Lesbók Morgunblaðsins - 09.03.2002, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 09.03.2002, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 9. MARS 2002 7 dvelur meira og minna næstu þrjú árin og þar er hann staddur þegar Halldór sendir honum fyrra bindi Sölku Völku: „Ég skrifaði honum strax og dáðist að þess- um nýja þroska, sem hann hefði tekið í list sinni. Hann skrifaði mér og boðaði komu sína til Parísar, bað mig að sjá sér fyrir herbergi og taka á móti sér. Ég sé hann enn fyrir mér, þeg- ar hann kemur á móti mér á járnbrautarstöð- inni Gare de l’Est í ljósgulum frakka úr úlf- aldahári og ritvél í hendinni. Morguninn eftir hélt Laxness áfram að skrifa bók, sem hann lauk svo við í Grindavík um haustið. Við hitt- umst iðulega á kvöldin á Montparnasse meðan hann var í París, en hann fór heim í júlímán- uði.“12 Í sjónvarpsviðtali við Steinunni Sigurðar- dóttur hálfri öld síðar framkallar hann enn aðra mynd frá þessum sæludögum félaganna í París: „Við komum mikið á listamannaknæpurnar á Montparnasse og þá var frægust af þeim knæpum La Rotonde, þar sem mikið var af slíku fólki og alls konar reikunarlýð úr öllum löndum. Halldór hringir til mín einn dag og segir: „Þú verður að koma bara alveg undir- eins, sko, og bjarga mér, svo eg verði ekki sett- ur í tughúsið upp á vatn og brauð.“ Eg spurði hvað gerst hefði. „Ja, eg lenti í fyllibyttu,“ sagði Halldór. „Hvaða ósköp er að heyra,“ segi eg. „Og hvernig bar það til?“ „Jú, sko, eg sat niður á La Rotonde og var að líta í skandinav- ísk blöð sem þar liggja frammi, þegar ung kona talar til mín á skandinavískri tungu og biður mig að lána sér Politiken þegar eg sé búinn að lesa hana. Eg rétti henni blaðið – en þá settist hún við borðið hjá mér og tók að ræða við mig allkumpánlega. Mér fannst þá kurteislegra að bjóða henni eitthvað og hún þáði það og kvaðst vilja glas af koníaki. Hvað heldurðu að þá ger- ist? Hún bara situr lon og don og veifar í þjón- inn og biður um hvert nýtt koníaksglas af öðru, þangað til hún er orðin hálffull; þá staulast hún fram, þakkar fyrir sig og fer. En eg sit eftir með svo háan reikning að eg get ekki borgað hann, hef ekki nóga peninga á mér. Og nú verð- ur þú sumsé að koma undireins og bjarga mér.“13 *** Þegar Salka Valka hafði birst í heilu lagi var ánægja Kristjáns ekki alveg óblandin: „Það er læknir í plássinu, hjákátlegt fífl, fá- bjáni. Sú mannlýsing er gersamlega óboðleg, hvorki skemmtileg né fróðleg á nokkurn hátt né heldur skiljanlegt að sagan græði neitt á því að læknirinn sé skrípalegur aumingi. Þá er prófastur á staðnum sem er ekkert nema hræsnin, falshátturinn og svíðingsskapurinn… Hinn eini af yfirstéttarfólki sögunnar sem á geðfellda drætti í skapgerð sinni er Bogesen kaupmaður, en aðeins í fyrri hluta hennar. Í síðari hlutanum er eins og skáldið sjái eftir þessum veikleika sínum og nú er gamli mað- urinn ekkert nema svik og prettir og auk þess allt í einu orðinn fáránlegur í framkomu. Hann er látinn hafa það fyrir sið að pota upp undir kvenfólkið með stafnum sínum… Þá eru börn kaupmannsins á unga aldri full af heimskuleg- um hroka við fátæklingana sem er ekkert ann- að en bláber skáldsögutilbúningur… ýkjur og ósannindi þar sem prestahatur og auðvaldshat- ur höfundarins svalar sér í algleymingi… Halldór Kiljan Laxness væri enn meira skáld en hann er ef hann hefði manndóm í sér til þess að vera í skáldsögum sínum ekkert nema skáld, eins og hann er alls staðar þar sem saga hans er fegurst og áhrifamest.“14 *** En þó tók fyrst í hnjúkana þegar Halldór birti Atómstöðina, árið 1948. „Eftir sinn glæsilega sagnabálk um Jón Hreggviðsson og samtíð hans hefur Halldór K. Laxness tekið sér hvíld frá alvarlegum ritstörf- um og skrifað Atómstöðina… Ég hef verið að furða mig á því að enn skuli ekki hafa sést ein- art og skynsamlegt orð um þessa bók í nokkru blaði. Við hvað eru menn hræddir? (…) Ég sé ekki að Laxness sjálfum, né íslenskri siðmenn- ingu, sé með því neinn greiði gerður að hlífst sé við að tala í fullri hreinskilni um þá háðung að höfuðskáld sem nú stendur með pálmann í höndunum sem einn af mestu höfundum ís- lenskunnar skuli sjóða saman sögu sem að mjög miklu leyti er ekki annað en ósvífinn og smekklaus lygaþvættingur…“15 En samtímis skrifar Kristján vini sínum einkabréf: París, 2. júní 1948. Kæri vinur… Gjarnan hefði ég viljað halda friðinn við þig það sem eft- ir er ævinnar, en enginn má sköpum renna. Ekki veit ég hvort þér hefur flogið í hug meðan þú samdir söguna að ég myndi ekki geta látið hana afskiptalausa. Ég vona þó að þú skiljir við nánari íhugun að ég get ekki set- ið hjá þegar sá maður sem mér hefur þótt vænst um er beittur þeim tökum sem hér eru notuð. Vissar árásir eru með þeim hætti gerðar að menn geta ekki sjálfir borið hönd fyrir höfuð sér – það verða annað hvort vinir þeirra að gera eða enginn. Mér dettur ekki í hug að for- sætisráðherrann í sögu þinni sé tilraun til þess að lýsa Ólafi Thors. Til þess fer of fjarri því að nokkur líking sé með þessum tveim forsætisráðherrum. Hins vegar lætur þú ráð- herraskrípi þitt skipa þá stöðu sem Ólafur Thors skipaði þegar flugvallarsamningurinn var gerður – og hvað á þá allur al- menningur að halda um það við hvern sé átt – og hvað síðari tíma menn? Þetta hlýtur þér líka að hafa verið ljóst. Allt sem í grein minni segir átt þú skilið – en þú átt það ekki skilið af mér. Og þó hlaut ég að skrifa grein- ina. Með bestu kveðjum, þinn Krisján Albertsson.“16 Halldór svaraði um hæl 9. júní 1948: „Kæri gamli vinur, þakka bréf þitt og dreinglyndislega aðferð. Ég veit þú veist að málstaður sigrandi heimsstefnu mann- kynsins er minn málstaður og eingin von fyrir kapítalismann í þeim átökum sem yfir standa og framundan eru, kapítalisminn, þetta stjórnar- form 19. aldar er orðinn úrættaður, hann er orðinn að dálítilli amrískri gangsterklíku, að vísu enn mjög öflugri en þó ekki eins öflugri og maður skyldi halda, jafnvel ekki í sjálfum Bandaríkjunum þar sem hún á þó própaganda- apparatið einsog það leggur sig. Þetta vita all- ir, jafnvel þeir pestarlyktandi betlarar sem láta þessa klíku nota sig, hér norður á Íslandi. Ég skil aðstöðu þína mjög vel. Það hlýtur að vera harmsaga fyrir þig að eiga að vini mann, senni- lega að mörgu leyti prýðisdreing, sem hefur orðið fyrir þeirri ógæfu að standa að einhverju því geigvænlegasta óheillaverki sem unnið hef- ur verið í þessu landi, afsali mikilsverðra lands- réttinda okkar tveimur árum eftir að 700 ára sjálfstæðisbaráttu okkar var lokið… Eins og þú sérð af Atómstöðinni forðaðist ég að hæfa þessa ógæfumenn persónulega, gerði alt sem ég gat til þess að eingin líking skyldi finnast með höfundum samníngsins og glæpamönnum bókarinnar, meira að segja dró fram alt hið besta sem til er í borgarastéttinni í miðri óvið- bjarganlegri rotnun hennar, ég efast meira að segja um að nokkur íslenskur rithöfundur hafi gert jafn geðuga mynd af yfirstéttarmanni og ég hef gert þar sem Búi Árland er. Jæja, vinur, gaman var að heyra frá þér, skammaðu mig eins og þú lífsins getur, það kemur ekki við mig fremur en þó þú værir að berja fisk norður á Lánganesi. Þó ég sé mest skammaður af öllum íslendingum er mér ekki illa til nokkurs manns, ég er annaðhvort svona blaseraður eða svona skaplaus… Kærar kveðj- ur frá þínum einlægum vin, Halldóri Kiljan Laxness.“17 Og Kristján sendir boltann aftur til Hall- dórs, eftir andartaks hik. „Genf, 8. ágúst 1948. Kæri vinur – bestu þakkir fyrir bréf þitt frá 9. júní. Mér þykir vænt um að okkar gamla vin- átta hefur enn á ný staðist nokkurn árekstur og að þú virðist skilja að som man raaber í skoven faar man svar, eins og danskurinn segir (…) Að öðru leyti setur þú mig í mesta vanda með bréfi þínu því að gjarnan vildi ég geta svarað því kurteislega. Mér finnst þú blátt áfram ekki hafa HUGSAÐ um pólitík síðan einhvern tíma löngu fyrir stríð, svo fjarri fer því að skoðanir þínar séu nú up to date… Kommúnisminn sigr- ar ekki. Kraftahlutföllin eru önnur en þú held- ur. Meiri hluti manna í öllum löndum Evrópu hefur hatur á hinum austræna barbarisma. Rússum gæti í hæsta lagi tekist að slétta út byggðina í Evrópu, aldrei að útrýma menning- aranda og frelsiást hinna vestrænu þjóða. Og í stríði mundu þær alltaf eiga margfalt stærri fimmtu herdeild fyrir handan víglínuna heldur en rússar ættu hérna megin við hana – og þetta veit Stalín, og þess vegna verður ekkert stríð. Eins og heimurinn skiptist í reformeraða og kaþólska veröld eftir trúarbragðastríðin, eins mun hann nú skiptast í heim bolsjevísma með algerri líkamlegri og sálarlegri ríkiseign á manneskjum og öðrum ofríkisviðbjóði og heim einkaframtaks og einkaeignar þar sem barist verður gegn agnúum kapítalismans, án þess að fórna í þeirri baráttu þeim verðmætum sem mestu skipta, eignarétti hins einstaka manns á líkama sínum og sál sinni. Og í heimi þræla- haldsins munu miljónirnar af ófarsælu fólki dreyma um heim frelsisins. Og einn og einn mun hafa hamingjuna með sér og strok hans lánast, en jafnframt mun síminnnkandi hópur af pólitískum kjánum í heimi frelsisins vera að reyna að telja sér trú um, af einhverjum heimsku-þráa, að paradís sé í heimi sálarmorð- anna – en, taktu eftir, enginn þeirra mun gera minnstu tilraun til þess að flýja yfir línuna. Og löngu áður en hér er komið verður þú byrjaður að hugsa aftur um pólitík og einhvern tíma fyrir sextugt leyfi ég mér að gera mér vonir um að svo verði komið að ekki verði aðrir menn betur sammála um pólitík en Halldór Kiljan Laxness og hans gamli einlægi vinur Kristján Albertsson.“18 *** Og viti menn, Kristján stóð nákvæmlega á sex- tugu þegar honum barst bókin sem sætti þá fé- laga heilum sáttum. Maður skynjar hvernig hvert verk frá hendi Halldórs hefur verið Kristjáni eins og ferðalag um fagurt landslag – með jarðsprengjum. Hann hefur sett í axlirnar um leið og hann las og ævinlega átt von á því að hans gamli vinur hlypi út undan sér og færi að ráðast á þau lífsgildi sem Kristjáni voru heilög. Þess vegna er feginleikinn ekki lítill þegar hon- um loksins loksins gefst að lesa heila bók þar sem ekkert truflar: „Brekkukotsannáll er stórkostleg saga. Lax- ness hefur ekkert skrifað af meiri list… Eg kann fáar skáldsögur að nefna, þar sem maður kemst í önnur eins ósköp af hvers konar fínum húmor – skringileik í máli, spaugilegri frásögn, furðulegum mannlýsingum. Eg las söguna í rúminu eftir að eg var háttaður, og nótt eftir nótt kom mér ekki dúr á auga fyrr en undir morgun…“ Kristján trúir vart sínum eigin skilningarvit- um: „… Enginn ruddaskapur, engin klúryrði – engar kommúnistískar rokur, né önnur ósið- semi. Hvað hefur gerst?“ spyr Kristján í for- undran. Og svarar sér sjálfur: „Burtséð frá allri pólitík hefur Laxness alltaf verið ertinn, og stundum býsna illskældinn, en eftir Gerplu er eins og honum þyki, í bili, nóg af svo góðu komið, og hann sé allur af vilja gerður til að taka upp léttara gaman. Enda kom sú saga, þótt skrifuð væri af magnaðri snilld, óþyrmilega við tilfinningar Íslendinga… Og viðstaddur var eg þegar Jón Leifs bar það upp á Laxness, að hafa skrifað þessa sögu til að stríða sér fyrir allar hetjuhljómkviðurnar. (Munaði minnstu að slægi í hart. En Laxness sýndi við það tækifæri mikla diplómatíska lagni, og bauð til veislu í Gljúfrasteini. Settust bæði Leifs og Laxness við hljóðfærið og spiluðu Bach, og skildu sáttir að kalla.“19 *** Það var með ólíkindum hvað Kristján Alberts- son náði að hafa persónuleg kynni af mörgum rithöfundum: Matthíasi Jochumssyni, Þor- steini Erlingssyni, Jóni Trausta, Guðmundi Kamban, Jóhanni Sigurjónssyni og síðast en ekki síst Einari Benediktssyni sem hann átti eftir að endurskapa í nokkrum ógleymanlegum myndum.20 Afstaða hans til Einars hefst með dýrkun, en jafnframt hlýtur hann að horfa upp á hnignun skáldsins og loks niðurlægingu. Aft- ur á móti sér aldrei fyrir endann á glæsisigl- ingu Halldórs, þótt Kristján sé lengst af ósátt- ur við sjálfan kúrsinn. „Mér fannst eins og landið hefði orðið meira af því að Einar Benediktsson var til, alveg eins og eyjan okkar hefði risið hærra úr ægi fyrir það að þessi maður varð til. – Og nú þegar eg hugsa til Halldórs Laxness og hins stórkost- lega æviverks sem eftir hann liggur, þá finnst mér hann vera með svipuðu móti eitt óskiljan- legasta fyrirbæri í okkar lífi…“21 Heimildir: 1 Morgunblaðið 3. apríl, 1969. 2 Sjá grein Elínar Pálmadóttur: Gamlar greinar um Astórskáld… Mbl. 3. apríl 1969. 3 Sama 4 Kristján Albertsson: Andlegt líf á Íslandi, Vaka 1927. 5 Sigfús Daðason, Þjóðviljinn 23. apríl 1977. 6 Vaka, 1928, s. 249–50. 7 Handritadeild Landsbókasafns. 8 Vaka, 1928, s. 251–253. 9 Handritadeild Landsbókasafns. 10 Sbr. bréf Kristjáns frá 9. okt. 1929. Handritadeild Landsbókasafns. 11 Bréf Kristjáns Albertssonar frá 14. janúar 1930. Handritadeild Landsbókasafns. 12 Viðtalið við Elínu Pálmadóttur í Mbl. í apríl 1969. 13 Kristján Albertsson, Menn og málavextir, s. 108. 14 Kristján Albertsson, Í Gróandanum, s. 66. 15 sama, s. 80. 16 Sama, s. 92. 17 Sama s. 92–94. 18 Sama, s. 94–96. 19 Kristján Albertsson, Menn og málavextir, s. 101–102. 20 Sjá Margs er að minnast í samantekt Jakobs F. Ásgeirssonar, s. 65–96. 21 Menn og málavextir, s. 109 „Og þetta var ekki eina bréfið sem Kristján átti eftir að senda skáldi sínu, þótt ekki væri hann alltaf jafn upp- tendraður og nóttina góðu. Oft skal hann hafa gengið samanbitinn um götur er- lendra borga og troðið umslagi niður um lúguna á einhverj- um póstkassanum, þegar Halldór hafði gengið fram af honum.“ Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Kristján Albertsson og Kristján Karlsson samfagna Halldóri Kiljan Laxness og Auði konu hans á 80 ára afmæli nóbelsskáldsins. Höfundur er rithöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.