Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 03.11.2001, Qupperneq 4

Lesbók Morgunblaðsins - 03.11.2001, Qupperneq 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. NÓVEMBER 2001 I. FYRSTA allsherjarmanntal í Evrópuvar tekið á Íslandi árið 1703. Allir eru taldir, háir og lágir, með aldri, heimilisfangi og stöðu. Hún var stundum lág. Athanasíus Stein- grímsson var 32 ára í Desey í Norðurárdals- hreppi. Staða hans var: „Er þar“. Ýmsir fylltust illum grun við þetta manntal. Þeir gátu ekki ímyndað sér annað en tilgang- urinn væri annað af tvennu: að hækka skatta eða kveðja menn til herþjónustu. Því er það, að víða er mönnum svo lýst, að varla mættu þeir vopni valda eða bera skattabyrði. Prófessor Ólafur Lárusson vann fyrstur manna úr þessu manntali, sjá rit hans 1960, en áður hafði það verið prentað með löngum hléum 1924–1947. Prófessor Ólafi telst svo til, að kvennanöfn hérlendis væru þá 338, en karl- anöfn 387. Þá var enn þá nær óþekkt að Íslend- ingar bæru fleiri nöfn en eitt. Undantekning var systkinin Sesselja Kristín og Axel Friðrik Jónsbörn, en móðir þeirra var dönsk, Bente Troels, og heldur Ólafur að systkinin hafði fæðst í Danmörku. Uppruni mannanafna er oftast nokkuð ljós, t.d. hvort þau eru germönsk (og þar af nor- ræn), grísk-latnesk, keltnesk eða hebresk. Ekki verður þetta þó greint út í æsar. Árið 1703 voru langflest nöfn Íslendinga, kringum 80%, af germönskum uppruna. All- mörg voru grísk-latnesk, t.d. samsetningar af Krist-, og þónokkur voru hebresk og þá komin úr Biblíunni. Eitt þeirra nafna, Jón, var ótrú- lega algengt, en svo hétu milli 20 og 30% ís- lenskra karla. Vinsældir þessa nafns er trúlega í upphafi að rekja til Jóhannesar (grísk gerð) skírara og Jóhannesar postula, og ekki spilltu fyrir Jón Ögmundarson og Jón Arason bisk- upar, þegar þeir komu til. Merking nafnsins er þá ekki dónaleg. Hebreska frumgerðin merkir „sá sem nýtur (eða á að njóta) náðar guðs“. Merking hins algenga norræna nafns Guð- mundur er mjög svipuð. Kvennamegin hafði norræna nafnið Guðrún sömu yfirburðastöðu og Jón meðal karla. Svo hétu tæp 20% íslenskra kvenna 1703. Merk- ingin er líka með afburðum góð:rún er leynd- armál, Guðrún er sú sem á sameiginleg leynd- armál með goðunum, er trúnaðarvina þeirra. Var hægt að komast hærra? Nú skulum við þegar í stað sjá hvaða nöfn voru í mestum metum meðal Barðstrendinga 1703. Kvennamegin lítur svo út: 1. Guðrún 406 2. Sigríður 91 3. Ingibjörg 68 4. Margrét 64 5. Helga 55 6. Guðríður 35 7. Kristín 34 8. Halldóra 31 9.–10. Valgerður 30 9.–10. Þorgerður 30 Karlamegin er það svona: 1. Jón 343 2. Bjarni 121 3. Guðmundur 57 4. Einar 52 5. Ólafur 50 6.–7. Sigurður 29 6.–7. Þórður 29 8. Magnús 24 9.–10. Páll 20 9.–10. Þorsteinn 20 Þetta víkur ekki mikið frá landsmeðaltali. Af 10 efstu nöfnum kvenna eru 9 hin sömu, en hjá Barðstrendingum Guðríður í staðinn fyrir Þur- íður. Eins er hjá körlunum, nema Páll í staðinn fyrir Árni. Um nöfnin í sýslunni í heild sinni segir próf. Ólafur Lárusson í Árbók Barðstrendinga 1954: „En ég hygg að nöfnin, sem hér hefir verið rætt um, séu í höfuðatriðum gott sýnishorn af nöfnum landsmanna... og þau bera smekkvísi fólksins í nafngjöfum og nafnavali góðan vott. Þar finnst ekki eitt einasta skrípanafn eða af- káralegt nafn. Meginþorri nafnanna eru gömul og góð þjóðleg nöfn.“ Um þessi orð Ólafs þarf ekki að bæta. Barðstrendingar voru 2.689 árið 1703 og báru 273 nöfn, þar af konur 130. Meðal kvennanna voru nöfn af öðrum uppruna en germönskum 17 eða 9%, en meðal karla 16 eða 2%. Áður en við skiljum við Barðstrendinga 1703, skulum líta á örfá einstök nöfn sem þar tíðkuðust, fæst þeirra algeng. Agata, stundum letrað Agatha og í fornum kveðskap Ágáða. Nafnið er komið úr grísku agathos = góður. Agatha var helg mær og verndaði gegn slysum, jarðskjálfta, þrumum og hungursneyð. Nafndagur hennar var 5. febr. Í Heilagra meyja drápu, frá því um 1400, segir meðal annars: Sæt Ágáða sínar þrautir sigrat fekk, er hræddisk ekki. Henni skal með helgum mönnum haldask vegr, en minnkask aldri. Norsk mynd nafnsins er Aagot. Það nafn barst hingað og heita svo nokkrar enn í dag. Sænska myndin var Agda, og er líklega fyr- irmynd nafnsins Agða hjá okkur. Nafnið Agat(h)a er þekkt hérlendis frá því á 13. öld og kemur fyrir í nafnatali sr. Odds á Reynivöllum 1646. Agata Helgadóttir var abbadís í Kirkjubæ, talin fædd 1293, systir Árna Helgasonar biskups í Skálholti. Að vísu kynni hún að hafa tekið sér þetta nafn, en verið skírð annað. Árið 1703 voru Agötur á Íslandi öllu 26, flest- ar vestanlands, þar af tvær í Barðastrandar- sýslu. Nafninu hefur ekki vegnað vel. Nafnlið- urinn „gat“ hefur líklega misþóknast mönnum. Þó voru þær milli tíu og tuttugu fam yfir alda- mótin 1900, en í þjóðskrá 1989 aðeins ein með t, en sjö með th. Aron er frægt Biblíunafn, komið úr hebr- esku A(h)aron. Uppruni og merking óvís, segir Ásgeir Bl. Magnússon. Merkir kannski „hinn sterki“. Í enskum nafnabókum er sagt að nafn- ið kunni að vera egypskt, og sumir skýrendur telja merkinguna „hár, háfleygur, drambsam- ur“. Systkin Arons í Biblíunni voru Móses og Miriam (María). Í arabísku breyttist nafnið í hina alþekktu gerð Harún. Nafnið barst til Íslands þegar á 11. öld, og eru sex nefndir í Sturlungu, þeirra frægastur á sér sögu, Aron Hjörleifsson. Ekki er Aron óþekktur í rímum, og nafninu bregður fyrir í dýrlingatölum. Stundum var Aron í skandinav- ískum málum notað sem „lærð gerð“ af Arent. Frægur erlendur nafnberi er Aaron Copl- and, bandarískt tónskáld. Hérlendis átti nafnið Aron lengi erfitt upp- dráttar, og var t.d. enginn árið 1801. En þegar leið á 20. öld, tók nafnið dularfullan vinsælda- kipp, voru t.d. 15 sveinar skírðir Aron 1985. Í þjóðskránni 1989 voru svo 195 komnir með Ar- ons-nafn, þar af 55 að seinna heiti. Tveir Barð- strendingar hétu Aron 1703, hinir einu á öllu landinu. Bergljót er fornnorrænt og var haft í háum ættum í Noregi. Í seinni tíð hefur merking nafnsins oft misskilist. Þetta er annars vegar af berg, sem er stofn sagnarinnar að bjarga og hins vegar af týndu lýsingarorði ljótur = bjart- ur, skylt ljós og ensku light. Kemur sá nafn- liður t. d. fyrir í Arnljótur. Því má þýða nafnið Bergljót lauslega með orðunum „björt bjarg- vættur“. Þetta þótti Bergljótu nokkurri gott að heyra. Hún hafði haldið að nafn sitt merkti „ljóta kerlingin í berginu, það er Grýla“. Lítið var um þetta nafn hér á landi í fornöld, t.d. er aðeins ein nefnd í Sturlungu. Síðan voru konur með þessu nafni öldum saman á milli 50 og 100, en eru nú nær tveimur hundruðum. Í Barðastrandarsýslu voru þær fimm árið 1703. Borgar er fornnorrænt hermannsheiti, lík- lega skylt sögninni að bjarga eins og Bergljót. Endingin -ar gat hafa orðið til á fleiri veg en einn, en oft úr -ar(r) úr eldra *harR, skylt her. Elsta dæmi um Borgar á Íslandi veit Hermann Pálsson frá 14. öld. Í gamalli dönsku er þetta Burghar eða Borghar og í fornháþýsku Burcheri eða Burghar, og allt á þetta að merkja „verndandi hermaður“. Árið 1703 voru sjö nefndir Borgar hér á landi, allir á Vestfjörðum og þar af þrír í Barðastrandarsýslu. Nafnið var lengi vel fátítt og einskorðað við Vestfirði, einkum Ísafjarðarsýslu. Nú hefur það dreifst og nafnberum fjölgað ofurlítið. Eru 66 í þjóðskránni 1989, þar af 29 að seinna heiti. Daði er fornt, en uppruni og merking óvíst; kannski af keltneskum uppruna, en þá er þess að gæta að til er í fornháþýsku nafnið Tado. Sumir halda að þetta sé barnamál og merki pabbi. Til er myndin Dáði, og má vera að hún feli í sér skýringartilraun. Að einhverju leyti munu menn hafa ruglað þessu saman við Dav- íð. Í Landnámu er einn Daði, Bárðarson og nefndur skáld. En hann er einnig í fornum heimildum nefndur Dagur. Því er það, að sum- ir halda að Daði sé gælumyndun af Dagur. Í Sturlungu eru tveir Daðar, og nafnið er í skrá sr. Odds Oddssonar 1646. Í manntalinu 1703 voru 14, flestir vestanlands, en aðeins einn í Barðastrandarsýslu. Síðan voru þeir mjög lengi á milli 10 og 20, flestir í Dölum, en nú allra síðustu áratugina hefur nafnið komist í talsverða tísku, hvað sem veldur. Í þjóðskrá 1989 eru tæplega 200, nær því jafnt skipt milli fyrra og síðara nafns. Næst kemur hér dularfullt nafn, löngu út- dautt. Þetta er kvenmannsnafnið Dýrvin. Utan Barðastrandarsýslu hefur aðeins fundist eitt dæmi, í Snæfellsnessýslu 1703, og á öllu land- inu var aðeins ein í viðbót og hún þá í Barða- strandarsýslu. Seinni liðurinn er tíðari í karla- heitum en kvenna, en merkir þetta alltaf vinur, vina? Það er mjög hæpið. Mér þykir trúlegast að þetta sé afbökun (ummyndun) úr Dýrfinna eða Dýrunn. Í manntalinu 1801 voru tvær konur með þessu nafni í Barðastrandarsýslu, en hvergi annars staðar, og í manntalinu 1845 engin og ekki síðan. Sagan öll. Hallótta er dautt nafn eins og Dýrvin, lík- lega vegna misskilnings. Nafnið er fornnor- rænt, var alla tíð fremur sjaldgæft. Engin er í Landnámu og aðeins ein í Sturlungu. Hafna verður þeirri skýringu að þetta sé sú sem hall- ast, „den lutande“. Hitt er heldur að „ótta“ er rík af einhverju, sbr. röndóttur og kenjóttur, og segir þá forliðurinn væntanlega til um hvað það er. Hallur er steinn, og má vera að Hallótta sé „full af hörku“, „rík af staðfestu“. En annað mun þó tækilegra. Fjöldi nafna tengist átrún- aði og forfeður okkar „trúðu á stokka og steina. “ Mörg nöfn hafa í sér liðinn hall, og held ég það tengjast átrúnaði. Hallótta mun rík af góð- um eiginleikum sem goðin bjuggu yfir eða í mikilli velvild hjá guðlegum öflum. Í manntalinu 1703 var Hallótta enn í góðu gildi, 22 konur hétu svo, þar af 10 í Gullbringu- og Kjós, aðeins ein í Barðastrandarsýslu. En svo virðast menn hafa farið að misskilja nafnið og setja það í samband við sögnina að hallast, og hið sama var um Hallvör. Mörg önnur Hall- nöfn stóðu þetta þó af sér, t.d. Halldóra og Hallgrímur. En hvað um það. Árið 1801 hétu fimm íslenskra kvenna Hallótta, allar talsvert komnar til aldurs, enda allar horfnar 1845. Nafnið virðist ekki hafa verið endurnýjað. Valdi er mjög algengt gælunafn, en sjald- gæft sem sjálfstætt skírnarnafn, en þó til. Í skáldamáli gömlu kemur samheitið valdi fyrir, “sá sem veldur, ræður, er voldugur (völdug- ur)“. Sérnafnið kemur ekki fyrir í Landnámu, en tveir í Sturlungu, og í manntalinu 1703 ekki færri en 16, flestir sunnanlands. Ekki er þó loku fyrir skotið að einhverjir hafi þá verið bókaðir undir gælunafni, einkum ef þeir voru litlir fyrir sér. Þess eru dæmi. Einn Valdi var í Barðastrandarsýslu 1703. Á nítjándu öldinni voru jafnan milli fimm og tíu, helst sunnan og vestan, nokkuð fast í Kjós- arsýslu t.d. En svo hefur heldur dofnað; menn hafa litið á þetta sem óvirðulegt gælunafn. Árið 1910 voru aðeins tveir, annar fæddur í Mýrasýslu og hinn í Rangárvallasýslu: Valdi Jónsson, fæddur í Eyvindarhólasókn 1874. Í þjóðskránni 1989 heitir enginn Valdi að aðal- nafni, en fimm að síðara. Sagt er að maður nokkur héti Guðvaldi Jón. II. Nú líður tæp öld, og kemur næstaallsherjarmanntal 1801. Íslendingum í heild hafði fækkað nokkuð frá 1703, enda var 18. öldin með eindæmum erfið, svo að furða má kallast að þjóðin lifði af með máli sínu og menn- ingu. Barðstrendingum hafði að vísu nokkuð fækkað, en ekki mikið, enda telst þorri eyjanna á Breiðafirði til Barðastrandarsýslu. Í eyjun- um höfðu menn jafnan í sig, fugl og fisk, enda varð menning mikil í eyjunum með prent- smiðju í Hrappsey og sérsakri bókhlöðu í Flat- ey. Að vísu telst Hrappsey til Dalasýslu. Fyrst skulum við til samanburðar við það sem á eftir kemur sjá algengustu nöfn á land- inu öllu 1801. Tala í sviga merkir: þar af síðara nafn: Konur 1. Guðrún 4.460 2. Sigríður 1.965 3. Margrét 1.282 (3) 4. Ingibjörg 1.262 5. Kristín 1.031 6. Helga 996 7. Þuríður 53 8. Guðríður 508 9. Guðný 459 10. Þórunn 473 (1) NÖFN BARÐSTRENDINGA 1703–1845 OG AÐ NOKKRU LEYTI FYRR OG SÍÐAR E F T I R G Í S L A J Ó N S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.