrir hann í þaula um meiðsli hans og áreksturinn. Seinna kemst eiginmaðurinn að því að maður þessi, Vaug- ham, er haldinn þráhyggju hvað varðar bíl- slys. Hann sviðsetur fræg slys og er heillaður af meiðslum og dauðsföllum af völdum árekstra. Í kringum sig hefur hann safnað dá- lítilli hirð fólks sem er svipað sinnis, og/eða hefur lent í alvarlegum slysum sem hafa breytt lífi þess, en þó aðallega líkama. Í skáldsögu Ballard er tungumálið notað mark- visst til að leggja bílinn og líkamann að jöfnu, þarsem bílnum er lýst með líkamlegu mynd- máli meðan líkaminn er myndhverfður í vél- rænu myndmáli gljáandi málma. Í dauðu borgarlandslaginu er umferð bíla um hrað- brautir eins og flæði blóðs gegnum slagæðar og örótt húð bílslysafórnarlamba gefur lík- ama þeirra óheilbrigðan og málmkenndan blæ, líkan núinni áferð á innra byrði bíla. Þessi nýja sýn á líkamann hleypir lífi í dauf- legt kynlíf hjónanna og öll samskipti manna og bíla, og samruni þeirra í árekstrum, taka á sig kynferðislega vídd. Skáldsagan vakti mikla hneykslun þegar hún kom út fyrst en hefur á síðari árum öðlast aukið mikilvægi, og árið 1996 gerði David Cronenberg eftir henni illræmda kvikmynd. Dramatískur dauði Díönu prinsessu og umræðan í kringum hann minnti svo rækilega á það blæti sem bílslys eru í nútímasamfélagi. Sú sæberótík sem lýst er í Crash er ekki eins áberandi eða sláandi í verkum þekktari sæberpönkara, þó vissulega sé nóg af henni í síður þekktum neðanjarðarverkum. Þrátt fyr- ir að höfundar eins og Neil Stephenson og Jeff Noon leggi áherslu á erótík í Snow Crash og Nymphomation – en í báðum tilfellum virkar kynlíf sem einskonar leiðari fyrir upp- lýsingar – þá er sýn Ballard á erótísk tengsl manna og véla enn í dag ögrandi og sérstök. Það er frekar í kvikmyndunum sem slík hugs- un skín í gegn, enda er erótísk þrá svo ríkur þáttur í myndmáli samtímans, knúnu af sölu- þrá auglýsinga, að okkur þykir sjálfsagt að horfa á fólk strjúka vélar af ýmsu tagi eins og um ástvini væri að ræða. En sýn Ballard er mun róttækari en það, því hin erótíska spenna gengur út á blöndun, samþáttun, þar- sem bíll og mannslíkami verða eitt. Lísa í vélalandi Samræða við fortíð er algengt þema í sæ- berpönki, svo furðulega sem það kann að virðast. Samræður og vísanir milli höfunda eru reyndar eitt einkenni afþreyingarmenn- ingar, þarsem það þykir sjálfsagt að vísa til ákveðinna höfunda eða verka þegar fjallað er um tiltekið þema. Frankenstein, Metropolis, 1984, allt eru þetta verk sem finna má stað í nútímasæberpönki. Í Taugakuklara trílógíu Gibson og skáldsögum Stephenson er tæknin færð í goðsögulegan búning, eða réttara sagt, nútímatækni er borin saman við mýtíska hug- myndafræði. Fyrirmynd skáldsögu Jeff Noon, Autom- ated Alice (1996), virðist kannski í fyrstu nokkuð óvænt, en þegar betur er að gáð er það fullkomlega rökrétt að láta Lísu fara í eina ferð enn, að þessu sinni inn í vélaland framtíðarinnar, tíma og heim sæberpönksins: Lísa heimsækir sæborg. Og gerist sæborg, eða réttara sagt, hittir fyrir aðra „sig“, dúkk- una sína Celiu, sem er sæborg. Þrátt fyrir að fyrstu þrjár bækur Jeff Noon, Vurt (1993) Pollen (1995) og Automated Alice, séu ekki eins skýr trílógía og skáldsögur Gibsons, þá deila þær svipuðum heimum og temum. Hver skáldsaga er á sinn hátt framhald af hinum fyrri, en er jafnframt algerlega sjálfstæð. Sömuleiðis er enn að finna minni úr þessum heimi í nýrri skáldsögum eins og Nymphoma- tion (1997) þrátt fyrir að þær gerist ekki í sama „heimi“. Fyrsta skáldsaga Noon, Vurt, vakti nokkra athygli fyrir að vera nokkuð óvenjuleg sæber- pönk-saga. Vurt fjallar um nýtt eiturlyf, Vurt, sem gerir fólki kleift að heimsækja drauma sína, eða annarra. Vegna þessa umgangs verður draumaheimurinn æ sjálfstæðari og tekur að „dreyma sjálfan sig“ án þess að jarð- arbúar taki eftir því. Heimar drauma og veru- leika búa hlið við hlið í viðkvæmu jafnvægi, en íbúar draumaheimsins eru ósáttir við þau völd sem íbúar veruleikans hafa. Heimur draumanna, vurt eða undraland, verður æ sterkari og á endanum brýst út stríð, „the looking glass war“ eða speglastríðið, sem lýst er í Pollen. Þess má geta að þessi hugmynd um speglastríðið minnir um margt á söguna af „Dýraríki speglanna“ í bók Jorge Luis Borges, Bók ímyndaðra vera (1967). Í Auto- mated Alice, eða Lísu sjálfvirku, lendir Lísa í ævintýrum í heimi sem minnir um margt á veröld Pollen. Það vill þannig til að páfagauk- ur frænku hennar flýgur inn í afaklukkuna og hverfur. Lísa eltir og fellur í gegnum klukk- una inn í annan heim. Sá heimur einkennist af hinni fjölbreyttustu blöndun tegunda, manna og dýra/manna og hluta, og ekki síður af hinni fjölbreyttustu blöndun orða sem skapa alveg nýtt tungumál. Þessi heimur er æv- intýraheimur að því leyti sem han er fullur af talandi dýrum, en fyrstu verurnar sem Alice hittir eru termítar sem knýja tölvur og eru því einskonar „tölmítar“ (computermites), og á sama hátt er allt vélvirki lífrænt að ein- hverju leyti. Líkt og Pollen og Vurt er Au- tomated Alice sett upp sem sakamálasaga, en það form er algengt innan sæberpönksins. Á ferð sinni um þessa „sæborg“ hittir Lísa rík- issnáka (civil serpents), hestöfl (auto horses), píanóstelpur og sápustráka, klæðaskápa- krakka og krákukonur, auk þess sem hún hittir Jimy Hendrix í líki termennis (terbot), en öll eru þau afleiðing af sjúkdómnum nýju- bólgu (newmonia). Skáldsagan sýnir okkur heim þarsem ekki bara manneskjan er orðin vélræn, heldur er vélin orðin lífræn og öll mörk milli tegunda eru í uppnámi stjórnleys- is. Hér er ekki lengur um að ræða „fegrunar- aðgerðir“ á líkamanum í anda Gibson, heldur er líkaminn opnaður fyrir hverskyns líftækni- legri blöndun. Lífrænar vélar og flakk milli heima eru minni í skáldsögum sæberpönkarans Michael Marshall Smith, sem er líkt og Noon er einn af áhugaverðari sæberpönkurum níunda ára- tugarins. Heimar drauma og fantasíu hafa tekið við af rafrænum heimi hjáveruleikans eins og hann birtist hjá Gibson og Steph- enson, en slíkt flökt milli heima er þó ennþá tilkomið vegna tæknilegra átaka. Það má segja að með þessu séu þeir Smith og Noon að opna fleiri möguleika á því að upplifa tæknilega breytt samfélag en finnast í rafrás- um tölvunnar og rafsegulbylgjum hjáveru- leikans. Í skáldsögunni Only Forward (1994) gengur söguhetja vor inn í nýjan heim yfir hafið: það haf sem lítur út eins og sandöldur þegar flogið er yfir það úr flugvél. Ferðir milli heima eru einnig mikilvægar fyrir skáld- söguna Spares (1997), sem fjallar um klónun, en í framtíð Smith á hver einstaklingur sinn klóna sem grípa má til þegar slys verða; klón- inn er einskonar varahlutalíkami. Lífrænar vélar leika mikilvægt hlutverk í One of Us (1998), en þar eru lífvélar orðnar að sjálfsögð- um hlut á hverju heimili. En hvað gerist þeg- ar líflegi ísskápurinn þinn, malandi kaffivélin, þrifna ryksugan og stundvísa vekjaraklukkan bila? Þeim er hent, en af því þau eru öll lif- andi, þá flækist málið nokkuð. Vélarnar hópa sig saman og ferðast um í gengjum, og gera stundum aðsúg að fólki. Og í One of Us, þá fær söguhetjan þessar biluðu vélar í lið með sér til að sigrast á andstæðingi sínum, sem reynist vera sjálfur guð. Heimur Smith er mun dimmari en heims- mynd sú sem lýst er í Automated Alice, en sú heimssýn er sjálf mun glaðlegri en tónninn í fyrri bókum höfundar. Sá andi sem ríkir í Au- tomated Alice minnir mikið á fantasíur Terry Pratchett. Þrátt fyrir að Diskheims-sería Pratchett flokkist frekar undir fantasíu en vísindaskáldsögu eða sæberpönk, þá eru sæ- berpönkuð einkenni greinileg, ekki síst hvað varðar líflegheit véla. Ljósmyndavélar, kvik- myndavélar og tölvur eru knúnar áfram af líf- verum, litlum púkum, og maurum, líkt og í Automated Alice; sæborgin Ankh Morpork er byggð allskyns lífverum, þarsem tröll, dverg- ar, vampýrur, varúlfar, drekar, gólemar og uppvakningar eru daglegt brauð. Ferðakof- fort ferðast sjálf, á litlum fótum, og fyrir eina dúfu taka ufsagrýlurnar að sér eftirlit. Líkt og í verkum Noon og Gibson er tungumálið togað og teygt til að koma þessum fyrirbær- um fyrir. Þannig er ekki talað um mannlíf – heldur kvenna-trölla-dverga-gólema o.s.frv. líf. Dvergurinn mannar ekki afgreiðsluborðið, hann dvergar það, og þannig er tungumálið tekið bókstaflega og merkingarauki þess dreginn fram. Þessi nálgun á tungumálið ein- kennir sæberpönkið, allt frá skáldsögu Ball- ard til sagna Pratchett. Hið hjáverulega sæból er magnað hugtak í dag, þar sem veruleikinn sjálfur og hæfileiki okkar til að skynja og skilgreina veruleikann er æ vandmeðfarnari, textatengsl og tungu- málsleikir hafa málum blandið hugmyndum um sannleika og merkingu og tækniþróun- unin er komin á það stig að sjálfsmynd okkar sem mennskra vera er gerbreytt. Tungumáls- leikirnir leika einnig það hlutverk að benda okkur á mikilvægi tungumálsins fyrir skynjun okkar á veruleikanum og merkingu hans í heimsmynd okkar. Með því að beita tungu- málinu á meðvitaðan hátt gera sæberpönk- ararnir lesendur sína meðvitaða um það að veruleikinn er þegar skrifaður, ekki síður en hjáveruleikinn; og fyrst veruleikinn er skrif- aður, þá er hægt að endurskrifa hann. Til þess að takast á við nýjan veruleika og veru- leikaskynjun þarf nýtt tungumál, nýtt tungu- tak, sem nær utanum ný viðmið og gildi. Við þurfum nýtt tungumál til að koma fyrir breyttum hugmyndum um sjálfveru og til- veru, til að koma fyrir nýrri veru, vélveru eða sæborg, sem einkennist af blöndun og sam- þáttun. Til þess að vefa sæborgina inn í nýjan heim þarf að rekja upp sjálft tungumálið, og spinna nýtt. Hinn hefðbundni merkingar- rammi tungumálsins þarsem viðmið húman- isma eru ríkjandi er ekki lengur nothæfur. Innan þess ramma er hvíti karlmaðurinn hið miðlæga viðmið, konur og fólk af öðrum kyn- þáttum eru í öðru sæti, til hliðar, eða í öftustu röð. Sæberpönkið bendir á hvernig við getum ekki lengur skilgreint heiminn út frá þessum viðmiðum, og hvernig við getum ekki lengur talað um hann, lýst honum eða skilið hann með tungumáli sem er hlaðið merkingu andsnúinni nýrri heimsmynd. Við þurfum því nýjan ramma, ný viðmið, sem í stað þess að vera einföld, skýr og hrein, eru flókin, óskýr og blönduð. Þetta er tungumál sæberpönksins og sæborgarinnar. Orð bera í sér sögu og merkingu sem hefur hlaðist utan á þau í gegnum söguna, og í breyttu samfélagi er ljóst að þessi orð duga ekki lengur: „orð mola veggi“ eins og segir í Stálnótt Sjóns. Í þessu tilfelli eru það veggir samfélagsins, veggir sem halda samfélaginu vandlega hólfuðu niður og aðskilja menn og vélar, drauma og veruleika, og skipa heim- inum upp eftir kyni og kynþætti. VIKINDA SAMEINIST Höfundur er bókmenntafræðingur. „Núna beintengist fólk tölvum sínum og upplifir í rafrænum geimi veruleika sem, jafnframt því að vera eftirmynd veruleikans, er honum einnig stórlega frábrugðinn.“ Myndin er úr kvikmyndinni Jo- hnny Mnemonic eftir Robert Longo frá árinu 1996. Í sæberpönki er lögð áhersla á stöðu lík- amans í tölvusam- félaginu, og höfundar velta fyrir sér mögu- leikum hans til um- breytinga, stökkbreyt- inga eða tæknilegrar endurmótunar og endurnýjunar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.