Lesbók Morgunblaðsins - 17.11.2001, Page 7

Lesbók Morgunblaðsins - 17.11.2001, Page 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. NÓVEMBER 2001 7 B ANDARÍSKI rithöfundurinn Philip Roth hefur upp á síð- kastið átt fáheyrðri velgengni að fagna í bókmenntaheiminum vestanhafs. Gagnrýnendur virtustu dagblaða og tímarita Bandaríkjanna hafa keppst um að ausa hann lofi og fjögur helstu bókmenntaverðlaun þjóðarinnar hafa hvert af öðru fallið honum í skaut undanfarin ár. Sérstaklega er það „bandaríski þríleikur- inn“ svokallaði sem vakið hefur athygli en þar þykir Roth hafa gert bandarískri sögu á seinni hluta aldarinnar skil á listrænan og metnaðar- fullan máta (þríleikurinn samanstendur af Am- erican Pastoral, 1997; I Married a Communist, 1998 og The Human Stain, 2000). Í bókaröðinni fjallar Roth um kommúnistaofsóknir sjötta áratugarins, byltingaranda sjöunda áratugar- ins og pólitísk hneyksli þess tíunda. Þetta gerir hann þó á yfirfærðan hátt, hin stóru þjóð- félagsmál eru látin speglast í lífi og örlögum einstaklinga. Lengi lifir smekkleysinginn Það sem kannski er áhugaverðast við upp- hafna stöðu Roths í bókmennaheiminum í dag er að í fyrsta skipti á ferlinum ríkir samhljóm- ur um verk Roths, velþóknunin er bæði al- menn og alþjóðleg, en fram til þessa hefði verið óhætt að telja Roth einn allra umdeildasta höf- und Bandaríkjanna. Harkaleg viðbrögð les- enda, félagasamtaka, femínista og ekki síst gyðinga, jákvæð og neikvæð, hafa fylgt honum frá upphafi; einróma lof, eða því sem næst, er hins vegar nýlunda. Hefð er fyrir ásökunum um kvenfyrirlitningu og karlrembu í bókum Roths. Sömuleiðis hefur hann verið kallaður eintóna rithöfundur, smekklaus og klámfeng- inn. Þá hefur hann gjarnan verið borinn saman við Saul Bellow eða Bernard Malamud og létt- vægur fundinn. Hinn póllinn birtist síðan í skrifum manna á borð við William Gass og Ha- rold Bloom, en hinn síðarnefndi, einn virtasti bókmenntafræðingur Bandaríkjanna, lýsti því yfir um miðjan níunda áratuginn að þeir Philip Roth og Thomas Pynchon væru merkustu höf- undar samtímans. Viðbrögðin við fyrstu skáldsögu Roths, Goodbye Columbus (1959), geta talist nokkuð dæmigerð fyrir höfundaferilinn, en bókin brá upp hæðnislegri mynd af gyðingasamfélaginu í New Jersey jafnframt því sem hún lýsir þeirri djúpu gjá sem skilur strangtrúaða gyðinga frá þeim veraldlega sinnuðu, en sjálfur er Roth bandarískur gyðingur. Bókin var af mörgum lofuð í hástert, hlaut m.a. National Book Aw- ard, en af jafn mörgum fordæmd sem fólskuleg árás á gyðingdóm. Sömu sögu er að segja af verkinu sem skaut Roth upp á stjörnuhimin- inn, Portnoy’s Complaint (1969), þar sem að- alsöguhetjan lýsir lífi sínu fyrir sálfræðingi. Þar birtast flest þau áhersluatriði sem áttu eft- ir að einkenna verk Roths: Opinská, jafnvel þráhyggjukennd umfjöllun um kynferðismál, taumlaus ögrun, sjálfsfyrirlitningarblandin naflaskoðun, baneitruð kímni, hárfín írónía. Að ógleymdri gargantúískri sjálfsfróunaráráttu aðalpersónunnar, en óheftur áhugi á ónanisma getur talist eitt helsta aðalsmerki persóna Roths. Skepnan deyr Nýjasta skáldsaga Roths, The Dying Ani- mal (2001) skartar söguhetju sem fyrst kom fyrir sjónir lesenda árið 1972 í The Breast, sjöttu bók höfundar. Bráðfyndinni og sannfær- andi fyrstu persónu frásögn af bókmennta- kennaranum David Kepesh sem sökum „stór- kostlegs hormónaójafnvægis“ breytist einn góðan veðurdag í risavaxið brjóst. Næst birtist Kepesh árið 1977 í The Professor of Desire sem lýsti forsögu hans; skólaárunum, hjóna- bandi, skilnaði og öðrum lífsraunum og reynslum. Í seinni skáldsögunni reynist Ke- pesh heldur óviðkunnanleg persóna, hégóm- legur með afbrigðum og á köflum barnalegur. Í nýju bókinni eru þessir eiginleikar í forgrunni, lítið annað birtist okkur í fari hins sjötuga Ke- pesh en sjálfselska og tilfinningakuldi. Hann er fullkomlega sjálfhverfur og myndar þannig andstæðu við hina uppáhaldspersónu Roths, rithöfundinn Nathan Zuckerman sem undan- farin ár, í bókum á borð við The Counterlife (1987) og í bandaríska þríleiknum, hefur fengið hlutverk hins réttsýna sagnaritara eftirstríðs- áranna. Kepesh er hins vegar skíthæll, það er lykilatriði varðandi persónuna sem nú kennir bókmenntaáfanga við háskóla í New York („Þau koma í fyrsta tímann og ég veit næstum því strax hver stúlknanna verður mín.“). Kepesh lifir frjáls, hefur hafnað góðborgara- legum hefðum, býr til eigin siðferðileg viðmið og nýtur óspart lystisemda holdsins. Oftar en ekki með nemendum sínum, eða eins og hann lýsir frásögninni í upphafi: „Unaður er umfjöll- unarefnið. Hvernig taka skal unað alvarlega yfir heilt æviskeið.“ Kepesh horfir um öxl í sögunni, lítur aftur um átta ár og minnist þess þegar hann var sex- tíu og tveggja ára gamall, minniháttar stjarna út af menningarþætti í sjónvarpinu, og átti í ástarsambandi við fegurðardísina Consuela Castillo, nemanda í áfanganum sem hann kenndi um hagnýta gagnrýni. Hann rifjar upp andartakið er hann fyrst leit hana augum: „Maður sá brjóstaskoruna um leið“, og þegar hann sá hana nakta í fyrsta sinn: „Fyrir það fyrsta, þá voru það brjóstin. Yndislegustu brjóst sem ég hafði nokkru sinni séð.“ Það er ekki ætlun Roth að búa til persónu sem lesanda líkar vel við í þessari bók. Hann skapar hins vegar persónu sem er ögrandi og heldur uppi rökum fyrir skoðunum sínum og lífsstíl sem áhugavert er að fylgjast með. Ástæðurnar fyrir því að Consuela fellur ekki í sama gleymskunar dá og aðrar fyrrum stúd- ínur/elskhugar Kepesh, ástæðan fyrir því að hann finnur sig knúinn til að tjá sig um hana mörgum árum eftir að sambandinu lauk, eru brjóstin. Þegar öllu er á botninn hvolft eru það brjóstin sem tákna konuna og þeim getur hann ekki gleymt. Eitt sinn breyttist Kepesh sjálfur í brjóst en þarna fann hann konu sem hann gat breytt í brjóst. Í rauninni er það nákvæmlega það sem gerist í bókinni, undir lokin hefur Consuela ekkert annað gildismat um sjálfa sig og í ákveðnum skilningi eru það brjóstin sem drepa hana, því skepnan sem er að deyja í bók- artitilnum er ekki hinn sjötugi Kepesh heldur hin unga, fallega Consuela. Klámflaumur strengjabrúðuleikarans The Dying Animal er smærri bók en þær sem skipa bandaríska þríleikinn, bæði efnis- lega og andlega. Díalektíkin, eins og hún birt- ist lesendum hér, er hnyttinn en gamalkunn úr öðrum bókum Roths, sbr. skoðanaskiptin um mikilvægi ’68 kynslóðarinnar, og virðist heldur til málamynda en að ljá bókinni dýpt. Það sem skáldsagan hins vegar gerir er að staðfesta kraftinn sem færst hefur yfir Roth í ellinni því þrátt fyrir að vera ákveðnum takmörkunum háð er bókin einstaklega vel skrifuð og gríp- andi innsýn er gefin í greddulegan hugarheim hins aldna fagurkera. Það er sem Roth hafi á gamalsaldri fengið svelg aukalega úr brunni Mímis því það er afar sjaldgæft að höfundar skrifi sín kraftmestu og mik- ilvægustu verk þegar vel er farið að síga á seinni hluta ferilsins, eins og hann er að gera með bandaríska þrí- leiknum. Ef langt er um liðið síðan höfundurinn kvað sér hljóðs kann rósemd að færast yfir verkin, og hér er rétt að hafa í huga að Philip Roth hefur verið að skrifa síðan um miðjan sjötta áratuginn, horft er inn á við eða aftur. Því er hins vegar ekki svo farið með Roth sem undanfarin ár hefur upplifað hálfgert endurreisn- arskeið. Fyrsta vísbendingin um yf- irvofandi berserksham höf- undarins var sennilega skáld- sagan Sabbath’s Theater árið 1995, einnar merkilegustu bókar áratugarins í bandarískum bókmennt- um. Jafnvel þeim sem vel þekktu til Roths féll- ust hendur frammi fyrir því risavaxna vitund- arhrópi sem þarna var á ferðinni. Í sextándu skáldsögu höfundarins kvað allt í einu við nýj- an tón, eða endurnýjaðan tón; Roth skrifaði sem andsetinn væri, ævisaga aldraða stengja- brúðulistamannsins Mickey Sabbath iðaði af lífi, einhverjum frumkrafti sem upplýsti myrk- ustu afkima mannssálarinnar. Bókin er sam- blanda óhemjulegrar svartsýni, reiði og bit- urleika, jafnvel haturs en líka ódrepandi lífsþróttar. Klámflaumur og reiðilestrar hellt- ust yfir lesandann svo hann vart náði andan- um. Sabbath klæðir holdi heimspekilega höfn- un allra gilda samtímis því sem hann neitar að lúta lægra haldi fyrir ellinni. Og þótt þríleik- urinn sem á eftir fylgdi sé vissulega framúr- skarandi er þessi bók fjallstindurinn á höfund- arferli Roths. Kosningar í helvíti Þegar litið er um öxl og höfundarferill Roths skoðaður er athyglisvert hvernig frægð og frami virtist þegar frá upphafi ætla að falla honum örugglega í skaut. Hann hlýtur ein eft- irsóttustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna fyrir sína fyrstu bók, National Book Award (sem hann hlaut aftur fyrir Sabbath’s Theat- er), aðeins hálfþrítugur að aldri. Hann var undrabarn ársins; nýjasta, skærasta von gyð- inglegra bókmennta - hinn ungi Bellow. Hans beið þó vanþakklátt og erfitt verkefni – að fylgja eftir velgengni frumburðarins. Flestir samtímagagnrýnendur virtust sammála um að það hefði honum mistekist í bókunum Letting Go (1962) og When She Was Good (1967). Umfjöll- un um þær litast mjög af þeirri skoðun að Roth sýni hæfileika en standi ekki undir vonum. Það var ekki fyrr en Portnoy nokkur lagðist á bekk hjá sálfræð- ingi og opnaði fyrir alheimi pandórubox forboðinna hugsana hins óþekka gyð- ings, að Roth hitti aftur naglann á höfuðið. Og nú varð hann frægur. Al- ræmdur er kannski nær sönnu. En þótt bókin seld- ist eins og heitar lummur vildu margir enn meina Roth um bókmenntalegt vægi, bókmenntastofnunin var ekki ýkja hrifinn af þessari ofurstjörnu viku- blaðanna. Árið 1975 skrif- aði Roger Sale í New York Times að talað væri um Roth sem skammhlaup hjá bókmenntaklíkunni í New York, tískufyrirbæri sem ekki myndi endast. En Roth hélt áfram að skrifa og hélt áfram að vera fynd- inn og lesendur keyptu bæk- urnar og gagnrýnendur voru áfram ósammála. Portnoy’s Complaint fylgdi Roth eftir með pólitísku satírunni Our Gang (1971) sem brá upp afar hæðnsilegri mynd af þáverandi for- seta Bandaríkjanna, Richard Nixon. Roth var náttúrlega ekki einn um að gagnrýna forset- ann en gerði það þó á öðrum forsendum en tíðkaðist. Í viðtali frá þessum tíma sagði Roth að það hefði öðru fremur verið orðræða forset- ans sem fyllti hann vanþóknun, innblástur skáldsögunnar væri (mis)notkun forsetans á sjálfu tungumálinu frekar en stefnumálin í sjálfu sér. Það útskýrir e.t.v. áherslu bókarinn- ar á að skrumskæla stofnanamál og tungutak stjórnmálamannanna. Dæmi um það er þegar Tricky (Nixon) er ráðinn af dögum undir lok sögunnar og lesendur fá að fylgjast með hand- anlífi forsetans. Á öndverðri nítjándu öld sendi Byron lávarður breska ljóðskáldið Robert Southey til vítis í söguljóðinu „Vision of Judge- ment“ en hér gengur Roth skrefinu lengra og lætur Nixon bjóða sig fram gegn Satan um sjálft forsetaembættið í Helvíti. Eftirfarandi brot úr framboðsræðu Trickys gefur til kynna tón bókarinnar: „Kæru sam- djöflar, leyfið mér að taka fram strax í upphafi að ég er að sjálfsögðu sammála mörgu af því sem Satan sagði í opnunarræðu sinni. Ég veit að Satani er jafn umhugað og mér að illska fái að blómstra í veröldinni. Og nú vildi ég víkja að þeim sem benda á forsetatíð mína í Bandaríkj- unum og segja að ég hafi ekki framið öll þau ill- virki sem möguleg voru. Ég vil minna þessar sömu gagnrýnisraddir á þá staðreynd að ég hafði aðeins setið í embætti innan við eitt kjör- tímabil þegar ég var myrtur. Þrátt fyrir það get ég sagt með fullri vissu að ég hafi lagt drög að mörgum nýjum kúgunartækjum, vísað veg- inn í átt að enn meira óréttlæti en áður þekkt- ist og eitrað lífsbrunninn fyrir komandi kyn- slóðum. Stoltur í bragði bendi ég á Suðaustur-Asíu.“ Bókinni var misvel tekið þegar hún kom út, en hefur elst vel og stendur uppi sem ein af skemmtilegri þjóðfélagsádeil- um. Skuggi Kafka Franz Kafka er einn af þeim höfundum sem vaka yfir verkum Roths, skáldsögurnar búa margar yfir vísunum í martraðarkennd verk stórskáldsins og í The Breast, þar sem Kapesh breytist í stórbrjóstið, skrifar hann Hamskipti Kafka hreinlega inn í gyðinglega veröld tauga- veiklunar og bældra kynferðisóra. Þá skrifaði Roth áhugaverða ritgerð um Kafka (sem var endurprentuð í Reading Myself and Others, 1975). En Kafka gegnir líka skemmtilegu (óbeinu) gestahlutverki í draumförum Kapesh í annarri bók, The Professor of Desire, þar sem gömul kona verður bókmenntalegur minnisvarði fyrir þær sakir að hafa eitt sinni verið hóran hans Kafka. Þetta er einstaklega roth-ísk örsaga í þeim skilningi að sýn höfund- arins á Bandaríkin og veruleikann sjálfan er svo oft eins konar barrokkísk fantasía (sem tengir hann að einhverju leyti við Norman Mailer, en þó á annan hátt en Kafka) þar sem endamörk hins eðlilega eru illgreinanleg en líf- inu er fagnað/miðlað í gegnum skynfærin, eða eins og Kepesh í The Dying Animal orðar hin líkamlegu örlög sem hann harmar en veit að eru óumflýjanleg: „allir þessir líkamshlutar sem hingað til hafa verið ósýnilegir (lungun, nýrun, hjartað, ristillinn) eru byrjaðir að gera vart við sig á óskemmtilegan máta meðan sá líkamshluti sem allt mitt líf hefur verið mest áberandi, er að verða gagnslaus.“ bjornv@isholf.is EKKERT HEILAGT „Það sem kannski er áhugaverðast við upphafna stöðu Philips Roths í bókmenntaheiminum í dag er að í fyrsta skipti á ferlinum ríkir samhljómur um verk Roths, velþóknunin er bæði almenn og alþjóðleg, en fram til þessa hefði verið óhætt að telja Roth einn allra umdeildasta höfund Bandaríkjanna.“ E F T I R B J Ö R N Þ Ó R V I L H J Á L M S S O N Höfundur er bókmenntafræðingur. Philip Roth

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.