Lesbók Morgunblaðsins - 21.07.2001, Síða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 21.07.2001, Síða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. JÚLÍ 2001 F RÆÐISTÖRF sem tengjast tón- list og tónlistarsögu hafa hingað til ekki verið hátt skrifuð á Ís- landi. Raunar er að mörgu leyti skiljanlegt að svo sé ekki, þar sem Íslendingar hafa löngum verið bókmenntaþjóð fyrst og fremst. Þar af leiðir að fræðigreinar eins og bókmennta- og handritafræði hafa blómstrað hér á landi meðan fræðileg umræða um aðrar listgreinar hefur átt erfiðara uppdráttar. Tón- listin var lengi hornkerling í íslensku menning- arlífi og því ekki nema von að lítið færi fyrir þeirri fræðigrein sem lýtur að sögu hennar, tón- vísindunum. Það þarf því varla að koma á óvart að einn helsti fræðimaður okkar á þessu sviði, og einn af þeim allra fyrstu sem eitthvað fengust við tón- vísindi að ráði hér á landi, skuli hafa verið borinn og barnfæddur Þjóðverji. Tónvísindin urðu til sem fræðigrein í þýskumælandi löndum á síð- asta fjórðungi 19. aldarinnar og voru háskól- arnir í Vínarborg og Berlín höfuðvígi hennar. Í síðarnefndu borginni komst Róbert Abraham fyrst í kynni við tónvísindin á unglingsárum sín- um, þótt hann legði þau ekki fyrir sig fyrr en löngu síðar og þá í fjarlægu landi. Það er raunar athyglisvert að hugsa til þess að ólíkt þeim Vic- tori Urbancic og Heinz Edelstein, sem báðir höfðu lokið doktorsprófi í tónvísindum við kom- una til Íslands en hurfu hér að öðrum störfum, var Róbert nokkurn veginn sjálfmenntaður í tónvísindum og hóf ekki vinnu sína í faginu fyrr en eftir að hingað til lands var komið. Frá Berlín til Akureyrar Róbert fæddist í Berlín 17. maí 1912. Þar ólst hann upp á miklu menningarheimili þar sem fjölskyldan lifði öll og hrærðist í tónlist. Móðir hans, Lise Golm, var listmálari en faðir hans, Ottó Abraham, var læknir. Auk læknis- starfanna var hann einnig mikilvirkur fræði- maður á sviði tónlistarsálfræði og er verka hans enn getið í helstu uppsláttarritum um tónlist. Róbert lagði stund á píanónám frá barnsaldri og tók einnig að semja tónverk ungur að árum. Fyrsta ópusnúmerið leit dagsins ljós árið 1919 (þegar Róbert var sjö ára) og fyrstu sinfóníuna samdi hann fimm árum síðar. Hann lauk stúd- entsprófi frá Falke-Realgymnasium í heima- borg sinni 1931 og stundaði að því loknu nám við heimspekideild Friedrich Wilhelm-háskólans auk þess sem hann hélt áfram tónlistarnámi við Tónlistarháskólann í Berlín. Á æskuárum sínum í Berlín var Róbert í nán- um tengslum við framámenn í þýsku tónlistar- lífi. Hann var t.d. vel kunnugur Wilhelm Furt- wängler sem um þær mundir var aðalhljóm- sveitarstjóri Berlínarfílharmóníunnar. Þá var hljómsveitarstjórinn Bruno Walter góður vinur Róberts allt þar til Walter féll frá árið 1962. Eft- ir andlát Walters var Róbert gefinn einn af tón- sprotum meistarans sem hann varðveitti síðan eins og helgan dóm. Róbert var kominn af gyðingum í báðar ættir en fjölskyldur foreldra hans höfðu fyrir löngu tekið kristna trú. Hann hlaut kristilegt uppeldi og eftir því sem hann sjálfur sagði frá var það „yfirleitt ekkert frábrugðið því, sem algengt var um aðra þýzka unglinga, enda hugsaði ég ekki oftar né öðruvísi um það á æskuárunum að ég væri Gyðingur, en reykvískur drengur að hann sé fæddur af norðlenzku foreldri“. Hvað sem þessu leið var honum ekki lengur vært í Berlín eftir valdatöku nasista. Árið 1934 hélt Róbert því til Parísar og hélt áfram námi þar með aðaláherslu á tónsmíðar og hljómsveitarstjórn. Þar tók hann m.a. þátt í „Session d’Études“ (meistarabekk fyrir nem- endur í hljómsveitarstjórn) hjá hinum þekkta stjórnanda Hermann Scherchen. Veturinn 1934-35 dvaldist Róbert í Kaup- mannahöfn þar sem komið hafði til tals að hann fengi stöðu hljómsveitarstjóra við danska út- varpið. Svo fór þó ekki þar sem tónlistin í dagskrá út- varpsins var um þær mundir skorin niður og starfinu breytt. Hann fékk þó ýmis verkefni sem hljómsveitarstjóri og stjórnaði m.a. tón- leikaröð í Carlsberg-Glyptótekinu sem bar yfirskriftina „Fra barok til klassik“. Í Kaup- mannahöfn komst Róbert í kynni við dr. Lis Ja- cobsen norrænufræðing sem vakti áhuga hans á íslensku þjóðinni og menningu hennar. Sveinn Björnsson var þá sendiherra Íslands í Kaup- mannahöfn og sagði hann síðar frá því að í sendiráðið hefði komið ungur maður að leita sér upplýsinga um land og þjóð. Lét maðurinn í ljós þá ósk sína að halda til Íslands til að starfa að tónlistarmálum. Sendiherrann reyndi varfærnislega að skýra út fyrir honum að þar væri sennilega lítið verk- svið fyrir mann með svo mikla menntun; þar væri engin hljómsveit og tónlistarlíf allt enn í reifum. „Ég ætti þá eitthvað að geta hjálpað til við uppbygginguna,“ svaraði Róbert, og þar með voru örlög hans ráðin. Við komuna til Reykjavíkur haustið 1935 gekk Róbert beint á fund Páls Ísólfssonar sem ráðlagði honum að setjast að á Akureyri. Róbert fór að ráðum hans og hóf að kenna á píanó við Tónlistarskólann þar auk þess sem hann kenndi þýsku í einkatímum. Um veturinn hélt hann nokkra píanótónleika og ári síðar stofnaði hann blandaðan kór sem nefndur var „Samkór Ró- berts Abrahams“. Róbert gat verið tilfinninga- næmur stjórnandi og þoldi engum að misþyrma tónlist í sín eyru. Átti hann það jafnvel til, sér- staklega á yngri árum sínum, að slá af og byrja á nýjan leik ef eitthvað fór úrskeiðis í flutningn- um, jafnvel á tónleikunum sjálfum. Sagan segir að á Akureyrarárunum hafi Róbert reiðst á kór- æfingu þar sem verið var að æfa Liebeslieder- valsana eftir Brahms og hafi hann strunsað út úr salnum, ómyrkur í máli. Þá orti Kristján frá Djúpalæk, sem var einn kórfélaga: Óma lögin eftir Brahms, undurþýð og dreymin, ásamt skömmum Abrahams útí himingeiminn. Róbert fór ekki varhluta af tortryggni í garð útlendinga fyrstu ár sín hér á landi. Með stofnun Samkórsins ávann Róbert sér t.d. óvild Björg- vins Guðmundssonar, tónskálds og kórstjóra, sem hafði stofnað Kantötukór Akureyrar 1932. Sá kór var þá eini blandaði kórinn á Akureyri (og raunar einn af örfáum sjálfstætt starfandi blönduðum kórum á landinu), og Björgvin leit á kórstarf Róberts sem persónulega ögrun og ógnun við eigið starf. Í óútgefnu handriti Björg- vins að sögu Kantötukórs Akureyrar skrifar hann m.a.: „Það átti að nota þennan Gyðing sem vitanlega hefur eingöngu útlend verk á boðstól- um til að eyðileggja Kantötukórinn og kollvarpa starfi hans“. Ekki varð þó kórstarf Róberts til þess að kór Björgvins legðist niður. Hins vegar tók Róbert fljótt að ókyrrast, enda varla auðvelt fyrir útlending að falla inn í svo lítið bæjarfélag á þeim árum. Sjálfur sagði hann síðar að það væri „einkennileg tilviljun, að ég varð persónu- lega aldrei fyrir neinu aðkasti vegna ætternis míns fyrr en norður á Akureyri, en þar orguðu einu sinni tveir drukknir menn á eftir mér, að ég væri „helvítis Gyðingur“.“. Árið 1940 hélt Róbert til Reykjavíkur ásamt móður sinni, sem hafði tekist að komast hingað til lands frá Þýskalandi skömmu áður en stríðið skall á. Hún dvaldist hér á landi í nokkur ár en hélt síðar til Bandaríkjanna þar sem bróðir Ró- berts kenndi tónlistarmannfræði við Berkeley- háskólann í Kaliforníu. Eftir komuna til Reykja- víkur starfaði Róbert fyrst um sinn hjá breska hernum auk þess sem hann kenndi á píanó og tónfræði í einkatímum. Hann hélt nokkur út- varpserindi um tónlist og tónlistarsögu og var einnig söngkennari í Menntaskólanum í Reykjavík um tveggja ára skeið. Róbert lét sífellt meira til sín taka á sviði kór- stjórnar og fyrsta áratuginn sem hann bjó í höf- uðstaðnum stjórnaði hann t.d. Söngfélaginu Hörpu (sem flutti „Árstíðirnar“ eftir Haydn undir hans stjórn), Kór iðnaðarmanna (sem hann stjórnaði á Lýðveldishátíðinni 1944) og Samkór Reykjavíkur. Eitt stærsta skrefið í sögu blandaðra kóra á Íslandi fram til þess tíma var stigið með stofnun Útvarpskórsins árið 1947. Kórinn starfaði raunar ekki nema í tvö ár en hér var um að ræða fyrsta „semi-profess- ional“ kórinn á Íslandi, kammerkór skipaðan völdu söngfólki. Róbert var stjórnandi kórsins frá upphafi. Kórinn æfði tvisvar í viku og aðra hverja viku söng hann nýja efnisskrá í Ríkisút- varpið, auk þess sem hann hélt sjálfstæða tón- leika eftir því sem efni stóðu til. Vorið 1942 kvæntist Róbert Guðríði Magn- úsdóttur (1918-1990), kennara við Austurbæj- arskólann. Sú farsæld sem einkenndi öll hans störf ríkti einnig í einkalífi Róberts. Guðríður var stoð hans og stytta, „húsbóndi minn og bankastjóri“ eins og hann kallaði hana sjálfur, og án hennar hefði honum sennilega aldrei tek- ist að helga sig hugðarefnum sínum jafn ein- arðlega og raun bar vitni. Róbert var yngstur þeirra þriggja tónlistarmanna sem fjallað hefur verið um í þessum greinaflokki og sá eini sem kom hingað til lands ókvæntur og barnlaus. Kannski hefur það að einhverju leyti hvatt hann til að aðlagast landi og þjóð eins vel og hægt var, enda var það mál þeirra sem til þekktu að Ró- bert væri meiri Íslendingur en flestir þeir sem hér væru bornir og barnfæddir. Íslensku lærði hann bæði fljótt og vel, svo að fáir samtímamenn hans á Íslandi urðu honum ritfærari á hana. Þar naut hann fyrst og fremst góðrar aðstoðar vina sinna við Menntaskólann á Akureyri, sérstak- lega þeirra Þórarins Björnssonar skólameistara og Halldórs Halldórssonar prófessors sem var einn af hans nánustu vinum. Það menningarlega umhverfi sem Róbert hrærðist í meðal vina sinna á Akureyri hefur vafalaust átt þátt í því hversu handgenginn hann varð íslenskri menn- ingu. Róbert fékk íslenskan ríkisborgararétt 1947 og um svipað leyti tók hann ótilneyddur að kenna sig við föður sinn. Árið 1951 sagði hann í viðtali: „Ég vona, að því íslenzkari sem ég verð, því betur geti ég goldið þessu landi mínu fóst- urlaunin“. Kórstjóri og fræðimaður Þegar litið er yfir starfsferil Róberts eftir komuna til Reykjavíkur sést glöggt hversu fjöl- hæfur starfskraftur hann hefur verið: kórstjóri, Frá doktorsvörn Róberts í Háskóla Íslands 10. októ Háskólan Róbert ásamt Guðríði konu s Á FLÓTTA UNDAN HAKAKROSSINUM – 3. HLUTI RÓBERT A. OTTÓSSON „Róbert var margslunginn persónuleiki, enda sam- einuðust í honum hinn strangi agi vísindanna og upphafin sköpunargleði listarinnar. Eitt einkenndi þó öll störf hans öðru fremur: hin djúpa virðing sem hann bar fyrir listinni sem hann hafði helgað krafta sína allt frá barnæsku.“ E F T I R Á R N A H E I M I I N G Ó L F S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.