Lesbók Morgunblaðsins - 15.12.2001, Qupperneq 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. DESEMBER 2001 3
Í
SLAND er ekki í ESB og ekki Nor-
egur heldur. Meðal Dana og Breta er
veruleg andstaða gegn sambandinu.
Þær Evrópuþjóðir sem eru skyld-
astar okkur í hugsun og hátt, Danir,
Norðmenn og Bretar, eru, eins og
margir Íslendingar, tvístígandi í af-
stöðu sinni til ESB. Danir og Bretar
ákváðu að vera með en ég tel nær fullvíst að
ef þeir hefðu vitað að árið 2001 yrði rætt í
fullri alvöru um samræmda skattheimtu og
samræmda refsilöggjöf, auk sameiginlegs
gjaldmiðils, hefðu þeir aldrei samþykkt inn-
göngu.
Þeir sem hallast á sveif með aðild segja
margir sem svo að allar hinar Evrópuþjóð-
irnar ætli að vera með svo við verðum að
gera það líka. Þessi rök eru álíka merkileg
og þau sem lesin voru yfir mér þegar mér
var kennt að reykja endur fyrir löngu. Þá
var sagt: Það reykja náttúrlega allir. Ég
gein við flugunni og ályktaði að þá hlyti ég
líka að reykja. Þetta var að sjálfsögðu kol-
röng ályktun. Hefði forsendan, að allir
reyktu, verið sönn hefði ég þess heldur ver-
ið maður að meiri með því að segja nei. Í
pólitískum þrætum á þriðja áratug síðustu
aldar var svipuð hundalógik notuð af fylg-
ismönnum kommúnisma. Þeir margstögl-
uðust á því að byltingin kæmi hvort sem er,
sósíalismi væri framtíðin og því þýddi ekk-
ert að streitast á móti. Nú er ég hættur að
reykja og kommúnismi kominn úr tísku. En
hundalógik af fyrrgreindu tagi er enn notuð
og einna helst af talsmönnum Evrópusam-
runa sem telja honum til gildis að vera með
einhverjum hætti óumflýjanlegur. Vart þarf
að taka fram að þessi rök eru einskis virði
og ekkert annað en hreinn kjánaskapur að
láta þau hafa áhrif á afstöðu sína.
Eitthvað fleira eiga talsmenn aðildar í
pokahorninu. Sumir láta að því liggja að
með aðild fáist ýmisleg réttarbót, lögin sem
sett eru í Brussel henti okkur betur en þau
sem samþykkt eru við Austurvöll. Þessi
hugmynd er raunar með slíkum ólíkindum
að það er erfitt að ímynda sér hvernig
nokkrum manni dettur í hug að trúa því í
fullri alvöru að innlendir þingmenn setji
verri lög en hægt er að fá í pósti frá útlönd-
um. Er ekki sannleikurinn miklu frekar sá
að meðan við stöndum utan ESB getur Al-
þingi leitt frumvörp frá Brussel í lög ef
þingmönnum líst þau til heilla fyrir land og
lýð en með aðild verðum við að taka við öllu
sem þaðan kemur, bæði góðu og vondu?
Þessu munu talsmenn aðildar trúlega svara
með því að segja að löggjöf ESB hafi óhjá-
kvæmilega áhrif hér á landi og við getum
hvergi hnikað þar stafkrók án þess að ger-
ast meðlimir. Tvennt er við þetta að athuga.
Annað er að ESB er ekki stjórnað með svo
lýðræðislegum hætti að nokkur von sé að
almennir borgarar hafi teljandi áhrif á
stefnu þess og löggjöf. Hitt er að jafnvel
þótt einhverjir íslenskir embættismenn
gætu við og við kippt í spotta úti í Brussel er
fráleitt að sambandið láti íbúa fámennrar
eyjar úti í hafsauga hafa nokkur minnstu
áhrif þegar hagsmunir stórþjóða eru í húfi.
ESB er ekki bandalag fullvalda ríkja þar
sem hvert ríki hefur atkvæðisrétt óháð
höfðatölu. Reglurnar sem það setur eru
ekki milliríkjasamningar þar sem hvert
sjálfstætt ríki hefur val um hvort það skrif-
ar undir. Það byrjaði ef til vill sem bandalag
fullvalda ríkja en það er óðum að breytast í
ríki þar sem aðildarþjóðirnar eru fylki eða
héruð með takmarkaða sjálfstjórn í eigin
málum. Í þessu risastóra ríki getur Ísland
aldrei orðið annað en afskekktur hreppur
þar sem sveitarstjórnin fær, upp á náð og
miskunn, að rella um sporslur, styrki og
undanþágur.
Er þá ekkert sem mælir með inngöngu?
Hvað með fríverslun og öflugan gjaldmiðil?
Það litla sem ég veit um þessi efni finnst
mér mæla heldur gegn aðild en með henni.
ESB tryggir fríverslun við ríki innan sam-
bandsins en takmarkar á ýmsa lund frjáls
viðskipti við önnur ríki. Ef menn komast að
þeirri niðurstöðu að krónan sé ekki nógu
góður gjaldmiðill er vel hægt að binda gengi
hennar við dal, jen, evru eða gull án þess að
ganga í ESB. Hér gildir það sama og um
lögin. Meðan Ísland er sjálfstætt ríki hafa
innlend stjórnvöld val um þetta efni. Ef við
göngum í ESB töpum við þessu valfrelsi.
Rökin fyrir aðild að ESB eru skelfing
léttvæg. Það eru rökin gegn aðild hins veg-
ar ekki. Hún mundi kosta okkur fleiri millj-
arða á ári, það yrði erfitt að verjast ásókn í
veiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar
og við gætum ekki lengur samið sjálf um
viðskiptakjör við Japan, Bandaríkin og
fleiri þjóðir. Þetta eru fyrirsjáanlegir ókost-
ir. Um suma aðra er erfitt að vita með vissu
því það er engin leið að fá á hreint að hverju
ríki ganga þegar þau gerast aðilar að ESB.
Upphaflega átti þetta að vera fríversl-
unarbandalag en á síðustu árum hafa valda-
stofnanir ESB unnið að því að „dýpka sam-
starfið“ sem kallað er. Hvergi liggur fyrir
hvað þessi „dýpkun“ á að ganga langt en
mér þykir sýnt að ESB sé að breytast í ríki
þar sem stofnanir sambandsins fara með
æðsta vald. Þetta ríki sem er að gleypa
meirihluta álfunnar einkennist hvorki af
gætni í meðferð valds né lýðræði og virð-
ingu fyrir sjálfræði einstaklinga og hópa.
Þvert á móti slær það sífellt ný met í skrif-
ræði, ofríki og afskiptasemi.
Skrifræðið í Brussel framleiðir heilu
hillumetrana af reglum sem eru sumar svo
arfavitlausar að maður veit ekki hvort á
heldur að hlæja eða gráta. Það er til dæmis
bannað að selja gulrætur sem eru minna en
2 cm í þvermál þar sem þær eru gildastar. Í
ríkjum ESB munu viðurlög við broti á
þessu banni vera allt að sex mánaða fang-
elsi og rúmlega milljón króna sekt. Þetta er
kannski fyndið svona í aðra röndina. Hins
vegar er ekkert fyndið við dóm Evr-
ópudómstólsins frá í mars 2001 þess efnis
að heimilt sé að banna málflutning sem
„grefur undan heiðri og spillir ímynd“ Evr-
ópusamstarfsins. Helst er að skilja að ESB
eigi að njóta sams konar verndar fyrir þeim
sem tala illa um það og einstaklingar njóta
gegn meiðyrðum. Með þessum dómi er að
engu hafður mannréttindasáttmálinn sem
breskir lögfræðingar sömdu eftir seinni
heimsstyrjöldina til að tryggja málfrelsi og
fleiri mannréttindi. Þessi sáttmáli var full-
giltur af flestum aðildarríkjum ESB árið
1950 og frá 1959 hefur mannréttinda-
dómstóllinn í Strassburg (sem er óháður
stofnunum ESB) staðið vörð um hann og
þar með frelsi og mannréttindi í álfunni. En
þótt mannréttindadómstóllinn hafi vald til
þess að dæma einstök ríki hefur hann ekki
dómsvald yfir ESB.
Talsmenn ESB láta stundum eins og þeir
séu öðrum fremur málsvarar evrópskrar
menningar og lífsgilda. Þeir nota sér að fjöl-
margir mennta- og lærdómsmenn hafa
sterkar taugar til þeirrar sameiginlegu arf-
leifðar sem listamenn og hugsuðir frá öllum
öldum hafa gefið íbúum álfunnar. En þeir
skreyta málstað sinn stolnum fjöðrum því
að sú Evrópa sem fóstraði Erasmus, Leon-
ardo og Comenius hefur í þúsund ár gert
uppreisn gegn skrifræði og ofríki af því tagi
sem einkennir ESB, hvort sem það hefur
birst hjá prelátum miðaldakirkjunnar eða
skriffinnum COMECON. Við skulum ekki
láta pótintáta Evrópuríkisins telja okkur
trú um að þeir séu eitthvað meiri Evr-
ópusinnar en við hin eða eigi eitthvað meira
í evrópskri menningu. Þeir sem vilja veg
álfunnar sem mestan hafa ríkar ástæður til
þess að vera á varðbergi gagnvart ESB og
trúa ekki nema rétt mátulega fagurgala
sem uppi er hafður til að lokka okkur til inn-
göngu.
EVRÓPU-
SAMBANDIÐ
RABB
atli@ismennt.is
A T L I H A R Ð A R S O N
SVEINN ÓLAFUR GUNNARSSON
HVÖRF
Í grafarþögn
leið hvískur
hríslandi beina
Það breiddist yfir
grátvotar götur
Skreið inn
í steinsteypta
drauma
glerborgar
Tóngnestir mögnuðust
uns
rótlaus borgin
brast
og draumarnir
molnuðu
Glerbrotum rigndi
af skírum himni
Kyrrð
Klofvega stóð bogdregið
litróf á hvikum jöðrum
Mitt í upphafi alls
Ljóðið birtist í ljóðasafninu Ljóðum ungra skálda sem kom út fyrir skömmu.
Sveinn Ólafur er fæddur árið 1976, hann stundar nám við íslenskudeild Há-
skóla Íslands og er í leikhópi Stúdentaleikhússins.
FORSÍÐUMYNDIN
er hluti af verki eftir Gunnlaug Blöndal (1893–1962), Leikkona (1933, olía,
132x85). Verkið er á sýningunni Íslensk myndlist á 20. öld sem opnuð er í
Listasafni Íslands í dag. Ljósmyndari: Ásdís Ásgeirsdóttir.
Ljóðtímaleit
nefnist ný ljóðabók Sigurðar Pálssonar.
Einar Falur Ingólfsson ræðir við Sigurð um
bókina og skáldskapinn en Sigurður segir
meðal annars um hinn glögga heildarsvip
ljóðabóka sinna: „Öll mín ljóðagerð er á
leiðinni að verða að einhverri heildarbygg-
ingu, ég get séð að þarna er einhver bygg-
ing, eiginlega í merkingunni hús.“
Heimsveldi
hinnar íslensku baðstofu heitir grein Auðar
Ólafsdóttur í greinaflokknum Ísland –
Útland. Auður fjallar um þjóðlega íslenska
myndlist í alþjóðlegu samhengi.
Ljósmyndarar á Íslandi
1854–1945 nefnist ný bók eftir Ingu Láru
Baldvinsdóttur en þar er saga ljósmynd-
unar á Íslandi þetta tímabil rakin í máli og
ljósmyndum. Inga Lára segir Íslendinga
ekki hafa gætt þessara gersema sinna
nægilega vel og ekki gera það enn: „Íslend-
ingar hafa því miður verið allt of iðnir við
að henda og eru í raun ennþá að henda al-
veg gegndarlaust. Það er nefnilega ekki
nóg að menn taki myndirnar, það verður að
tryggja varðveislu þeirra líka.“
Úrslit
í Ljóðaþýðingasamkeppni Lesbókar og
Þýðingaseturs Háskóla Íslands eru kynnt á
miðopnu. Þátttaka var geysimikil en á ann-
að hundrað þýðendur sendu þýðingar í
samkeppnina.
LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR
4 9 . T Ö L U B L A Ð - 7 6 . Á R G A N G U R
EFNI