Lesbók Morgunblaðsins - 04.08.2001, Page 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 4. ÁGÚST 2001
L
ITLA bláa húsið í Krísuvík, í ná-
grenni hins forna höfuðbóls fyrir
sunnan Kleifarvatn, lætur ekki
mikið yfir sér í hrjúfu landslaginu.
Ókunnugum ferðalangi kæmi vart
til hugar að þar innan dyra sé að
finna listasafn í bland við vöku-
drauma sérstæðs og atkvæðamik-
ils málara. Húsið ei heldur á alfaraleið, þarf að
aka nokkurn spöl um afleggjara og í sveig
framhjá bæjarstæðinu til að nálgast það.
Persónuleg kynni mín af málaranum hófust
seint og heimsóknir mínar í húsið ekki marg-
ar, má líkast telja þær á fingrum annarrar
handar, en síðustu ár listamannsins rötuðu
iðulega til mín langt að komnar kveðjur og
bréf með hugleiðingum sem hann þurfti að
koma frá sér. Gat verið á ferðalagi langt úti á
rúmsjó, í hótelherbergi í Fort Lauderdale,
Flórída, eða einhvers staðar í New York, þar
sem hann var á kafi við skoðun sýninga og
listasafna. Hugðumst hittast að staðaldri, ann-
ars vegar upp á síldarrétti og bjór en hins veg-
ar spaghetti og rauðvín, en varð ekki af, lang-
tífrá. Báðir vígðir vinnunni og eintalinu, þá vill
tíminn líða hratt, verða að örsögu og lítil stund
aflögu í slíkt stúss til hliðar, listamenn líka al-
ræmdir sérhyggjumenn, en þar fyrir utan
félagslyndir á aðra röndina. Þetta með síldina
og bjórinn fékk ég þó til allrar hamingju að
kynnast einu sinni er þær valkyrjur í listheim-
inum, Svava og Svala í listhúsinu Nýhöfn á
Hafnarstræti, sem var og hét, hugnaðist að
bjóða mér samflot til málarans. Áttu til hans
erindi að skoða málverk og vistarverur, leið-
angurinn verið í bígerð um nokkurt skeið, ég
haft pata af honum en þó kom boðið flatt upp á
mig
Bjartan og fagran sunnudag á sumri skeði
svo að við lögðum í sjónrænan víking til mál-
arans, þetta átti eftir að verða eftirminnilegur
mildur og fallegur dagur, einn þeirra sem sitja
í minninu ævilangt. Kleifarvatn spegilslétt og
skyggni í þá veru að allar fjarlægðir sýnast
litlar, skynjar þó miklar opnar og tímalausar
víddir allífsins allt um kring.
– Málarinn tók vel á móti okkur er við
renndum á hlað, var í einstaklega góðu skapi
og eftir að hafa boðið gestum sínum í sitt kæra
hús upphófust léttar samræður í notalegu
bóka- og hvíldarrými útaf vinnustofunni.
Fljótlega beindist athyglin þó að myndverkum
listamannsins, skoðun þeirra að sjálfsögðu
megintilgangur heimsóknarinnar.
Tók þá eftir, að allt var vígt tjáningunni á
grunnfletinum, en minna hugað að umbúð-
unum, eins og þær væru aukaatriði, þannig
var það líka hjá Kjarval. Veit til þess, að þegar
svo óhönduglega vildi til að blindramminn sem
léreftið var strengt á hafði óforvarendis
skekkst í þeim átökum og náði ekki réttri lög-
un hvernig sem hann var sveigður, gerði
meistarinn sér lítið fyrir og braut hann um
hornin! Eyddi engum dýrmætum tíma til
gildra lagfæringa, sköpunarkrafturinn varð að
fá útrás, hér og nú og engar refjar. Þannig var
því bersýnilega einnig farið hjá Sveini, á
stundum nokkuð klambur með undirlagið sem
hélt masónítplötunum stöðugum, bara ein-
hverjar tilfallandi aflangar spýtur og hananú,
pentskúfurinn skyldi á loft.
Athyglisvert að einmitt þegar listamaðurinn
viðhafði slík óformleg og umhugsunarlaus
vinnubrögð, gaf huldunum sínum og öllu hlut-
vöktu í tíma og rúmi frí, heila klabbinu, náði
hann hvað heildstæðustum árangri á mynd-
fletinum.
Sumar þessar snöggsoðnu eintóna, mónó-
krómu myndheildir sem hann gerði síðustu ár-
in sem hann lifði tvímælalaust með því hrif-
mesta sem eftir hann liggur.
Að sjálfsögðu tókum við á stundum hlé,
settumst niður og blöðuðum í skissubókum,
skáldverkum, listaverkabókum og aðskiljan-
legasta fróðleik á ritmáli auk þess að líta út
um gluggana. Sveinn átti mikið af dönskum
listtímaritum, sem hann erfði frá frænku sinni
málaranum Júlíönu Sveinsdóttur, í þeim
drjúgur fróðleikur um myndlistarlíf í Dan-
mörku langt aftur í tímann, hér blasti við mér
ólíkt meiri ræktarsemi, hlutlægni sem og skil-
virkari vinnubrögð en hér á klakanum. Lista-
maðurinn sögubrunnur um umhverfið og dul-
armögn þess, huldukonuskip á Geststaðavatni,
og Krísuvíkurmadonnuna með sitt séríslenzka
útlit og litaraft í ætt vil fjallablámann og firrð-
ir óendanleikans. Svo kom að því að okkur var
boðið fram í eldhús, þar beið dúkað borð með
hollu brauði, mörgum tegunum af síld og köld-
um mjöð. Allt vel þegið enda þetta þrennt ein-
hver albesta og hollasta næring sem skrokk-
urinn fær, undur og stórmerki að þjóð sem
sótt hefur í hafdjúpin einhverja bestu síld í
heimi hér skuli ekki hafa gert þessa blöndu að
almennum veislukosti og þjóðarsið.
Auðvitað allir í sólskisskapi undir borðum, í
takt við geislana er skáru loftið, raddböndin í
hágír, bragðmikil lauksíldin og röm krydd-
síldin örvaði heilasellur, mjöður rafmagnaði
aðrar. Að loknum málsverði var haldið áfram
að kíkja á myndverk húsráðanda og loks var
allt húsið tekið fyrir hátt og lágt, litið á mynd-
verk annarra listamanna, er öll áttu sér sögu
sem hann rakti upp fyrir okkur, einkum
frænkunnar.
Andrúmið er tengdist þessari heimsókn
mikil lifun og létt á okkur brúnin er haldið var
heimleiðis. Áðum á fjörukambi við Kleifar-
vatn, umhverfið svo stillt og fallegt á þessum
afhallandi sólbjarta sumardegi, máttum til
með að rétta úr okkur og minnast við hrjúf
sem mjúk náttúrusköpin allt um kring. Malar-
og sandfjaran fyrir neðan löng og bogadregin,
hún gengin og þrædd, flötum ávölum stein-
völum rennt eftir blágráu vatninu, sem rétt
gáraði er svo var komið, þannig að þær fleyttu
kellingar, burt, burt, burt…
Í þá veru getur eitt eftirmiðdegi runnið sitt
skeið, en þó stöðvast einhvers staðar í heila-
búinu, skorðast þar og setið óhagganlegt, fer
allt eftir stemmningunni hverju sinni. Mál-
arinn í eigin og litríkri persónu á staðnum að
þessu sinni og þetta síðasta heimsókn mín til
hans, en þótt halur sé farinn er nærvera hans
til staðar í húsinu. Nærvera sem bókstaflega
andar á gest og gangandi dulmögnuð og hlý.
MÁLARINN Í BLÁA HÚSINU
Morgunblaðið/Bragi ÁsgeirssonMálarinn í bláa húsinu.
Málarinn Sveinn Björnsson (1925–1997) átti sér
draumahús í Krísuvík þar sem hann undi löngum með
málaragræjurnar í hágír sem var hans sérstaka
vinnulag frá fyrstu tíð. Engin lognmolla hér, listamað-
urinn í bland við handanheima og ófreski, frumorku í
iðrum jarðar, hraun, vötn og gróðurvinjar. BRAGA
ÁSGEIRSSYNI fannst rétt að minna á tilvist hússins,
sem er eins konar andlit Sveinssafns í Hafnarfirði.
Horft yfir Geststaðavatn út um glugga vinnustofunnar.
Málarinn milli Svövu og Svölu.
Sveinssafn er í Trönuhrauni 1 í Hafnarfirði. Bláa húsið í
Krísuvík er opið fyrsta sunnudag í mánuði til 2. sept-
ember frá kl. 13–17, en áhugasamir geta pantað leiðsögn
fyrir hópa á öðrum tímum.