Lesbók Morgunblaðsins - 20.07.2002, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 20.07.2002, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 20. JÚLÍ 2002 N ORDISKA Akvarellmu- seet var opnað sumarið 2000 í nýrri byggingu á einstaklega fögrum stað við sjóinn í miðbæ Skär- havn á eyjunni Tjörn í skerjagarðinum norðan við Gautaborg, tengt með trégöngubrú yfir á klettaeyju með lista- mannahúsum í góðu skjóli, sem tilheyra stofn- uninni. Seglbátarnir streyma framhjá milli eyjanna í góðviðrinu og af kaffisvölunum sést yfir á baðströndina. Mér leikur samt forvitni á að vita hvers vegna Bera Nordal kaus að flytja sig hingað eftir 15 ára farsælt og rómað starf í söfnum stórbæja. „Af því þetta er svo spenn- andi og ólíkt þeim störfum sem ég hefi hingað til gegnt,“ svarar Bera að bragði. „Það felst ekki bara í því að fá og setja upp hverja sýninguna af annarri, þótt hér sé líka stöðugt sýningarhald, heldur er starfið miklu víðtækara og með svo mikla möguleika á þróun.“ Bera kvaðst hafa verið búin með fimm ára ráðningartíma sinn í Mamö Konsthall og komið var að framlengingu. Það hefði þó legið fyrir í nokkurn tíma að hún myndi hætta þar. Fannst þetta orðið gott. Enda hefði hún hætt við góðan orðstír, margar af sýningunum sem hún setti upp í Malmö fengu mikið lof og safnið vakti meiri athygli eftir að hún tók við því, að því er blöð og heimamenn segja einum rómi. Hún kvaðst hafa fylgst með því þegar þessi nýja safnhugmynd var í vinnslu og raunar komið á staðinn. Þegar fyrsti forstjórinn fór til starfa í Finnlandi og hætti, var hún beðin um að sækja um og það freistaði hennar af því að þetta starf er svo sérstakt. „Eftir að hafa verið í tvo áratugi á stöðum eins og Listasafni Íslands og Malmö Konsthall langaði mig til að gera eitthvað sem er allt öðru vísi. Þetta yfir 100 ára gamla Listasafn í Reykjavík flutti á mínum tíma í nýtt safnhús og Konsthallen í Malmö var yfir 25 ára gamalt. Þetta voru því rótgrónar stofnanir. Hérna er þetta allt að byrja. Það skemmtilega við þetta nýja starf er að maður er ekki að gera eitthvað alþekkt, heldur að byggja upp nýtt. Ég vil gjarnan miðla til þessa safns af þeirri reynslu sem ég hefi fengið af safnarekstri og sýninga- haldi og það víðtæka tengslanet við listafólk sem ég hefi heyjað mér á eftir að nýtast vel í þessu uppbyggingarstarfi.“ Þetta er þá greinilega meira en vatnslita- myndasafn, eins og hrá þýðing á nafninu kynni að gefa til kynna. Það reynist rétt til getið. Safn- ið er ekki aðeins sýningarstaður fyrir norræn vatnslitaverk, heldur er starfsemin miklu breiðari en það sem Bera hefur hingað til verið að fást við. Það er líka staður fyrir listræna til- raunavinnu, rannsóknir og fræðslu og rekur námskeið og málstofur, bæði í þessari tækni og almennt tæknilegum vandamálum myndlistar- innar, einkum innan þessa miðils. Líka um safnatækni, safnafræðslu og fleira slíkt. „Þetta er í rauninni miðstöð þeirrar listar sem byggist að grunni til á vatni, litablæbrigð- um og birtu. Má kannski kalla það vatnstækni, ekki bara vatnslitalist. Nær þá t.d. yfir gouache og fleira slíkt, en ekki þó olíumálverk. Við erum líka að vinna dálítið frá hugmyndalegu sjónar- miði, þannig að maður setur vatn, lit og pappír sem ólíka hluti inn í myndlistina,“ útskýrir Bera. Myndlistin hefur undanfarin ár í rauninni verið að taka allt og endurskilgreina. Sjálfstæð stofnun Bera segir að sér finnist þrennt í þessu fyrst og fremst svo spennandi. Þetta er algerlega sjálfstæð stofnun með sína eigin stjórn, stað- setningin er mjög sérstök við ystu rönd í skerja- garðinum og svo er spennandi að vinna í þennan miðil vegna þess að enginn annar er að gera það. Það eru þessir þrír þættir sem henni finnst svo spennandi, sjálfstæðið, þessi miðill og stað- setningin, sem allt þarf að samþætta. Safnið er semsagt ekki á vegum Norður- landaráðs, þótt það hafi fengið styrk úr nor- ræna menningarsjóðnum og hafi verið að falast eftir meiri fjárveitingu þaðan til að verða ekki bara sænskt safn heldur raunverulega norrænt. Bera segir að sameignin sé norræn og öll inn- kaup gerð af safninu sjálfu með það að mark- miði, en kynningarstarfsemin alþjóðleg. Verið sé að móta starfsemina í þeim anda. Eitt aðal- viðfangsefnið nú sé að byggja þannig upp lista- verkasafnið. „Að þetta er sjálfstætt safn, ekki rekið af sveitarfélaginu eða ríkinu gerir það að öll uppbyggingin hérna er allt öðru vísi heldur en þegar maður starfar beint undir stjórnmála- mönnunum,“ segir hún. Prófessorsstaða við Gautaborgarháskóla Eftir að hafa verið undanfarin ár svo upp- tekin í sýningum og innkaupum kveðst Bera nú vera að fara yfir á rannsóknasviðið, sem henni finnst mjög skemmtilegt. Og að vera með nám- skeið sem hún hefur ekki fyrr haft tækifæri til. „Við vinnum með Gautaborgarháskóla, sér- staklega listaháskólanum sem heyrir undir há- skólann, segir hún. Við erum þar með hálfa pró- fessorsstöðu sem við sjáum um og berum ábyrgð á.“ Í þeirri stöðu er íslenskur listamaður núna, Finnbogi Pétursson. Hann var með sýn- ingu í Listasafninu í Gautaborg í vetur og sýndi á Feneyjabiennalnum. Hann er í allt öðrum miðli, hljóðskúlptúr, og Bera segir einmitt skipta miklu máli hvernig hægt sé að finna flöt á því að opna tengsli til samtímalistarinnar. Auk þess að efla það segir Bera að hugmynd- in sé að byggja kringum sýningahaldið mjög öfluga safnfræðslu, sem nái yfir öll Norðurlönd. Gerir sér vonir um að þar geti stofnunin orðið leiðandi á vissum sviðum. Grunnhugsunin sé að fá fólk til að sjá myndlist. Hún bendir á að engin kennsla sé í skólunum eða fræðsla um hvernig maður skoði myndlist. Maður lærir tungumál, tónlist og bókmenntir. Lærir að kryfja bók- menntir frá ýmsum tímabilum til mergjar, en maður lærir aldrei að skoða myndlist. Myndlist sé flókið fyrirbrigði, ekki bara yfirborðið. Hún segir að stofnunin reyni að ná til allra skóla- stiga. Hafi verið að byrja í forskólanum og fara í grunnskólann allan, auk þess sem þau eru með fræðslu fyrir fullorðna. Í safnhúsinu, sem teiknað var af dönsku arki- tektunum Henrik Corfitsen og Niels Bruun, sem var raunar þarna staddur, eru á tveimur hæðum sýningarsalir, salir til ýmissa nota, veit- ingastofa, sölubúð, skrifstofur o.fl. og mögu- leikar á sveigjanlegum notum á þessu 2.600 ferm. rými. Sýningarrýmið sjálft er á 500 ferm. Gert er ráð fyrir að byggja við húsið og stækka það. Það var vígt í júní árið 2000 og Norræna akvarelmueet var tilnefnt til verðlauna Evrópu- sambandsins fyrir nútímaarkitektúr, Mies van de Rohe-verðlaunanna. Út um gluggana blasa við handan sjávar- sunds fimm vinnustofur á klettaeyju. Húsin eru hluti af safninu og göngubrú þangað. Vinnustof- unar eru ætlaðar listafólki almennt, ýmist til dvallar í 1–3 mánuði eða fyrir eigið listafólk safnsins, sem er að setja þar upp sýningar, koma þangað til starfa eða er tengt námskeið- unum. Húsin eru fyrir myndlistarfólk, sem ekki þarf endilega að vera að vinna með sérmiðla safnsins, enda er þar líka verið að fjalla um myndlist almennt. Sjálf býr Bera í einu húsinu í sumar, þangað til hún er búin að koma sér fyrir til frambúðar. Dóttir hennar var í heimsókn hjá henni. Hún er mjög ánægð þarna. „Maður verð- ur að hafa hafið. Ég saknaði þess, það er ekkert haf í Malmö. Ég er svo vön að sjá sjóinn og var búin að gleyma því hve mikilvægt það er. Nú er hann alls staðar nálægur og allt um kring.“ Þegar við röltum göngubrúna yfir á eyjuna má sjá fólk vera að ganga upp á hæðina og dreift í klettunum er fólk að teikna myndir. Það er sýnilega á einhvers konar námskeiði, því áð- ur en við förum þaðan situr það í hring við húsin undir leiðsögn og ræðir afraksturinn. Ég spyr Beru hvort hún sé þá sest að í Sví- þjóð. „Ég er ekkert að koma heim strax, svarar hún. En ég ætla auðvitað að koma heim. Íslend- ingar verða að koma heim.“ Nú er hún komin í þetta óskaplega spennandi verkefni og bundin næstu fjögur árin. Hún kveðst ekki ætla að taka sér neitt í frí í sumar, vill sjá hvernig sumarið er þarna og fá tilfinningu fyrir staðnum. Sýning- arnar sem nú eru þarna og verða fram að ára- mótum eru undirbúnar af fyrirrennara hennar, en um áramótin verður hún tekin við með sínar sýningar á næsta ári og er að undirbúa fram- haldið. Fram til 1. september eru í sölunum á fyrstu hæðinni sýning norska listamannsins Olavs Chrisofers Jensens og í hinum salnum norrænar nútíma vatnslitamyndir úr eign safni stofnunarinnar. „Nú er bara að skipuleggja framhaldið sem mér þykir óskaplega gaman að gera. Byggja upp, hitta og tala við fólk, fá hugmyndir og leita uppi hugmyndasmiði,“ segir Bera. „Málið er hvernig maður skipuleggur sýningarstarfsem- ina. Hér er svo fallegt á sumrin að fólk streymir að af sjálfdáðum, en á öðrum árstímum, einkum á vorin og haustin, þarf að hafa sterkari sýn- ingar sem draga að.“ Því er hún nú að átta sig á og skipuleggja, segir að alltaf þurfi að horfa tvö ár fram í tímann og hafa svo langan tíma í vinnslu í einu. NÝTT OG SPENN- ANDI VERKEFNI Bera Nordal, sem í 10 ár veitti Listasafni Íslands for- stöðu og síðustu 5 árin listasafninu Malmö Konsthall við frábæran orðstír, hefur nú tekið að sér nýtt og mjög spennandi verkefni í Svíþjóð, að stýra og þróa nýstár- legt norrænt myndlistarsafn, sem nefnist Nordiska Akvarellmuseet á eyjunni Tjörn norðan við Gautaborg. ELÍN PÁLMADÓTTIR sótti hana heim og fékk að heyra um þetta frábrugðna viðfangsefni hennar. Ljósmynd/Christer Hallgren. Listasafnið er í miðbæ Skärhamn, sem er einstaklega fallegur bær vetur sem sumar. Morgunblaðið/Elín Pálmadóttir Bera Nordal við safnið sem hún veitir nú forstöðu, Nordiska Akvarellmuseet. Nordiska Akvarellsafnið á Tjörn norðan við Gautaborg í Svíþjóð stendur við sjóinn. Sjá má fimm vinnustofur safnsins fyrir listafólk á klettaeynni og er göngubrú á milli.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.